Posts tagged: sykur

Pönnukökur – úr gulu bókinni, mín útgáfa

Það eru ansi margir sem að slumpa bara þegar þeir hræra í pönnukökudeig, mér finnst það aðdáunarvert en ég er engu að síður manneskja sem get ekki slumpað í bakstri. Get það hugsanlega í eldamennsku en er samt almennt séð ekki mikil slump-manneskja. En þar sem að ég slumpa ekki í pönnukökubakstri þá þarf ég auðvitað að hafa uppskrift og þá er nú heppilegt að ég á bestu pönnukökuuppskrift í heimi (hef prufað eina aðra og þó að hún væri ágæt þá var hún ekki rétt hehe) og hérna kemur hún:

 • 2 1/2 dl hveiti
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • (1/2 msk sykur) ég sleppi sykrinum oftast þar sem að hann veldur því að það eru meiri líkur á því að pönnukökurnar festist við pönnuna ef maður notar sykur, einnig borða ég pönnukökur ansi oft bara upprúllaðar með sykri. Það er í alvörunni alger óþarfi að hafa sykur í deginu.
 • 2 egg
 • 4 dl mjólk (nýmjólk er best, þeim mun feitara sem degið er, þeim mun minni líkur á að kökurnar festist við pönnuna)
 • 1/2 tsk vanilludropar (ég reyndar nota oft aðeins meira, eða skipti þessu út fyrir vanillusykur þar sem að hann er miklu ódýrari hérna í baunaveldi)
 • 25 gr smjör (eða smjörlíki eða 2 msk matarolía, ég persónulega nota alltaf smjör. Já og bæði smjör og smjörlíki eru betri en olía, again vegna þess að það dregur úr líkunum á því að kökurnar festist við pönnuna, og einsog ykkur grunar sennilega núna þá þoli ég ekki þegar það gerist)

Settu smjörið á pönnuna og kveiktu undir, ekki setja samt á allra heitasta strauminn því að þá er hætt við að það brenni við og verði ógeðslegt.

Blandaðu saman öllum hráefnunum (nema smjörinu, obviously, þar sem að það er upptekið á pönnunni), það getur verið gott að sigta þurrefnin fyrst – það dregur úr líkunum á því að allt fari í kekki. Ef maður er svo óheppinn að allt fer í kekki þá er alltaf hægt að láta blönduna fara í eina ferð eða svo í gegnum sigti. En já setja allt saman í skál og blandað vel saman. Svo þegar allt er vel blandað saman og smjörið bráðnað þá er því hrært saman við.

Svo bakar maður pönnukökur úr deginu :-)

Kreppuvax

Ég  hef nokkrum sinnum tekið þá drastísku ákvörðun að vaxa á mér leggina. Einu sinni fór ég bara á stofu og lét einhverja konu sjá um þetta og það var fínt, vont en fínt. Hin skiptin hef ég asnast til að kaupa hinar og þessar tegundir af heimavaxi og svo reynt að sjá um þetta sjálf. Það er bæði vont og erfitt – og aðalega erfitt því að þetta er svo vont.

En ég rakst á uppskrift af “vaxi” (ég held reyndar að þetta kallist sugaring og er mun líkara sírópi eða karamellu heldur en vaxi) á netinu og ég ákvað að prufa – hráefnin eru ódýr og auðvelt að nálgast þau svo að það versta væri að ég myndi gefast upp og skola þessu niður. En þetta var langbesta og sársaukaminnsta vax sem ég hef prufað. Það var ekki bara sársaukaminnst heldur tók það hárin betur en öll keyptu heimavöxin sem ég hef prufað.

Uppskriftin er svona:

ca 150gr sykur
2 msk sítrónusafi (uppskriftin segir úr belg en ég kreisti bara sítrónu og það var ca 2 msk úr 1/2 sítrónunni)
2 msk vatn

Sett í pott og á vel heita eldavélahellu. Hrært í reglulega. Þegar blandan er farin að bulla aðeins, farið að koma smá “froða” ofan á, þá á að lækka á hellunni og láta þetta malla þar til að það er orðið gullið á lit. Þá er bara að taka pottinn af hellunni og láta þetta kólna niður í þægilegan hita (en ekki of kallt því að þá er erfiðara að vinna með þetta).

Bera á lappirnar, skella bómullarefnisræmu ofan á og rífa hárdraslið af. (bara svona einsog með venjulegt vax). Þetta þrífst af með hreinu vatni svo að þú þarft ekki að vesenast með einhverjar olíur eða hreinsiefni til að hreinsa restarnar af vaxinu af. Einnig er hægt að skola ræmurnar í vatni og nota þær aftur (þegar þær hafa þornað auðvitað).

Döðlu og súkkulaðiterta ala tengdó

 • 4 egg
 • 1 bolli sykur
 • 1 1/2 bolli döðlur
 • 100 gr suðusúkklaði
 • 1/2 bolli hveiti
 • 1 tsk lyftiduft


Eggin og sykurinn þeytt vel saman. Hitt er brytjað smátt og blandað saman. Því er svo blandað rólega saman við eggin/sykurinn. Sett í 2 tertubotna og bakað við 180°C .
Þeyttur rjómi og bananar settir á milli.

Geðveik eplakaka

Ég fékk mikla eplakökulöngun í dag svo ég ákvað að leita á netinu og finna eitthvað sniðugt og ég fann þessa:

 • 125gr smjör
 • 125gr sykur
 • 1 egg
 • 125gr hveiti
 • 2tsk lyftiduft
 • 2-3 epli (ég notaði 2 epli og eina peru – ofsa gott)
 • kanilsykur

Sykur og egg þeytt vel saman, smjörinu bætt út í (og hitaði það aðeins upp svo að það væri nógu lint til að nota með þeytaranum í græjunni minni) og blandið vel saman. Hrærið svo hveitinu og lyftiduftinu hægt saman við. Deigið er sett í mót og eplin (og peran) skorin niður, uppskriftin segir í þunna báta en ég skar þetta abra niður í litla bita – mér var svosem sama þó að þetta væri ekkert of fallegt. Eplunum (og perunni) raðað ofan á deigið og svo stráð vel að af kanisykri yfir.

Bakað við 175° (blæstri) í hálftíma (og þá er hún frekar blaut, margir myndu baka hana lengur).

Svo er mælt með að borða hana heita með rjóma eða ís… Við áttum engin svoleiðis dýrindi en það hindraði okkur ekki í því að borða alltof mikið, alltof hratt ;-)