Posts tagged: Ragna

What to do, what to do?

Já þegar stórt er spurt…

Ég verð að fara að finna mér einhverja stefnu, eitthvað takmark. Það styttist og styttist í það að skólinn klárist og það væri betra að hafa einhver plön. Ég fann mjög spennandi mastersnám í Álaborgarháskóla (já nei, ég er ekkert að spá í að flytja út á landsbyen, þeir eru með útibú hérna í menningunni) þetta reyndar hljómar reyndar sem frekar krefjandi og jafnvel erfitt nám og ég veit ekki alveg hvort að minn bachelor myndi vera nóg sem grunnur en titillinn sem ég myndi fá á endanum væri Master of Science (MSc) in Engineering in Innovative Communication Technologies and Entrepreneurship – hljómar það ekki bara fancy?

En svo er það alltaf masterinn í ITU, sem gæfi mér titilinn cand. it i Digital design og kommunikation og það er ekki nærri því jafn fancy og þá þyrfti ég líka að fara að demba mér í dönskunám. Það er einhvernvegin ekki mjög heillandi að læra á dönsku og það er alls ekki víst að ég þætti nógu góð í dönsku til að mega byrja námið í febrúar.

Og svo er það alltaf spurningin um að reyna að finna sér vinnu, hér eða á Íslandi og þá þarf maður að flytja (hvort heldur sem er þá myndi ég þurfa að flytja, ég veit reyndar ekki hvað ég fengi langan tíma hérna eftir að ég útskrifast) og eiginlega eini kosturinn sem ég sé við það að aktually flytja (þá er ég bara að tala um flutning, ekki flutning á einhvern ákveðinn stað) er að ég myndi þá reyna einsog ég gæti að hafa sér herbergi fyrir gaurinn minn.

En hvar ætti maður svosem að finna vinnu? Það er hátt hlutfall atvinnuleysis á Íslandi og ennþá hærra hlutfall hérna. Ég er náttúrulega awesome og það væru allir heppnir að fá mig í vinnu – það er náttúrulega ekki spurning, en samt finnst mér bara hugmyndin um að leyta að vinnu ógeðslega óspennandi. (haha já ég hljóma æðislega) Fyrir utan að ef ég er að flytja til Íslands þá ætla ég ekkert að flytja á höfuðborgarsvæðið, þar sem er kannski mestar líkur á að ég fyndi vinnu í mínum geira, heldur myndi ég vilja vera töluvert mikið nær vinum og fjölskyldu (sorry Ragna, þú ert hvort eð er bara part-time á höfuðborgarsvæðinu).

Fyrir utan spurninguna um það hvar maður ætti að búa. Æi mér finnst ógeðslega óþægilegt að vera svona stefnulaus eitthvað, það er ekkert sem mig langar brjálæðislega til að gera, það er ekkert sem togar í mig meira en annað. Auðvitað langar mig heim en ég vil ekki koma heim ef það þýðir að ég muni búa í einu herbergi hjá mömmu og pabba og vera á atvinnuleysisbótum (sem ég btw. hef ekkert rétt á held ég).

Og svo er það alltaf spurningin um jólin, ég er nú nokkuð viss um að ég ætla að koma heim til Íslands en ég þarf að fara að díla við Þórð og reyna að sjá hvenær ég ætli að koma, hvað ég verði lengi og allt það.

Draumur um kaffigerð…

Mig dreymdi að ég var heima í Hrísateignum og Ragna kom heim með lúkufylli af kaffibaunum, nú skyldum við sko mala og gera okkar eigið kaffi! Við náðum okkur í duplo-kubba, skiptum baununum í tvennt og hófumst handa. 2-3 baunir varð að nota til að gera kaffið, restina þurfti að nota til að kveikja upp undir eldinum.
Við náðum okkur í sand (nota bene við lenntum stundum í veseni og fengum þá góða hjálp frá pabba gamla hehe) og settum hrúgu af sandi á pallinn – það var til þess að verja hann fyrir eldskemmdum. Ofan á sandinn settum við baunirnar sem voru til að kveikja upp með. Svo kubbuðum við stóran ramma (já eða bara svona öfugt U) til að hengja pottinn með kaffinu í. Í pottinn settum við mjólk og þessar 2-3 baunir – alveg fínmalaðar svo að maður fyndi ekki fyrir þeim þegar maður drykki kaffið. Pabbi bennti okkur svo á að við yrðum að fara rosalega varlega þar sem að ramminn okkar var ekki nógu hár og kubbarnir voru að bráðna og héngu eiginlega bara saman á klósettpappírnum (??? sem ég mundi ekki eftir að hafa notað en gerði ráð fyrir að væri styrking).
Þegar þetta var búið að sjóða þar til að mjólkin var orðin svolítið þykk þá var kominn tími til að setja vatnið. Við settum slatta af vatni og hrærðum og hrærðum en einhvernvegin breyttist þetta ekki í kaffi.

Needless to say þá urðum við Ragna fyrir miklum vonbrigðum, en þökkuðum þó fyrir það að við drekkum ekki kaffi hvort eð er. Það sem verra var að alltíeinu var Villi Jr, frændi okkar, OG hluti af ljótu hálfvitunum (Oddur, Toggi, Eddi og Ármann) og voru að gera grín af okkur og það var extra sárt því að við áttuðum okkur þá á því að við vorum bara í elstu bekkjum grunnskóla (sem er merkilegt að við höfum báðar náð að vera á sama tíma). Pabbi hló líka að okkur en hann hafði samt hjálpað okkur mikið og verið í hálfgerði verkstjórn.

Smá aukasaga, sem var í gagni í bakgrunninum, var að mamma fann leið til að láta Hrafnkel leika sér meira að strákadóti – málið var að hafa nóg pláss fyrir hann og nógu ógeðslega mikið af dóti og dreifa því vel. Btw. Hrafnkell var örugglega bara í kringum eins árs og já mamma var ógeðslega ánægð með sig.

Þetta var semsagt frekar pirrandi draumur, og fáránlega mikið af smáatriðum sem ég man. Ég svosem efast um að hann hafi mikla merkingu, þannig lagað. Nema að stundum er erfitt að vera til, sérstaklega þegar manni finnst maður vera lítill og allir hlæja að manni. heheheh

Orðin 27 og alveg að koma nýtt ár

26 ára afmælisdagurinn minn var ekki skemmtilegur. Mest allur dagurinn fór í sjálfsvorkun yfir því að vera föst í einhverjum útnára án vina og fjölskyldu svo hjálpaði ekki til að kvöldmaturinn voru pylsur og eitthvað álíka rusl. Ég var sár og leið því að þó að 26 ára sé ekki merkilegt afmæli þá ætti afmælisdagurinn manns alltaf að vera sérstakur að einhverju leiti. 26 ára afmælisdagurinn minn var bara sérstaklega leiðinlegur.

27 ára afmælisdagurinn minn var rólegur en góður. Hrafnkell kom upp í til okkar Rögnu og horfði á teiknimyndir, heimtaði svo að ég bakaði köku þegar hann fattaði að það væri afmælið mitt. Ég sofnaði aftur og dreymdi langan og ruglingslegan draum þar sem að aðalatriðið var að Ragnar afi sagði að Hrafnkell yrði yfir 100 ára gamall. Svo fór mestur dagurinn í leti, ég fór í sturtu og dúllaði mér við að gera mig pínu fína meðan mamma og pabbi elduðu dýrindis lambahrygg, meðlæti og svo súkkulaðimús fyrir eftirmatinn. Ég fékk 2 pakka, annarsvegar dagbók frá Hrafnhildi og hinsvegar peysu frá mömmu og pabba. Ég eyddi smá hluta af deginum í að hugsa hvað það væri gaman ef maður hefði einhverja vini hjá sér til að djamma mér en ákvað svo að ég myndi bara djamma með þeim seinna.

Árið 2009 hefur verið skrítið. Það byrjaði með því að ég fór í 2 próf og fékk góðar einkunnir, svo tók við 4. og seinasta önnin í KTS. Sú önn var eiginlega ekkert nema vesen og leiðindi, samstarfið í hópnum mínum gékk ekki mjög vel (ég og önnur stelpa áttum ekki vel saman) og einnig var fyrirtækið sem við unnum með alveg hrikalega erfitt í samstarfi.

Við fórum til Íslands um páskana, sú ferð átti sína kosti og galla. Valdís og Tryggvi eignuðust “lítinn” strák, ég átti góðar stundir með vinum og fjölskyldu – en það voru líka neikvæð atriði (sem ég ætla ekkert að velta mér uppúr hérna).

Um sumarið útskrifaðist ég og það hefði sko getað verið frábær tími í mínu lífi ef að Doddi hefði ekki verið farinn til Noregs til að vinna svo að ég var ein og yfirgefin með Hrafnkel og hafði ekki tækifæri til að taka þátt í félagslífinu að neinni alvöru. Til þess að geta tekið þátt í sjálfri útskriftinni þurfti ég að standa í hellingsveseni við að koma Hrafnkeli í pössun – en það hafðist allt. Ég útskrifaðist og stuttu seinna fórum við Hrafnkell til Íslands. Á Íslandi áttum við góðan tíma í góðu veðri og með góðu fólki, við gerðum margt en þó var margt fleira sem við hefðum viljað gera.

Í haust var svo mikil óvissa þar sem að ég komst ekki strax inn í skólann minn, ég fékk ekki endanlegt svar um inngöngu fyrr en daginn sem skólinn byrjaði. Það var mikill léttir að komast inn í skólann, þar sem að það er meira en að segja það að fá vinnu einhverstaðar í danmörku þessa dagana. Gallinn við skólann er þó hvað hann er langt í burtu.

Skólinn gékk bara nokkuð vel framan af þrátt fyrir að námsefnið væri þurrt og já eiginlega frekar leiðinlegt. En síðan hefur bæði lífið og skólinn verið mjög erfitt síðan í miðjum nóvember. Þórður ákvað að fara frá mér og ég komst að því að ég er (mjög líklega) með pcos. Tíminn hefur farið í að halda haus, komast fram úr rúminu á morgnanna og rembast við að einbeita sér að skólanum til þess að eiga möguleika á að fá að taka próf í janúar. Ég er ennþá sár, reið og varla búin að átta mig á þessu. Það var þó ekki fyrr en mamma, pabba og Ragna voru komin til okkar og ég var búin að skila inn verkefninu sem að raunveruleikinn helltist yfir mig aftur. Jólin voru góð, einsgóð og þau gátu verið miðað við kringumstæður – en þau voru samt pínu erfið.

Þannig að í minningunni þá var árið 2009 bæði gott og vont, vondu punktarnir skyggja þó á góðu punktana. Mér finnst pínu einsog allt sem gat farið til fjandans hafi farið til fjandans.

Það tímabil sem tekur við núna verður örugglega erfitt en gefandi. Ég er sannfærð um að ég mun enda með meira en ég byrja með, ég er sannfærð um að ég mun vera hamingjusamari að ári en ég er núna. Ég er sannfærð um að árið 2010 verður mér betra en 2009. En fyrst þarf ég að komast í gegnum prófin og einnig að fá Þórð til að gera upp öll okkar mál, því fyrr sem við gerum þau upp því fyrr getum við haldið áfram með lífið. Þó að mér þyki vænt um hann, þó að ég óski honum alls hins besta í lífinu og þó að ég hafi einhverjar vonir um að við getum verið vinir í framtíðinni þá held ég að það væri best fyrir alla að koma öllum málum á hreint.

Í mínum huga er árið 2010 ár uppbyggingar og sjálfsþekkingar. Núna er tíminn til að kynnast sjálfum sér aftur og verða sterkari einstaklingur fyrir vikið.

… einn dagur í einu

Ég hef ákveðið að ég vil hafa allt uppi á borðinu, ég ætla að blogga um það hvernig mér líður og hvernig mér gengur. Ég hef eytt of löngum tíma í að þykjast að allt sé í lagi, hef forðast að tala við vini mína og fjölskyldu þegar hlutirnir hafa verið erfiðir og ég nenni því ekki lengur. Það er ekki í eðli mínu að vera óheiðarleg, sumir myndu eiginlega frekar segja að ég væri óþægilega hreinskilin (brutally honest) og ég held hreinlega að það fari mér betur.

Þegar ég var lítil þá var ég alltaf að gera eitthvað af mér og þegar einhver kom að mér þá var ég ævinlega búin að upplýsa þann hinn sama um allt sem ég hafði gert áður en nokkur hafði grunað mig um eitt eða neitt.

En já, til að koma í veg fyrir misskilning, ég fór til læknis í gær til að fá niðurstöður úr blóðprufum. Málið er ekki að ég hafi haldið að ég væri ólétt heldur var ég hjá lækninum vegna annarra vandræða. Niðurstöðurnar úr blóðprufunum sýndu að ég er með töluvert of mikið magn af testósteróni í líkamanum og það bendir til þess að ég sé með PCOS eða fjölblöðrueggjastokka heilkenni. Til þess að fá staðfestingu á þessari greiningu þarf ég að fara til kvennsjúkdómalæknis, sem mun sennilega spyrja mig fjölda spurninga um hitt og þetta sem og gera ómskoðun á eggjastokkunum mínum. Þar sem að þetta er heilkenni þá er þetta ekki læknanlegt en það er hægt að halda þessu niðri með bæði lyfjum og því að koma sér í form (haha er það ekki hvort eð er svarið við öllu þegar of feitir fara til læknis?).

Ég hef fengið ótal margar kveðjur  frá óendanlega mörgu fólki og það virðast allir boðnir og búnir til að gera hvað sem er til að láta mér líða betur. Það er ótrúlegt hvað það er gott að finna svona mikinn stuðning, finna það hvað maður er rosalega heppinn að eiga svona gott fólk útum allt. Það hjálpar mikið, þá er maður ekki jafn mikið einn eitthvað.

Mér líður miklu betur í dag en í gær og betur í gær en í fyrradag og á morgun ætla ég að dýfa mér í lærdóm – guð veit að þörf er á. Það hjálpar líka að ég náði að sofa vel í nótt (þrátt fyrir pirrandi draumfarir) og svo náði ég að borða svolítið í dag.

Ég er byrjuð að móta með mér skoðanir á því hvað ég ætla að gera næst því að núna get ég virkilega gert það sem ég vil gera og þarf bara að sjá til þess að Hrafnkell passi inní þá mynd og satt best að segja þá er pínu notalegt að hugsa bara um eigins rassgat til tilbreytingar. Það er alveg kominn tími til að vera svolítið sjálfselskur held ég.

Já og auðvitað eitt það mikilvægasta! Mamma, pabbi og Ragna ætla að vera svo yndisleg að koma til okkar Hrafnkels 20. desember og vera með okkur yfir jólin og áramótin :-) Ég er strax farin að hlakka til

…og einsog Helga María sagði: heitustu mömmurnar eru einstæðar… ;-)

allir saman nú, einn – tveir – þrír…

Jæja það fer að líða að því að við skreppum í ofurverslunarferð til úgglanda (Malmö hehe) svo að það er ekki seinna vænna fyrir ykkur að byrja að spá í óskalistanum fyrir jólin. Núna, þessi jólin, er planið að vera svolítið hagsýnn og fara til ódýrari landa í verslunarleiðangur. Þungir og stórir hlutir eru ekki jafn vinsælir og litlir og léttir hlutir – en þó er allt tekið til greina.

Annað í fréttum er að þar sem að syninum var bannað að segja fullorðinsorðin (andskotans, helvítis, fjandans ofl í þeim dúr) að þá fáum við ekki heldur að segja fullorðinsorðin. Hann er líka gáttaður yfir því hvað okkur (sérstaklega mömmunni) gengur illa að muna það að maður má ekki segja þessi orð. Þar sem að við höfum verið agalega léleg í trúarlegu uppeldi sonarins er þó erfitt að útskýra fyrir honum af hvað þessi orð þýða og af hverju þau eru ljót. Æði oft er maður skammaður fyrir að segja eitthvað allt annað vegna þess að einræðisherranum misheyrist oft þegar hann er 75% á kafi í einhverjum leik en aðeins 25% að fylgjast með orðalagi foreldra sinna. Ég held að eina skiptið sem ég komst upp með að blóta all hressilega var í gær þegar ég brenndi mig við að taka franskar út úr ofninum, missti plötuna í kjölfarið og það flugu franskar útum allt (og auðvitað voru töluverð læti í þokkabót), ég er sannfærð að í gegnum sársaukann tvinnaði ég saman nokkur misfalleg orð. Sem betur fer var bruninn ekki alvarlegur og rosalega fljótur að jafna sig (þumall).

Annað markvert í fréttum er að það “snjóaði” fyrsta snjónum hérna í gær. Kom eitthvað hallærislegt fjúk, mini snjókorn, sem að bráðnuðu áður en þau komu við jörð. Hrafnkell var yfir sig hamingjusamur yfir þessu – sennilega eini Kaupmannahafnarbúinn sem var svona kátur reyndar.

Annars gerist ekki margt. Við hóstum hérna í kór, sjúgum upp í nef og snýtum okkur – mjög geðsleg fjölskyldan. Hrafnkell er þó ekkert slappur (og í raun minnst kvefaður) og ég vil meina að Doddi hafi það ekki jafn skítt og ég… Spurning hvort að hann sé sammála. Næturnar eru jafn yndislegar, ég skríð yfirleitt frekar snemma upp í rúm, svo þegar Doddi kemur þá getur hann annað hvort ekki sofnað útaf hrotunum í mér eða hóstanum í sér. Sjálf vakna ég óteljandi oft á nóttu, geri ráð fyrir að hroturnar í mér eða hósti sé orsökin.

Einsog Rögnu þá hefur mig dreymt ýmislegt undanfarið, man minnst af því nákvæmlega núna en oftast þegar ég vakna þá á ég eitthvað eftir “óklárað”. Eitt sem ég man þó er að um daginn þá þurfti ég að prjóna brúðarkjól, það var mikið stress og ég var sko ekki ein að prjóna kjólinn – en ég var þó yfir verkinu. Hinar prjónakonurnar voru alveg glataðar og nánast engin hjálp í þeim. Þar að auki vorum við ekki með neina uppskrift og við byrjuðum á faldinum – ég var alveg viss um að það væru mistök. Anyway það gekk illa að prjóna þennan kjól.

En nóg komið af blaðri

oh shit

Ég fattaði það í morgun að ég þarf að undirbúa og græja allar mögulegar skólaumsóknir fyrir helgi. Þar sem þær eiga að vera komnar í viðeigandi hús, með viðeigandi við hengjum, á sunnudag þá er einsgott að hafa þetta tilbúið í póst á miðvikudag – ekki nema að ég stefni að því að keyra þetta sjálf út á föstudag því að ég treysti póstinum hérna ekki fyrir fimm aura til að skila þessu án þess að hafa nógan tíma.

Vandamálið er að ég er eiginlega ekki búin að ákveða hvað ég vil gera. Mig langar, td, mjög mikið til að fara í Grafíska hönnun en það þýðir samt 3,5 ár í viðbót og ég er ekki viss um að ég nenni því fyrir batchelorgráðu sem er ekki svo mikils virði á Íslandi (það er sko alveg nóg af grafískum hönnuðum á Íslandi og þar fyrir utan er þetta lúxusvara og ef kreppan er jafn hræðileg og hún er þá gæti það sko vel komið niður á starfi grafískra hönnuða). Svo eru 2 top-up gráður í boði, það þýðir að með því að vera 1,5 ár í viðbót gæti ég náð mér í Batchelor en þó í fögum sem ég hef ekki alveg jafn mikinn áhuga á og Grafísku hönnunninni – en reyndar þá eru þær batchelorgráður (amk önnur þeirra) miklu betur nýtanleg á Íslandi og báðar bjóða upp á víðari starfsgrundvöll en grafíska hönnunin.

En hvað sem verður þá ætla ég að sækja um þetta allt, ég hef þá alltaf möguleikann að hafna náminu ef  ég kemst inn. Ég vil nefnilega frekar sækja um þetta allt og hafa möguleikann á því að segja bara nei, en að sækja ekki um þetta og a) vita ekki hvort ég hefði komist inn yfirleitt og b) sjá kannski eftir möguleikanum.

Núna vona ég bara að skjölin komi bráðum frá Rögnu (staðfestingar á námi mínu í VMA).

Smá annáll

Það er varla að ég muni hvað gerðist á árinu 2008 :-/

Við vorum heima á Íslandi um seinustu áramót, komum svo heim til Köben til þess að fara í próf. Mér gékk mjög vel í prófinu mínu, en það var engin einkunn gefin í það skiptið.  Svo eftir prófin keyrðum við uppeftir til Balestrand, Noregi, til að heimsækja Ödda og Birnu. Það gékk ekki betur en svo að við þurftum að gista 2 nætur hjá Helgu Maríu og Sverri í Geilo (sem er mjög kósí skíðabær) vegna leti Noregsmanna við mokstur (já eða amk þá voru öll fjöll stengt og ekkert hægt að komast). Þar af leiðandi tók ferðalagið alltof langan tíma og heimsóknin fékk of stuttan tíma, maður var varla kominn þegar kominn var tími til að fara til baka. Hrafnkell sannaði þá, enn og aftur, að hann er draumabarn þegar kemur að ferðalögum, rólegur og nægjusamur.

Þegar heim var komið þá tók bara við skólinn aftur. Við vorum öll heilsuhraust (ólíkt haustönninni þar á undan) en engu að síður var rútínan okkar ekki alveg nógu góð vegna alls konar fría og vesena. Það liðu margar vikur án þess að Hrafnkell væri heila viku í Vuggestuen.Við fjölguðum í fjölskyldunni og komum upp ferskvatnsfiskabúri.

Við höfum fengið margar heimsóknir á þessu ári, flestar þó rétt fyrir verkefnaskil hjá Dodda svo að fólk hefur meira verið að heimsækja mig og Hrafnkel. Mamma, pabbi og Ragna komu um páskana, fengu að upplifa Kaupmannahafnískan vetur og kulda. Í lok apríl komu svo tengdó að heimsækja okkur, svo kom Hrafnhildur í miðjum maí og upplifði geggjað sumarveður. Næst var Valdís á ferðinni, seinni partinn í júní, kom með þrumum og eldingum. Hulda og Lára (Öddadóttir) komu í heimsókn fyrri partinn í júlí, kíktu í Tívolí og fleira. Mánaðamótin september-október komu Hjödda og Bjössi aftur í heimsókn en í þetta skiptið komu þau líka með Margréti og Hrein með sér, en það eru amma og afi Dodda.

Við ætluðum að vera hérna í sumar og reyna að finna okkur vinnu en það gékk ekki mjög vel, enda erum við illa talandi útlendingar með stutt sumarfrí. Það fór svo þannig að Doddi rauk uppeftir til Ödda til að vinna sem smiður. Ég og Hrafnkell skældum okkur til Íslands, þar sem við vorum uppá náð og miskunn mömmu og pabba. Hrafnkell naut þess að umgangast ættmenni sín, bætti íslenskuna sína mikið og hafði það almennt mjög gott á meðan ég naut þess að geta (amk stundum) sofið aðeins meira frameftir en venjulega, ég naut þess líka að komast aðeins barnlaus og kalllaus til eyja með vinum mínum (það hefði samt verið alltílagi að vera með Dodda með sér) en annars gerði ég ekkert. Hrafnkell sannaði enn og aftur að hann er draumaferðafélagi, var rólegur þegar mamman fékk smá panikk yfir flugmiðanum á leiðinni til Íslands, var rólegur í flugvélinni þrátt fyrir mikið og langt ferðalag. Á ferðalögum er Hrafnkell nefnilega bæði rólegur og skemmtilegur (oftast amk) og það er allt sem maður getur beðið um hjá 2-3 ára gömlu barni.

Það var aftur brotist inní bílinn okkar, núna var meira skemmt heldur en stolið – en þetta er svosem hluti af því að búa í mjög rólegu hverfi í stórborg. Því miður var það ekki það eina sem var stolið, Doddi varð fyrir nokkrum vasaþjófum (einstaklega óheppinn á djamminu) og svo var hjólinu hans stolið. Einnig tókst Dodda að tína (eða láta stela af sér) peningaveskinu, sem betur fer var ekki mikill peningur í því en verra var að glata greiðslukortum ofl svoleiðis.

Ég fór til Berlínar í Október, með bekknum mínum. Það var mjög gaman, góð tilbreyting frá hinu daglega lífi. Já og Doddi fékk sér mús (sem er skaðræðiskvikindi). Já og Hrafnkell fluttist úr Vuggestue yfir í Börnehave í sumar, enda orðinn stór strákur.

Svo fórum við til Noregs til að halda jólin, þar sem að Hrafnkell sannaði það enn og aftur að hann er frábær á ferðalagi (haha ég get ekki sagt þetta of oft ;-) ).

Árið 2009 er óskipulagt að miklu leiti. Ég útskrifast í vor og þarf því að fara að ákveða hvað ég vil gera, mig langar til að læra meira – sérhæfa mig meira þar sem að þetta nám finnst mér vera of víðtækt og ekki nógu nákvæmt. Ég hef verið að skoða hvort og hvaða möguleika maður hefur á fjarnámi, en því miður eru þeir ekki fjölbreyttir – amk ef maður ætlar að læra á Íslandi. Ég vil frekar halda áfram að læra núna, halda áfram að læra, heldur en að stoppa og fara að vinna og eiga kannski erfiðara með að halda áfram að læra seinna. Þar fyrir utan er mikill samdráttur í atvinnulífinu hérna í Kaupmannahöfn alveg einsog á Íslandi, kannski ekki miklar draumavinnur í boði fyrir útlending einsog mig – sérstaklega þegar maður er að reyna að troða sér inní geira sem tilheyrir algerlega lúxus og munaði. Þá er kannski betra að vera í skóla á meðan heimskreppan jafnar sig aðeins. Ég verð líka að viðurkenna að þessa dagana þá þjáist ég af heimþrá, í fyrsta skiptið síðan við fluttum út langar mig mikið til að pakka saman og flytja heim. En ég vil samt ekki flytja heim í ekkert, enga vinnu, enga peninga, ekkert heimili – ég vil vinna lottó fyrst ;-)

The Secret Dreamworld of a Shopaholic – fyrsta jólabókin

front page of the book The secret dreamworld of a shopaholic

front page of the book The secret dreamworld of a shopaholic

Ég er búin að lesa fyrstu bókina í jólabókaflóðinu (hehe þvílíkt flóð, alveg 4 bækur – en anywho) og það var þessi bók, sem ég fékk frá Rögnu systur. Ég hef í þónokkurn tíma haft augastað á þessari bókaseríu en aldrei komið mér í það að lesa bækurnar.

Bókin var alveg einsog ég ímyndaði mér, þetta er svona léttlestrarafþreying fyrir stelpur. Það sem gerði þessa bók aðeins öðruvísi en flestar svoleiðis bækur er sú staðreynd að aðalsöguhetjan er algerlega óþolandi, ég gat varla með nokkru móti náð því hversu vitlaus hún er. Það skánaði þó í endan þegar rættist aðeins úr henni og fjárhagnum – en shit hvað ein manneskja á að geta verið vitlaus og erfið.

Þessi bók er ágætis lesning, afþreyingarbók… Takk fyrir mig ;-)