Posts tagged: Myrkvi

Leikskólaviðtal

Jæja þá er maður kominn heim úr fyrsta foreldraviðtalinu í dönskum leikskóla. Svolítið sérstakt þar sem að barnið er búið að vera á leikskóla hérna í 1 1/2 ár og næsta viðtal er ekki fyrr en barnið er 5 ára. Það var ýmislegt rætt en yfirallt kom auðvitað í ljós að Hrafnkell er frábær strákur. Hann talar mjög góða dönsku miðað við jafnaldra, er einnig með framúrskarandi málskilning og orðaforða (myndar mjög flóknar setningar og ræðir um hluti sem börn á hans aldri eru ekki vön að ræða). Hann er einnig með rosalega góðar fínhreyfingar, hann teiknar flóknari og útpældari myndir en margir mun eldri, hann á auðveldara að eiga við smáhluti (þræða perlur upp á band osfr) en nánast allir hinir strákarnir (líka þeir sem eru orðnir 5 ára). Þær sögðu líka að hann væri skemmtikrafturinn í bekknum og hann héldi uppi miklum félags- og hópanda. Það væru mörg börn í leikskólanum sem ættu við ýmis vandamál (td andleg vandamál, vandamál heima fyrir osfr) og það hjálpaði mikið fyrir hópinn að hafa einn svona sem væri alltaf til í að gera grín. Hann væri líka rosalega góður við (nánast) alla og einu skiptin sem hann beytti ofbeldi eða væri vondur væri þegar hann væri kominn út í horn (og þetta væri eina leiðin út svo að segja).

Í raun höfðu þær ekkert nema gott að segja um strákinn. Það þyrfti jú reyndar að stundum að passa að láta hann ekki komast upp með allt vegna þess að hann hefði svo mikla persónutöfra en það er svoldið sem við vissum aldrei. Það er auðvelt að láta hann komast upp með margt því að hann fer bakdyrameginn með frekjuna. Þær sögðu að hann væri skapstór, þrjóskur og stundum frekur EN hann væri sterkur og skemmtilegur persónuleiki sem hefði mjög góð áhrif á fólkið í kringum hann.

Við ræddum líka nokkur vandamál, td hefur Hrafnkell átt erfitt með að komast inn í strákahópinn og leikur þar af leiðandi mest við stelpurnar. Við tókum það reyndar skýrt fram að vandamálið er ekki að Hrafnkell vilji helst leika við stelpur, það gæti samt verið vandamál ef að hann leikur við stelpurnar útaf því að strákarnir leika ekki við hann. Hann er reyndar minnstur af strákunum, þeir eru flestir um eða yfir 5 ára. Þær sögðu að strákunum finndist hann skemmtilegur og oft þá dáðust þeir að því hvað hann gæti verið fyndinn og sniðugur, en hann passaði kannski ekki alveg inn í hópinn og þar af leiðandi væri auðveldara fyrir hann að leika við stelpurnar, sem væru nær honum í aldri og léku sér ekki í alveg jafn harkalegum leikjum. En það eru að byrja 2 strákar um næstu mánaðamót, sem eru yngri en Hrafnkell, og þá kemur kannski betur í ljós hvort að hann fer að leika sér meira við stráka eða hvort að hann haldi bara áfram að leika sér við stelpurnar. Önnur vandamál tengdust helst starfsmannaskorti (td þá hefur nokkrum sinnum komið fyrir að ég kem og starfsmaðurinn veit ekki alveg hvar Hrafnkell er þá stundina og það finnst mér alls ekki gott mál) og það ku vera nokkur starfsmannaviðtöl sem eiga að eiga sér stað á morgun. Einnig munu verða ráðnir sérkennarar (sem hafa einfaldlega ekki verið til staðar vegna þess að það hefur ekki verið til faglært fólk til að ráða) og það mun létta álaginu af deildarstjórunum.

Þetta viðtal var sérstök upplifun þar sem að það var fenginn túlkur til að túlka á milli íslensku og dönsku, það var reyndar alveg rosalega gott, á fundi sem þessum. Þó að ég skildi nánast alveg það sem Karin sagði þá var gott að fá að heyra þetta á íslensku líka. Einnig hefði ég aldrei getað sagt allt sem ég þurfti að segja án þess að hafa túlk.

Úr einu í annað

Ég er þreytt, alveg ótrúlega þreytt eitthvað. Það tekur á að gera ekki neitt að viti ;-)

Annars var ég að fá ábendingu um nám, hérna í Köben, sem ég gæti farið í sem framhald að margmiðlunarhönnuninni – og það endar í batchelor! Ég veit, þvílíkt menntasnobb í gangi en mig langar í batchelor gráðu. Mig langar reyndar til að fá einhverntíman meira en það en ætli það sé ekki best að taka þetta í þrepum bara.

Ég er búin að vera að vinna að heimasíðunni minni en einsog fólk segir, góðir hlutir gerast hægt. Sérstaklega þegar maður er jafn gleyminn og ég og man sjaldan eftir að gera save og svo hrinur forritið og nokkra klst vinna hverfur. Þá gerast góðir hlutir mjööööög hægt. Líka þegar forritin gera ekki það sem þau eiga að gera. En það er ekki einsog maður sé með eitthvað deadline, þetta er meira svona show off hvað maður kann að gera – ef manni myndi einhverntíman detta það í hug að sækja um vinnu einhversstaðar.

Það dó einn fiskur í fiskabúrinu, ég held að hann hafi bara verið gamall eða eitthvað – en amk þá dó hann og svo þegar ég ætlaði að fiska hann uppúr þá var búið að borða hann mest allan. Ég lét hann þá bara vera og núna er hann horfinn. Ég veit svosem ekki hversu hollt það er fyrir félaga hans að éta hann en amk þá hvarf hann mjög hratt. Það merkilega er að daginn eftir það þá fylltist búrið af sniglum, svo mig grunar að það hafi verið sniglaæturnar mínar sem gæddu sér á honum.

Hrafnkell er búinn að vera í vondu skapi undanfarið, hann vill ekki fara í leikskólann og í dag vildi hann ekki heldur koma heim. Hann er algerlega öfugsnúinn, ef ég segi að eitthvað sé rautt þá er það blátt. Hann er víst líka svona í leikskólanum, er reiður útaf því að einhver leikur sér að vitlausu dóti og með svoleiðis vesen. Í gær fórum við aðeins út að leika eftir leikskólann, svo þurfti hann að pissa. Ég vildi ekki leifa honum að pissa úti, það var kalt, svo að hann pissaði á sig frekar en að fara inn. Þegar hann var búinn að pissa á sig þá vildi hann fara inn en ég var svo ill að ég vildi ekki halda á honum (hlandblautum og fínum). Ég vona að hann skáni þegar Doddi kemur, mig grunar að þessi fýla sé tengd því að Doddi er ekki hérna en mig grunar samt líka að þegar Doddi kemur þá taki við önnur fýla – svona þú-varst-ekki-heima-þegar-þú-áttir-að-vera-heima-karldurgur-fýla. Hann fer nefnilega oft í fýlu við mann þegar maður kemur aftur.

Jólakortamyndir

[nggallery id=1]

Þessar myndir notaði ég í jólakortin 2008. Þessar eru reyndar aðeins kroppaðar vegna þess að myndaforritið hérna vill bara myndir sem eru í gullinsniði.