Posts tagged: leikskólinn

Hrotur og skókaup

Um daginn var erfið nótt, Hrafnkell vaknaði oft og bað um vatn og hitt og þetta og þar fyrir utan þá var hann líka að vakna og skríða uppí (sem hann gerir ca. aldrei) og svo fara aftur í rúmið sitt. Morguninn eftir vorum við aðeins að ræða þetta og ég sagði að hann mætti ekki vera svona mikið á flandri á nóttunni því að ég gæti ekki sofið þegar hann væri alltaf að koma upp í og fara og koma og fara. Þá leit barnið á mig og sagði með vanþóknunarþjósti “mamma, þegar ég er að reyna að sofna og þú gerir bara svona *mjög ýkt hrotuhljóð* þá get ég heldur ekkert sofnað!”

Það er slæmt að maður haldi svona vöku fyrir vesalings barninu.

Annars virðist vera erfitt að vera 4 ára, já eða barnið er loksins að vinna úr því að vera á svona flandri allt sumarið – pabbaleysið 2x – ofl. Hann vill amk ekki fara í leikskólann, ekki útaf því að það sé svo leiðinlegt eða eitthvað svoleiðis heldur útaf því að hann saknar mömmu sinnar svo mikið – amk segir hann það sjálfur. Hann segir að það skipti sko engu máli hvað það er gaman því að hann saknar mín svo rosalega mikið og í morgun svór hann (segir maður það ekki svona?) að hann myndi sko frekar vera heima hjá mér og gera ekki neitt allan daginn en að fara með einhverjum öðrum að leika sér eða í bíó eða eitthvað.

En eigum við ekki öll svona tímabil þar sem að okkur langar helst að gera eitthvað annað en það sem við þurfum að gera? Enda hefur hann það alveg ágætt í leikskólanum (þrátt fyrir allann söknuðinn). Í kvöld ætla ég að reyna að  koma honum extra snemma í rúmið, kannski skilar það sér í glaðari dreng. Við ætlum líka að fara saman og kaupa nýja skó, ódýru H&M skódruslurnar sem ég keypti í sumar eru að syngja sitt síðasta – enda hafa þær enst alveg allan peninginn (sem var ekki mikill). Þessi skókaupaáhugi barnsins (ég mátti sko ekki fara án hans að kaupa skó því að honum vantar svo að fá græna skó) fékk mig til að hugsa til Elvu systur minnar, ætli það  væri ekki best ef að Hrafnkell og Elva gætu farið að kaupa skó saman og ég og Magni Steinn gætum bara gert eitthvað annað á meðan ;-) En fólk getur víst ekki gengið um á tásunum allann ársins hring.

og dagurinn bara hálfnaður…

Ég vaknaði í morgun með strákunum mínum, sendi þá af stað í skólana sína og hófst svo handa. Sem betur fer hafði ég haft rænu á því að ákveða fyrirfram að mæta ekki í skólann í dag því að…

Í dag er svokallað páskaföndur í leikskólanum, það hefst klukkan 15:00 og stendur til 17:00 og þá hefst sameiginlegur kvöldmatur foreldra og barna í leikskólanum sem líkur klukkan 19:00. Fyrir löngu síðan kom upp listi í stofunni hans Hrafnkels þar sem að foreldrar voru beðnir um að skrá sig ef þeir væru tilbúnir til að baka fyrir föndrið. Ég var auðvitað tilbúin að baka svolítið, ég er eiginlega alltaf tilbúin til að baka – mér finnst það pínu gaman.

Nokkru seinna kom miðinn með öllum upplýsingunum um þetta allt. Við sáum að þeir sem vildu vera með í kvöldmatnum þyrftu að koma með einhvern rétt á hlaðborðið – við vorum fljót að ákveða að við nenntum ekki að fara. En svo var foreldraviðtalið og þar vorum við eindregið hvött til að mæta á þennan fja**ans kvöldmat því að það sýndi barninu í verki að við hefðum raunverulegan áhuga á því starfi sem færi fram í leikskólanum. Einsog það sé ekki nóg fyrir Hrafnkel að við segjum vá þegar hann gefur okkur eitthvað, spyrjum hann daglega um það hvað fór fram í leikskólanum osfr. Hann er þriggja ára, þetta skiptir hann örugglega ekki höfuðmáli.

En já þarna eiginlega neyddumst við til að melda okkur í matinn líka. Þannig að ég þurfti að finna einhvern rétt sem ég gæti gert, sem þyrfti ekki að hita upp (ekkert mötuneyti = bara einn bakaraofn fyrir 50+ börn og fjölskyldur þeirra að hita upp), sem þeir feðgar borða og sem sýnir hæfileika mína í eldhúsinu (og já það skiptir máli ;-) ) Þrautalendingin var sú að gera eitt kalt ostapasta með skinku, beikoni og leifunum af hamborgarahryggnum sem var á sunnudaginn (já það er ódýr helgarsteik) annars vegar og svo kjúklingasalat hinsvegar.

Svo kom upp spurningin hvað ég ætti eiginlega að baka, Doddi stakk upp á einhverju íslensku einsog td mjúkum bakaríssnúðum. Svo að ég ákvað að gera snúða (þeir eru geggjað góðir, kannski ég skelli uppskriftinni hérna inn bráðlega).

Síðan í morgun er ég þess vegna búin að hræra saman gerdeig, láta hefast, steikja beikon, steikja hunangsgljáðan kjúkling, fletja út og fylla snúða, láta hefast, ofsjóða pasta, taka úr uppþvottavél, setja í uppþvottavél (og af stað), setja snúða í ofninn og taka þá út aftur, fá mér að borða, sjóða pasta (aftur hitt var ógeðslegt), skera niður grænmeti, skera niður skinku, beikon og hamborgarahrygg, hræra ostasósu, blanda salat, blanda ostapastað, búa til glassúr og pennsla því á snúðana og að lokum setja allt í réttar skálar/á rétt föt.

Það sem ég þyrfti að gera er að taka úr uppþvottavélinni og setja í hana aftur, finna réttu áhöldin (til að taka með), skipta um föt (þið sem þekkið mig vitið alveg hvers vegna fötin sem ég fór í í morgun duga ekki lengur), græja mig og svo koma mér í leikskólann.

Ég ætla rétt að vona að Hrafnkell hugsi í kvöld, þegar hann er að sofna, “ég er svo glaður að mamma mín og pabbi minn hafa svo mikinn áhuga á því starfi sem fer fram á leikskólanum mínum að þau eyða öllum þessum tíma og fyrirhöfn að græja mat og bakkelsi til að hafa á svona degi einsog í dag”

En að lokum: ÞAÐ ERU BARA 2 VIKUR ÞANGAÐ TIL VIÐ KOMUM HEIM!

Góðan tannlæknadag

Ég er bara heima með mömmunni minni núna, það er frí í leikskólanum og svo þarf ég að fara til tannlæknis í dag. Ég veit ekki alveg hvað þessi tannlæknir ætlar að gera en mamma segir að hann muni skoða tennurnar mínar svo að ég hef verið að æfa mig aðeins að opna betur munninn. Ég er líka búinn að vera rosalega þægur undanfarna daga þegar verið er að tannbursta mig.

Það var líka frí í leikskólanum í gær og þá fór ég í skólann hennar mömmu. Hún og Michelle voru með tölvurnar sínar í skrítnu stóru herbergi þar sem að ég gat leikið mér með bolta. Svo teiknaði ég, bjó til pakka og púslaði svolítið. Ég var rosalega duglegur.

Í skólanum hennar mömmu var líka mikið af fólki sem kom og talaði við mig, þó að ég þekkti það ekki neitt. Það fannst mér pínu óþægilegt. Svo í eitt skiptið kom maður til að vinna í sama herbergi og mamma og Michelle. Hann vildi mikið tala við mig en ég vildi sko ekki tala við hann svo að ég hunsaði hann algerlega. Mamma sagði að hann héti Lau og væri einn af kennurunum hennar en mér var sama, ég vildi ekki tala við hann. Ég gaf honum samt nokkra pakka, svo að hann væri ekki útundan.

Svo kom Kirsten líka aðeins til okkar, Kirsten er líka vinkona hennar mömmu og hún gaf mér sleikjó. Mamma sagði mér að segja takk og ég kom öllum á óvart og sagði “thank you”. Michelle var búin að segja það nokkrum sinnum við mig, hún kann nefnilega alls enga íslensku og ekki mikla dönsku.

Bólurnar mínar eru nánast allar farnar, það eru bara þessar allra stærstu sem eru ennþá. Mamma er eiginlega mjög undrandi á því hvað bólurnar fara hratt, hún man nefnilega eftir þegar hún var að vinna á leikskólanum á Íslandi hvað það voru mörg börn með bólur lengi lengi eftir hlaupabóluna. Það sést ekki á mér, nema fólk sé að leita að bólunum, að ég hafi verið með hlaupabólu.

Jæja bless í bili
Hrafnkell tannálfur

Leikskólaviðtal

Jæja þá er maður kominn heim úr fyrsta foreldraviðtalinu í dönskum leikskóla. Svolítið sérstakt þar sem að barnið er búið að vera á leikskóla hérna í 1 1/2 ár og næsta viðtal er ekki fyrr en barnið er 5 ára. Það var ýmislegt rætt en yfirallt kom auðvitað í ljós að Hrafnkell er frábær strákur. Hann talar mjög góða dönsku miðað við jafnaldra, er einnig með framúrskarandi málskilning og orðaforða (myndar mjög flóknar setningar og ræðir um hluti sem börn á hans aldri eru ekki vön að ræða). Hann er einnig með rosalega góðar fínhreyfingar, hann teiknar flóknari og útpældari myndir en margir mun eldri, hann á auðveldara að eiga við smáhluti (þræða perlur upp á band osfr) en nánast allir hinir strákarnir (líka þeir sem eru orðnir 5 ára). Þær sögðu líka að hann væri skemmtikrafturinn í bekknum og hann héldi uppi miklum félags- og hópanda. Það væru mörg börn í leikskólanum sem ættu við ýmis vandamál (td andleg vandamál, vandamál heima fyrir osfr) og það hjálpaði mikið fyrir hópinn að hafa einn svona sem væri alltaf til í að gera grín. Hann væri líka rosalega góður við (nánast) alla og einu skiptin sem hann beytti ofbeldi eða væri vondur væri þegar hann væri kominn út í horn (og þetta væri eina leiðin út svo að segja).

Í raun höfðu þær ekkert nema gott að segja um strákinn. Það þyrfti jú reyndar að stundum að passa að láta hann ekki komast upp með allt vegna þess að hann hefði svo mikla persónutöfra en það er svoldið sem við vissum aldrei. Það er auðvelt að láta hann komast upp með margt því að hann fer bakdyrameginn með frekjuna. Þær sögðu að hann væri skapstór, þrjóskur og stundum frekur EN hann væri sterkur og skemmtilegur persónuleiki sem hefði mjög góð áhrif á fólkið í kringum hann.

Við ræddum líka nokkur vandamál, td hefur Hrafnkell átt erfitt með að komast inn í strákahópinn og leikur þar af leiðandi mest við stelpurnar. Við tókum það reyndar skýrt fram að vandamálið er ekki að Hrafnkell vilji helst leika við stelpur, það gæti samt verið vandamál ef að hann leikur við stelpurnar útaf því að strákarnir leika ekki við hann. Hann er reyndar minnstur af strákunum, þeir eru flestir um eða yfir 5 ára. Þær sögðu að strákunum finndist hann skemmtilegur og oft þá dáðust þeir að því hvað hann gæti verið fyndinn og sniðugur, en hann passaði kannski ekki alveg inn í hópinn og þar af leiðandi væri auðveldara fyrir hann að leika við stelpurnar, sem væru nær honum í aldri og léku sér ekki í alveg jafn harkalegum leikjum. En það eru að byrja 2 strákar um næstu mánaðamót, sem eru yngri en Hrafnkell, og þá kemur kannski betur í ljós hvort að hann fer að leika sér meira við stráka eða hvort að hann haldi bara áfram að leika sér við stelpurnar. Önnur vandamál tengdust helst starfsmannaskorti (td þá hefur nokkrum sinnum komið fyrir að ég kem og starfsmaðurinn veit ekki alveg hvar Hrafnkell er þá stundina og það finnst mér alls ekki gott mál) og það ku vera nokkur starfsmannaviðtöl sem eiga að eiga sér stað á morgun. Einnig munu verða ráðnir sérkennarar (sem hafa einfaldlega ekki verið til staðar vegna þess að það hefur ekki verið til faglært fólk til að ráða) og það mun létta álaginu af deildarstjórunum.

Þetta viðtal var sérstök upplifun þar sem að það var fenginn túlkur til að túlka á milli íslensku og dönsku, það var reyndar alveg rosalega gott, á fundi sem þessum. Þó að ég skildi nánast alveg það sem Karin sagði þá var gott að fá að heyra þetta á íslensku líka. Einnig hefði ég aldrei getað sagt allt sem ég þurfti að segja án þess að hafa túlk.

Spennandi tímar

Þessi önn snýst aðalega um samvinnu við alvöru fyrirtæki. Fyrsta vikan á önninni fer því í það að komast í tengsl við fyrirtæki. Í þessari viku hafa nokkur fyrirtæki komið í skólann og lýst því hvað þau eru að gera og hvað þau vilja að við gerum – sum hafa komið virkilega á óvart og önnur hafa valdið manni ótrúlegum vonbrigðum.

Við, í hópnum mínum (sem er ég, Michelle og Kirsten – Jeffrey og Morten fóru til Cumbria og eru þess vegna ekki memm lengur), erum búin að hafa samband við 5 fyrirtæki. 2 sem við höfum verulegan áhuga á, 2 sem gætu verið ok og 1 sem væri örugglega mjög áhugavert en er líka alveg rosalega mikil eftirspurn eftir (ætli það óski ekki amk helmingurinn af 4ðu önn eftir að komast að hjá þeim). Það jákvæða er að þessi 2 sem við höfum áhuga á eru þau einu sem hafa svarað okkur strax. Þau eru Startour og JDS-Architects, semsagt eitt gamalt og rótgróið ferðamálafyrirtæki (það stærsta í DK) og eitt ungt arkitektafyrirtæki í mikilli framsókn (hannar td nýja skýðahoppipallinn í Osló – Holmenkollen).

Vonandi kemur svo í ljós fyrir helgi, já eða um helgina, hvort við fáum annað þessara fyrirtækja. Það hljómar amk mjög spennandi, ekki bara að vera að vinna með alvöru fyrirtækjum, að vera að vinna með fyrirtækjum sem eru í alvörunni þekkt á sínum sviðum. Ef það, sem við gerum, er notað gæti það skilað sér í mjög góðum dæmi til að hafa á CV hjá sér.

Annars hvað varðar Hrafnkel þá fórum við með hann til læknis á þriðjudaginn. Hægra eyrað hjá honum var stokkbólgið og mjög rautt en það vinstra alveg fínt þar af leiðandi sagði læknirinn að þetta væri örugglega bakteríueyrnabólga (þar sem að vírusar vilja víst dreyfa sér meira og vera í báðum eyrunum, sérstaklega þar sem þetta var orðið frekar slæmt) og þess vegna fékk hann pensilín og verkjastíla. Pensilínið er auðvitað viðbjóðslega vont á bragðið, ég myndi segja eyrnamergur falinn í sykur-gerfi-ávaxtabragði. Við erum samt sammála um að hann verði að taka lyfið sitt því að það séu lítil skrímsli í eyranu sem vilji bara meiða eyrað og það bara þurfi lyfið til að drepa þessi skrímsli. Lyfið fer nefnilega úr mallanum og upp í eyrað og drepur skrímslin, það sé ekki nóg að berja sig í hausinn með Svampi Sveinssyni (bangsa) – hann er bara ekki skrímslabani. Þar fyrir utan eru smá verðlaun fyrir að vera duglegur að taka lyfið sitt.

Hann virðist reyndar ennþá finna til í eyranu og það er mjög viðkvæmt svo að hann fer ekkert í leikskólann fyrr en á mánudag. Þeir voru saman heima feðgarnir í dag, Hrafnkell segir að það hafi verið gaman en mér skilst á pabbanum að pjakkurinn hafi farið nokkrum sinnum fram til að “bíða eftir að mamma komi heim”. Ekki skrítið að barnið sé háð mér svosem.