Posts tagged: kaupmannahöfn

Jólin jólin allsstaðar….

Það er langt liðið á haustið, næstum farið að koma frost (var  bara 2,5°c í morgun birrrr) og jólapælingar farnar að láta bera á sér. Seinustu jól vorum við í Noregi og þar af leiðandi leitar hugurinn heim til Íslands – í mínum huga eru jól á Íslandi það besta í heimi. Að geta verið með fjölskyldunni sinni og vinum, slappað af og étið ógrynnin öll af góðgæti, drukkið malt (og jafnvel styrkt það aðeins með appelsíni) já eða jafnvel jólaöl, spila spil og svo auðvitað að eiga gott afmæli.

Því miður virðist frekar ólíklegt (mjög ólíklegt) að mér verði að ósk minni að komast til Íslands um jólin. Ég var náttúrulega þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fara til Íslands í sumar, Doddi fór til Króatíu í haust – sem var ekkert ókeypis þó það hafi svosem ekki verið dýr utanlandsferð þannig lagað, íslensku lánin okkar hækka (og það munar um hverja krónu), gengið lækkar (sem þýðir dýrari dkk fyrir okkur) og verðlagið hér (matur, leiga, föt) hækkar. Þar að auki virðist útilokað núna að Doddi nái að vinna eitthvað í janúar, og það er pottþétt útilokað að ég gæti gert það þar sem að ég er í 3 prófum sem verður vandlega dreift yfir allan janúarmánuð. Þar af leiðandi getum við ekki leift okkur að kaupa núna miða til Íslands sem gerir það að verkum að þegar nær dregur og við sjáum betur hvernig peningamál standa að þá verður flugfarið hvort eð er orðið ógeðslega dýrt.

Og þá spyr maður sig, hvað getur maður gert í staðinn? Við Doddi teljumst örugglega sem stórskrítið fólk en við höfum voðalega lítinn áhuga á því að stofna okkar eigin einkajól – bara við 3 saman. Okkur langar til að eyða jólunum með öðru skemmtilegu fólki. Langar ekki bara einhverjum til að koma til Köben um jólin? Eða einhverjar aðrar góðar hugmyndir?

Anyway svona eru jólapælingarnar á þessum bæ, hvaða jólapælingar hafið þið?

Heimferð í nánd

Það fer að líða að því að við keyrum suður á bóginn, svo stuttu seinna munum við fara enn lengra suður og enda í Kaupmannahöfn á sunnudaginn. Það er ekki laust við að maður vilji bara helst fá að vera hérna áfram. Ég hef “þjáðst” af töluverðri heimþrá síðan um áramót og hélt nú að hún myndi lagast, að einhverju leiti amk, með þessari heimferð en svo er nú ekki. Það er nefnilega helvíti notalegt að vera hérna, hvort heldur sem er í Hrísateignum eða hérna hjá tengdó á Akureyri. Maður er búinn að sakna ýmislegs án þess kannski að hafa áttað sig almennilega á því að maður hafi verið að sakna þess. Vonandi fer maður að hugsa aðeins öðruvísi þegar maður kemur aftur heim í Solbakken, kemst í rútínuna og hittir skólafélagana.

Ekki það að í sumar munu ég og mínir skólafélagar útskrifast og þá munum við örugglega fara hvert í sína áttina. 

En að öðru þá er ég búin að skila inn verkefninu sem ég þurrfti að gera fyrir Mediehojskolen, er bara nokkuð sátt hvort sem að þetta er eitthvað sem að þeir eru að leita eftir. Það eru “bara” 115 umsækjendur og það eru 21 sem komast inn. Það er gott að vera búin að skila þessu af sér svo að núna getur maður einbeitt sér að því að stressa sig yfir lokaverkefninu í skólanum. Það má segja að það sé ólíkt meira vinnuálag á þessari önn en hinum þremur. Það er ágætt að sumu leyti en pirrandi að öðru leyti. Ég hefði td alveg viljað geta slappað bara almennilega af, þá daga sem ég hef ekki verið að vinna að verkefnum, án samviskubits.

Og að enn öðru þá er frændinn minn æði, geggjað sætur og flottur.

Fyrir þá sem vilja vita

Kaupmannahöfn til Reykjavík
Flug 1 fimmtudagur, 2. apríl 2009
Brottför: 19:45 Kaupmannahöfn, Danmörk – Copenhagen Flugvöllur, Terminal 3
Komust. 20:55 Reykjavík, Ísland – Keflavik International
Flugfélag: Icelandair FI213 Flugvél: 75W
Fargjald : Economy Class/Lægsta fargjald
Farangur: 20 kíló á farþega
Reykjavík til Kaupmannahöfn
Flug 1 sunnudagur, 19. apríl 2009
Brottför: 13:15 Reykjavík, Ísland – Keflavik International
Komust. 18:15 Kaupmannahöfn, Danmörk – Copenhagen Flugvöllur, Terminal 3
Flugfélag: Icelandair FI212 Flugvél: 75W
Fargjald : Economy Class/Lægsta fargjald
Farangur: 20 kíló á farþega

Smá annáll

Það er varla að ég muni hvað gerðist á árinu 2008 :-/

Við vorum heima á Íslandi um seinustu áramót, komum svo heim til Köben til þess að fara í próf. Mér gékk mjög vel í prófinu mínu, en það var engin einkunn gefin í það skiptið.  Svo eftir prófin keyrðum við uppeftir til Balestrand, Noregi, til að heimsækja Ödda og Birnu. Það gékk ekki betur en svo að við þurftum að gista 2 nætur hjá Helgu Maríu og Sverri í Geilo (sem er mjög kósí skíðabær) vegna leti Noregsmanna við mokstur (já eða amk þá voru öll fjöll stengt og ekkert hægt að komast). Þar af leiðandi tók ferðalagið alltof langan tíma og heimsóknin fékk of stuttan tíma, maður var varla kominn þegar kominn var tími til að fara til baka. Hrafnkell sannaði þá, enn og aftur, að hann er draumabarn þegar kemur að ferðalögum, rólegur og nægjusamur.

Þegar heim var komið þá tók bara við skólinn aftur. Við vorum öll heilsuhraust (ólíkt haustönninni þar á undan) en engu að síður var rútínan okkar ekki alveg nógu góð vegna alls konar fría og vesena. Það liðu margar vikur án þess að Hrafnkell væri heila viku í Vuggestuen.Við fjölguðum í fjölskyldunni og komum upp ferskvatnsfiskabúri.

Við höfum fengið margar heimsóknir á þessu ári, flestar þó rétt fyrir verkefnaskil hjá Dodda svo að fólk hefur meira verið að heimsækja mig og Hrafnkel. Mamma, pabbi og Ragna komu um páskana, fengu að upplifa Kaupmannahafnískan vetur og kulda. Í lok apríl komu svo tengdó að heimsækja okkur, svo kom Hrafnhildur í miðjum maí og upplifði geggjað sumarveður. Næst var Valdís á ferðinni, seinni partinn í júní, kom með þrumum og eldingum. Hulda og Lára (Öddadóttir) komu í heimsókn fyrri partinn í júlí, kíktu í Tívolí og fleira. Mánaðamótin september-október komu Hjödda og Bjössi aftur í heimsókn en í þetta skiptið komu þau líka með Margréti og Hrein með sér, en það eru amma og afi Dodda.

Við ætluðum að vera hérna í sumar og reyna að finna okkur vinnu en það gékk ekki mjög vel, enda erum við illa talandi útlendingar með stutt sumarfrí. Það fór svo þannig að Doddi rauk uppeftir til Ödda til að vinna sem smiður. Ég og Hrafnkell skældum okkur til Íslands, þar sem við vorum uppá náð og miskunn mömmu og pabba. Hrafnkell naut þess að umgangast ættmenni sín, bætti íslenskuna sína mikið og hafði það almennt mjög gott á meðan ég naut þess að geta (amk stundum) sofið aðeins meira frameftir en venjulega, ég naut þess líka að komast aðeins barnlaus og kalllaus til eyja með vinum mínum (það hefði samt verið alltílagi að vera með Dodda með sér) en annars gerði ég ekkert. Hrafnkell sannaði enn og aftur að hann er draumaferðafélagi, var rólegur þegar mamman fékk smá panikk yfir flugmiðanum á leiðinni til Íslands, var rólegur í flugvélinni þrátt fyrir mikið og langt ferðalag. Á ferðalögum er Hrafnkell nefnilega bæði rólegur og skemmtilegur (oftast amk) og það er allt sem maður getur beðið um hjá 2-3 ára gömlu barni.

Það var aftur brotist inní bílinn okkar, núna var meira skemmt heldur en stolið – en þetta er svosem hluti af því að búa í mjög rólegu hverfi í stórborg. Því miður var það ekki það eina sem var stolið, Doddi varð fyrir nokkrum vasaþjófum (einstaklega óheppinn á djamminu) og svo var hjólinu hans stolið. Einnig tókst Dodda að tína (eða láta stela af sér) peningaveskinu, sem betur fer var ekki mikill peningur í því en verra var að glata greiðslukortum ofl svoleiðis.

Ég fór til Berlínar í Október, með bekknum mínum. Það var mjög gaman, góð tilbreyting frá hinu daglega lífi. Já og Doddi fékk sér mús (sem er skaðræðiskvikindi). Já og Hrafnkell fluttist úr Vuggestue yfir í Börnehave í sumar, enda orðinn stór strákur.

Svo fórum við til Noregs til að halda jólin, þar sem að Hrafnkell sannaði það enn og aftur að hann er frábær á ferðalagi (haha ég get ekki sagt þetta of oft ;-) ).

Árið 2009 er óskipulagt að miklu leiti. Ég útskrifast í vor og þarf því að fara að ákveða hvað ég vil gera, mig langar til að læra meira – sérhæfa mig meira þar sem að þetta nám finnst mér vera of víðtækt og ekki nógu nákvæmt. Ég hef verið að skoða hvort og hvaða möguleika maður hefur á fjarnámi, en því miður eru þeir ekki fjölbreyttir – amk ef maður ætlar að læra á Íslandi. Ég vil frekar halda áfram að læra núna, halda áfram að læra, heldur en að stoppa og fara að vinna og eiga kannski erfiðara með að halda áfram að læra seinna. Þar fyrir utan er mikill samdráttur í atvinnulífinu hérna í Kaupmannahöfn alveg einsog á Íslandi, kannski ekki miklar draumavinnur í boði fyrir útlending einsog mig – sérstaklega þegar maður er að reyna að troða sér inní geira sem tilheyrir algerlega lúxus og munaði. Þá er kannski betra að vera í skóla á meðan heimskreppan jafnar sig aðeins. Ég verð líka að viðurkenna að þessa dagana þá þjáist ég af heimþrá, í fyrsta skiptið síðan við fluttum út langar mig mikið til að pakka saman og flytja heim. En ég vil samt ekki flytja heim í ekkert, enga vinnu, enga peninga, ekkert heimili – ég vil vinna lottó fyrst ;-)

Home sweet home

Við erum komin heim, það er alltaf best að koma heim. Við glottum aðeins þegar Hrafnkell sagði “við eigum risastórt hús, Öddi og Birna eiga bara pínu, pínu lítið hús” því að þau búa víst í einhverjum 100 fermetrum meira en við ;-) En vissulega er húsið okkar stærra þó að íbúðin okkar sé bara lítill hluti af því.

Ferðin frá Noregi tók dágóðan tíma en var nokkuð tíðindalaus. Við keyrðum frá Balestrand til Osló í gær, gistum svo í Hyttu í Osló í nótt og keyrðum svo til Köben í dag. Hrafnkell vildi helst bara taka Huldu, Bjössa og Hjöddu með okkur hingað og ég skil hann vel en við erum þó bara sátt við að vera heima hjá okkur. Verst að Doddi fer núna á kaf í prófaundirbúning, próf á þriðjudag og svo fer hann aftur uppeftir :-( Hann ætlar víst að byggja einhverja spítukofa þarna í Norge og eignast þannig einhverjar óverðlausar (haha hvað er andstæðan við verðlaust?) krónur.

Prófin mín eru svo 14. og 22. jan (ef ég man rétt) svo að ég er ekki enn farin að reyna að hugsa mikið um þau. Við ætlum að hittast hópurinn á þriðjudag og ræða aðeins stöðu mála og skipuleggja smá prófaundirbúning.

Það virðist vera að það sé furðulegur tæknidraugur í bílnum okkar. Fyrstu merkin voru þau að útvarpið okkar, sem spilar víst tónlist af minniskortum, velur hvaða lög eru skemmtileg og hver eru leiðinleg, þannig að stundum fær maður bara að hlusta á hluta af þeim lögum sem maður ætlar að hlusta á. Það er samt ekki samræmi á milli þess hvaða lög spilarinn vill hlusta á hverju sinni, stundum er ABBA í lagi en stundum vill hann bara Amy Winehouse. Svo fór tölvan mín að haga sér undarlega, ekki nóg með það að hún gat ekki þegið straum úr hleðslutækinu og verið kveikt á henni á sama tíma (alltaf þegar maður kveikti á henni þá rofnaði straumurinn) heldur voru allar hleðslutækisleiðslurnar að detta í sundur (semsagt straumbreytir í kveikjara, hleðslutæki í straumbreyti, snúran í straumbreytinn eða snúran í tölvuna) þrátt fyrir að þetta væri marg skoðað og lagað. Svo hrundi gps tækið niður, bara alltíeinu. Það heyrðist líka, á tímabili, skrítið hljóð einsog ískur í gööööööömlu segulbandstæki sem er að spila tóma spólu.

Annars er músin á lífi, á nóg vatn eftir og helling af mat – hún er líka búin að endurraða saginu í búrinu og búa til vel myndarlegan haug í eitt hornið. Hún er líka orðin stór og feit, maður fer að hallast að því að kvikindið sé barasta rotta eða eitthvað (nei kannski ekki alveg). Fiskarnir eru flestir á lífi, ég er búin að sjá einn sem er “ekki hress” en annars virðast þeir sprækir.

Svo fer morgundagurinn í að fara með Hrafnkel í leikskólann – stuttur dagur (það var erfitt að sofna í gærkveldi og í kvöld – einhver spenna í barninu) sennilega – og koma drasli fyrir, versla í matinn, græja og gera (prufa matvinnsluvélina sem við fengum frá tengdó (get ekki beðið *stjörnuríaugunum* (er búin að langa í svona í svoldinn tíma))).

En já þegar við komum heim þá var kallt í Köben – eða -6°c, og við (kreppuþjáðir íslendingar) höfðum auðvitað lækkað á öllum ofnum áður en við fórum :-/ Þannig að þegar maður kom inn fyrst þá leið manni ekkert smá vel að koma inn í hlýjuna en svo fór maður að átta sig á raunveruleikanum, það var bara ekkert kalt hlýtt inni hjá okkur. Eiginlega bara skítakuldi – svo að ofnarnir voru gíraðir upp (líka aukarafmagnsofninn sem okkur áskotnaðist í sumar (einhver hefur örugglega verið að flytja heim í hið vel upphitaða Ísland)). Svo ákvað ég að fara í sturtu og þá fann ég að það virðist vera einhver hitavatnsskortur í húsinu því að ég gat sturtað mig með því að skrúfa bara frá heita vatninu (ég veit að heita vatnið er heitara heima en hér en maður þarf samt alveg að blanda það hérna með köldu vatni – yfirleitt amk) og það var samt aðeins kaldari sturta en venjulega þegar ég fer í sturtu.  EN engu að síður er gott að koma heim og það VERÐUR HEITT bráðum…

Get ekki beðið

Á morgun leggjum við af stað heim, stefnan er að leggja af stað um 9 leytið og keyra alla leið til Osló – amk eins mikið og hægt er að keyra og taka ferjur rest. (mikið voðalega yrði ég pirruð ef ég þyrfti að reiða mig á ferju alltaf þegar ég æltaði að færa á mér rassgatið eitthvað) Svo verður gist í hyttu um nóttina og svo keyrt til Kaupmannahafnar á sunnudag. Á mánudag tekur svo við “semi-eðlilegt” líf, Hrafnkell fer í Börnehaven og maður fer að hafa samband við skólafélagana til að skipuleggja lærdóm.

Ég er orðin þreytt á Noregi í bili, hérna eru læti allan daginn og það er lítið hægt að gera nema að bíða eftir að það komi nótt – þá eru amk nokkrir rólegir klukkutímar. Við erum ekki vön að hafa þetta þannig, heima í Solbakken er yfirleitt alltaf mjög rólegt á kvöldin því að þá er Hrafnkell sofandi. Aðrir staðir sem við erum vön að heimsækja innihalda ekki svona mörg fjörug börn þannig að það er alveg séns að fá ró og næði – munurinn er þó að hérna hefur Hrafnkell einhverja til að leika við (og slást við) en annarsstaðar þá eru mestu lætin í honum að leiðast.

Þar fyrir utan þá var ekki pláss fyrir kerruna með svo að við Hrafnkell förum ekki langt ef við ætlum út í labbitúr – það er ekkert hérna nærri til að labba að og skoða (amk hef ég ekki fundið neitt ennþá). Heima er alltaf hægt að fara á nýja og nýja staði – enda landið flatt og vegir liggja til allra átta ;-)

Ég hef verið að reyna að vinna að heimasíðunni, eftir að ég náði að gera bloggið nokkurnvegin klárt (ja fyrir utan smá vandamál sem ég þarf að leysa þegar ég kem heim), en það gengur hægt. Enda eru læti ekki besta vinnuaðstaðan – fyrir utan að þurfa að skamma allan daginn til þess að reyna að halda friðinn.

Anyway Köbenhavn – Jeg kommer snart igen…

ps. Mamma – ég veit að þú myndir aldrei hafa mat sem þú veist að mér finnst vondur ;-) Annars var þessi kalkúnn ætur – ekki mikið meira en það. Meðlætið var gott.

pps. Ég nenni ekki að skrifa áramótapistil núna – hann kemur bara seinna