Posts tagged: skólinn

og lífið heldur áfram

Það er komin vika og satt best að segja þá finnst mér ótrúlegt hversu vel mér líður – miðað við hvað ég var í miklu rusli á fimmtudag og föstudag. Kannski er ég bara í einhverri afneitun eða kannski er ég bara loksins að átta mig á því að þetta reddast, þetta verður bara allt í lagi. Ég vil reyndar líka þakka þessu það að ég hef reynt að vera jákvæð, amk meiri hluta dagsins, ég hef líka talað óendalega mikið við alla mína góðu vini – og er eiginlega komin með ógeð á vælinu í sjálfri mér hehe.

Núna, í fyrsta skiptið í töluvert langan tíma, finnst mér ég vera sjálf við stjórn í lífi mínu og það er góð tilfinning. Núna get ég tekist á við dagleg verkefni – enda kominn tími til hehe. Skólaverkefnin eru loksins farin að ganga eitthvað, ég er byrjuð að kaupa jólagjafir og bíð bara eftir að fá blekið mitt svo að ég geti sent jólakort. Svo er planið að taka aðeins í gegn hérna áður en fjölskyldan mín kemur en bakstur og konfekt gerð fær að bíða þar til þau koma. Ég er hvort eð er alin upp við að þetta er oft gert svona seinustu daga fyrir jól, þegar skólinn er kominn í frí.

Ég fór í “keilu” í gær, það er að segja við Anna ætluðum í keilu en svo fórum við bara og fengum okkur að borða og komumst ekki lengra vegna seddu og leti. En við borðuðum góðan mat og töluðum mikið saman og það var bara ljómandi gaman. Og svo ætla ég að fara út á föstudagskvöldið með Camillu, Önnu og vinafólki Önnu – sem er að koma að heimsækja hana yfir helgina – og það á eftir að verða ljómandi gaman, ég er búin að ákveða það :-)

Doddi býr hérna ennþá, ég veit ekkert hvort að eitthvað er að gerast í þeim málum. Vonandi þó okkar allra vegna.

Smá smotterí

Það er löngu kominn tími til að skrifa eitthvað en einhvernvegin hefur verið svo “mikið” að gera. Það virðist líka enginn vera almennilega í blogggírnum þessa dagana.

Anyway þá tókst mér að nöldra mig inn í skólann. Skólinn byrjaði á miðvikudaginn og um miðjan miðvikudag fékk ég tilkynningu um að ég fengi sæti í bekknum. Þetta er bein afleiðing af því að vesalings maðurinn, sem sér um sætisveitingar í þetta nám, var búinn að þola síendurtekna tölvupósta frá mér seinustu vikur þar sem að ég pressaði á hann um að gefa mér endanlegt svar. Þegar ég mætti svo á fimmtudaginn í skólann þá komst ég að því að bekkurinn er ca 35 manns (gróflega áætlað) og það eru yfir 100 manns á biðlista svo að ég tel mig bara nokkuð góða með að nöldra mig inn í bekkinn.

Námið virkar vel á mig, fyrsta önnin verður reyndar frekar þurr en það var alveg vitað fyrirfram, en það er gaman að komast í bekk þar sem flestir virðast actually vera þarna til þess að læra. Það á þó eftir að koma í ljós þegar maður kemst lengra inn í þetta hvort að námið standi undir væntingum. Reyndar eru þær væntingar, því miður, ekkert rosalega háar þar sem að mín kynni af dönsku skólakerfi eru ekki mjög góð. Allt sem ég hef hingað til séð af þeirra skólakerfi bendir til þess að það sé rosalega illa skipulagt og undarlega metið (og léleg samskiptamunstur hjá kennurunum). Vonandi verður KNORD til þess að bæta álit mitt á dönunum.

Doddi er kominn og farinn, kom frá Noregi á laugardagskvöldi og fór svo í morgun til Króatíu í skólaferðalag. Hrafnkell telur sig vera orðinn 4 ára þar sem að við báðum um að það yrði haldið upp á afmælið á föstudaginn í leikskólanum og svo gáfum við honum einn pakka á föstudaginn og fórum svo í sirkus (sem var by the way geggjað kúl). Svo á morgun verður smá sýnishorn af barnaafmæli hérna.

Og hvað svo?

Hvað gerir maður þegar plan A gengur ekki upp og svo virðist plan B ekki heldur ætla að ganga upp og plan C er eiginlega bara „þetta reddast“?

Ég er semsagt komin heim, eftir gott frí heima á Íslandi, og þar beið bréfið mikla meðal óendanlega mikils ruslpósts. Ég var með óþægilega tilfinningu gagnvart þessu bréfi, reyndi að afsaka það með því að ég er svartsýnismanneskja almennt séð, sem var svo staðfest þegar ég opnaði það. Því miður komst ég ekki að í skólanum en er þó að biðlista, ef ské kynni að einhverjir detti út. Þannig að það er ekki öll von úti en samt eiginlega.

Kallinn sagði, í viðtalinu sem ég fór í, að skólinn væri með þjóðerniskvóta og tæki bara inn 3-4 af hverju þjóðerni og ég býst við að það hafi ýtt mér út því að ég veit um einstaklinga sem komust inn þrátt fyrir að hafa td verri einkunnir en ég úr KTS en þeir einstaklingar eru danir. Þannig að núna þarf ég að skrifa honum email og spyrjast fyrir um þennan biðlista, hvernig ég standi og hvort að það sé raunhæfur möguleiki að ég komist samt inn – og benda honum á að þetta er eitthvað sem ég virkilega vil (þó að ég hafi ekki verið svo sannfærð um það í vor þá er ég sannfærð núna).

Þar fyrir utan sé ég ekki annað í stöðunni en að byrja á því að sækja um allar þær vinnur sem ég finn, sem actually koma menntun minni eitthvað við. Einnig þyrfti ég líka að fara fljótlega í það að sækja um vinnur við að skeina rassa eða eitthvað álíka spennandi, hugsa samt að ég myndi frekar vilja fara bara í einhver þrif eða eitthvað. Hvað sem hverju líður þá höfum við ekki efni á því að hafa mig tekjulausa.

Búhú! Ég er hundfúl, var eiginlega búin að treysta alveg á að komast inn, þrátt fyrir þetta gut-instinct um að ég kæmist ekki inn. Þar fyrir utan er heillangt þangað til að Doddi kemur heim og satt best að segja þá finnst mér ég óttalega ein í heiminum eitthvað . EN það þýðir ekkert annað en að hrista af sér slenið, ganga frá hérna og vona það besta.

Fyrir þá sem hafa áhuga

Síðan okkar er orðin eins tilbúin og hún verður nokkurntíman.
Endilega skoðið þetta og munið að a) Við urðum að þóknast kúnna með margt og rembast við að gera hlutina þokkalega og b) Síðan er bara “prototype” og þar af leiðandi töluvert frá því að vera einsog lokaútgáfa myndi vera.

Á heildina er ég mjög sátt með síðuna, margt tæknilega flókið sem liggur að baki, mikil vinna í grafík – bæði hugmyndavinnu og myndvinnslu, og það þrátt fyrir að hugmyndafræðinni hafi verið breytt algerlega (af hálfu kúnnans) á seinasta fundið fyrir páska svo að segja má að þessi síða hafi verið unnin á 1 -1 1/2 mánuði.

Ath: Það eru 2 valmöguleikar um tungumál, enska og danska. Við erum bara búnar með “dönsku” útgáfuna. Ég segi “dönsku” með gæsalöppum vegna þess að í raun eru 2 bls á dönsku og hinar á ensku/lorem ipsum (lorem ipsum er þykistunni texti sem þýðir ekki neitt en lítur út einsog alvöru texti og er mjög oft notaður til að fylla upp í þegar það vantar rétta textann)

Til Jorrit: Ég veit að þetta er flash síða, ég geri mér grein fyrir hinum ýmsu vankönntum sem að fylgir því að gera flash síðu. Ég geri mér grein fyrir því að það er enginn “preloader” og grafíkin er í háum gæðum (sem lengir “loading” tímann). Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki hægt að nota “back” og “forth” í vafranum til að komast á milli síðna. Við minnumst á þetta allt í skýrslunni og nefnum hugsanlegar úrbætur á málinu (og þar stærst að hafa einfaldlega aðra síðu í xhtml (já eða php eða asp og javascript) þannig að notandinn hafi val milli þess að nota þessa síðu eða alvöru síðu).

Síðan okkar

Verkefninu verður svo skilað inn á fimmtudag (í seinasta lagi) og svo er maður “frír” þangað til í prófinu…

Mikið að gera

Það er mikið að gera þessa dagana, aðalega þó í skólanum. Kúnninn virðist ekki skilja þegar við segjum honum að þrátt fyrir allt þá sé þetta skólaverkefni og að við höfum skiladag sem við verðum að virða ef við ætlum að fá að taka prófið og útskrifast, og það gerir málin eilítið flóknari en þau þyrftu að vera. Við erum reyndar búnar að ræða þetta innan hópsins og búnar að ákveða að núna þá ætlum við bara að gera hlutina eins vel og tíminn leyfir, eftir okkar höfði, og ef kúnninn vill ennþá nota síðuna og vill ennþá fá breytingar þegar við erum búnar að skila verkefninu til skólans þá getur kúnninn alveg beðið okkur um að gera breytingar og vinna að síðunni í sumar – gegn gjaldi auðvitað. Við erum reyndar 2 í hópnum sem erum svolítið að vonast til að svo verði (að kúnninn vilji borga okkur fyrir að vinna að síðunni í sumar) því að okkur vantar pening. Sú þriðja er alveg róleg því að hún fær SU (danska skólastyrkinn) í sumar (vegna þess að í DK þurfa nemendur að fá frí einsog aðrar vinnandi stéttir) og þar fyrir utan getur hún stokkið inní gamla starfið sitt á Jylland þar sem hún fær amk 17000dkr á hálfsmánaðar fresti – sem gerir um 25000dkr á mánuði sem  er meira en 500þús íslenskar! Svo að hún þarf ekkert að pæla of mikið í þessu.

Annað í fréttum er að allir fiskarnir okkar eru dauðir, það er bara einn snigill eftir og hann er frekar slappur. Hrafnkell fann nefnilega hnetu úti í garði, kom með hana inn, opnaði hana og laumaði svo sjálfri hnetunni ofan í fiskabúrið. Einhverju seinna tók ég þó eftir hnetunni en ég hélt að það gerði nú ekki svo mikið til, en morguninn voru allir fiskarnir dauðir eða deyjandi. Svo að núna þurfum við að ákveða hvað við gerum, hvor að við kaupum einhverja ódýra fiska eða hvort að við pökkum búrinu niður í bili. Hvort heldur sem er þá þarf örugglega að taka allt í gegn og þrífa, sjóða það sem hægt er að sjóða osfr til að drepa niður hvað sem það var sem að drap fiskana.

Við höfum ekkert heyrt frá Bispebjerg hospital um það hvenær við eigum að fara með Hrafnkel í tjekkið. Ég er farin að vera svoldið óróleg útaf þessu því að ég hef heyrt sögur af fólki sem hefur verið að bíða eftir sambærilegum bréfum (veit reyndar ekki hvort það var frá sama sjúkrahúsi) og fengu þau of seint. Td þá var einn vinur minn hérna að fara með kærustunni sinni í fóstureyðingu, þau voru búin að fara í öll viðtölin og fá grænt ljós á aðgerðina og voru send heim og sagt að þau myndu fá tilkynningu í póstinum um það hvenær aðgerðin yrði framkvæmd (já þetta eru danir, þurfa alltaf að vera með vesen). Þau fengu bréfið kl 1 og í því stóð að aðgerðin ætti að fara fram kl 11  sama morgun. Ég varð ekkert smá reið fyrir þeirra hönd, þó að málunum hefði verið reddað, því að þetta er ekki aðgerð sem má bíða, hver dagur skiptir máli -enda má gera ráð fyrir að kona sé komin amk 4-5 vikur áður en hún áttar sig á því að hún er ólétt, svo koma einhverjir dagar þar sem að hún veltir möguleikum fyrir sér, svo er viðtal og annað viðtal og það tekur þá einhverja daga í viðbót, svo er þá að bíða eftir þessu bréfi og það gerir einhverja daga í viðbót og það má ekki framkvæma þessa aðgerð eftir 12 vikurnar. Einnig hugsa ég að það sé erfiðara fyrir konu að fara í þessa aðgerð eftir því sem að hún er ólétt lengur. En já amk þá erum við ekki búin að fá tíma uppi á sjúkrahúsi (sem ég veit ekkert hvort er uppi eða ekki, það er bara svo eðlilegt að segja uppi á sjúkrahúsi).

Um páskana þá varð ég aftur frænka, núna er ég rík og á 2 náfrændur, einn stóran sem ég hef ekki séð í alltof langan tíma og enn lítinn sem ég sá reyndar um páskana en ég sá bara alltof lítið af honum og alltof stutt. Hrafnkeli fannst þessi frændi mjög merkilegur, hann var ótrúlega lítill en gat grenjað ótrúlega hátt – eiginlega alltof hátt. Þessi frændi var samt ótrúlega leiðinlegur, uppfyllti ekki væntingar um skemmtanagildi, en samt merkilegur. Hefði Hrafnkell getað skipt honum Hartmanni Völundi út fyrir Magna Stein þá hefði það verið gert á núll einni (enda var það stærsti gallinn við Íslandsförina að Magni Steinn skildi ekki vera þarna einsog hann átti að vera) en samt var sá litli merkilegur. 

Svo eftir páska, rétt áður en við fórum til baka til DK, þá gistum við 2 nætur hjá Frosta og Sonju og þau eiga bæði einn stóran strák og eina 9 mánaða skruddu. Hrafnkeli líkaði mjög vel við það að hafa þau 2 til að leika við. Stelpan var einmitt mjög skemmtileg, og áhugaverð, en honum fannst hún frekar erfið í umgengni. Hann varð að passa að hún borðaði ekki dótið hans (hún er alger ryksuga, litla rófan) og þar fyrir utan þá átti hún það til að meiða hann aðeins og ef hann svaraði fyrir sig þá þurfti svo lítið til að hún færi að grenja og þá fékk hann samviskubit (haha ég sá það á svipnum á honum, hann ýtti aðeins við henni og hún fór að grenja og hann var næstum farinn að grenja sjálfur hann skammaðist sín svo mikið þó að það hefði enginn skammað hann). Hún var eiginlega erfiðari en hún var skemmtileg og því var hann voða feginn þegar heimsóknin var búin.

Þessi tvö litlubörn urðu svo til þess að við Doddi fengum frið frá “við skulum eignast litla barn” tuðinu í 2,5 vikur. Það var ágætt því að þetta var orðið frekar þreytt þarna fyrir páska. En í morgun þá vaknaði Hrafnkell fílelfdur og vildi eignast litla barn, hann var búinn að plana hvar litlabarnarúmið ætti að vera og sagði að ég gæti bara gefið barninu að drekka úr brjóstunum mínum, ég þyrfti bara að vera duglega að drekka mjólk, djús og kók til að litla barnið gæti fengið mjólk, djús eða kók úr brjóstunum – rökrétt ekki satt? Ég bennti honum á að litlabarnarúmið væri eiginlega fyrir öllu dótinu hans og ef við fengum litla barn og settum rúmið þarna þá gæti hann ekkert leikið sér að dótinu sínu. Lausnin á því vandamáli var einföld, við geymum bara litla barnið í stofunni. Svo fórum við inní stofu og hann sýndi okkur hvar litlabarnarúmið gæti verið í stofunni og hvernig við þyrftum að labba í kringum það til að meiða ekki barnið. Svo labbaði hann þvert fyrir svæðið tilkynnti að það mætti alls ekki labba svona yfir litla barnið því að þá kæmi blóð og barnið myndi meiða sig ofsalega mikið og við vildum það ekki. 

En anyway þá vona ég að þessi morgun hafi bara verið einstakur, mér finnst þetta “ég vil eignast litlabarn” tal ekkert skemmtilegt svona til lengdar.

Komin heim

Við erum komin heim til Kaupmannahafnar. Flugvélin var ekki lent þegar Hrafnkell fór að tala um að hann vildi endilega fara aftur í heimsókn til ömmu og afa, brúnin lyftist þó eilítið þegar við fórum að tala um allt sem hann gæti sagt Amiru, og hinum krökkunum í börnehaven, frá því sem hann hafði gert í páskafríinu. En svo kom babb í bátinn, hann fattaði að Amira talar ekki íslensku og hann kann ekki að segja frá öllu á dönsku, hvernig segir maður td sundlaug, heitur pottur og páskaegg? Þetta olli smá áhyggjum en við komumst örugglega yfir það.

En já við komum til Hveragerðis á föstudagskvöld, fengum gistingu hjá Frosta og Sonju. Þar var auðvitað gott að vera, einsog allstaðar annarsstaðar sem við höfum verið um páskana. Gylfi, Hrafnkell og Kristín voru strax góð að leika sér öll saman þrátt fyrir mikinn aldursmun (8 ára, 3,5 ára og 9 mánaða). Þarna var Hrafnkell líka búinn að finna “litla barn” sem var bæði lítið og vitlaust og skemmtilegt! Ekki alveg jafn leiðinlegt, og grenjar ekki jafn hátt. Hann komst reyndar að því fljótlega að hún var ekki gallalaus, heldur var hún bæði of lítil og vitlaus til að vita að maður má ekki meiða aðra og svo varð maður alltíeinu að passa upp á að hún væri ekki að éta dótið mans. En heilt yfir þá náðu þau þrjú vel saman.

Við áttum svo bæði góða stundir með Frosta og Sonju og svo aftur góðar verslunarstundir með Hrafnhildi í gær.

En svo í dag þá skiluðum við bílnum, fórum út á völl, flugum heim, borðuðum kvöldmat, svæfðum barnið og erum núna bara að slappa af. Það var notalegra en ég hélt (miðað við “Íslandsheimþránna” sem hefur hrjáð mig undanfarna daga) að koma hingað heim. Engu að síður nenni ég engan vegin að takast á við skólann og að koma sér aftur inn í venjulega rútínu  *dæs* en þetta hefst einhverntíman. Ég hugsa að morgundagurinn verði erfiðastur og svo jafni sig flest all.

Mikið að gera um páskana

Páskafríið mitt hefur ekki verið alveg jafn mikið frí og ég hefði óskað. Þess vegna ætla ég bara að monnta mig aðeins af því sem ég hef verið að teikna (sem er reyndar bara helmingurinn af því sem ég hef þurft að gera en jæja)…

[nggallery id=2]

Reyndar er himmelskipet ekki fullklárað, en það eiga að vera rólur sem að fara hringinn í kring svo að því verður bætt inn á í öðru forriti. 

Ég held að ég þurfi ekki að taka það fram að þetta er búið að vera töluverð vinna, með fyrirmyndaleit og öllu…

Verur og bakteríur

Þetta ár, allir tveir mánuðirnir sem eru (nánast) liðnir af því, er búið að vera mjög undarlegt. Það hefur einkennst af pestum og aumingjaskap, heimahangsi og leti. Maður er varla búinn að ná sér eftir eina pest þegar sú næsta herjar, alltaf þegar ég er ekki með pest þá er Hrafnkell veikur og núna er Doddi líka veikur. Milli pesta er maður almennt með einhverja kvefdrullu, sem er þá annað hvort leifar af seinustu pest eða byrjunin af þeirri næstu. Mér leiðist þetta.

Skólinn hefur líka verið undarlegur. Fyrst var janúarmánuður með bara 2 prófum og ekki meir, sem var reyndar ágætt því að þá gat maður þó verið svoldið veikur inn á milli. Reyndar þá var ég frekar mikið veik í seinna prófinu en jæja skítt með það, ég fékk samt 10. Svo kom febrúar og hann hefur nánast bara farið í það að finna sér fyrirtæki og bíða eftir fyrsta fundinum með kúnnanum. Svo þegar ég hef ekki verið veik þá hafa hópfélagar mínir (Kirsten og Michelle) verið veikar. Kirsten tók sig meira að segja til að fá lungnabólgu og henni er alltaf að slá niður, ég er reyndar að reyna að segja henni að druslast til að vera lengur í rúminu, hætta að hafa áhyggjur af þessu – við getum alveg reddað því sem þarf að gera án hennar, svo framarlega sem hún hætti bara að vera veik á endanum.

Mig er oft búið að langa á djammið en það hefur lítið orðið úr því, vegna þess að ég hef orðið veik, ég hef verið barnapíulaus og þeir sem ég hef ætlað að djamma með hafa orðið veikir. Ég held að allar veirur og bakteríur Danmerkur hljóti að vera á sterum eða eitthvað.

Það væri fínt að hætta þessu veikindabasli, þá gæti maður kannski haft það af að þrífa hérna almennilega, komist kannski heila viku í skólann osfr. Maður verður svo mikill aumingi þegar svona ástand varir lengi lengi. Við máttum svosem vita að það kæmi að þessu þar sem við höfum ekki verið oft veik undanfarið ár.

MONT!

Hópurinn minn fékk svar, degi fyrr en búist var við og við fengum verkefni hjá….. (TROMMUSLÁTTUR)

GORM LARSEN & PARTNERS!

og bara fyrir þá sem ekki vita og nenna ekki að skoða heimasíðuna þeirra þá er þetta eitt stærsta og virstasta auglýsingafyrirtæki DK!

Spennandi tímar

Þessi önn snýst aðalega um samvinnu við alvöru fyrirtæki. Fyrsta vikan á önninni fer því í það að komast í tengsl við fyrirtæki. Í þessari viku hafa nokkur fyrirtæki komið í skólann og lýst því hvað þau eru að gera og hvað þau vilja að við gerum – sum hafa komið virkilega á óvart og önnur hafa valdið manni ótrúlegum vonbrigðum.

Við, í hópnum mínum (sem er ég, Michelle og Kirsten – Jeffrey og Morten fóru til Cumbria og eru þess vegna ekki memm lengur), erum búin að hafa samband við 5 fyrirtæki. 2 sem við höfum verulegan áhuga á, 2 sem gætu verið ok og 1 sem væri örugglega mjög áhugavert en er líka alveg rosalega mikil eftirspurn eftir (ætli það óski ekki amk helmingurinn af 4ðu önn eftir að komast að hjá þeim). Það jákvæða er að þessi 2 sem við höfum áhuga á eru þau einu sem hafa svarað okkur strax. Þau eru Startour og JDS-Architects, semsagt eitt gamalt og rótgróið ferðamálafyrirtæki (það stærsta í DK) og eitt ungt arkitektafyrirtæki í mikilli framsókn (hannar td nýja skýðahoppipallinn í Osló – Holmenkollen).

Vonandi kemur svo í ljós fyrir helgi, já eða um helgina, hvort við fáum annað þessara fyrirtækja. Það hljómar amk mjög spennandi, ekki bara að vera að vinna með alvöru fyrirtækjum, að vera að vinna með fyrirtækjum sem eru í alvörunni þekkt á sínum sviðum. Ef það, sem við gerum, er notað gæti það skilað sér í mjög góðum dæmi til að hafa á CV hjá sér.

Annars hvað varðar Hrafnkel þá fórum við með hann til læknis á þriðjudaginn. Hægra eyrað hjá honum var stokkbólgið og mjög rautt en það vinstra alveg fínt þar af leiðandi sagði læknirinn að þetta væri örugglega bakteríueyrnabólga (þar sem að vírusar vilja víst dreyfa sér meira og vera í báðum eyrunum, sérstaklega þar sem þetta var orðið frekar slæmt) og þess vegna fékk hann pensilín og verkjastíla. Pensilínið er auðvitað viðbjóðslega vont á bragðið, ég myndi segja eyrnamergur falinn í sykur-gerfi-ávaxtabragði. Við erum samt sammála um að hann verði að taka lyfið sitt því að það séu lítil skrímsli í eyranu sem vilji bara meiða eyrað og það bara þurfi lyfið til að drepa þessi skrímsli. Lyfið fer nefnilega úr mallanum og upp í eyrað og drepur skrímslin, það sé ekki nóg að berja sig í hausinn með Svampi Sveinssyni (bangsa) – hann er bara ekki skrímslabani. Þar fyrir utan eru smá verðlaun fyrir að vera duglegur að taka lyfið sitt.

Hann virðist reyndar ennþá finna til í eyranu og það er mjög viðkvæmt svo að hann fer ekkert í leikskólann fyrr en á mánudag. Þeir voru saman heima feðgarnir í dag, Hrafnkell segir að það hafi verið gaman en mér skilst á pabbanum að pjakkurinn hafi farið nokkrum sinnum fram til að “bíða eftir að mamma komi heim”. Ekki skrítið að barnið sé háð mér svosem.