Posts tagged: laukur

Sveppa-kókossósa….

Ég veit að ég var búin að segjast kannski tala um eitthvað annað en mat, en ég prufaði þessa sósu með fimmtudagskjúklingnum (hehe bara heill kjúlli í ofni – voða simple) og hún var AWESOME.

Semsagt einn heill laukur skorinn niður í bita, ógeðslega mikið af niðurskornum sveppum – ég er að meina að þetta var alveg hálfur pottur saman – og smjörklípa sett saman í pott, látið malla þar til að sveppirnir og laukurinn er orðið mjúkt og djúsí. Þá er einni dós af kókosmjólk helt yfir og allt látið malla aðeins.

Ekki hræðast vibbalega gráa litinn, hann skánar og bragðið gerir þetta allt þess virði. En já svo er þetta smakkað til með salt og pipar og svo bara borið fram.

Ég gæti vel hugsað mér að prufa að bæta við kannski annarri dós af kókosmjólk, og skella svo nokkrum bitum af niður rifnum kjúlla út í og kalla þetta súpu.

Eyrnaverkur og ullarpjatt

Hrafnkell hefur þjáðst af einhverskonar eyrnaverk í dag. Hann er svosem búinn að vera mjög kvefaður undanfarið, við fórum td ekkert út um helgina útaf því að mér fannst hann of kvefaður. Hann kvartar undan því að honum sé svo illt í hægra eyranu. Ég prufaði 2 húsráð af húsráða síðunni minni, bæði virkuðu en misvel. Best var að taka lauk, skera hann niður og leggja við eyrað. Ég notaði svo augnlepp sem við áttum til að halda lauknum á réttum stað og barnið hætti að gráta og er amk sofandi núna.

Ég ákvað eiginlega strax að hafa ekki samband við lækni nema ef hann yrði verri og/eða ef þessi ráð myndu ekkert virka. Ég hef aðalega tvær ástæður fyrir því, annarsvegar að það er vesen að hafa samband við lækni utan opnunartíma og það gæti reynst erfitt að útskýra almennilega í gegnum síma hvað gengi á og læknirinn gæti lítið gert nema hugsanlega ávísa einhverjum lyfjum sem við þyrftum svo að komast og ná í (og þar kemur að hinni ástæðunni), það er skítkalt úti og Doddi kemur ekki fyrr en í kvöld með bílinn og það þýðir að ef við þyrftum að fara eitthvert til að ræða við lækninn eða redda einhverjum lyfjum þá þyrftum við að fara út í kuldan (og það er líka rok) og hjóla.

En svo er sagan af ullarpjattinu í mér. Ég fór í búð í dag, ég var búin að ákveða að kaupa garn til að prjóna kraga handa Hrafnkel, svona í svipuðum dúr og Lauga amma gerði handa öllum. Ég fór inní einu búðina sem ég mundi eftir í þessum hluta bæjarins, sem selur garn það er að segja. Þar fann ég einn dágóðan rekka með margar gerðir af garni – en ég varð svo hneigsluð þegar ég fór að skoða dokkurnar og þetta var allt eitthvað gerviefnadrasl. Það var ekki séns að ég væri að fara að kaupa polyamid til að prjóna úr eða akryl. Eftir langa leit fann ég 2 tegundir af garni, lítið úrval af hvoru, sem ég gat hugsað mér að kaupa, annars vegar lífræn bómull og hinsvegar lífræn ull. Ég fór þá að spá, er það bara ég sem er svona pjöttuð að vilja helst bara hreina ull (já eða bómull þegar hún hentar) eða er þetta eitthvað íslenskt? Ég get bara ekki hugsað mér að nota gerviefni í eitthvað sem á að halda hita.

Svo náttúrulega útaf því að þetta var svo lífrænt og fínt þá var garnið náttúrulega bara til í sauðalitunum…

Sem betur fer veit ég af annarri prjónabúð sem selur alvöru almennilegt garn, ég þarf bara að nenna að fara þangað einhverntíman.