Posts tagged: kvef

allir saman nú, einn – tveir – þrír…

Jæja það fer að líða að því að við skreppum í ofurverslunarferð til úgglanda (Malmö hehe) svo að það er ekki seinna vænna fyrir ykkur að byrja að spá í óskalistanum fyrir jólin. Núna, þessi jólin, er planið að vera svolítið hagsýnn og fara til ódýrari landa í verslunarleiðangur. Þungir og stórir hlutir eru ekki jafn vinsælir og litlir og léttir hlutir – en þó er allt tekið til greina.

Annað í fréttum er að þar sem að syninum var bannað að segja fullorðinsorðin (andskotans, helvítis, fjandans ofl í þeim dúr) að þá fáum við ekki heldur að segja fullorðinsorðin. Hann er líka gáttaður yfir því hvað okkur (sérstaklega mömmunni) gengur illa að muna það að maður má ekki segja þessi orð. Þar sem að við höfum verið agalega léleg í trúarlegu uppeldi sonarins er þó erfitt að útskýra fyrir honum af hvað þessi orð þýða og af hverju þau eru ljót. Æði oft er maður skammaður fyrir að segja eitthvað allt annað vegna þess að einræðisherranum misheyrist oft þegar hann er 75% á kafi í einhverjum leik en aðeins 25% að fylgjast með orðalagi foreldra sinna. Ég held að eina skiptið sem ég komst upp með að blóta all hressilega var í gær þegar ég brenndi mig við að taka franskar út úr ofninum, missti plötuna í kjölfarið og það flugu franskar útum allt (og auðvitað voru töluverð læti í þokkabót), ég er sannfærð að í gegnum sársaukann tvinnaði ég saman nokkur misfalleg orð. Sem betur fer var bruninn ekki alvarlegur og rosalega fljótur að jafna sig (þumall).

Annað markvert í fréttum er að það “snjóaði” fyrsta snjónum hérna í gær. Kom eitthvað hallærislegt fjúk, mini snjókorn, sem að bráðnuðu áður en þau komu við jörð. Hrafnkell var yfir sig hamingjusamur yfir þessu – sennilega eini Kaupmannahafnarbúinn sem var svona kátur reyndar.

Annars gerist ekki margt. Við hóstum hérna í kór, sjúgum upp í nef og snýtum okkur – mjög geðsleg fjölskyldan. Hrafnkell er þó ekkert slappur (og í raun minnst kvefaður) og ég vil meina að Doddi hafi það ekki jafn skítt og ég… Spurning hvort að hann sé sammála. Næturnar eru jafn yndislegar, ég skríð yfirleitt frekar snemma upp í rúm, svo þegar Doddi kemur þá getur hann annað hvort ekki sofnað útaf hrotunum í mér eða hóstanum í sér. Sjálf vakna ég óteljandi oft á nóttu, geri ráð fyrir að hroturnar í mér eða hósti sé orsökin.

Einsog Rögnu þá hefur mig dreymt ýmislegt undanfarið, man minnst af því nákvæmlega núna en oftast þegar ég vakna þá á ég eitthvað eftir “óklárað”. Eitt sem ég man þó er að um daginn þá þurfti ég að prjóna brúðarkjól, það var mikið stress og ég var sko ekki ein að prjóna kjólinn – en ég var þó yfir verkinu. Hinar prjónakonurnar voru alveg glataðar og nánast engin hjálp í þeim. Þar að auki vorum við ekki með neina uppskrift og við byrjuðum á faldinum – ég var alveg viss um að það væru mistök. Anyway það gekk illa að prjóna þennan kjól.

En nóg komið af blaðri

Eyrnaverkur og ullarpjatt

Hrafnkell hefur þjáðst af einhverskonar eyrnaverk í dag. Hann er svosem búinn að vera mjög kvefaður undanfarið, við fórum td ekkert út um helgina útaf því að mér fannst hann of kvefaður. Hann kvartar undan því að honum sé svo illt í hægra eyranu. Ég prufaði 2 húsráð af húsráða síðunni minni, bæði virkuðu en misvel. Best var að taka lauk, skera hann niður og leggja við eyrað. Ég notaði svo augnlepp sem við áttum til að halda lauknum á réttum stað og barnið hætti að gráta og er amk sofandi núna.

Ég ákvað eiginlega strax að hafa ekki samband við lækni nema ef hann yrði verri og/eða ef þessi ráð myndu ekkert virka. Ég hef aðalega tvær ástæður fyrir því, annarsvegar að það er vesen að hafa samband við lækni utan opnunartíma og það gæti reynst erfitt að útskýra almennilega í gegnum síma hvað gengi á og læknirinn gæti lítið gert nema hugsanlega ávísa einhverjum lyfjum sem við þyrftum svo að komast og ná í (og þar kemur að hinni ástæðunni), það er skítkalt úti og Doddi kemur ekki fyrr en í kvöld með bílinn og það þýðir að ef við þyrftum að fara eitthvert til að ræða við lækninn eða redda einhverjum lyfjum þá þyrftum við að fara út í kuldan (og það er líka rok) og hjóla.

En svo er sagan af ullarpjattinu í mér. Ég fór í búð í dag, ég var búin að ákveða að kaupa garn til að prjóna kraga handa Hrafnkel, svona í svipuðum dúr og Lauga amma gerði handa öllum. Ég fór inní einu búðina sem ég mundi eftir í þessum hluta bæjarins, sem selur garn það er að segja. Þar fann ég einn dágóðan rekka með margar gerðir af garni – en ég varð svo hneigsluð þegar ég fór að skoða dokkurnar og þetta var allt eitthvað gerviefnadrasl. Það var ekki séns að ég væri að fara að kaupa polyamid til að prjóna úr eða akryl. Eftir langa leit fann ég 2 tegundir af garni, lítið úrval af hvoru, sem ég gat hugsað mér að kaupa, annars vegar lífræn bómull og hinsvegar lífræn ull. Ég fór þá að spá, er það bara ég sem er svona pjöttuð að vilja helst bara hreina ull (já eða bómull þegar hún hentar) eða er þetta eitthvað íslenskt? Ég get bara ekki hugsað mér að nota gerviefni í eitthvað sem á að halda hita.

Svo náttúrulega útaf því að þetta var svo lífrænt og fínt þá var garnið náttúrulega bara til í sauðalitunum…

Sem betur fer veit ég af annarri prjónabúð sem selur alvöru almennilegt garn, ég þarf bara að nenna að fara þangað einhverntíman.

Næsta próf

Jæja þá er maður að gíra sig upp í að taka annað próf. Seinasta próf var svokallað project exam, semsagt prufað uppúr ákveðnu verkefni sem við gerðum sérstaklega með það í huga að það ætti að prófa í því, en þetta próf er kallað subject exam. Þar sem að námið skiptist í 4 svið, interaction – communication – visulisation – organisation, þá er sér próf uppúr þessum sviðum. Hver nemandi fær bara eitt svið sem hann er prófaður uppúr og við fengum að vita sviðin okkar í morgun – en prófið er á fimmtudaginn.

Ég fékk interaction, sem af flestum er talið lang erfiðasta sviðið. Hin þrjú sviðin eru kjaftafög, þú getur alltaf kjaftað þig frá öllu með því að segja bara nógu oft user-testing og target-audience. Þau svið eru að mestu huglæg, þó að vissulega liggi einhver fræði á bak við. EN interaction er kóðunin og svoleiðis stöff. Þú getur ekki sannfært php skránna að hún eigi að gera svona og svona við gagnagrunninn ef að þú getur ekki skrifað skipanirnar rétt.

Ég er ekkert rosalega stressuð yfir þessu, hefði svosem ekki verið svo stressuð ef ég hefði fengið eitthvað af hinum sviðunum þrem. Það eina sem böggar mig er að kennarinn sem er prófdómarinn er ekki vinur minn, eiginlega bara allt annað en vinur minn. Ég er samt núna fegin að ég kvartaði ekki opinberlega yfir honum í vetur þegar hann sagðist ekki ekki ætla að hjálpa mér ef ég ætlaði að halda áfram að gagnrýna skólann.

Það sem að böggar mig miklu meira en prófið er að ég hef sofið illa seinustu nætur (átt erfitt með að sofna og vaknað snemma) og er svo í þokkabót að kafna í kvefi.