Posts tagged: pcos

Kolvetni eru ekki það sama og kolvetni

Undanfarna daga hef ég verið dugleg við að lesa mér til um hinn nýja lífsstíl sem ég á víst að koma mér upp (ég hef meira að segja reynt að fylgja þessu líka, svona aðeins). Þar sem að pcos er efnaskiptavandamál – fyrst og fremst (það er grunnvandamálið, hin vandamálin hlaðast svo ofan á það) – sem að dílar við það hvernig líkaminn vinnur úr kolvetnum og leiðir oft á tíðum til þess að viðkomandi fái sykursýki 2 þá þarf ég eiginlega, þrátt fyrir að vera ekki með sykursýki (ennþá), að hugsa einsog ég sé með sykursýki. Ég þarf líka að léttast, en með því að breyta kolvetnainntöku minni þá ætti ég að ná að breyta því hvernig líkaminn bregst við þeim (fá hann til að hætta að senda endalaus “ég er svo svangur” og “mig vantar meiri sykur” skilaboð til heilans og actually nota þau kolvetni sem eru étin) og það ætti svo að leiða til þess að ég gæti hugsanlega grennst.

En þar sem að líkaminn þarf að fá kolvetni, ráðlagður dagsskammtur breytist ekkert þó að maður þoli ekki að éta viðkomandi efni. Líkaminn myndi ekki bregðast vel við því ef maður hætti bara að borða kolvetni en hann er að bregðast illa við því að maður borði kolvetni… hmmm þetta virðist vera hálfgerð klemma.

Sem betur fer er kolvetni ekki það sama og kolvetni, sum kolvetni troðast inn í blóðið á methraða svo að maður kemst í smá sugar-high og hrynur svo niður aftur (og í mínu tilfelli verður svengri og langar í meiri sykur en nokkurntíman fyrr) en önnur kolvetni sogast bara aðeins út í blóðið í maganum og svo pínu meira í þörmunum osfr. þau eru svona langtíma-fix. Maður kemst ekki jafn hátt en maður nýtur þess lengur. Það eru þau kolvetni sem að ég á að borða. Það sem að ég á að leita eftir eru semsagt matvörur sem eru með lágt GI (Glycemic Index) því að því lægra sem það er þeim mun lengri tíma er líkaminn að vinna úr kolvetnunum. Því miður er þetta GI ekki skrifað utan á umbúðir, amk ekki hér, þó mér skiljist að það sé farið að vera algengara og algengara í BNA að þetta sé skráð. Einnig getur fæða verið með mjög lágt GI en samt verið með mikið af kaloríum, þar sem að við fáum víst kaloríur úr fleiru en bara kolvetnum.

Síðan ég byrjaði að lesa um þetta þá hef ég séð óteljandi uppskriftir af einhverju jukki sem er alls ekki spennandi – jebb það virðist vera að öll bragðgóðu kolvetnin séu þau sem að eru með hátt GI og þess vegna ætla ég að reyna að safna saman einhverjum uppskriftum hérna (lofa engu samt) sem eru bragðgóðar, helst lágar í kaloríum (en háar í vítamínum, steinefnum og svoleiðis drasli) og með meðal eða lágt GI.

pcos – fjölblöðrueggjastokka heilkenni

Ég fór loksins að hitta kvennsjúkdómalækni, hitti ósköp indælan eldri mann, eftir 2,5 mánaða bið. Við byrjuðum á að ræða söguna mína, getnaðarvarnir og svo hvernig Hrafnkell kom til osfr. síðan skoðaði hann eggjastokkana mína. Þeir voru, eiginlega einsog við mátti búast, dæmigerðir fyrir konu með pcos og þar með uppfylli ég 2 (af 3) af þeim skilyrðum sem eru fyrir  pcos. Ég er bæði með töluvert of hátt magn karlhormóna (sem eiginlega þýðir að ég er tifandi hormónasprengja þar sem að líkamsvöxtur minn og frjósemi (stundaglas en ekki epli einsog flestar pcos konur eru) bendir til að ég sé líka með hátt magn kvennhormóna í gangi) og svo þessar fínu blöðrur.

Þar sem að ég hef ekki góða reynslu af þeim getnaðarvarnarpillum sem oftast eru notaðar til að sporna gegn karlhormónunum (amk hjá konum sem eru ekki að reyna að eignast börn) þá vildi læknirinn ekki setja mig á þær, amk ekki strax. Í staðinn þarf ég að fara í fleiri blóðprufur (ætla að reyna að komast á miðvikudag – annars þarf ég að bíða í mánuð þar sem ég verð að fara fyrstu 5 daga tíðarhringsins) og ef þær benda til þess að innyflin mín þoli sykursýkislyf þá mun ég fá þau. Sykursýkislyfin ættu nefnilega að koma jafnvægi á insúlínið (hluti af pcos er að maður fær insúlínónæmi, sem þýðir að líkaminn framleiðir insúlín og setur það í blóðið en vöðvarnir taka það ekki upp þannig að það er bara alltof mikið af insúlíni fljótandi þarna um) og það ætti að draga úr sykurlöngun og bæta orkuleysið (letina) sem hrjáir mig. Þetta aukna insúlín veldur því síðan að ég framleiði enn meira af karlhormónum svo að það er eiginlega vítahringur sem er þar í gangi.

Þar fyrir utan þarf ég að læra að borða upp á nýtt – kolvetni eru víst eitur fyrir mig svo að ég þarf að endurhugsa mataræðið töluvert held ég (sem er gott mál, það hefur ekki verið beint gáfulegt undanfarið). Og þar fyrir utan sagði læknirinn að ég ætti að fara í spinning (sem ég mun reyndar ekki gera, ökklarnir mínir þola ekki spinning) eða eitthvað álíka amk 3x í viku.

En þrátt fyrir að það sé ekkert æði að vera með pcos þá er gott að vita það. Það er gott að vita að ég er ekki bara svona ógeðslega loðin og bólótt bara afþví bara, að vita að ég er ekki bara alltaf svona löt heldur sé það hluti af pcos-inu, að vita að það á ekki að vera svona erfitt að grennast heldur sé það sérstaklega erfitt vegna þess hvernig efnaskiptin hjá mér eru. Og ég virðist líka vera ein af þeim heppnu sem er með pcos, ég fer á túr – mjög reglulega meira að segja, ég fæ egglos og Hrafnkell sannar að ég ætti að geta eignast börn.

Af þeim konum sem fá hjálp vegna frjósemisvandamála eru 90-95% þeirra með pcos! Þó svo að það þýði ekki að konur með pcos eigi við frjósemisvandamál að stríða þá fylgist þetta mjög að. Þar sem að blöðrurnar geta verið merki um að eggi þroskist ekki nóg til að geta frjóvgast (og stundum sleppir eggjastokkurinn þeim ekki einu sinni).

Það er hægt að lesa meira um pcos á doktor.is

… einn dagur í einu

Ég hef ákveðið að ég vil hafa allt uppi á borðinu, ég ætla að blogga um það hvernig mér líður og hvernig mér gengur. Ég hef eytt of löngum tíma í að þykjast að allt sé í lagi, hef forðast að tala við vini mína og fjölskyldu þegar hlutirnir hafa verið erfiðir og ég nenni því ekki lengur. Það er ekki í eðli mínu að vera óheiðarleg, sumir myndu eiginlega frekar segja að ég væri óþægilega hreinskilin (brutally honest) og ég held hreinlega að það fari mér betur.

Þegar ég var lítil þá var ég alltaf að gera eitthvað af mér og þegar einhver kom að mér þá var ég ævinlega búin að upplýsa þann hinn sama um allt sem ég hafði gert áður en nokkur hafði grunað mig um eitt eða neitt.

En já, til að koma í veg fyrir misskilning, ég fór til læknis í gær til að fá niðurstöður úr blóðprufum. Málið er ekki að ég hafi haldið að ég væri ólétt heldur var ég hjá lækninum vegna annarra vandræða. Niðurstöðurnar úr blóðprufunum sýndu að ég er með töluvert of mikið magn af testósteróni í líkamanum og það bendir til þess að ég sé með PCOS eða fjölblöðrueggjastokka heilkenni. Til þess að fá staðfestingu á þessari greiningu þarf ég að fara til kvennsjúkdómalæknis, sem mun sennilega spyrja mig fjölda spurninga um hitt og þetta sem og gera ómskoðun á eggjastokkunum mínum. Þar sem að þetta er heilkenni þá er þetta ekki læknanlegt en það er hægt að halda þessu niðri með bæði lyfjum og því að koma sér í form (haha er það ekki hvort eð er svarið við öllu þegar of feitir fara til læknis?).

Ég hef fengið ótal margar kveðjur  frá óendanlega mörgu fólki og það virðast allir boðnir og búnir til að gera hvað sem er til að láta mér líða betur. Það er ótrúlegt hvað það er gott að finna svona mikinn stuðning, finna það hvað maður er rosalega heppinn að eiga svona gott fólk útum allt. Það hjálpar mikið, þá er maður ekki jafn mikið einn eitthvað.

Mér líður miklu betur í dag en í gær og betur í gær en í fyrradag og á morgun ætla ég að dýfa mér í lærdóm – guð veit að þörf er á. Það hjálpar líka að ég náði að sofa vel í nótt (þrátt fyrir pirrandi draumfarir) og svo náði ég að borða svolítið í dag.

Ég er byrjuð að móta með mér skoðanir á því hvað ég ætla að gera næst því að núna get ég virkilega gert það sem ég vil gera og þarf bara að sjá til þess að Hrafnkell passi inní þá mynd og satt best að segja þá er pínu notalegt að hugsa bara um eigins rassgat til tilbreytingar. Það er alveg kominn tími til að vera svolítið sjálfselskur held ég.

Já og auðvitað eitt það mikilvægasta! Mamma, pabbi og Ragna ætla að vera svo yndisleg að koma til okkar Hrafnkels 20. desember og vera með okkur yfir jólin og áramótin :-) Ég er strax farin að hlakka til

…og einsog Helga María sagði: heitustu mömmurnar eru einstæðar… ;-)