Barbie frá helvíti

Svona af því að það eru milljón ár síðan ég bloggaði seinast og vegna þess að ég ætti að vera löngu byrjuð að læra þá ákvað ég að henda í eina snögga færslu hérna.

“Stelpudót” einsog Barbie, Bratz og fleiri dúkkur í þeim dúr hefur lengi verið gagnrýnt fyrir það að gefa börnum (stelpum aðalega) mjög brenglaða líkamsímynd. Þær eru jú alltof grannar, með alltof langa leggi og sumar hverjar eru einnig með alltof stóran haus. Þetta ku eiga að valda því að börn fari að trúa því að stelpur eigi að vera með alltof langa leggi og óendanlega  mjóar – og sennilega með alltof stóran haus.

Þar sem ég á strák sem leikur sér að slíku dóti þá er ég vel inní allri dótaflórunni – fólk þrjóskast til að troða upp á hann strákadóti sem hann hefur ekki áhuga á og svo, með heppni og umburðarlindi einstakra einstaklinga (þið vitið hver þið eruð), hefur hann einnig öðlast smá úrval af svona dúkkudruslum – sem hann elskar svo mikið. Og ég hef horft aðeins á strákadúkkurnar (ef barbie er dúkka þá er Spiderman dúkka, og Viddi og Bósi ljósár og og og og… Strákar leika sér með dúkkur!) og þær, sýnist mér, eru ekkert raunverulegri en stelpudúkkurnar.

Hérna er mynd af He-Man, sem var mikil hetja þegar ég var ung

Hérna er mynd af annari hetju, Batman

Og að lokum sá allra vinsælasti í dag - Spiderman

Sé gert ráð fyrir að börn séu jafn heimsk og áhrifagjörn varðandi strákadúkkur einsog þau eiga að vera þegar kemur að stelpudúkkum þá má vel sjá að þau hljóta að alast upp með þá ímynd í hausnum að strákar eigi að vera með alltof langar lappir (well ekki þeir sem eru á mínum aldri – þeir eiga að vera stubbar), með rosalega grannt og fyrirferðarlítið mitti, með lítið sem ekkert á milli fótanna og afskaplega herðabreiðir.

Ég held að það sé kominn tími á að í staðinn fyrir að berjast gegn því hvernig þetta drasl lítur út þá ætti fólk frekar að berjast gegn því hvaða ímynd fylgir því að leika með hvaða dót. Stelpa sem leikur sér með Spiderman er töff meðan strákur sem leikur sér með Barbie er ekki bara hallærislegur heldur líka nánast gerður að úrhraki úr sínu kyni – hann breitist í stelpustrák alveg sama hvaða önnur áhugamál og einkenni hann hefur.

Veikindi (nöldur og væl)

Október er búinn að vera mánuður veikinda hjá okkur mæðginum. Hrafnkell hefur tvisvar fengið skarlatssótt (sennilega var reyndar september þegar hann fékk hana fyrst) og í seinna skiptið leið svo langur tími áður en hann fór til læknis (ætla ekki að fara út í smáatriði – bara að segja að það var ekki mér að kenna) að hann þurfti að fara á extra sterkan og langan pensillín kúr – með tilheyrandi töflugleypingum. Það var ákveðinn þröskuldur sem við þurftum að komast yfir, en það hófst á fyrsta degi (reyndar seinasta skammti fyrsta dags en well…) og hefur gengið vel síðan þá. Listin að gleypa töflu kostar enn góðan undirbúning af beggja hálfu og það skiptir máli að gera allt “rétt”. En pillan hefur alltaf farið niður og við erum alltaf jafn glöð yfir því.

Hvað varðar mín veikindi… Það byrjaði allt fyrir rúmum 2 vikum með því að ég var þreytt, með strengi, en á leið á djammið. Þrátt fyrir þreytu, slen og almenna vanlíðan þá reif ég mig upp og dreif barnið í pössun og mig í partý. Það var greinilega ekki hið rétta múv þar sem að ég var komin heim kl 21, ælandi einsog múkki. Eyddi svo þeirri nótt mestu með hausinn ofan í klósetti eða fötu. Ég skildi lítið í því hversu illa áfengið hefði farið í mig fyrr en kvöldið eftir þegar ég fattaði að mér var illt í hálsinum, með beinverki og hita. Ég greindi sjálfa mig með streptókokka, hef fengið svoleiðis áður og þekkti einkennin, en það var mömmuhelgi, haustfrí og ég búin að lofa barninu að fara í Halloween-Tivoli. Svo að mánudagurinn fór í verkjatöflur, te og tivoli.

Hrafnkell fór svo til pabba síns á þriðjudeginum og ég gerði lítið annað þann daginn (þaes annað en að skila honum af mér og eiga bátt). Á miðvikudeginum leið mér aðeins betur, fór í ræktina (stúpid mí) og dó þar næstum því, og ákvað að ég væri örugglega að vinna á streptóinu sjálf. Fimmtudagur fór í hópavinnu, fór svo nánast beint á barinn að hitta Önnu og Guðný um kvöldið – hafði þó vit á því að drekka ekki mikið þó að mér liði ekkert svo skelfilega.

Föstudagsmorguninn leið mér herfilega, hefndist fyrir þriðjudaginn og sérstaklega fimmtudaginn – EN fór samt í mat til vinafólks míns sem býr í Frederikssund (langt í burtu) enda löngu búin að lofa mér í það. Helgin fór í að vera veik og svo kom Hrafnkell á sunnudagskvöldið. Hann var svo veikur mánudaginn, ég fór með honum til læknis og læknirinn staðfesti að ég væri búin að vinna á streptóinu sjálf og ekki væri þörf á sýklalyfjum fyrir mig. Þriðjudaginn var ég heima með Hrafnkel en í raun var hann bara að verða hress (pínu orkulaus eftir að vera veikur í svoldið langan tíma en samt bara einsog börn eru – óþolandi hress) en ég fékk flensuógeð, sem fylgdi stíflað nef, smá hiti, beinverkir osfr.

Fór í skólann á fimmtudegi, var samt mjög efins um þá ákvörðun mína, sé svosem ekki eftir því þar sem þetta var mjög “merkilegur” dagur í skólanum. En var algerlega búin á því eftir daginn. Föstudagsmorguninn leið mér herfilega svo að ég ákvað að vera heima, svaf allan daginn en leið ekkert mikið betur svosem eftir á. Dröslaði mér samt með barninu í halloween dýragarðinn um kvöldið – til að gera eitthvað með honum.

Svo fór loksins að birta til, laugardagurinn og sunnudagurinn voru eiginlega bara “yndislegir”. Þokan, sem hafði yfirtekið hausinn á mér, fór að létta og þrátt fyrir töluvert kvef þá var þetta ekki svo slæmt ennþá. Þar til í gærkveldi.

Um kvöldmatarleytið þá var ég bara algerlega lystarlaus. Af einhverri undarlegri ástæðu hafði ég bara engan áhuga á því að borða eitthvað. Ég gaf þó Hrafnkeli að borða og kom honum svo í rúmið. Smá seinna fékk ég heiftarlegan magaverk og hef átt ansi “góðar” setur á klósettinu síðan. Allt sem ég set upp í mig fer beint í gegn, með tilheyrandi verkjum og skruðningum. Svo að enn og aftur er ég heima…

En núna er ég búin að fá bakteríuvesen, veiruvesen, hita, hósta, nefrennsli, hálsbólgu, beinverki, slen (heilaþoku hehe), ælu og svo núna niðurgang á rúmum 2 vikum… Er þetta ekki bara komið gott?

Að fara í ræktina

Eftir töluvert miklar pælingar ákvað ég á mánudaginn að skella mér í að kaupa mér kort í ræktina. Það var hvort eð er tilboð á áskrift í fitness world – þar sem Anna vinkona mín er reglulegur gestur, fram að áramótum svo að þetta var ekki jafn dýr ákvörðun og hún hefði getað verið, einnig hafði ég nýlega náð að lækka linsukaupakosnað minn um ansi mikinn pening – sérstaklega fram að áramótum (sparnaðurinn á næsta ári mun vera ca. 56þús íkr) svo að ég ákvað að prufa.

Þar sem að ég er afskaplega lítil íþróttamanneskja, hef ekki áhuga á íþróttum annarra og fæ almennt séð afskaplega litla gleði af því að fara sjálf og dunda mér við þetta eitthvað, þá veit ég að það hentar mér best að fara í hópatíma. Að fara í tíma þar sem ég stend, í hóp af fólki, fyrir framan einhvern líkamsræktarnörd og geri bara nákvæmlega það sem mér er sagt hentar mér ágætlega. Ef ég ætla að standa í þessu ein þá verður klst fljótlega að 45 mín sem breytast svo í hálftíma osfr. þar til að ég fer ekki aftur í ræktina.

Mitt helsta vandamál núna er tími, ég hef tíma frá 8-16 á daginn til að gera það sem þarf að gera utan heimilis. Sumt get ég reyndar dregið Hrafnkel með mér, einsog að kaupa mat og eitthvað, en það færir hvorugu okkar mikla gleði þannig að ég reyni að haga mínu lífi þannig að skóli og annað gerist milli 8-16, milli 16-20 er ég að mammast, eftir kl 20 læri ég heima, slappa af og geri annað þess háttar. En með skipulagningu og rannsóknarvinnu virðist ætla að ganga upp að fara í ræktina milli þess sem ég fer í skólann, versla inn og græja og geri annað sem þarf – ég er nefnilega svo heppin að búa frekar miðsvæðis í KBH og komast því auðveldlega í þónokkuð margar stöðvar, einnig mun ég þurfa að ‘sætta’ mig við að fara í mjög fjölbreytta tíma því að það er ekki hvað sem er í boði hvenær sem er, núna er ég búin að fara í hatha yoga (fínt), latinmix (mjög gaman), thai bo (ekkert sérstakt, útvötnuð dansútgáfa af kickboxi – sem ég fílaði mun betur í gamla daga) og svo dansmix (best í heimi, vibbaerfitt og ótrúlega skemmtilegt).

En af hverju er ég að standa í þessu öllu? Jú mig langar til að létta mig, td. vegna pcos einkenna, einnig langar mig til að vera bara almennt séð heilbrigðari en þegar öllu er á botninn hvolft langar mig mest til að líta betur út. Og það angrar mig að vita þetta, það angrar mig að það skiptir mig meira máli að ná að líta betur út líkamlega heldur en tilhugsunin um að verða kannski heilbrigðari. Og af hverju langar mig að líta betur út? Því að þá er skemmtilegra að kaupa föt, þá er skemmtilegra að fara á djammið, því að þá á ég meiri líkur á því að fá góða vinnu (sorglegt en satt) og fá betri þjónustu í búðum.

Einnig hef ég aðeins verið að spá í því hvernig fólk (konur) tala við hvora aðra. Við erum ansi jákvæðar þegar vinkonur okkar ákveða að byrja í einhverri hreyfingu eða breyta mataræðinu til hins betra, við hvetjum hvor aðra áfram og erum duglegar að hrósa. En svo þegar kemur að því að einhver segir “ohhh, þetta er búinn að vera svo ömurlegur dagur – mig langar bara mest til að leggjast upp í sófa með stóra skál af nammi og slappa af, frekar en að fara í ræktina (einsog ég var búin að plana)” þá keppumst við um það hver er fljótust að segja “endilega, þú átt það skilið”. Við erum rosalega fljótar að ýta á hvor aðra að sleppa ræktinni og vera ‘góðar’ við sjálfar okkur, eins erum við fljótar að hvetja hvor aðra til að borða eitthvað fitandi/óholt – einmitt til að vera ‘góð’ við sjálfan sig.

Í morgun vaknaði ég nýbyrjuð á túr, með netta túrverki en rosalega verki í eggjastokkunum (pcos blöðrur) báðum. Ég fann fyrir hverjum andardrætti, hakkaði í mig verkjalyf og reyndi að gera allt til að hundsa þetta (þar á meðal ekki hreyfa mig því að hver miðsvæðis hreyfing gerir verkina verri). Hugsaði með sjálfri mér að ég gæti ekki farið í ræktina líðandi svona, en svo þegar ég ætlaði að ‘afmelda’ mig þá var það of seint, ef ég hefði ekki mætt þá hefði ég þurft að borga 30dkk sekt! Ég dreif mig á fætur og af stað í dansfit. Þetta er erfiðasti tími sem ég hef farið í, en jafnframt sá skemmtilegasti. Gaurinn sem var að kenna þetta virkaði á mig einsog hann ætti frekar að taka þátt í SYTYCD sem hip-hoppari, var enganvegin íþróttanördalegur. Við dönsuðum og dönsuðum og dönsuðum og ég hef aldrei svitnað svona mikið áður. Ég var að fatta alltíeinu núna (5 1/2 tíma seinna) að ég var með verki í eggjastokkunum því að þeir eru að koma aftur núna.

Kókos, karrý, brokkolí fiskur í ofni

 • 2 lítil flök hvítur fiskur
 • 1 dós kókosmjólk
 • 1 teningur fiskikraftur
 • smá reykt paprikka
 • 1 tsk karry
 • 2 stórar gulrætur (eða meira)
 • slatti af brokkolí
 • hnefafylli af rækjum
 • 200gr niðurrifinn ostur
Brokkolíið rifið niður (gróflega), gulræturnar skornar niður í bita og sett í eldfast mót. Ofan á það eru fiskiflökin sett (mín voru frosin).
Kókosmjólkin, krafturinn og kryddin, sett í pott og látið sjóða aðeins. Þessu er svo hellt yfir fiskinn í mótinu. Settur álpappír og allt inn í ofn (175° og blástur) í ca. 30 mín.
Tekið út og rækjunum dreift yfir og osturinn þar ofan á. Sett aftur inn í ofn í 10 mín – eða þar til að osturinn er fallega bakaður.
Ammi namm!

 

Skólabyrjun og afmæli á næsta leyti

Jæja þá er einkasonurinn, höfðinginn á heimilinu, byrjaður í grunnskóla. Fyrsti dagurinn var í gær, en það var samt bara svona aðlögunardagur. Í dag hófst þetta svo fyrir alvöru svo að maður fylgdi barninu í skólann, hjálpaði honum að finna plássið sitt og svo bara kyssti maður bless. Ég get ekki annað sagt en að mér fannst þetta pínu erfitt í morgun, fékk kannski ekki kusk í augun en átti samt eitthvað pínu erfitt með að kyngja almennilega… If you know what I mean ;-)

Hann var heilt yfir glaður yfir skóladeginum en kvartaði þó yfir að einhverjir stórir strákar (sennilega þá fyrstubekkjar strákar – btw. hann er í núlltabekk) hefðu gagnrýnt nýja strumpabolinn og nýja strumpadrykkedunken hans fyrir að vera barnalegt. Ég spurði hann hvort að hann vildi þá fá annan drykkedunk í staðinn og hann sagði bara nei honum þættu strumparnir flottir hvað sem þessir strákar segðu.

Honum fannst líka frekar asnalegt að allir remdust við að reyna að kalla hann Hrafnkell, hann sem heitir Myrkvi (borið fram: Mikvi) á dönsku. Einnig var hann harður á að merkja bækurnar sínar allar með Myrkvi en ekki Hrafnkell – sem er fine by me :-)

Við skoðuðum skólabækurnar hans saman í gær, áður en hann fór að sofa, og það kom mér ekki á óvart að hann hafði lítinn áhuga á tölubókinni, aðeins meiri á lestrarbókinni, ennþá meiri á stærðfræðibókinni (sem þau fara í þegar þau eru búin með tölubókina) en mestan áhuga hafði hann á möppunni með aukaverkefnunum sem verður aðalega fyrir þá sem ná að klára hitt. Sú mappa var nefnilega full af þrautum einsog völunarhúsum og að finna hver á hvaða línu, einnig svona æfingar þar sem maður á að finna 5 villur og finna hvaða hlutur passar ekki í röðinni (td. röð með ál, ýsu, trúðafisk og slöngu) og svoleiðis. Hann hefur gaman af svoleiðis og er bara ansi góður í þessu. Held að hann hafi leyst í huganum flestar æfingarnar í möppunni meðan vil flettum í gegnum hana.

En já næsta mál á dagskrá er yfirvofandi 6 ára afmæli. Afmælissalurinn hérna á Solbakken hefur verið panntaður þann 3. september svo að næsta skref er að ákveða hverjum skal boðið og byrja svo bara að baka. Einsog er þá á þemað að vera neðansjáar/fiska þema með marglyttum, hákörlum og kolkröbbum :-) Það verður vonandi bara gaman, ég hef aldrei áður haldið svona almennilegt barnaafmæli en núna verður ekki undan því komist. Það á að vera stór afmæliskaka, sem við eigum að hjálpast að við að skreyta, svo eiga að vera skinkuhorn, pölsehorn, pönnukökur og helst kleinur skillst mér.

Á óskalistanum eru (auðvitað) Barbie og Bratz og svoleiðis gellur og alls kyns lego – þó helst Harry Potter lego eða lego sem er með mörgum köllum (hann hefur miklu meiri áhuga á köllunum heldur en kubbunum sjálfum, hann er meira fyrir hlutverkaleiki en að byggja eitthvað). Playmo er líka velkomið og mig langar bara til að benda á að barnið er að komast í stærð 122 (haha þó að ég hafi keypt á hann buxur í H&M í þessari stærð og ég sver að það hefðu 2 Hrafnkelar komist í þær, uppá víddina að gera) þó að honum finnist eflaust þessar upplýsingar óþarfar í þessu samhengi.

Annars er allt gott og það er ljúft að vera komin heim, þrátt fyrir rigninguna.

Sveppa-kókossósa….

Ég veit að ég var búin að segjast kannski tala um eitthvað annað en mat, en ég prufaði þessa sósu með fimmtudagskjúklingnum (hehe bara heill kjúlli í ofni – voða simple) og hún var AWESOME.

Semsagt einn heill laukur skorinn niður í bita, ógeðslega mikið af niðurskornum sveppum – ég er að meina að þetta var alveg hálfur pottur saman – og smjörklípa sett saman í pott, látið malla þar til að sveppirnir og laukurinn er orðið mjúkt og djúsí. Þá er einni dós af kókosmjólk helt yfir og allt látið malla aðeins.

Ekki hræðast vibbalega gráa litinn, hann skánar og bragðið gerir þetta allt þess virði. En já svo er þetta smakkað til með salt og pipar og svo bara borið fram.

Ég gæti vel hugsað mér að prufa að bæta við kannski annarri dós af kókosmjólk, og skella svo nokkrum bitum af niður rifnum kjúlla út í og kalla þetta súpu.

heimagert möndlusmjör

ég elska hnetusmjör, helst þetta óholla sem er stútfullt af sykri. En svo átti ég áðan að vera að læra svo að ég fór að lesa með til um mat og mataræði og velta hinu og þessu fyrir mér og þar las ég að möndlusmjör væri svo rosalega hollt. Svo að ég ákvað að gúggla mér til og sjá hvort að ég fyndi einhverja uppskrift af heimagerðu möndlusmjöri og ég fann þessa síðu hérna.

Ég á nú alltaf möndlur til, þetta er bara svona hlutur sem er til í skápunum hjá mér, og hunang (sem ég nota mikið í tein mín eða í staðinn fyrir sykur í uppskriftum sem bjóða upp á það) svo að ég skellti mér bara í möndlusmjörsgerð.

Og semsagt það sem fór í þetta hjá mér var:

 • rúmlega bolli af möndlum (byrgðirnar)
 • hálf msk hunang (varð frekar sætt)
 • smá af salti

Og aðferðin var semsagt að skella möndlunum í mixarann ógeðslega lengi, ég þurfti að skrapa þær niður ansi oft en með tíð og tíma hitnaði þetta allt saman og svo varð þetta að svona hálffljótandi mauki (skoðiði linkinn sem ég setti, þar eru góðar útskýringar og myndir af ferlinu) og þá var það tilbúið til að blanda saman við hunangið og saltið. Og shit hvað þetta er guðdómlegt! Veit samt ekki alveg hvað ég ætla að gera við þetta en gott er það!

★★★★★ Fiskréttur

Í gær gerði ég góða fiskrétt í ofni, rétt sem að gikkurinn sonur minn fílaði í botn :-)

Ég setti hrísgrjón (parboiled því að þau eru aðeins hollari, fyrir mig eru hrísgrjón eiginlega algert eitur því að þau hafa svo slæm áhrif á blóðsykurinn) í pott með vatni – sauð þau þar til að þau voru farin að brúnast á botninum (óvart, ég er mesti klaufi í heimi þegar kemur að því að sjóða hrísgrjón).

Ég græjaði sósu í potti, ein dós af kókosmjólk (svona í hálfdósarstærð, sem er stærri gerðin af kókosmjólkurdósum – amk af þeim sem ég hef fundið) sem ég kryddaði til. Ég notaði dash af laukdufti, hvítlauksdufti og salti, böns af svörtum pipar og svo MIKIÐ af venjulegu karrýi (því ég elska karrý og kókosmjólk saman). Þetta sauð ég aðeins og bragðaði til, hafði það frekar sterkt en svo varð þetta ekki svo sterkt (en mjög gott samt) því að ég bætti mjólk út í.

Svo græjaði ég 3 eldföst mót, en ég á alveg snilldar mót úr Ikea sem passa fullkomlega í eina máltíð fyrir okkur tvö, setti hrísgrjón í botninn á þeim, svo hálffrosinn hvítan fisk (sem heitir pangasius í dönskum búðum – ekkert sérstakur fiskur og eiginlega alger þörf að hafa eitthvað bragðsterkt með – eða amk að rétturinn snúist ekki um gott fiskbragð), svo frosnar rækjur, svo sósa – þar sem að hún var ekki alveg nóg í öll 3 formin þá bætti ég aðeins af mjólk út í (en kannski hefði ég ekki þurft að gera það, rétturinn var alveg mjög blautur og hefði mátt verða þurrari) og svo rifinn ostur ofan á allt.

Eitt formið fór svo inn í ofn, á ca. 200°c blástur, nógu lengi til að osturinn var vel brúnaður (veit ekki 25-35 mín) og fiskurinn eldaður, hin formin stóðu á bekknum í smá stund – meðan þau kólnuðu smá – og fóru svo í poka og í frystinn. Svo að núna á ég 2 skammta af geggjuðum fiskrétti tilbúna í frystinum :-D

Afturför í íslensku barnaefni?

Ég var að ræða við son minn í bílferð nokkurri núna um jólin og hann tilkynnti mér að þó að hann elskaði Ísland mest (og Danmörk minna) þá væri danska sjónvarpsefnið miklu betra en það íslenska. Ég vildi að vitaskuld fá útskýringu á þessum yfirlýsingum hans og hann útskýrði þetta með því að segja að íslenskt barnaefni væri svo mikið á ensku en danskt væri allt á dönsku. Mín fyrsta hugsun var sú að ástæðan fyrir þessu væri sú að hann horfir svo mikið á cartoon network þegar hann er á Íslandi en í Danmörku horfir hann mest á DR1 eða DR Ramasjang (sem er ríkisbarnasjónvarpið, markhópurinn 4-12 ára, en aðalmarkhópurinn er 8-12 ára) þar er nánast allt barnaefnið talsett, líka það sem er ætlað eldri krökkum. Í danska ríkissjónvarpinu er líka mikið af “stundinni okkar” þáttum, og reyndar finnst mér dönsku þættirnir mun skárri en stundin okkar þar sem að þeir snúast meira um fullorðna einstaklinga sem haga sér einsog bjánar heldur en fullorðna einstaklinga sem að leika börn eða dýr og haga sér einsog bjánar.

En svo fór ég að hugsa meiri hlutinn af barnaefninu sem ég hef séð hérna á RÚV og Stöð 2 hefur verið ótalsett og barnaefnið sem er talsett er ætlað smábörnum. Ekki bara krökkum heldur smábörnum. Þá rifjaðist upp fyrir mér þegar talsetningarbyltingin var þegar ég var “lítil”. Ég nefnilega ólst upp við He-Man sem gargaði alltaf “Ískápur!” (I’ve got the power er mér sagt hann hafi verið að meina) og annar ótalsett barnaefni. Þegar ég var svo orðin stærri (en ekki of stór til að horfa á þetta), og Ragna var pons, var bylting og ég man vel eftir því að það var mikið mál gert úr því að núna væri Ísland að þróast til betri vegar og allt barnaefni var talsett. Þetta fannst mér náttúrulega ömurlegt, allar raddir voru vitlausar og allir töluðu með sömu röddinni. Það var sami maðurinn sem talaði fyrir alla vondu kallana osfr. Og hvaða máli skipti það þó að barnaefnið væri á ensku, ég var hvort eð er farin að lesa textana ágætlega bara!

Ragna hinsvegar ólst upp við íslensku raddirnar og hún talar um Folann minn litla þegar ég segi My Little Pony, hún segir Lafði Lokkaprúð meðan ég segi Lady Lovely Locks, kærleiksbirnirnir vs. Care bears osfr osfr.

Ég velti því fyrir mér hvað gerðist, því að þó að ég hafi verið eigingjörn og búin að læra að lesa þegar talsetningarbyltingin varð og ekki kunnað að meta þetta á þeim tíma þá finnst mér það vera veruleg afturför ef að það er nánast krafa að 5 ára börn annað hvort kunni ensku (btw. Þá er minn gaur ansi góður í ensku miðað við að hafa aldrei verið í ensku umhverfi og hann skilur of mikið til að maður geti td. Talað ensku til að hann skilji ekki – já eða hann misskilur of mikið hehe) eða séu nógu læs til að lesa textann. Mér finnst það líka mikil afturför ef það er ætlast til þess að 5 ára börn hafi bara áhuga á því að horfa á Dóru landkönnuð eða strumpana.

En ég get svosem huggað mig við það að á þeim 2 árum sem að munu amk líða áður en ég og sonur minn munum flytja til Íslands mun hann bæði vera búinn að læra meira í ensku og að lesa…

ári seinna

Fyrir ári síðan vorum við Þórður ný hætt saman. Hann var ekki ennþá fluttur út og allt var í hassi. Nóvember og desember 2009 voru ömurlegir mánuðir – endalaus tilfinningarússibani, grátköst og alger skortur á matarlyst.

Það var einhvernvegin allt að sem gat verið að, ég fékk að vita að ég væri sennilega með PCOS – amk væri eitthvað að hormónabúskapnum hjá mér og svo vorum við á fullu að gera ömurlega leiðinlegt verkefni í skólanum, svo voru jólin að koma og ég var föst í Danmörku og það var, já, bara nokkurnvegin allt að.

Mér leið rosalega illa, var með lítið sjálfstraust, svaf illa, borðaði illa, var stressuð og svona mætti lengi halda áfram að telja.

En árið er liðið og margt hefur breyst. Ég fékk lyf sem að hjálpuðu mér mikið með pcos-ið, ég ekki bara náði prófunum heldur fékk líka ágætar einkunnir, ég er búin að fara 2x til Íslands og er á leiðinni þangað yfir jólin, ég hef fundið hvað ég á frábæra vini – bæði á Íslandi og hérna í Danmörku, fjölskyldan mín hefur staðið við bakið á mér algerlega. Ég hef meira að segja áttað mig á því hvað nágrannarnir eru heilt yfir mun æðislegri en mig grunaði. Mér líður betur, andlega og líkamlega, á allan hátt heldur en mér hefur liðið lengi – alltof lengi. Ég er miklu sáttari við mig sjálfa heldur en ég hef nokkurntíman verið (amk síðan ég varð unglingur).

Já það er liðið ár og lífið er bara nokkuð gott :-)

Svo er spurning hvernið næsta ár verður, núna á næstu dögum ætti ég að fá svar um það hvort að ég kemst inn í kandidat námið sem ég sótti um og hvernig það svar verður mun hafa gríðarleg áhrif á það hvernig 2011 verður.