Posts tagged: jólagjafir

og lífið heldur áfram

Það er komin vika og satt best að segja þá finnst mér ótrúlegt hversu vel mér líður – miðað við hvað ég var í miklu rusli á fimmtudag og föstudag. Kannski er ég bara í einhverri afneitun eða kannski er ég bara loksins að átta mig á því að þetta reddast, þetta verður bara allt í lagi. Ég vil reyndar líka þakka þessu það að ég hef reynt að vera jákvæð, amk meiri hluta dagsins, ég hef líka talað óendalega mikið við alla mína góðu vini – og er eiginlega komin með ógeð á vælinu í sjálfri mér hehe.

Núna, í fyrsta skiptið í töluvert langan tíma, finnst mér ég vera sjálf við stjórn í lífi mínu og það er góð tilfinning. Núna get ég tekist á við dagleg verkefni – enda kominn tími til hehe. Skólaverkefnin eru loksins farin að ganga eitthvað, ég er byrjuð að kaupa jólagjafir og bíð bara eftir að fá blekið mitt svo að ég geti sent jólakort. Svo er planið að taka aðeins í gegn hérna áður en fjölskyldan mín kemur en bakstur og konfekt gerð fær að bíða þar til þau koma. Ég er hvort eð er alin upp við að þetta er oft gert svona seinustu daga fyrir jól, þegar skólinn er kominn í frí.

Ég fór í “keilu” í gær, það er að segja við Anna ætluðum í keilu en svo fórum við bara og fengum okkur að borða og komumst ekki lengra vegna seddu og leti. En við borðuðum góðan mat og töluðum mikið saman og það var bara ljómandi gaman. Og svo ætla ég að fara út á föstudagskvöldið með Camillu, Önnu og vinafólki Önnu – sem er að koma að heimsækja hana yfir helgina – og það á eftir að verða ljómandi gaman, ég er búin að ákveða það :-)

Doddi býr hérna ennþá, ég veit ekkert hvort að eitthvað er að gerast í þeim málum. Vonandi þó okkar allra vegna.

allir saman nú, einn – tveir – þrír…

Jæja það fer að líða að því að við skreppum í ofurverslunarferð til úgglanda (Malmö hehe) svo að það er ekki seinna vænna fyrir ykkur að byrja að spá í óskalistanum fyrir jólin. Núna, þessi jólin, er planið að vera svolítið hagsýnn og fara til ódýrari landa í verslunarleiðangur. Þungir og stórir hlutir eru ekki jafn vinsælir og litlir og léttir hlutir – en þó er allt tekið til greina.

Annað í fréttum er að þar sem að syninum var bannað að segja fullorðinsorðin (andskotans, helvítis, fjandans ofl í þeim dúr) að þá fáum við ekki heldur að segja fullorðinsorðin. Hann er líka gáttaður yfir því hvað okkur (sérstaklega mömmunni) gengur illa að muna það að maður má ekki segja þessi orð. Þar sem að við höfum verið agalega léleg í trúarlegu uppeldi sonarins er þó erfitt að útskýra fyrir honum af hvað þessi orð þýða og af hverju þau eru ljót. Æði oft er maður skammaður fyrir að segja eitthvað allt annað vegna þess að einræðisherranum misheyrist oft þegar hann er 75% á kafi í einhverjum leik en aðeins 25% að fylgjast með orðalagi foreldra sinna. Ég held að eina skiptið sem ég komst upp með að blóta all hressilega var í gær þegar ég brenndi mig við að taka franskar út úr ofninum, missti plötuna í kjölfarið og það flugu franskar útum allt (og auðvitað voru töluverð læti í þokkabót), ég er sannfærð að í gegnum sársaukann tvinnaði ég saman nokkur misfalleg orð. Sem betur fer var bruninn ekki alvarlegur og rosalega fljótur að jafna sig (þumall).

Annað markvert í fréttum er að það “snjóaði” fyrsta snjónum hérna í gær. Kom eitthvað hallærislegt fjúk, mini snjókorn, sem að bráðnuðu áður en þau komu við jörð. Hrafnkell var yfir sig hamingjusamur yfir þessu – sennilega eini Kaupmannahafnarbúinn sem var svona kátur reyndar.

Annars gerist ekki margt. Við hóstum hérna í kór, sjúgum upp í nef og snýtum okkur – mjög geðsleg fjölskyldan. Hrafnkell er þó ekkert slappur (og í raun minnst kvefaður) og ég vil meina að Doddi hafi það ekki jafn skítt og ég… Spurning hvort að hann sé sammála. Næturnar eru jafn yndislegar, ég skríð yfirleitt frekar snemma upp í rúm, svo þegar Doddi kemur þá getur hann annað hvort ekki sofnað útaf hrotunum í mér eða hóstanum í sér. Sjálf vakna ég óteljandi oft á nóttu, geri ráð fyrir að hroturnar í mér eða hósti sé orsökin.

Einsog Rögnu þá hefur mig dreymt ýmislegt undanfarið, man minnst af því nákvæmlega núna en oftast þegar ég vakna þá á ég eitthvað eftir “óklárað”. Eitt sem ég man þó er að um daginn þá þurfti ég að prjóna brúðarkjól, það var mikið stress og ég var sko ekki ein að prjóna kjólinn – en ég var þó yfir verkinu. Hinar prjónakonurnar voru alveg glataðar og nánast engin hjálp í þeim. Þar að auki vorum við ekki með neina uppskrift og við byrjuðum á faldinum – ég var alveg viss um að það væru mistök. Anyway það gekk illa að prjóna þennan kjól.

En nóg komið af blaðri

Skilðavera jólahjól?

Ég er byrjuð að vinna í jólaóskalista fyrir okkur Hrafnkel, það er linkur hérna til hliðar

<——- Linkur

Auðvitað er þetta bara gamni gert en kannski ætti þetta að hjálpa einhverjum eitthvað