Posts tagged: Noregur

Jólin jólin allsstaðar….

Það er langt liðið á haustið, næstum farið að koma frost (var  bara 2,5°c í morgun birrrr) og jólapælingar farnar að láta bera á sér. Seinustu jól vorum við í Noregi og þar af leiðandi leitar hugurinn heim til Íslands – í mínum huga eru jól á Íslandi það besta í heimi. Að geta verið með fjölskyldunni sinni og vinum, slappað af og étið ógrynnin öll af góðgæti, drukkið malt (og jafnvel styrkt það aðeins með appelsíni) já eða jafnvel jólaöl, spila spil og svo auðvitað að eiga gott afmæli.

Því miður virðist frekar ólíklegt (mjög ólíklegt) að mér verði að ósk minni að komast til Íslands um jólin. Ég var náttúrulega þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fara til Íslands í sumar, Doddi fór til Króatíu í haust – sem var ekkert ókeypis þó það hafi svosem ekki verið dýr utanlandsferð þannig lagað, íslensku lánin okkar hækka (og það munar um hverja krónu), gengið lækkar (sem þýðir dýrari dkk fyrir okkur) og verðlagið hér (matur, leiga, föt) hækkar. Þar að auki virðist útilokað núna að Doddi nái að vinna eitthvað í janúar, og það er pottþétt útilokað að ég gæti gert það þar sem að ég er í 3 prófum sem verður vandlega dreift yfir allan janúarmánuð. Þar af leiðandi getum við ekki leift okkur að kaupa núna miða til Íslands sem gerir það að verkum að þegar nær dregur og við sjáum betur hvernig peningamál standa að þá verður flugfarið hvort eð er orðið ógeðslega dýrt.

Og þá spyr maður sig, hvað getur maður gert í staðinn? Við Doddi teljumst örugglega sem stórskrítið fólk en við höfum voðalega lítinn áhuga á því að stofna okkar eigin einkajól – bara við 3 saman. Okkur langar til að eyða jólunum með öðru skemmtilegu fólki. Langar ekki bara einhverjum til að koma til Köben um jólin? Eða einhverjar aðrar góðar hugmyndir?

Anyway svona eru jólapælingarnar á þessum bæ, hvaða jólapælingar hafið þið?

Smá smotterí

Það er löngu kominn tími til að skrifa eitthvað en einhvernvegin hefur verið svo “mikið” að gera. Það virðist líka enginn vera almennilega í blogggírnum þessa dagana.

Anyway þá tókst mér að nöldra mig inn í skólann. Skólinn byrjaði á miðvikudaginn og um miðjan miðvikudag fékk ég tilkynningu um að ég fengi sæti í bekknum. Þetta er bein afleiðing af því að vesalings maðurinn, sem sér um sætisveitingar í þetta nám, var búinn að þola síendurtekna tölvupósta frá mér seinustu vikur þar sem að ég pressaði á hann um að gefa mér endanlegt svar. Þegar ég mætti svo á fimmtudaginn í skólann þá komst ég að því að bekkurinn er ca 35 manns (gróflega áætlað) og það eru yfir 100 manns á biðlista svo að ég tel mig bara nokkuð góða með að nöldra mig inn í bekkinn.

Námið virkar vel á mig, fyrsta önnin verður reyndar frekar þurr en það var alveg vitað fyrirfram, en það er gaman að komast í bekk þar sem flestir virðast actually vera þarna til þess að læra. Það á þó eftir að koma í ljós þegar maður kemst lengra inn í þetta hvort að námið standi undir væntingum. Reyndar eru þær væntingar, því miður, ekkert rosalega háar þar sem að mín kynni af dönsku skólakerfi eru ekki mjög góð. Allt sem ég hef hingað til séð af þeirra skólakerfi bendir til þess að það sé rosalega illa skipulagt og undarlega metið (og léleg samskiptamunstur hjá kennurunum). Vonandi verður KNORD til þess að bæta álit mitt á dönunum.

Doddi er kominn og farinn, kom frá Noregi á laugardagskvöldi og fór svo í morgun til Króatíu í skólaferðalag. Hrafnkell telur sig vera orðinn 4 ára þar sem að við báðum um að það yrði haldið upp á afmælið á föstudaginn í leikskólanum og svo gáfum við honum einn pakka á föstudaginn og fórum svo í sirkus (sem var by the way geggjað kúl). Svo á morgun verður smá sýnishorn af barnaafmæli hérna.

Á fésinu

Klaufinn (og byttan) ég datt á fésið í gær þegar ég var á leiðinni heim af barnum. Skildi ca 1/2 andlitið eftir á stéttinni og er frekar aum á eftir. Ég er þó algerlega á því að það var ekki algerlega áfenginu að kenna að ég datt, enda er ég klaufi með eindæmum og þetta var mikill klaufaskapur.

Afleiðingarnar af þessu falli eru sár og rispur, sem svíður í, bólgur og mör, smá hálsrígur og rosalega mikil sjálfsvorkunn. Ég er td með mar í hægri lófanum og á vinstra handarbakinu. Hrafnkell er glataður þegar kemur að því að vorkenna manni. Hann er meira fyrir það að potta í mann og spyrja svo hlæjandi hvort að þetta sé vont (ég veit, ég hef næstum því áhyggjur af þessu tilfinningaleysi hjá honum). Doddi er búinn að vera í skólanum í allan dag (einsog hann verður nánast þar til að hann fer til Noregs :-( ) svo að ekki hef ég fengið mikla vorkunn þaðan. Það hjálpaði aðeins að hringja í pabba og væla smá í honum.

Hérna má svo sjá ósköpin

smallJamm þetta er rosalega fallegt, ekki satt? Ég vil þó benda á að bólgan á hökunni hefur hjaðnað töluvert þegar þessi mynd var tekin.

En anyway BOOHOO!

Loksins eitthvað að frétta!

Jæja það er loksins eitthvað að frétta hérna í baunalandi. Það merkilegasta er kannski sumarplön okkar. Doddi fer til Noregs að vinna og við Hrafnkell förum til Íslands :-)

Mamma nefnilega reyndi að hringja í mig í dag, ég heyrði ekki í símanum en sá bara missed call á símanum mínum. Þegar ég hringdi aftur svaraði Ragna en mamma var upptekin í gemsanum sínum. Ég ætlaði þá bara að hringja aftur seinna þegar ég heyrði mömmu kalla “er þetta Edda” fyrir aftan og svo var hún bara búin að skella á vesalings manneskjuna sem hún var að tala við og komin í símann að tala við mig. Hún spurði hvar ég væri og þegar ég sagðist vera að labba heim, með Hrafnkel, úr leikskólanum þá sagðist hún ætla bara að hringja þegar við værum komin heim. Auðvitað bjóst ég við hinu versta. Svona áríðandi samtal, sem að þó varð að bíða þangað til að ég væri heima hlaut eiginlega að þýða eitthvað svakalegt. En þá var hún bara að hringja og segja mér að þau pabbi ætluðu að bjóða okkur pjakk til þeirra, það væri hvort eð er örugglega ódýrara fyrir þau en að koma hingað þó það væri í stuttan tíma. 

EN já amk þá erum við pjakkur að koma til Íslands, fljúgum til Akureyrar eftir akkurat mánuð! 

Við Hrafnkell vorum að ræða hverja við ætluðum að hitta, ég nefndi ömmurnar og afana, Valdís, Rögnu og Hartmann (sem hann kom nú ekki alveg fyrir sig, en hann vildi sko alveg hitta litla barnið haha, hann á eftir að læra þetta) og svo sagði ég að við myndum hitta einn enn sem héti M… og hann horfði á mig, hugsaði smá og sagði svo “Magna Stein! Oh…. Vúhú!” Það var sko toppurinn á öllu! En svo fór hann og fann mynd af Hrafnhildi og sagðist vilja hitta hana líka því að hann elskar hana :-)

Annars þá er Hrafnkell loksins búinn að læra að hjóla, við foreldrarnir vorum farin að örvænta. Hann fékk hjólið í afmælisgjöf þegar hann varð þriggja ára. Síðan þá hefur hjólið beðið niðri, læst, hjá hinum barnahjólunum. Við höfum farið framhjá því á hverjum degi, oftast höfum við minnst á það hvað hann sé heppinn að eiga svona flott hjól. Við höfum 3-4 sinnum neytt barnið til að fara að prufa. Það hefur gengið mjög illa að fá hann til að fatta að hjóla með löppunum. Svo um daginn þá prufuðum við einu sinni enn, og viti menn barnið bara hjólaði af stað – alveg jafn hissa á þessu og foreldrarnir. Núna hjólar hann einsog atvinnumaður, hann er reyndar svo heppinn að hann getur ekki dottið (dettur semsagt nokkrum sinnum í hverri ferð, er ekki alveg að pæla í því að hjálpardekkin bjarga ekki öllu) – að hans sögn amk, getur oftast farið sjálfur af stað og svoleiðis. Það er gott að vita að það er hjól til í Hrísateignum sem er í réttri stærð svo að kallinn á eftir að geta hjólað aðeins í sumar. 

Annars þá hafa halakörturnar (sem við veiddum í kirkjugarðinum) breyst í froska, en þar sem við nennum ekki að eiga við froska þá ætlum við að fara og sleppa þeim á morgun – amk ef þeir drepast ekki úr hungri á meðan. 

Hvað varðar skólamál þá er ég búin að sækja um top-up bachelor nám í Knord (Köbenhavn Nord) í námi sem heitir Web Development, núna er bara að bíða og vona að ég heyri eitthvað skemmtilegt frá þeim. Ef ekki þá veit ég ekki hvað í andsk**anum ég geri af mér.

Sumarið að skýrast

Það lítur allt út fyrir að Doddi fari til Noregs (ef þeir hafa einhverja vinnu fyrir hann þar) í sumar, strax eftir prófið hans – sem er í byrjun júní – og ætli hann verði ekki þar nánast í allt sumar – komi rétt heim áður en hann fer svo aftur til Alexandríu í skólaferðalagið sitt. 

Ég er hinsvegar ekki búin fyrr en 26. júní, þegar ég útskrifast. Svo er stefnan að byrja aftur í skóla í haust, þó að ég viti nú þegar um 2 skóla sem ég fer ekki í, þó að ég viti í raun ekki um neinn skóla sem er búinn að segja já þá er það samt stefnan ennþá. Það má gera ráð fyrir því að sá skóli byrji í endanum á ágúst – sem þýðir 2 mánuðir í sumarfrí hjá mér.  Eða með öðrum orðum 8-9 vikur.

Sú krafa hefur komið frá leikskólanum hans Hrafnkels að hann sé í 3 vikur í samfelldu fríi í sumar. Eðlileg krafa, bæði er þetta viku minna en er krafist heima á Íslandi og þá veljum við alveg hvenær hann verður í fríi og hvenær ekki.

Þetta gerir 5-6 vikur í frí fyrir mig svo að það þarf ekki neinn snilling til að átta sig á því að ég fæ hvergi vinnu hérna í 5-6 vikur. Það tekur því ekki að þjálfa upp hálfótalandi starfsmann fyrir svona stuttan tíma. Þannig að ég get lítið gert annað en að setja inn smáauglýsingar hér og þar og óska eftir einhverjum verkefnum sem ég gæti hugsanlega unnið heima hjá mér í sumar. Ég er ekki bjartsýn á að það gangi vel en hvað getur maður annað gert? Það hjálpar aðeins til að ég held að ég ætti að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þetta sumarið þar sem að ég er að útskrifast úr dönskum skóla, það er amk eitthvað sem maður þarf að kanna. Eftir Noregsferð um jólin og svo Íslandsferð um páskana þá erum við ekkert að vaða í peningum, sérstaklega þar sem kom í ljós (eftir á) að fjárhagsáætlunin hafði leiðinlega áhrifaríka innsláttarvillu. Það vantaði nefnilega eitt núll í húsaleiguna og þó að núll sé bara núll þá munaði ótrúlega um það hvort að húsaleigan sé 10 þús eða 100 þús á mánuði. En þetta reddast, það gerir það alltaf.

En vegna þess að við þurfum að ákveða hvaða 3 vikur Hrafnkell á að vera í fríi þá væri gaman að heyra hvort að einhverjir séu með einhver heimsóknarplön í sumar? 

En já aftur að skólapælingum. Það beið mín umslag frá einum skólanum þegar ég kom heim frá Íslandi. Í því var ég beðin um að koma í inntökupróf nokkrum dögum áður – þar með var einn skóli farinn. Svo fékk ég email um daginn þar sem mér var tilkynnt að ég hefði ekki komist inn í inntökuprófið í Mediehojskolen. Það merkilega við það var að ég þekki þó nokkra sem sóttu um og það voru bara danir sem komust áfram í inntökuprófið og ég veit með vissu að nokkrir af þessum dönum eru slakari en nokkrir af útlendingunum. Eiginlega efast ég ekki, þegar ég sé hverjir komust áfram og hverjir ekki, um það að málið var einfaldlega það að þeir voru ekki að leita að útlendingum – en það hefði verið gott að vita það áður en maður eyddi lööööngum hluta af páskafríinu í að vinna að inntökuverkefninu.

Hrafnkell segir frá

Halló öll!hrafnkell_fastelavn

Mamma hefur ákveðið að hætta með barnalandssíðuna mína og ætlar í staðinn að hafa fréttir af mér hérna. Hún mun, hægt og rólega setja allar myndirnar af mér í albúmið mitt í gallerýinu svo að þær verða ennþá aðgengilegar – þar er líka hægt að skrifa komment. Ef ykkur vantar lykilorðið sendið mömmu minni bara email á eddaros@eddaros.com og spyrjið um það.

Það er margt búið að gerast, enda skrifaði mamma seinast í desember – sem er alveg á seinasta ári. Við komum heim, eftir langt ferðalag, í byrjun janúar. Það var bara alveg ágætt, eftir öll lætin um jólin, að komast í smá ró og næði hérna heima. Pabbi fór fljótlega aftur, hann þurfti að fara í vinnuna sína, langt upp í fjöllunum. Mér fannst nú eiginlega svolítið súrt að Þórný frænka mín fengi að hafa pabba minn hjá sér, einsog hún geti ekki bara notað sinn eiginn pabba.

Ég talaði oft við pabba í tölvunni hennar mömmu, þó það væri nú ekki alltaf eitthvað gáfulegt sem við töluðum um þá fífluðumst við svolítið saman.

Í janúar þá var ég ofsalega listarlítill, einsog seinni partinn í desember, mamma var eiginlega farin að hafa smá áhyggjur af þessu. En ég er farinn að borða aðeins meira núna, mamma ætlar svo að fara að vera duglegri að gefa mér fjölbreyttara nesti fyrst ég er farinn að vera duglegri að borða. Nefnilega þá var ég farinn að borða svo lítið að mamma var farin að gefa mér bara að borða það sem hún vissi að ég myndi borða. Ég er nefnilega svo grannur að það er ekkert gott fyrir mig að vera í einhverju aðhaldi.

Ég er líka búinn að vera óttarlegur lasarus. Ég var veikur í desember, í janúar var ég óttalega leiður og pirraður (og mamma hélt að það væri mest megnis vegna pabbaskorts) en svo í byrjun febrúar þá fékk ég heiftarlega eyrnabólgu. Daginn sem pabbi ætlaði að koma heim fór ég að kvarta undan verk í eyranu mínu. Það var svo vont að ég fór að gráta, mamma reyndi að laga það einsog hún gat og svo fór ég til læknis strax daginn eftir. Læknirinn sagði að ég væri með bakteríueyrnabólgu (bakteríu vegna þess að þetta var bara í einu eyra sagði hann) og ég fékk lyf. Mér fannst þetta lyf ekki sérstakt til að byrja með en í lokin fannst mér það svo gott að mér fannst hálf fúlt að klára það, vildi bara fá meira lyf. Svo í þessari viku þá fékk ég háan hita á þriðjudaginn og var samt orðinn fínn daginn eftir. Konurnar í leikskólanum segja samt að ég sé eitthvað slappur, svo að mamma sótti mig snemma í gær EN ég var samt bara hress og fínn þegar hún sótti mig svo að hún veit ekki alveg hvað þær voru að tala um.

Í dag er svo Fastelavn – það er reyndar ekki fyrr en á sunnudaginn en  við höldum uppá það í dag í leikskólanum. Þá fara allir í búningum í leikskólann og við sláum köttinn úr tunnunni, fáum fastalavnsboller  og fleira gott. Mamma heldur að þetta sé eiginlega bara bolludagur-sprengidagur-öskudagur í einni blöndu. Ég er galdrakall, með sítt hár, hatt og töfrasprota.

Ég tala mikið um Ísland, ég vil helst bara fara til Íslands sem fyrst. Kannski þarf ég bara að fá smá frí frá leikskólanum, veikindum ofl án þess þó að lenda í öllum skarkalanum og látunum sem voru í Noregi. Heima hjá ömmum mínum og öfum á Íslandi er svo rólegt, þar fæ ég líka alla athyglina einn (sem mér finnst ekkert hræðilegt sko). Í Hrísateignum er ég líka aðeins frjálsari en annars staðar. Þar er svo auðvelt að fara út í garð að leika sér þegar maður vill, þar er líka hægt að hjálpa afa að gera ýmislegt sem þarf að gera. Mig langar líka til að sjá litla barnið hennar Valdísar, sko litla strákinn sem hún er með í bambanum (svo til að koma í veg fyrir misskilning þá vitum við ekkert hvort þetta er strákur eða stelpa, nema að Hrafnkell VEIT að þetta er STRÁKUR ekki stelpa ;-) ). Mamma segir samt að það sé ekki hægt að gefa honum nammi fyrr en í fyrsta lagi eftir að hann kemur út úr mallakútnum hennar. Helst vildi ég bara að mamma fengi litla barn í mallakútinn sinn, en hún vill það ekki. Segir alltaf bara kannski seinna eða fer bara að tala um það hvað ég þarf að vera duglegur þegar ég hitti litla barnið hennar Valdísar. Það er sko margt sem ég vil gera þegar ég hitti hann, ég ætla að halda á honum, leika við hann, skipta um kúkableyjur (aha!) og hugga hann, finna mömmu hans fyrir hann og bara gera allt til að hann hafi það sem best. Ég verð nefnilega svo risalega stærri en hann. Mamma segir samt alltaf að þegar ég hitti litla barnið hennar Valdísar þá verði ég að passa mig rosalega vel og umfram allt að hlýða Valdísi.

En kveðjur í bili
Hrafnkell Myrkvi

Ein heima

Ég sit núna ein heima, oftast finnst mér það bara notalegt en núna er ég miklu meira ein heima en venjulega. Munurinn er einfaldlega að ég verð ein heima þangað til að ég næ í Hrafnkel, svo verð ég tvö heima þangað til að hann fer í leikskólann – en Doddi er farinn.
Hann fór í morgun til Noregs, þar sem hann verður að vinna næstu 3 vikurnar eða svo. Ég þarf hvort eð er að nýta tímann í prófalærdóm og eitthvað en samt…

Ætli það sé ekki best að hugsa bara money-money (must be funny in a rich mans world) og reyna að hætta þessari væmni – en amk þá sakna ég hans núna, ja eða ég sakna amk vitneskjunnar um að hann komi bráðum heim.

En þar fyrir utan þá verð ég að dásama matvinnsluvélina okkar ennþá meira – ég elska hana og ég elska alla ávextina sem ég keypti… Ég er að verða einsog þurrkunargaurinn í Vinum – nema ég er the blendingchick!

Smá annáll

Það er varla að ég muni hvað gerðist á árinu 2008 :-/

Við vorum heima á Íslandi um seinustu áramót, komum svo heim til Köben til þess að fara í próf. Mér gékk mjög vel í prófinu mínu, en það var engin einkunn gefin í það skiptið.  Svo eftir prófin keyrðum við uppeftir til Balestrand, Noregi, til að heimsækja Ödda og Birnu. Það gékk ekki betur en svo að við þurftum að gista 2 nætur hjá Helgu Maríu og Sverri í Geilo (sem er mjög kósí skíðabær) vegna leti Noregsmanna við mokstur (já eða amk þá voru öll fjöll stengt og ekkert hægt að komast). Þar af leiðandi tók ferðalagið alltof langan tíma og heimsóknin fékk of stuttan tíma, maður var varla kominn þegar kominn var tími til að fara til baka. Hrafnkell sannaði þá, enn og aftur, að hann er draumabarn þegar kemur að ferðalögum, rólegur og nægjusamur.

Þegar heim var komið þá tók bara við skólinn aftur. Við vorum öll heilsuhraust (ólíkt haustönninni þar á undan) en engu að síður var rútínan okkar ekki alveg nógu góð vegna alls konar fría og vesena. Það liðu margar vikur án þess að Hrafnkell væri heila viku í Vuggestuen.Við fjölguðum í fjölskyldunni og komum upp ferskvatnsfiskabúri.

Við höfum fengið margar heimsóknir á þessu ári, flestar þó rétt fyrir verkefnaskil hjá Dodda svo að fólk hefur meira verið að heimsækja mig og Hrafnkel. Mamma, pabbi og Ragna komu um páskana, fengu að upplifa Kaupmannahafnískan vetur og kulda. Í lok apríl komu svo tengdó að heimsækja okkur, svo kom Hrafnhildur í miðjum maí og upplifði geggjað sumarveður. Næst var Valdís á ferðinni, seinni partinn í júní, kom með þrumum og eldingum. Hulda og Lára (Öddadóttir) komu í heimsókn fyrri partinn í júlí, kíktu í Tívolí og fleira. Mánaðamótin september-október komu Hjödda og Bjössi aftur í heimsókn en í þetta skiptið komu þau líka með Margréti og Hrein með sér, en það eru amma og afi Dodda.

Við ætluðum að vera hérna í sumar og reyna að finna okkur vinnu en það gékk ekki mjög vel, enda erum við illa talandi útlendingar með stutt sumarfrí. Það fór svo þannig að Doddi rauk uppeftir til Ödda til að vinna sem smiður. Ég og Hrafnkell skældum okkur til Íslands, þar sem við vorum uppá náð og miskunn mömmu og pabba. Hrafnkell naut þess að umgangast ættmenni sín, bætti íslenskuna sína mikið og hafði það almennt mjög gott á meðan ég naut þess að geta (amk stundum) sofið aðeins meira frameftir en venjulega, ég naut þess líka að komast aðeins barnlaus og kalllaus til eyja með vinum mínum (það hefði samt verið alltílagi að vera með Dodda með sér) en annars gerði ég ekkert. Hrafnkell sannaði enn og aftur að hann er draumaferðafélagi, var rólegur þegar mamman fékk smá panikk yfir flugmiðanum á leiðinni til Íslands, var rólegur í flugvélinni þrátt fyrir mikið og langt ferðalag. Á ferðalögum er Hrafnkell nefnilega bæði rólegur og skemmtilegur (oftast amk) og það er allt sem maður getur beðið um hjá 2-3 ára gömlu barni.

Það var aftur brotist inní bílinn okkar, núna var meira skemmt heldur en stolið – en þetta er svosem hluti af því að búa í mjög rólegu hverfi í stórborg. Því miður var það ekki það eina sem var stolið, Doddi varð fyrir nokkrum vasaþjófum (einstaklega óheppinn á djamminu) og svo var hjólinu hans stolið. Einnig tókst Dodda að tína (eða láta stela af sér) peningaveskinu, sem betur fer var ekki mikill peningur í því en verra var að glata greiðslukortum ofl svoleiðis.

Ég fór til Berlínar í Október, með bekknum mínum. Það var mjög gaman, góð tilbreyting frá hinu daglega lífi. Já og Doddi fékk sér mús (sem er skaðræðiskvikindi). Já og Hrafnkell fluttist úr Vuggestue yfir í Börnehave í sumar, enda orðinn stór strákur.

Svo fórum við til Noregs til að halda jólin, þar sem að Hrafnkell sannaði það enn og aftur að hann er frábær á ferðalagi (haha ég get ekki sagt þetta of oft ;-) ).

Árið 2009 er óskipulagt að miklu leiti. Ég útskrifast í vor og þarf því að fara að ákveða hvað ég vil gera, mig langar til að læra meira – sérhæfa mig meira þar sem að þetta nám finnst mér vera of víðtækt og ekki nógu nákvæmt. Ég hef verið að skoða hvort og hvaða möguleika maður hefur á fjarnámi, en því miður eru þeir ekki fjölbreyttir – amk ef maður ætlar að læra á Íslandi. Ég vil frekar halda áfram að læra núna, halda áfram að læra, heldur en að stoppa og fara að vinna og eiga kannski erfiðara með að halda áfram að læra seinna. Þar fyrir utan er mikill samdráttur í atvinnulífinu hérna í Kaupmannahöfn alveg einsog á Íslandi, kannski ekki miklar draumavinnur í boði fyrir útlending einsog mig – sérstaklega þegar maður er að reyna að troða sér inní geira sem tilheyrir algerlega lúxus og munaði. Þá er kannski betra að vera í skóla á meðan heimskreppan jafnar sig aðeins. Ég verð líka að viðurkenna að þessa dagana þá þjáist ég af heimþrá, í fyrsta skiptið síðan við fluttum út langar mig mikið til að pakka saman og flytja heim. En ég vil samt ekki flytja heim í ekkert, enga vinnu, enga peninga, ekkert heimili – ég vil vinna lottó fyrst ;-)

Home sweet home

Við erum komin heim, það er alltaf best að koma heim. Við glottum aðeins þegar Hrafnkell sagði “við eigum risastórt hús, Öddi og Birna eiga bara pínu, pínu lítið hús” því að þau búa víst í einhverjum 100 fermetrum meira en við ;-) En vissulega er húsið okkar stærra þó að íbúðin okkar sé bara lítill hluti af því.

Ferðin frá Noregi tók dágóðan tíma en var nokkuð tíðindalaus. Við keyrðum frá Balestrand til Osló í gær, gistum svo í Hyttu í Osló í nótt og keyrðum svo til Köben í dag. Hrafnkell vildi helst bara taka Huldu, Bjössa og Hjöddu með okkur hingað og ég skil hann vel en við erum þó bara sátt við að vera heima hjá okkur. Verst að Doddi fer núna á kaf í prófaundirbúning, próf á þriðjudag og svo fer hann aftur uppeftir :-( Hann ætlar víst að byggja einhverja spítukofa þarna í Norge og eignast þannig einhverjar óverðlausar (haha hvað er andstæðan við verðlaust?) krónur.

Prófin mín eru svo 14. og 22. jan (ef ég man rétt) svo að ég er ekki enn farin að reyna að hugsa mikið um þau. Við ætlum að hittast hópurinn á þriðjudag og ræða aðeins stöðu mála og skipuleggja smá prófaundirbúning.

Það virðist vera að það sé furðulegur tæknidraugur í bílnum okkar. Fyrstu merkin voru þau að útvarpið okkar, sem spilar víst tónlist af minniskortum, velur hvaða lög eru skemmtileg og hver eru leiðinleg, þannig að stundum fær maður bara að hlusta á hluta af þeim lögum sem maður ætlar að hlusta á. Það er samt ekki samræmi á milli þess hvaða lög spilarinn vill hlusta á hverju sinni, stundum er ABBA í lagi en stundum vill hann bara Amy Winehouse. Svo fór tölvan mín að haga sér undarlega, ekki nóg með það að hún gat ekki þegið straum úr hleðslutækinu og verið kveikt á henni á sama tíma (alltaf þegar maður kveikti á henni þá rofnaði straumurinn) heldur voru allar hleðslutækisleiðslurnar að detta í sundur (semsagt straumbreytir í kveikjara, hleðslutæki í straumbreyti, snúran í straumbreytinn eða snúran í tölvuna) þrátt fyrir að þetta væri marg skoðað og lagað. Svo hrundi gps tækið niður, bara alltíeinu. Það heyrðist líka, á tímabili, skrítið hljóð einsog ískur í gööööööömlu segulbandstæki sem er að spila tóma spólu.

Annars er músin á lífi, á nóg vatn eftir og helling af mat – hún er líka búin að endurraða saginu í búrinu og búa til vel myndarlegan haug í eitt hornið. Hún er líka orðin stór og feit, maður fer að hallast að því að kvikindið sé barasta rotta eða eitthvað (nei kannski ekki alveg). Fiskarnir eru flestir á lífi, ég er búin að sjá einn sem er “ekki hress” en annars virðast þeir sprækir.

Svo fer morgundagurinn í að fara með Hrafnkel í leikskólann – stuttur dagur (það var erfitt að sofna í gærkveldi og í kvöld – einhver spenna í barninu) sennilega – og koma drasli fyrir, versla í matinn, græja og gera (prufa matvinnsluvélina sem við fengum frá tengdó (get ekki beðið *stjörnuríaugunum* (er búin að langa í svona í svoldinn tíma))).

En já þegar við komum heim þá var kallt í Köben – eða -6°c, og við (kreppuþjáðir íslendingar) höfðum auðvitað lækkað á öllum ofnum áður en við fórum :-/ Þannig að þegar maður kom inn fyrst þá leið manni ekkert smá vel að koma inn í hlýjuna en svo fór maður að átta sig á raunveruleikanum, það var bara ekkert kalt hlýtt inni hjá okkur. Eiginlega bara skítakuldi – svo að ofnarnir voru gíraðir upp (líka aukarafmagnsofninn sem okkur áskotnaðist í sumar (einhver hefur örugglega verið að flytja heim í hið vel upphitaða Ísland)). Svo ákvað ég að fara í sturtu og þá fann ég að það virðist vera einhver hitavatnsskortur í húsinu því að ég gat sturtað mig með því að skrúfa bara frá heita vatninu (ég veit að heita vatnið er heitara heima en hér en maður þarf samt alveg að blanda það hérna með köldu vatni – yfirleitt amk) og það var samt aðeins kaldari sturta en venjulega þegar ég fer í sturtu.  EN engu að síður er gott að koma heim og það VERÐUR HEITT bráðum…

Þreytt á hávaða og látum

Ég er orðin þreytt á hávaða og látum hérna. Mikið rosalega er ég samt stolt af mínum syni, þetta gæti verið móðurástin sem gerir mig blinda, mér finnst hann vera lang þægastur og taka tiltali lang best.

Ég velti því þó fyrir mér hvort að ég sé svona rosalega ströng mamma því að það er svo margt sem að viðgengst hérna sem myndi aldrei leifast á mínu heimili. Við Doddi erum, sem betur fer, alveg sammála um þetta – svo að við verðum sennilega hræðilega vondu foreldrarnir þegar/ef við eignumst fleiri unga. Við verðum með einhvern ofur heraga LOL ;-)

Maður sér samt alveg hvernig svona hegðun smitast út frá sér, því að við sjáum takta hjá Hrafnkel sem sjást almennt séð ekki. Takta sem við teljum að hann sé að apa eftir frændsystkinum sínum. Þetta er samt alveg synd því að þegar þau (Hrafnkell og Þórný frænka hans) taka sig til og leika fallega þá eru þau að leika rosalega fallega. En þess á milli *argh*

Ég er að verða nokkuð sátt við lúkkið á síðunni, búin að prufa nokkrar útgáfur, breyta og bæta. Er reyndar með hugmynd um eitt sem ég vil bæta við, en ég geri það þá ekki fyrr en við komum heim til Danmerkur.