Posts tagged: Valdís

Orðin 27 og alveg að koma nýtt ár

26 ára afmælisdagurinn minn var ekki skemmtilegur. Mest allur dagurinn fór í sjálfsvorkun yfir því að vera föst í einhverjum útnára án vina og fjölskyldu svo hjálpaði ekki til að kvöldmaturinn voru pylsur og eitthvað álíka rusl. Ég var sár og leið því að þó að 26 ára sé ekki merkilegt afmæli þá ætti afmælisdagurinn manns alltaf að vera sérstakur að einhverju leiti. 26 ára afmælisdagurinn minn var bara sérstaklega leiðinlegur.

27 ára afmælisdagurinn minn var rólegur en góður. Hrafnkell kom upp í til okkar Rögnu og horfði á teiknimyndir, heimtaði svo að ég bakaði köku þegar hann fattaði að það væri afmælið mitt. Ég sofnaði aftur og dreymdi langan og ruglingslegan draum þar sem að aðalatriðið var að Ragnar afi sagði að Hrafnkell yrði yfir 100 ára gamall. Svo fór mestur dagurinn í leti, ég fór í sturtu og dúllaði mér við að gera mig pínu fína meðan mamma og pabbi elduðu dýrindis lambahrygg, meðlæti og svo súkkulaðimús fyrir eftirmatinn. Ég fékk 2 pakka, annarsvegar dagbók frá Hrafnhildi og hinsvegar peysu frá mömmu og pabba. Ég eyddi smá hluta af deginum í að hugsa hvað það væri gaman ef maður hefði einhverja vini hjá sér til að djamma mér en ákvað svo að ég myndi bara djamma með þeim seinna.

Árið 2009 hefur verið skrítið. Það byrjaði með því að ég fór í 2 próf og fékk góðar einkunnir, svo tók við 4. og seinasta önnin í KTS. Sú önn var eiginlega ekkert nema vesen og leiðindi, samstarfið í hópnum mínum gékk ekki mjög vel (ég og önnur stelpa áttum ekki vel saman) og einnig var fyrirtækið sem við unnum með alveg hrikalega erfitt í samstarfi.

Við fórum til Íslands um páskana, sú ferð átti sína kosti og galla. Valdís og Tryggvi eignuðust “lítinn” strák, ég átti góðar stundir með vinum og fjölskyldu – en það voru líka neikvæð atriði (sem ég ætla ekkert að velta mér uppúr hérna).

Um sumarið útskrifaðist ég og það hefði sko getað verið frábær tími í mínu lífi ef að Doddi hefði ekki verið farinn til Noregs til að vinna svo að ég var ein og yfirgefin með Hrafnkel og hafði ekki tækifæri til að taka þátt í félagslífinu að neinni alvöru. Til þess að geta tekið þátt í sjálfri útskriftinni þurfti ég að standa í hellingsveseni við að koma Hrafnkeli í pössun – en það hafðist allt. Ég útskrifaðist og stuttu seinna fórum við Hrafnkell til Íslands. Á Íslandi áttum við góðan tíma í góðu veðri og með góðu fólki, við gerðum margt en þó var margt fleira sem við hefðum viljað gera.

Í haust var svo mikil óvissa þar sem að ég komst ekki strax inn í skólann minn, ég fékk ekki endanlegt svar um inngöngu fyrr en daginn sem skólinn byrjaði. Það var mikill léttir að komast inn í skólann, þar sem að það er meira en að segja það að fá vinnu einhverstaðar í danmörku þessa dagana. Gallinn við skólann er þó hvað hann er langt í burtu.

Skólinn gékk bara nokkuð vel framan af þrátt fyrir að námsefnið væri þurrt og já eiginlega frekar leiðinlegt. En síðan hefur bæði lífið og skólinn verið mjög erfitt síðan í miðjum nóvember. Þórður ákvað að fara frá mér og ég komst að því að ég er (mjög líklega) með pcos. Tíminn hefur farið í að halda haus, komast fram úr rúminu á morgnanna og rembast við að einbeita sér að skólanum til þess að eiga möguleika á að fá að taka próf í janúar. Ég er ennþá sár, reið og varla búin að átta mig á þessu. Það var þó ekki fyrr en mamma, pabba og Ragna voru komin til okkar og ég var búin að skila inn verkefninu sem að raunveruleikinn helltist yfir mig aftur. Jólin voru góð, einsgóð og þau gátu verið miðað við kringumstæður – en þau voru samt pínu erfið.

Þannig að í minningunni þá var árið 2009 bæði gott og vont, vondu punktarnir skyggja þó á góðu punktana. Mér finnst pínu einsog allt sem gat farið til fjandans hafi farið til fjandans.

Það tímabil sem tekur við núna verður örugglega erfitt en gefandi. Ég er sannfærð um að ég mun enda með meira en ég byrja með, ég er sannfærð um að ég mun vera hamingjusamari að ári en ég er núna. Ég er sannfærð um að árið 2010 verður mér betra en 2009. En fyrst þarf ég að komast í gegnum prófin og einnig að fá Þórð til að gera upp öll okkar mál, því fyrr sem við gerum þau upp því fyrr getum við haldið áfram með lífið. Þó að mér þyki vænt um hann, þó að ég óski honum alls hins besta í lífinu og þó að ég hafi einhverjar vonir um að við getum verið vinir í framtíðinni þá held ég að það væri best fyrir alla að koma öllum málum á hreint.

Í mínum huga er árið 2010 ár uppbyggingar og sjálfsþekkingar. Núna er tíminn til að kynnast sjálfum sér aftur og verða sterkari einstaklingur fyrir vikið.

Hugmyndaleysi – eiginlega algert neyðarástand

Það ríkir hálfgert neyðarástand á heimilinu. Ég er eiginlega algerlega komin með fullkominn eldunarleiða. Ég nenni ekki að elda mat, ég nenni ekki að undirbúa mat, ég nenni ekki að ákveða mat, ég nenni eiginlega bara engu sem viðkemur mat. Þetta er orðið svo slæmt að ég nenni varla að baka heldur.

Hvað á maður að gera þegar svona ástand ríkir? Einnig langar mig ekkert sérstaklega í mat, ég borða því að maður þarf að borða og útaf því að það er skemmtilegra að borða en að vera svangur.

Gefiði mér hugmyndir af einföldum, góðum kvöldmataruppskriftum. Það er ekki í boði að hafa bara snarl í kvöldmatinn þar sem að við lifum öll 3 á snarli fyrri part dagsins.

Þar fyrir utan þá dreymdi mig að Valdísi og pabba var svo illa við jólaóskalistann minn, þeim fannst það svo mikil frekja í mér að vilja fá knitpro prjónasett. Einsog ég bennti þeim á í nótt þá er þetta svo sniðugt sett því að maður getur tengt saman tvær 120cm snúrur og prjónað stærsta teppi í heimi og þar fyrir utan þá ÞARF ekki að gefa mér það sem er á listanum, þetta eru bara hugmyndir. ;-)

bara 8 dagar

Bankinn hefur ekki ennþá haft fyrir því að svara okkur, vonandi þýðir það að hann er virkilega að skoða málin og átta sig á því hvað hann er heimskur.

Það eru bara 8 dagar þangað til að við komum heim og satt best að segja þá gengur hræðilega að planleggja heimförina. Þar sem að við eigum bæði eftir að skila af okkur töluverðri vinnu þangað til þá er heimferðin einhvernvegin mjög óraunveruleg – amk fyrir mér. Ég held líka að Hrafnkell trúi okkur ekkert í alvörunni þegar við segjumst vera að fara til Íslands.

Ég get ekki beðið eftir tímabreytingunni – sumartíminn byrjar um helgina (og þó fyrr hefði verið). Það er orðið svo bjart á morgnanna að Hrafnkell vaknar alltaf fyrir 7, vonandi heldur hann áfram að vakna á sama tíma – það verður bara klukkustund seinna á klukkunni. Einsog mér finnst asnalegt þegar fólk talar um að það eigi að vera sumartími á Íslandi þá finnst mér þetta nauðsynlegt fyrirbæri hérna.

Annað (þessi færsla er rosalega hingað og þangað) er að ég hef verið ógeðslega orkulaus undanfarna daga, það gengur reyndar ágætlega að vakna og koma sér í skólann og svo heim aftur – en þegar heim er komið þá er ég bara ónýt. Ég er örugglega ekki mjög skemmtileg mamma þessa dagana, er búin að sofna óvart alla dagana í þessari viku :-/ Sem er bara ekki gott því að ég verð svo ógeðslega pirruð þegar ég þarf að vakna aftur.

En anyway þá eru bara 8 dagar þangað til að við komum og barnið þeirra Valdísar og Tryggva er áætlað á morgun :-)

Bólustrákur

Hæhæ

Ég er bólustrákur, ég er nefnilega með hlaupabóluna. Hún byrjaði sem ein auka brjóstabóla (aukageirvarta) en núna er ég sko með bólur út um allt. Ég er með bólur í rassinum, á pungnum, inní báðum eyrunum (og á bak við þau), undir ilinni, á puttunum, í hársverðinum osfr. Ég er með bólur alls staðar. Allra mestu bólurnar eru þó á rassinum (ath ekki í rassinum heldur á rassinum). Þar er ég bara einsog hraun, minnst er af bólum á bakinu og á fótunum. Bólurnar pirra mig ekki mikið, mér finnst þær samt kitla mig svolítið svo að mamma keypti krem í apótekinu til að setja á bólurnar. Þetta er ekki svona bleikt krem einsog mamma þekkir frá Íslandi heldur er þetta hvítt í spreybrúsa. Ég er þessvegna hvítflekkóttur og þarf að vera berrassaður heillengi á meðan kremið þornar alveg. Svo sá mamma að það er nánast ómögulegt að þvo þetta krem úr hárinu á mér bara með vatni svo að hún þarf að kaupa sjampó fyrir mig.

Ég veit að ég er veikur en mér líður ekkert illa, ég er ekki með neinn hita, ég er glaður og hress. Mér leiðist svolítið mikið, pabbi er líka veikur (með flensu) og mamma þarf að læra mikið, það væri gaman að komast bara í leikskólann og hitta krakkana. Eða amk að fara út og leika mér, mamma ætlar nú að fara með mig eitthvað út á morgun þó að ég sé örugglega bráðsmitandi ennþá.

Ég er búin að horfa mikið á teiknimyndir, of mikið segir mamma, svo keypti mamma kennaratyggjó svo að ég er búinn að vera að teikna og klippa myndir til að skreyta veggina okkar, mamma bjó til leir handa mér og ég leiraði aðeins. Ég var aðalega að leira litla bolta handa barninu hennar Valdísar, ég er líka búinn að vera duglegur að fara í bað. Mér líður vel í baðinu en mig klæjar mest þegar ég kem uppúr því.

Mamma segir að það séu bara 5 vikur (ekki 6 einsog hún hélt) þangað til að við förum til Íslands. Við ætlum að fara í flugvélina og fljúga lengi, lengi og svo komum við til Íslands. Það verður sko rosalega gaman, ég ætla að fara aftur og sjá tröllið undir brúnni (sem ég sá í sumar þegar ég fór í Vaglaskóg með Bobbu ömmu og Steina afa (og mömmu reyndar)).

Jæja heyrumst seinna
Hrafnkell bólustrákur

Hrafnkell segir frá

Halló öll!hrafnkell_fastelavn

Mamma hefur ákveðið að hætta með barnalandssíðuna mína og ætlar í staðinn að hafa fréttir af mér hérna. Hún mun, hægt og rólega setja allar myndirnar af mér í albúmið mitt í gallerýinu svo að þær verða ennþá aðgengilegar – þar er líka hægt að skrifa komment. Ef ykkur vantar lykilorðið sendið mömmu minni bara email á eddaros@eddaros.com og spyrjið um það.

Það er margt búið að gerast, enda skrifaði mamma seinast í desember – sem er alveg á seinasta ári. Við komum heim, eftir langt ferðalag, í byrjun janúar. Það var bara alveg ágætt, eftir öll lætin um jólin, að komast í smá ró og næði hérna heima. Pabbi fór fljótlega aftur, hann þurfti að fara í vinnuna sína, langt upp í fjöllunum. Mér fannst nú eiginlega svolítið súrt að Þórný frænka mín fengi að hafa pabba minn hjá sér, einsog hún geti ekki bara notað sinn eiginn pabba.

Ég talaði oft við pabba í tölvunni hennar mömmu, þó það væri nú ekki alltaf eitthvað gáfulegt sem við töluðum um þá fífluðumst við svolítið saman.

Í janúar þá var ég ofsalega listarlítill, einsog seinni partinn í desember, mamma var eiginlega farin að hafa smá áhyggjur af þessu. En ég er farinn að borða aðeins meira núna, mamma ætlar svo að fara að vera duglegri að gefa mér fjölbreyttara nesti fyrst ég er farinn að vera duglegri að borða. Nefnilega þá var ég farinn að borða svo lítið að mamma var farin að gefa mér bara að borða það sem hún vissi að ég myndi borða. Ég er nefnilega svo grannur að það er ekkert gott fyrir mig að vera í einhverju aðhaldi.

Ég er líka búinn að vera óttarlegur lasarus. Ég var veikur í desember, í janúar var ég óttalega leiður og pirraður (og mamma hélt að það væri mest megnis vegna pabbaskorts) en svo í byrjun febrúar þá fékk ég heiftarlega eyrnabólgu. Daginn sem pabbi ætlaði að koma heim fór ég að kvarta undan verk í eyranu mínu. Það var svo vont að ég fór að gráta, mamma reyndi að laga það einsog hún gat og svo fór ég til læknis strax daginn eftir. Læknirinn sagði að ég væri með bakteríueyrnabólgu (bakteríu vegna þess að þetta var bara í einu eyra sagði hann) og ég fékk lyf. Mér fannst þetta lyf ekki sérstakt til að byrja með en í lokin fannst mér það svo gott að mér fannst hálf fúlt að klára það, vildi bara fá meira lyf. Svo í þessari viku þá fékk ég háan hita á þriðjudaginn og var samt orðinn fínn daginn eftir. Konurnar í leikskólanum segja samt að ég sé eitthvað slappur, svo að mamma sótti mig snemma í gær EN ég var samt bara hress og fínn þegar hún sótti mig svo að hún veit ekki alveg hvað þær voru að tala um.

Í dag er svo Fastelavn – það er reyndar ekki fyrr en á sunnudaginn en  við höldum uppá það í dag í leikskólanum. Þá fara allir í búningum í leikskólann og við sláum köttinn úr tunnunni, fáum fastalavnsboller  og fleira gott. Mamma heldur að þetta sé eiginlega bara bolludagur-sprengidagur-öskudagur í einni blöndu. Ég er galdrakall, með sítt hár, hatt og töfrasprota.

Ég tala mikið um Ísland, ég vil helst bara fara til Íslands sem fyrst. Kannski þarf ég bara að fá smá frí frá leikskólanum, veikindum ofl án þess þó að lenda í öllum skarkalanum og látunum sem voru í Noregi. Heima hjá ömmum mínum og öfum á Íslandi er svo rólegt, þar fæ ég líka alla athyglina einn (sem mér finnst ekkert hræðilegt sko). Í Hrísateignum er ég líka aðeins frjálsari en annars staðar. Þar er svo auðvelt að fara út í garð að leika sér þegar maður vill, þar er líka hægt að hjálpa afa að gera ýmislegt sem þarf að gera. Mig langar líka til að sjá litla barnið hennar Valdísar, sko litla strákinn sem hún er með í bambanum (svo til að koma í veg fyrir misskilning þá vitum við ekkert hvort þetta er strákur eða stelpa, nema að Hrafnkell VEIT að þetta er STRÁKUR ekki stelpa ;-) ). Mamma segir samt að það sé ekki hægt að gefa honum nammi fyrr en í fyrsta lagi eftir að hann kemur út úr mallakútnum hennar. Helst vildi ég bara að mamma fengi litla barn í mallakútinn sinn, en hún vill það ekki. Segir alltaf bara kannski seinna eða fer bara að tala um það hvað ég þarf að vera duglegur þegar ég hitti litla barnið hennar Valdísar. Það er sko margt sem ég vil gera þegar ég hitti hann, ég ætla að halda á honum, leika við hann, skipta um kúkableyjur (aha!) og hugga hann, finna mömmu hans fyrir hann og bara gera allt til að hann hafi það sem best. Ég verð nefnilega svo risalega stærri en hann. Mamma segir samt alltaf að þegar ég hitti litla barnið hennar Valdísar þá verði ég að passa mig rosalega vel og umfram allt að hlýða Valdísi.

En kveðjur í bili
Hrafnkell Myrkvi

The Folklore of Discworld

Jæja þá er ég búin að hespa af bók nr 2 í jólabókaflóðinu. Þessi bók er æðisleg í alla staði (nema einn og ég minnist á það á eftir), hún fékk mig til að velta því verulega fyrir mér, af hverju í andskotanum ég fór ekki í þjóðsagnafræði – en svo mundi ég að það væri örugglega eitthvað náskilt sagnfræði og ég var búin að skoða þá skor í HÍ og mikið rosalega virkaði það sem leiðinleg braut.

En já ég elska Discworld og ég elska þjóðsögur, það kom mér á óvart hversu mikið af þessu ég vissi þegar – en ég hef svosem verið kölluð brunnur ónauðsynlegrar vitneskju ;-) Eftir lesturinn þá væri ég alveg til í að lesa meira eftir Jacqueline Simpson, hún virðist alveg vita sínu viti.

En já það sem böggaði mig voru tilvitnanir í Íslenska þjóðtrú. Í hvert skipti (og þau voru nokkur) sem að ég las orðið Iceland þá tók ég betur eftir, þjóðarstoltið alveg að drepa mig, en shit í nánast hvert einasta skipti þá var farið rangt með “staðreyndir”. Þetta er reyndar svo slæmt að ég hef verið að velta því fyrir mér hvort að ég ætti að senda kallinum email (hehe og vonast til að það kæmist í alvörunni til hans) og benda honum á hitt og þetta í sambandið við jólasveinana, grýlu ofl. Reyndar þegar maður skoðar bókallistann aftast þá sér maður að það er ekki vitnað í neinar íslenskar heimildir.

En samt æðisleg bók að flestu leyti.

ps. Ég lofaði Valdísi að setja myndir af Hrafnkel inná barnalandssíðuna hans en þar sem að barnaland virðist vera að klúðra færslu á gagnagrunninum (frá dk til ísl) þá bara veit ég ekki hvenær ég get sett inn myndir. Ef það verður ekki fyrir þriðjudag þá verður það ekki fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudag því að þriðjudag og miðvikudag verð ég að einbeita mér að læra fyrir hitt prófið mitt.

Smá annáll

Það er varla að ég muni hvað gerðist á árinu 2008 :-/

Við vorum heima á Íslandi um seinustu áramót, komum svo heim til Köben til þess að fara í próf. Mér gékk mjög vel í prófinu mínu, en það var engin einkunn gefin í það skiptið.  Svo eftir prófin keyrðum við uppeftir til Balestrand, Noregi, til að heimsækja Ödda og Birnu. Það gékk ekki betur en svo að við þurftum að gista 2 nætur hjá Helgu Maríu og Sverri í Geilo (sem er mjög kósí skíðabær) vegna leti Noregsmanna við mokstur (já eða amk þá voru öll fjöll stengt og ekkert hægt að komast). Þar af leiðandi tók ferðalagið alltof langan tíma og heimsóknin fékk of stuttan tíma, maður var varla kominn þegar kominn var tími til að fara til baka. Hrafnkell sannaði þá, enn og aftur, að hann er draumabarn þegar kemur að ferðalögum, rólegur og nægjusamur.

Þegar heim var komið þá tók bara við skólinn aftur. Við vorum öll heilsuhraust (ólíkt haustönninni þar á undan) en engu að síður var rútínan okkar ekki alveg nógu góð vegna alls konar fría og vesena. Það liðu margar vikur án þess að Hrafnkell væri heila viku í Vuggestuen.Við fjölguðum í fjölskyldunni og komum upp ferskvatnsfiskabúri.

Við höfum fengið margar heimsóknir á þessu ári, flestar þó rétt fyrir verkefnaskil hjá Dodda svo að fólk hefur meira verið að heimsækja mig og Hrafnkel. Mamma, pabbi og Ragna komu um páskana, fengu að upplifa Kaupmannahafnískan vetur og kulda. Í lok apríl komu svo tengdó að heimsækja okkur, svo kom Hrafnhildur í miðjum maí og upplifði geggjað sumarveður. Næst var Valdís á ferðinni, seinni partinn í júní, kom með þrumum og eldingum. Hulda og Lára (Öddadóttir) komu í heimsókn fyrri partinn í júlí, kíktu í Tívolí og fleira. Mánaðamótin september-október komu Hjödda og Bjössi aftur í heimsókn en í þetta skiptið komu þau líka með Margréti og Hrein með sér, en það eru amma og afi Dodda.

Við ætluðum að vera hérna í sumar og reyna að finna okkur vinnu en það gékk ekki mjög vel, enda erum við illa talandi útlendingar með stutt sumarfrí. Það fór svo þannig að Doddi rauk uppeftir til Ödda til að vinna sem smiður. Ég og Hrafnkell skældum okkur til Íslands, þar sem við vorum uppá náð og miskunn mömmu og pabba. Hrafnkell naut þess að umgangast ættmenni sín, bætti íslenskuna sína mikið og hafði það almennt mjög gott á meðan ég naut þess að geta (amk stundum) sofið aðeins meira frameftir en venjulega, ég naut þess líka að komast aðeins barnlaus og kalllaus til eyja með vinum mínum (það hefði samt verið alltílagi að vera með Dodda með sér) en annars gerði ég ekkert. Hrafnkell sannaði enn og aftur að hann er draumaferðafélagi, var rólegur þegar mamman fékk smá panikk yfir flugmiðanum á leiðinni til Íslands, var rólegur í flugvélinni þrátt fyrir mikið og langt ferðalag. Á ferðalögum er Hrafnkell nefnilega bæði rólegur og skemmtilegur (oftast amk) og það er allt sem maður getur beðið um hjá 2-3 ára gömlu barni.

Það var aftur brotist inní bílinn okkar, núna var meira skemmt heldur en stolið – en þetta er svosem hluti af því að búa í mjög rólegu hverfi í stórborg. Því miður var það ekki það eina sem var stolið, Doddi varð fyrir nokkrum vasaþjófum (einstaklega óheppinn á djamminu) og svo var hjólinu hans stolið. Einnig tókst Dodda að tína (eða láta stela af sér) peningaveskinu, sem betur fer var ekki mikill peningur í því en verra var að glata greiðslukortum ofl svoleiðis.

Ég fór til Berlínar í Október, með bekknum mínum. Það var mjög gaman, góð tilbreyting frá hinu daglega lífi. Já og Doddi fékk sér mús (sem er skaðræðiskvikindi). Já og Hrafnkell fluttist úr Vuggestue yfir í Börnehave í sumar, enda orðinn stór strákur.

Svo fórum við til Noregs til að halda jólin, þar sem að Hrafnkell sannaði það enn og aftur að hann er frábær á ferðalagi (haha ég get ekki sagt þetta of oft ;-) ).

Árið 2009 er óskipulagt að miklu leiti. Ég útskrifast í vor og þarf því að fara að ákveða hvað ég vil gera, mig langar til að læra meira – sérhæfa mig meira þar sem að þetta nám finnst mér vera of víðtækt og ekki nógu nákvæmt. Ég hef verið að skoða hvort og hvaða möguleika maður hefur á fjarnámi, en því miður eru þeir ekki fjölbreyttir – amk ef maður ætlar að læra á Íslandi. Ég vil frekar halda áfram að læra núna, halda áfram að læra, heldur en að stoppa og fara að vinna og eiga kannski erfiðara með að halda áfram að læra seinna. Þar fyrir utan er mikill samdráttur í atvinnulífinu hérna í Kaupmannahöfn alveg einsog á Íslandi, kannski ekki miklar draumavinnur í boði fyrir útlending einsog mig – sérstaklega þegar maður er að reyna að troða sér inní geira sem tilheyrir algerlega lúxus og munaði. Þá er kannski betra að vera í skóla á meðan heimskreppan jafnar sig aðeins. Ég verð líka að viðurkenna að þessa dagana þá þjáist ég af heimþrá, í fyrsta skiptið síðan við fluttum út langar mig mikið til að pakka saman og flytja heim. En ég vil samt ekki flytja heim í ekkert, enga vinnu, enga peninga, ekkert heimili – ég vil vinna lottó fyrst ;-)