Posts tagged: Michelle

Góðan tannlæknadag

Ég er bara heima með mömmunni minni núna, það er frí í leikskólanum og svo þarf ég að fara til tannlæknis í dag. Ég veit ekki alveg hvað þessi tannlæknir ætlar að gera en mamma segir að hann muni skoða tennurnar mínar svo að ég hef verið að æfa mig aðeins að opna betur munninn. Ég er líka búinn að vera rosalega þægur undanfarna daga þegar verið er að tannbursta mig.

Það var líka frí í leikskólanum í gær og þá fór ég í skólann hennar mömmu. Hún og Michelle voru með tölvurnar sínar í skrítnu stóru herbergi þar sem að ég gat leikið mér með bolta. Svo teiknaði ég, bjó til pakka og púslaði svolítið. Ég var rosalega duglegur.

Í skólanum hennar mömmu var líka mikið af fólki sem kom og talaði við mig, þó að ég þekkti það ekki neitt. Það fannst mér pínu óþægilegt. Svo í eitt skiptið kom maður til að vinna í sama herbergi og mamma og Michelle. Hann vildi mikið tala við mig en ég vildi sko ekki tala við hann svo að ég hunsaði hann algerlega. Mamma sagði að hann héti Lau og væri einn af kennurunum hennar en mér var sama, ég vildi ekki tala við hann. Ég gaf honum samt nokkra pakka, svo að hann væri ekki útundan.

Svo kom Kirsten líka aðeins til okkar, Kirsten er líka vinkona hennar mömmu og hún gaf mér sleikjó. Mamma sagði mér að segja takk og ég kom öllum á óvart og sagði “thank you”. Michelle var búin að segja það nokkrum sinnum við mig, hún kann nefnilega alls enga íslensku og ekki mikla dönsku.

Bólurnar mínar eru nánast allar farnar, það eru bara þessar allra stærstu sem eru ennþá. Mamma er eiginlega mjög undrandi á því hvað bólurnar fara hratt, hún man nefnilega eftir þegar hún var að vinna á leikskólanum á Íslandi hvað það voru mörg börn með bólur lengi lengi eftir hlaupabóluna. Það sést ekki á mér, nema fólk sé að leita að bólunum, að ég hafi verið með hlaupabólu.

Jæja bless í bili
Hrafnkell tannálfur

Verur og bakteríur

Þetta ár, allir tveir mánuðirnir sem eru (nánast) liðnir af því, er búið að vera mjög undarlegt. Það hefur einkennst af pestum og aumingjaskap, heimahangsi og leti. Maður er varla búinn að ná sér eftir eina pest þegar sú næsta herjar, alltaf þegar ég er ekki með pest þá er Hrafnkell veikur og núna er Doddi líka veikur. Milli pesta er maður almennt með einhverja kvefdrullu, sem er þá annað hvort leifar af seinustu pest eða byrjunin af þeirri næstu. Mér leiðist þetta.

Skólinn hefur líka verið undarlegur. Fyrst var janúarmánuður með bara 2 prófum og ekki meir, sem var reyndar ágætt því að þá gat maður þó verið svoldið veikur inn á milli. Reyndar þá var ég frekar mikið veik í seinna prófinu en jæja skítt með það, ég fékk samt 10. Svo kom febrúar og hann hefur nánast bara farið í það að finna sér fyrirtæki og bíða eftir fyrsta fundinum með kúnnanum. Svo þegar ég hef ekki verið veik þá hafa hópfélagar mínir (Kirsten og Michelle) verið veikar. Kirsten tók sig meira að segja til að fá lungnabólgu og henni er alltaf að slá niður, ég er reyndar að reyna að segja henni að druslast til að vera lengur í rúminu, hætta að hafa áhyggjur af þessu – við getum alveg reddað því sem þarf að gera án hennar, svo framarlega sem hún hætti bara að vera veik á endanum.

Mig er oft búið að langa á djammið en það hefur lítið orðið úr því, vegna þess að ég hef orðið veik, ég hef verið barnapíulaus og þeir sem ég hef ætlað að djamma með hafa orðið veikir. Ég held að allar veirur og bakteríur Danmerkur hljóti að vera á sterum eða eitthvað.

Það væri fínt að hætta þessu veikindabasli, þá gæti maður kannski haft það af að þrífa hérna almennilega, komist kannski heila viku í skólann osfr. Maður verður svo mikill aumingi þegar svona ástand varir lengi lengi. Við máttum svosem vita að það kæmi að þessu þar sem við höfum ekki verið oft veik undanfarið ár.

Spennandi tímar

Þessi önn snýst aðalega um samvinnu við alvöru fyrirtæki. Fyrsta vikan á önninni fer því í það að komast í tengsl við fyrirtæki. Í þessari viku hafa nokkur fyrirtæki komið í skólann og lýst því hvað þau eru að gera og hvað þau vilja að við gerum – sum hafa komið virkilega á óvart og önnur hafa valdið manni ótrúlegum vonbrigðum.

Við, í hópnum mínum (sem er ég, Michelle og Kirsten – Jeffrey og Morten fóru til Cumbria og eru þess vegna ekki memm lengur), erum búin að hafa samband við 5 fyrirtæki. 2 sem við höfum verulegan áhuga á, 2 sem gætu verið ok og 1 sem væri örugglega mjög áhugavert en er líka alveg rosalega mikil eftirspurn eftir (ætli það óski ekki amk helmingurinn af 4ðu önn eftir að komast að hjá þeim). Það jákvæða er að þessi 2 sem við höfum áhuga á eru þau einu sem hafa svarað okkur strax. Þau eru Startour og JDS-Architects, semsagt eitt gamalt og rótgróið ferðamálafyrirtæki (það stærsta í DK) og eitt ungt arkitektafyrirtæki í mikilli framsókn (hannar td nýja skýðahoppipallinn í Osló – Holmenkollen).

Vonandi kemur svo í ljós fyrir helgi, já eða um helgina, hvort við fáum annað þessara fyrirtækja. Það hljómar amk mjög spennandi, ekki bara að vera að vinna með alvöru fyrirtækjum, að vera að vinna með fyrirtækjum sem eru í alvörunni þekkt á sínum sviðum. Ef það, sem við gerum, er notað gæti það skilað sér í mjög góðum dæmi til að hafa á CV hjá sér.

Annars hvað varðar Hrafnkel þá fórum við með hann til læknis á þriðjudaginn. Hægra eyrað hjá honum var stokkbólgið og mjög rautt en það vinstra alveg fínt þar af leiðandi sagði læknirinn að þetta væri örugglega bakteríueyrnabólga (þar sem að vírusar vilja víst dreyfa sér meira og vera í báðum eyrunum, sérstaklega þar sem þetta var orðið frekar slæmt) og þess vegna fékk hann pensilín og verkjastíla. Pensilínið er auðvitað viðbjóðslega vont á bragðið, ég myndi segja eyrnamergur falinn í sykur-gerfi-ávaxtabragði. Við erum samt sammála um að hann verði að taka lyfið sitt því að það séu lítil skrímsli í eyranu sem vilji bara meiða eyrað og það bara þurfi lyfið til að drepa þessi skrímsli. Lyfið fer nefnilega úr mallanum og upp í eyrað og drepur skrímslin, það sé ekki nóg að berja sig í hausinn með Svampi Sveinssyni (bangsa) – hann er bara ekki skrímslabani. Þar fyrir utan eru smá verðlaun fyrir að vera duglegur að taka lyfið sitt.

Hann virðist reyndar ennþá finna til í eyranu og það er mjög viðkvæmt svo að hann fer ekkert í leikskólann fyrr en á mánudag. Þeir voru saman heima feðgarnir í dag, Hrafnkell segir að það hafi verið gaman en mér skilst á pabbanum að pjakkurinn hafi farið nokkrum sinnum fram til að “bíða eftir að mamma komi heim”. Ekki skrítið að barnið sé háð mér svosem.

Prófið mitt

Klukkan er orðið mikið og ég ætti að fara að sofa og ef ég ætlaði ekki að fara að sofa þá ætti ég að vaska upp og ganga aðeins frá í eldhúsinu og ef ég ætlaði ekki að gera það þá ætti ég að skjótast í sturtu og ef ekki það þá amk fara á klósettið… En samt sit ég hérna ennþá, ég er búin að vera að horfa á Gray’s Anatomy og velta fyrir mér smá flash vandamálið (fyrir heimasíðuna mína – ekki skólann) í allt kvöld. Ég er líka búin að vera að rembast við að finna uppá einhverju sem mig langaði til að borða, eitthvað til að halda uppá tólfuna mína – en það hefur gengið illa. Mig langaði líka ekkert í rauðvín eða eitthvað annað, ekki í nammi eða ís (fékk mér þó smá af hvoru, svona útaf því að ég var að halda uppá góða einkunn).

Ég held að ég hafi aldrei upplifað jafn mikla gleði og jafn mikinn létti yfir einni einkunn – og ég hef alveg fengið nokkrar tíur á ferlinum. Einsog flestir vita þá var seinasta próf, sem ég fór í í KTS, alger hörmung, mér leið illa inni í prófinu, var óánægð með hvernig það fór fram og óánægð með einkunnina sem ég fékk. Ég var ekkert svo stressuð yfir því prófi og það endaði hræðilega. Í morgun, áður en við fórum í prófið, þá æfðum við okkur og ég gat ekki talað – ég bara gat ekki komið frá mér gáfulegu orði. Það hjálpaði ekki til, einsog ég hef áður sagt, að hæsta einkunn sem ég vissi um í bekknum mínum þá var 7 og það voru alveg mjög hæfir einstaklingar búnir að fara inn.  Einstaklingar sem höfðu áður fengið tíur og tólfur.

Svo fórum við inn, prófið var skipt þannig að fyrst var hópurinn með kynningu saman, svo komum við inn fyrir prófdómarana – eitt í einu – og vorum spurð í þaula um hin ýmsu atriði sem tengdust verkefninu og kynningunni. Ég var nr 4 í röðinni og þegar kom að mér þá vissi ég ekkert hvað ég ætlaði að segja, ég vissi svosem hvaða atriði ég ætti að minnast á, en hvernig ég ætlaði að segja frá því var ennþá ráðgáta. Svo að ég bara byrjaði að tala og á einhvern undarlegan hátt þá bara talaði ég og talaði þangað til að ég áttaði mig á því að það var einn sem átti líka eftir að fá að tala og ég vissi ekkert hvernig tímanum leið. En ég sagði mikið af gáfulegum hlutum, mikið af hlutum sem við höfðum ekki einu sinni pælt í fyrr en ég ældi þeim þarna út úr mér (sem er kannski ekki gáfulegasta leiðin að þróa verkefni) og ég var gáttuð á sjálfri mér. Eftir á, þegar við vorum að tala saman hópurinn, þá sagði Michelle að það hefði verið sérstakt að fylgjast með mér tala, því að ég hefði bara talað og talað og sagt einn gáfulegan hlut á eftir öðrum og það hefði bara allt meikað sens. Ég er ekki að grínast ég held að ég hafi verið andsetin, ekki að ég viti ekkert um málið heldur þá á ég ekki alltaf mjög auðvelt með að halda þessar kynningar og það var svo margt sem ég sagði sem ég hafði ekki pælt í áður.

En já svo í einstaklingshlutanum þá gékk mér ágætlega. Kirsten var sú eina í hópnum sem að var óánægð með hvernig hennar próf gékk, hún var líka alveg rosalega stressuð – svo stressuð að ég vissi ekkert hvernig ég átti að haga mér í kringum hana. Við hin gerðum ráð fyrir sjöum og vonuðum að ná upp í tíur, hún gerði ráð fyrir 2 – en það var samt eiginlega útilokað, amk að mínu mati.

En já við fengum tólfur og tíu og við vorum mjög mjög ánægð – enda ekki annað hægt. Þegar við fengum svo útskýringu á einkunnunum þá sagði kennarinn okkar (semsagt innherja prófdómarinn) að það hefði verið “inspiration” að lesa skýrsluna okkar og fylgjast með kynningunni. Hann sagði að það hefði verið eitt smávægilegt atriði sem hann hefði saknað í skýrsluna – en það atriði hefði ekki verið skilyrði í verkefninu en hann hefði engu að síður viljað sjá að við vissum um hvað það snérist – en þar sem að við komum með það atriði í kynningunni sjálfri þá hefðum við komið í veg fyrir að fá mínus fyrir það.

Svo á eftir okkur þá fékk gamli hópurinn minn líka tólfur (hópurinn sem ég var með á seinustu önn) og það var gott að vita það líka – þau eru öll dugleg að vinna og mjög klár.

En já núna þegar ég er búin að monnta mig í nánari smáatriðum þá get ég kannski hætt í tölvunni – farið að pissa – farið svo uppí rúm (það má ganga frá, sturtast osfr á morgun, næsta próf er ekki fyrr en eftir viku)