Posts tagged: skóli

What to do, what to do?

Já þegar stórt er spurt…

Ég verð að fara að finna mér einhverja stefnu, eitthvað takmark. Það styttist og styttist í það að skólinn klárist og það væri betra að hafa einhver plön. Ég fann mjög spennandi mastersnám í Álaborgarháskóla (já nei, ég er ekkert að spá í að flytja út á landsbyen, þeir eru með útibú hérna í menningunni) þetta reyndar hljómar reyndar sem frekar krefjandi og jafnvel erfitt nám og ég veit ekki alveg hvort að minn bachelor myndi vera nóg sem grunnur en titillinn sem ég myndi fá á endanum væri Master of Science (MSc) in Engineering in Innovative Communication Technologies and Entrepreneurship – hljómar það ekki bara fancy?

En svo er það alltaf masterinn í ITU, sem gæfi mér titilinn cand. it i Digital design og kommunikation og það er ekki nærri því jafn fancy og þá þyrfti ég líka að fara að demba mér í dönskunám. Það er einhvernvegin ekki mjög heillandi að læra á dönsku og það er alls ekki víst að ég þætti nógu góð í dönsku til að mega byrja námið í febrúar.

Og svo er það alltaf spurningin um að reyna að finna sér vinnu, hér eða á Íslandi og þá þarf maður að flytja (hvort heldur sem er þá myndi ég þurfa að flytja, ég veit reyndar ekki hvað ég fengi langan tíma hérna eftir að ég útskrifast) og eiginlega eini kosturinn sem ég sé við það að aktually flytja (þá er ég bara að tala um flutning, ekki flutning á einhvern ákveðinn stað) er að ég myndi þá reyna einsog ég gæti að hafa sér herbergi fyrir gaurinn minn.

En hvar ætti maður svosem að finna vinnu? Það er hátt hlutfall atvinnuleysis á Íslandi og ennþá hærra hlutfall hérna. Ég er náttúrulega awesome og það væru allir heppnir að fá mig í vinnu – það er náttúrulega ekki spurning, en samt finnst mér bara hugmyndin um að leyta að vinnu ógeðslega óspennandi. (haha já ég hljóma æðislega) Fyrir utan að ef ég er að flytja til Íslands þá ætla ég ekkert að flytja á höfuðborgarsvæðið, þar sem er kannski mestar líkur á að ég fyndi vinnu í mínum geira, heldur myndi ég vilja vera töluvert mikið nær vinum og fjölskyldu (sorry Ragna, þú ert hvort eð er bara part-time á höfuðborgarsvæðinu).

Fyrir utan spurninguna um það hvar maður ætti að búa. Æi mér finnst ógeðslega óþægilegt að vera svona stefnulaus eitthvað, það er ekkert sem mig langar brjálæðislega til að gera, það er ekkert sem togar í mig meira en annað. Auðvitað langar mig heim en ég vil ekki koma heim ef það þýðir að ég muni búa í einu herbergi hjá mömmu og pabba og vera á atvinnuleysisbótum (sem ég btw. hef ekkert rétt á held ég).

Og svo er það alltaf spurningin um jólin, ég er nú nokkuð viss um að ég ætla að koma heim til Íslands en ég þarf að fara að díla við Þórð og reyna að sjá hvenær ég ætli að koma, hvað ég verði lengi og allt það.

fluga í hausnum….

Undanfarnar vikur hef ég mikið hugsað um framtíðina, skiljanlega myndi ég segja þar sem að framtíð minni var kollvarpað í byrjun desember. Ég hef sveiflast öfganna á milli, svona já eða þannig. Fyrst vildi ég bara komast heim til Íslands sem fyrst, ég vildi reyna bara að komast í praktík heima – helst á Akureyri – og umvefja mig öllu því frábæra fólki sem ég á (og ég á sko heilan helvítis helling af frábæru fólki, það er sko alveg pottþétt).

Núna er ég tvístígandi, mig langar heim – þar er fólkið mitt, þar hef ég öryggisnetið mitt, þar hef ég barnapössun sem ég get treyst á (og þar af leiðandi hugsanlega tækifæri til að eiga mér líf utan skóla og heimilis), þar hef ég býsna margt. Fyrir utan að þar hefur Hrafnkell ömmur sínar og afa, þar fær hann betra tækifæri til að læra íslenskuna betur (en að sama skapi væri hætta á að hann tapaði niður dönskunni og það væri alger synd).

En ég veit að ef ég flyt heim strax eftir námið hérna þá verður ekki hlaupið að því að fara aftur út í nám seinna meir. Ég get ekki rifið Hrafnkel upp og farið með hann heim til Íslands bara til að rífa hann upp þar og flytja aftur hingað (eða eitthvað annað) þegar það henntar mér. Einnig er alls ekki gáfulegt (að mínu mati) að vera “jójó-skólast” – það er ekki einsog ég hafi kall til að búa til vísitölufjölskyldu með mér heima á Íslandi og það væri heldur ekkert auðveldara að flytja þá fjölskyldu út aftur og ekki er neitt nám í boði á Íslandi sem að henntar mér (einsog stendur amk).

Þar fyrir utan þá má ég ekki flytja með Hrafnkel einsog mér sýnist meðan við Þórður erum með sameiginlegt forræði. Eins heimskulegt og það er þá má Þórður flytja til Japans þess vegna en ég má ekki flytja á milli landa með barnið hans án þess að fá leyfi frá honum. Þó að ég voni auðvitað að Þórður muni ekki vera með nein leiðindi þá veit maður aldrei fyrr en á reynir.

Svo að ég er farin að spá í að fara í master (heitir reyndar kandidat) hérna, eftir bachelorinn. Það yrðu 2 ár í viðbót, sem þýddi að þegar því lyki þá hefðum við Hrafnkell verið í 5 ár í Danmörku – hann myndi vera 2 ár í dönskum grunnskóla og í raun vera orðinn býsna fullorðinn þegar við gætum flutt aftur. Það er að mörgu að hyggja, ég þarf að fara á dönskunámskeið fyrst (sem ég er reyndar að spá í að gera hvort eð er, amk ef ég finn tímasetningar sem að ég get nýtt mér) og einnig þarf ég að athuga hvort að ég myndi geta haldið íbúðinni ef að ég útskrifast hérna í janúar en byrja svo ekki aftur í skóla fyrr en í ágúst – eða hvort að það sé hægt að byrja í þessu námi strax að loknum bachelornum. Mér finnst þetta nám, sem ég hef verið að skoða, mjög spennandi og það er gaman að skoða hvaða möguleika maður hefur. En engu að síður finnst mér samt eilítið hræðileg tilhugsun að vera hérna 2 árum lengur – sérstaklega þar sem mér finnst ég afskaplega ein eitthvað (ekki misskilja, ég á góða vini hérna líka en engu að síður finnst mér öryggisnetið mitt mjög þunnt).

En já það getur verið gaman að fá flugu í höfuðið ;-)

Sumarið að skýrast

Það lítur allt út fyrir að Doddi fari til Noregs (ef þeir hafa einhverja vinnu fyrir hann þar) í sumar, strax eftir prófið hans – sem er í byrjun júní – og ætli hann verði ekki þar nánast í allt sumar – komi rétt heim áður en hann fer svo aftur til Alexandríu í skólaferðalagið sitt. 

Ég er hinsvegar ekki búin fyrr en 26. júní, þegar ég útskrifast. Svo er stefnan að byrja aftur í skóla í haust, þó að ég viti nú þegar um 2 skóla sem ég fer ekki í, þó að ég viti í raun ekki um neinn skóla sem er búinn að segja já þá er það samt stefnan ennþá. Það má gera ráð fyrir því að sá skóli byrji í endanum á ágúst – sem þýðir 2 mánuðir í sumarfrí hjá mér.  Eða með öðrum orðum 8-9 vikur.

Sú krafa hefur komið frá leikskólanum hans Hrafnkels að hann sé í 3 vikur í samfelldu fríi í sumar. Eðlileg krafa, bæði er þetta viku minna en er krafist heima á Íslandi og þá veljum við alveg hvenær hann verður í fríi og hvenær ekki.

Þetta gerir 5-6 vikur í frí fyrir mig svo að það þarf ekki neinn snilling til að átta sig á því að ég fæ hvergi vinnu hérna í 5-6 vikur. Það tekur því ekki að þjálfa upp hálfótalandi starfsmann fyrir svona stuttan tíma. Þannig að ég get lítið gert annað en að setja inn smáauglýsingar hér og þar og óska eftir einhverjum verkefnum sem ég gæti hugsanlega unnið heima hjá mér í sumar. Ég er ekki bjartsýn á að það gangi vel en hvað getur maður annað gert? Það hjálpar aðeins til að ég held að ég ætti að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þetta sumarið þar sem að ég er að útskrifast úr dönskum skóla, það er amk eitthvað sem maður þarf að kanna. Eftir Noregsferð um jólin og svo Íslandsferð um páskana þá erum við ekkert að vaða í peningum, sérstaklega þar sem kom í ljós (eftir á) að fjárhagsáætlunin hafði leiðinlega áhrifaríka innsláttarvillu. Það vantaði nefnilega eitt núll í húsaleiguna og þó að núll sé bara núll þá munaði ótrúlega um það hvort að húsaleigan sé 10 þús eða 100 þús á mánuði. En þetta reddast, það gerir það alltaf.

En vegna þess að við þurfum að ákveða hvaða 3 vikur Hrafnkell á að vera í fríi þá væri gaman að heyra hvort að einhverjir séu með einhver heimsóknarplön í sumar? 

En já aftur að skólapælingum. Það beið mín umslag frá einum skólanum þegar ég kom heim frá Íslandi. Í því var ég beðin um að koma í inntökupróf nokkrum dögum áður – þar með var einn skóli farinn. Svo fékk ég email um daginn þar sem mér var tilkynnt að ég hefði ekki komist inn í inntökuprófið í Mediehojskolen. Það merkilega við það var að ég þekki þó nokkra sem sóttu um og það voru bara danir sem komust áfram í inntökuprófið og ég veit með vissu að nokkrir af þessum dönum eru slakari en nokkrir af útlendingunum. Eiginlega efast ég ekki, þegar ég sé hverjir komust áfram og hverjir ekki, um það að málið var einfaldlega það að þeir voru ekki að leita að útlendingum – en það hefði verið gott að vita það áður en maður eyddi lööööngum hluta af páskafríinu í að vinna að inntökuverkefninu.

Komin heim

Við erum komin heim, fimmtudagurinn gékk fáránlega vel. Svo vel að ég sat um miðjan dag í eldhúsinu mínu og hugsaði hvað í andskotanum ég væri að gleyma að gera því að ég gæti bara ekki verið tilbúin.

En við semsagt flugum um kvöldið, keyrðum svo beint á Akureyrina og allt gékk einsog í sögu. Síðan þá erum við búin að kíkja í teiginn, eiga mjög góðan dag þar, koma á Akureyri og fara í afmælisveislu og bara almennt séð hafa það rosalega gott.

Það er mjög velkomið að geta slakað aðeins á eftir frekar stressaðar vikur í skólanum. Á morgun þarf maður samt að fara að vinna aðeins í verkefnum en það er ekki í dag heldur á morgun ;-)

Að lifa lífinu hættulega ;-)

Í kvöld lifi ég lífinu hættulega. Ég ákvað, algerlega óvænt, að skoða atvinnuauglýsingar og skellti saman pdf útgáfu af ferilskránni minni og barasta sótti um á 3 stöðum. Ég veit varla hvað mér finnst um sjálfa mig, það er ekki líkt mér að taka svona skyndiákvarðanir. En það fer víst að líða að sumri, það fer líka að líða að útskrift og satt best að segja þá neyðist maður til að hugsa aðeins um framtíðina. Hvort sem ég fer í skóla eða ekki í haust þá þyrfti ég helst að fá einhverja sumarvinnu – þó að Hrafnkell þurfi örugglega að fara í sumarfrí í leikskólanum (þó maður viti ekki hvernig það passar saman við nýjar vinnur, já eða að sækja um vinnu yfirleitt) – já eða framtíðarvinnu. En mikið rosalega vildi ég óska að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu. Það er líka spuring um það hvað Doddi gerir í sumarfríinu sínu, hann verður víst búinn snemma í júní (en ég ekki fyrr en undir lok júní) og verður því í þokkalegu sumarfríi. Það eru, því miður, mjög takmarkaðar líkur á því að hann gæti fengið vinnu hérna annað hvort sem smiður eða tengda náminu – þetta eru einmitt þau störf sem að standa verst hérna einsog á svo mörgum öðrum stöðum. Mig hryllir þó við tilhugsuninni um að vera kannski 2- 2 1/2 mánuð Doddalaus, ef að hann þarf að fara eitthvert í burtu til að fá vinnu, hann er nefnilega alveg ágætur ;-)

En hvernig sem allt fer þá var ég dugleg í kvöld.