Posts tagged: Ísland

Stuttur draumur

Á þessum örfáu dögum, frá því að við sáum frammá að það væri kannski raunhæft að koma til Íslands um jólin, hefur verðið á farmiðum rokið upp úr öllu valdi. Það er því eiginlega algerlega útséð um það að við komum ekki til Íslands um jólin. Það er ömurlegt að þurfa að taka þessa ákvörðun en það er ekki fyrirgefanlegt að borga amk 10.000 kr á dag fyrir þessa örfáu daga sem við myndum vera á Íslandi.

Við verðum því bara hérna í Solbakken :-(

jáhá lín kannski ekki jafn slæm og maður hélt

Ja sey sey. Var að fá lánsloforðið frá lín og það hljómar bara uppá miklu fleiri peninga en við bjuggumst við. Við nefnilega gengum bara frá láninu hans Dodda í haust, því að það var allt svo óljóst með mitt nám, og erum því að græja mitt núna.  Einnig þarf að láta endurmeta lánið hans Dodda, það voru nefnilega gerðar breytingar á lín eftir að það var gengið frá því, og reiknivélin segir að við eigum að fá meiri pening í því en upphaflega lánsloforðið sagði.

Þetta gerir það að verkum að það er séns á því að við getum komið heim til Íslands um jólin – við þurfum bara að hafa hraðar hendur og klára að græja peningamálin sem fyrst svo við sjáum hvort að það þetta er raunhæfur möguleiki (og biðja til guðs og annarra vætta að farið hjá Icelandexpress hækki ekki mikið meira)

Jólin jólin allsstaðar….

Það er langt liðið á haustið, næstum farið að koma frost (var  bara 2,5°c í morgun birrrr) og jólapælingar farnar að láta bera á sér. Seinustu jól vorum við í Noregi og þar af leiðandi leitar hugurinn heim til Íslands – í mínum huga eru jól á Íslandi það besta í heimi. Að geta verið með fjölskyldunni sinni og vinum, slappað af og étið ógrynnin öll af góðgæti, drukkið malt (og jafnvel styrkt það aðeins með appelsíni) já eða jafnvel jólaöl, spila spil og svo auðvitað að eiga gott afmæli.

Því miður virðist frekar ólíklegt (mjög ólíklegt) að mér verði að ósk minni að komast til Íslands um jólin. Ég var náttúrulega þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fara til Íslands í sumar, Doddi fór til Króatíu í haust – sem var ekkert ókeypis þó það hafi svosem ekki verið dýr utanlandsferð þannig lagað, íslensku lánin okkar hækka (og það munar um hverja krónu), gengið lækkar (sem þýðir dýrari dkk fyrir okkur) og verðlagið hér (matur, leiga, föt) hækkar. Þar að auki virðist útilokað núna að Doddi nái að vinna eitthvað í janúar, og það er pottþétt útilokað að ég gæti gert það þar sem að ég er í 3 prófum sem verður vandlega dreift yfir allan janúarmánuð. Þar af leiðandi getum við ekki leift okkur að kaupa núna miða til Íslands sem gerir það að verkum að þegar nær dregur og við sjáum betur hvernig peningamál standa að þá verður flugfarið hvort eð er orðið ógeðslega dýrt.

Og þá spyr maður sig, hvað getur maður gert í staðinn? Við Doddi teljumst örugglega sem stórskrítið fólk en við höfum voðalega lítinn áhuga á því að stofna okkar eigin einkajól – bara við 3 saman. Okkur langar til að eyða jólunum með öðru skemmtilegu fólki. Langar ekki bara einhverjum til að koma til Köben um jólin? Eða einhverjar aðrar góðar hugmyndir?

Anyway svona eru jólapælingarnar á þessum bæ, hvaða jólapælingar hafið þið?

Og hvað svo?

Hvað gerir maður þegar plan A gengur ekki upp og svo virðist plan B ekki heldur ætla að ganga upp og plan C er eiginlega bara „þetta reddast“?

Ég er semsagt komin heim, eftir gott frí heima á Íslandi, og þar beið bréfið mikla meðal óendanlega mikils ruslpósts. Ég var með óþægilega tilfinningu gagnvart þessu bréfi, reyndi að afsaka það með því að ég er svartsýnismanneskja almennt séð, sem var svo staðfest þegar ég opnaði það. Því miður komst ég ekki að í skólanum en er þó að biðlista, ef ské kynni að einhverjir detti út. Þannig að það er ekki öll von úti en samt eiginlega.

Kallinn sagði, í viðtalinu sem ég fór í, að skólinn væri með þjóðerniskvóta og tæki bara inn 3-4 af hverju þjóðerni og ég býst við að það hafi ýtt mér út því að ég veit um einstaklinga sem komust inn þrátt fyrir að hafa td verri einkunnir en ég úr KTS en þeir einstaklingar eru danir. Þannig að núna þarf ég að skrifa honum email og spyrjast fyrir um þennan biðlista, hvernig ég standi og hvort að það sé raunhæfur möguleiki að ég komist samt inn – og benda honum á að þetta er eitthvað sem ég virkilega vil (þó að ég hafi ekki verið svo sannfærð um það í vor þá er ég sannfærð núna).

Þar fyrir utan sé ég ekki annað í stöðunni en að byrja á því að sækja um allar þær vinnur sem ég finn, sem actually koma menntun minni eitthvað við. Einnig þyrfti ég líka að fara fljótlega í það að sækja um vinnur við að skeina rassa eða eitthvað álíka spennandi, hugsa samt að ég myndi frekar vilja fara bara í einhver þrif eða eitthvað. Hvað sem hverju líður þá höfum við ekki efni á því að hafa mig tekjulausa.

Búhú! Ég er hundfúl, var eiginlega búin að treysta alveg á að komast inn, þrátt fyrir þetta gut-instinct um að ég kæmist ekki inn. Þar fyrir utan er heillangt þangað til að Doddi kemur heim og satt best að segja þá finnst mér ég óttalega ein í heiminum eitthvað . EN það þýðir ekkert annað en að hrista af sér slenið, ganga frá hérna og vona það besta.

Langur dagur

Við Hrafnkell erum sko búin að vera dugleg í dag. Við fórum nefnilega á fætur (hægt og rólega reyndar), fórum í bað og fengum okkur að borða og svoleiðis. Svo tókum við okkur til og græjuðum okkur í ferðalag dagsins.

Við nefnilega löbbuðum inn í miðbæ, eftir Istedgade, þar sem Hrafnkell sá hunda, prinsessur (í prinsessuturnum), berfættar konur (sem verða að kaupa sína eigin skó, en mega sko ekki fá hans skó) og ýmislegt annað áhugavert – en ég sá róna, hórur, rusl og drasl (og þvílík pissufýla sumstaðar).

Á Ráðhústorgi var eitthvað Asíudæmi í gangi og við horfðum aðeins á einhverjar skrítnar, skáeygðar konur dansa við tónlist sem skar í eyrun. Svo fórum við aftur að aðalbrautarstöðinni, keyptum okkur klippikort vegna þess að við munum nota lestarnar slatta þar til að við förum heim til Íslands. Þar næst var förinni haldið í s-tog c í áttina að Ordrum (já eða Klampenborg er endastöðin) því að okur var boðið í babyshower (barnasturtu?) til Louisu, sem er bekkjarsystir og hópfélagi Þórðar (og sónarnir eru ekki sammála en hún er skrifuð á bilinu 6-8. sept!). Þegar þangað (á lestarstöðina) var komið þá tók við að finna húsið. Þar sem að ég hafði tekið mig til og teiknað þetta líka flotta kort af svæðinu (útaf því að prenntarinn er bæði bilaður og bleklaus) og það fyrsta sem ég fann var gata sem ég hafði ekki teiknað inn á kortið – en þetta hafðist samt og við fundum staðinn.

Í barnasturtunni voru aðalega bekkjarsystkini Þórðar og ég hafði engan hitt af þeim  nema Louisu, svo að ég átti smá erfitt með feimnina í mér (en þetta var samt ótrúlega alltílagi). Nokkrir höfðu hitt Hrafnkel áður en hann var líka mjög feiminn til að byrja með. Svo þegar feimnin fór að renna af honum og hann fór að haga sér einsog venjulega þegar hann er meðal fólks þá var ég spurð hvort að hann væri alltaf svona “energetic” og ég horfði til bara og sagði “well, he is his fathers son” og þau horfðu á mig og skildu þetta engan vegin því að Þórður ku vera svo yfirvegaður og rólegur! hahhahahahaha, þau hafa aldrei séð hann keyra í snjó…

En anyway þetta var reyndar bara frekar gaman, og þó að þetta sé svona sjúklega væminn og hallærislegur amerískur siður þá finnst mér þetta bara svoldið sniðugt. Í mínum huga kæmu gjafirnar þá sennilega á móti vöggugjöfunum reyndar en það skiptir ekki öllu máli.

Svo fórum við Hrafnkell heim með lestinni aftur – í þetta skiptið alla leið til Enghave, en það er bara 2 stoppum lengra en miðbærinn (við fórum sko bara labbandi í miðbæinn því að mig vantaði þetta klippekort og það er ekki hægt að kaupa það á Enghave st.) og svo var (pirraður) Hrafnkell sendur beint í rúmið því að klukkan var svona mikið.

Sumarið að skýrast

Það lítur allt út fyrir að Doddi fari til Noregs (ef þeir hafa einhverja vinnu fyrir hann þar) í sumar, strax eftir prófið hans – sem er í byrjun júní – og ætli hann verði ekki þar nánast í allt sumar – komi rétt heim áður en hann fer svo aftur til Alexandríu í skólaferðalagið sitt. 

Ég er hinsvegar ekki búin fyrr en 26. júní, þegar ég útskrifast. Svo er stefnan að byrja aftur í skóla í haust, þó að ég viti nú þegar um 2 skóla sem ég fer ekki í, þó að ég viti í raun ekki um neinn skóla sem er búinn að segja já þá er það samt stefnan ennþá. Það má gera ráð fyrir því að sá skóli byrji í endanum á ágúst – sem þýðir 2 mánuðir í sumarfrí hjá mér.  Eða með öðrum orðum 8-9 vikur.

Sú krafa hefur komið frá leikskólanum hans Hrafnkels að hann sé í 3 vikur í samfelldu fríi í sumar. Eðlileg krafa, bæði er þetta viku minna en er krafist heima á Íslandi og þá veljum við alveg hvenær hann verður í fríi og hvenær ekki.

Þetta gerir 5-6 vikur í frí fyrir mig svo að það þarf ekki neinn snilling til að átta sig á því að ég fæ hvergi vinnu hérna í 5-6 vikur. Það tekur því ekki að þjálfa upp hálfótalandi starfsmann fyrir svona stuttan tíma. Þannig að ég get lítið gert annað en að setja inn smáauglýsingar hér og þar og óska eftir einhverjum verkefnum sem ég gæti hugsanlega unnið heima hjá mér í sumar. Ég er ekki bjartsýn á að það gangi vel en hvað getur maður annað gert? Það hjálpar aðeins til að ég held að ég ætti að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þetta sumarið þar sem að ég er að útskrifast úr dönskum skóla, það er amk eitthvað sem maður þarf að kanna. Eftir Noregsferð um jólin og svo Íslandsferð um páskana þá erum við ekkert að vaða í peningum, sérstaklega þar sem kom í ljós (eftir á) að fjárhagsáætlunin hafði leiðinlega áhrifaríka innsláttarvillu. Það vantaði nefnilega eitt núll í húsaleiguna og þó að núll sé bara núll þá munaði ótrúlega um það hvort að húsaleigan sé 10 þús eða 100 þús á mánuði. En þetta reddast, það gerir það alltaf.

En vegna þess að við þurfum að ákveða hvaða 3 vikur Hrafnkell á að vera í fríi þá væri gaman að heyra hvort að einhverjir séu með einhver heimsóknarplön í sumar? 

En já aftur að skólapælingum. Það beið mín umslag frá einum skólanum þegar ég kom heim frá Íslandi. Í því var ég beðin um að koma í inntökupróf nokkrum dögum áður – þar með var einn skóli farinn. Svo fékk ég email um daginn þar sem mér var tilkynnt að ég hefði ekki komist inn í inntökuprófið í Mediehojskolen. Það merkilega við það var að ég þekki þó nokkra sem sóttu um og það voru bara danir sem komust áfram í inntökuprófið og ég veit með vissu að nokkrir af þessum dönum eru slakari en nokkrir af útlendingunum. Eiginlega efast ég ekki, þegar ég sé hverjir komust áfram og hverjir ekki, um það að málið var einfaldlega það að þeir voru ekki að leita að útlendingum – en það hefði verið gott að vita það áður en maður eyddi lööööngum hluta af páskafríinu í að vinna að inntökuverkefninu.

Komin heim

Við erum komin heim til Kaupmannahafnar. Flugvélin var ekki lent þegar Hrafnkell fór að tala um að hann vildi endilega fara aftur í heimsókn til ömmu og afa, brúnin lyftist þó eilítið þegar við fórum að tala um allt sem hann gæti sagt Amiru, og hinum krökkunum í börnehaven, frá því sem hann hafði gert í páskafríinu. En svo kom babb í bátinn, hann fattaði að Amira talar ekki íslensku og hann kann ekki að segja frá öllu á dönsku, hvernig segir maður td sundlaug, heitur pottur og páskaegg? Þetta olli smá áhyggjum en við komumst örugglega yfir það.

En já við komum til Hveragerðis á föstudagskvöld, fengum gistingu hjá Frosta og Sonju. Þar var auðvitað gott að vera, einsog allstaðar annarsstaðar sem við höfum verið um páskana. Gylfi, Hrafnkell og Kristín voru strax góð að leika sér öll saman þrátt fyrir mikinn aldursmun (8 ára, 3,5 ára og 9 mánaða). Þarna var Hrafnkell líka búinn að finna “litla barn” sem var bæði lítið og vitlaust og skemmtilegt! Ekki alveg jafn leiðinlegt, og grenjar ekki jafn hátt. Hann komst reyndar að því fljótlega að hún var ekki gallalaus, heldur var hún bæði of lítil og vitlaus til að vita að maður má ekki meiða aðra og svo varð maður alltíeinu að passa upp á að hún væri ekki að éta dótið mans. En heilt yfir þá náðu þau þrjú vel saman.

Við áttum svo bæði góða stundir með Frosta og Sonju og svo aftur góðar verslunarstundir með Hrafnhildi í gær.

En svo í dag þá skiluðum við bílnum, fórum út á völl, flugum heim, borðuðum kvöldmat, svæfðum barnið og erum núna bara að slappa af. Það var notalegra en ég hélt (miðað við “Íslandsheimþránna” sem hefur hrjáð mig undanfarna daga) að koma hingað heim. Engu að síður nenni ég engan vegin að takast á við skólann og að koma sér aftur inn í venjulega rútínu  *dæs* en þetta hefst einhverntíman. Ég hugsa að morgundagurinn verði erfiðastur og svo jafni sig flest all.

Heimferð í nánd

Það fer að líða að því að við keyrum suður á bóginn, svo stuttu seinna munum við fara enn lengra suður og enda í Kaupmannahöfn á sunnudaginn. Það er ekki laust við að maður vilji bara helst fá að vera hérna áfram. Ég hef “þjáðst” af töluverðri heimþrá síðan um áramót og hélt nú að hún myndi lagast, að einhverju leiti amk, með þessari heimferð en svo er nú ekki. Það er nefnilega helvíti notalegt að vera hérna, hvort heldur sem er í Hrísateignum eða hérna hjá tengdó á Akureyri. Maður er búinn að sakna ýmislegs án þess kannski að hafa áttað sig almennilega á því að maður hafi verið að sakna þess. Vonandi fer maður að hugsa aðeins öðruvísi þegar maður kemur aftur heim í Solbakken, kemst í rútínuna og hittir skólafélagana.

Ekki það að í sumar munu ég og mínir skólafélagar útskrifast og þá munum við örugglega fara hvert í sína áttina. 

En að öðru þá er ég búin að skila inn verkefninu sem ég þurrfti að gera fyrir Mediehojskolen, er bara nokkuð sátt hvort sem að þetta er eitthvað sem að þeir eru að leita eftir. Það eru “bara” 115 umsækjendur og það eru 21 sem komast inn. Það er gott að vera búin að skila þessu af sér svo að núna getur maður einbeitt sér að því að stressa sig yfir lokaverkefninu í skólanum. Það má segja að það sé ólíkt meira vinnuálag á þessari önn en hinum þremur. Það er ágætt að sumu leyti en pirrandi að öðru leyti. Ég hefði td alveg viljað geta slappað bara almennilega af, þá daga sem ég hef ekki verið að vinna að verkefnum, án samviskubits.

Og að enn öðru þá er frændinn minn æði, geggjað sætur og flottur.

Ég er alveg að koma til Íslands!

Það er nú aldreilis farið að styttast í að ég komi til Íslands, ég er farinn að hlakka mikið til. Mamma hefur bara smá áhyggjur af því að ég eigi aftir að sakna Amiru, hún er nefnilega langbesta vinkona mín í leikskólanum. Ég elska hana svo mikið að ég sakna hennar þegar ég er heima, ég vildi óska að ég mætti bara taka hana með heim. Ég sagði meira að segja við mömmu og pabba að ég ætlaði bara að skilja þau eftir hérna og taka Amiru með mér í staðinn til Íslands :-)

Ég er búin að læra svoldið nýtt, mamma er svo glöð, ég er nefnilega búinn að læra að það sé stundum gott að kúra pínu í lúllinu á morgnanna. Mömmu og pabba finnst nefnilega rosalega gott að kúra svoldið og ég vakna alltaf svo snemma þessa dagana að stundum fæ ég að skríða upp í millið og bíða þar eftir því að það komi dagur (vekjaraklukkan hringi). Meðan ég býð þá tölum við mamma oftast saman um eitthvað sniðugt, pabbi heldur samt yfirleitt bara áfram að sofa.

Ég er líka farinn að telja upp að 13, amk þegar ég man eftir því að halda áfram eftir 10.

Um daginn þá kom vinkona hennar mömmu, hún Dísa, aðeins í heimsókn til okkar. Hún fékk að sofa á sófanum okkar og svo lékum við okkur aðeins. Hún gaf mér lítið páskaegg og harðfisk og flögur. Hún er sko líka vinkona mín núna – ég lofaði að ég kæmi að heimsækja hana þegar ég kæmi til Íslands.

Heyrumst seinna
Hrafnkell Íslandsfari

bara 8 dagar

Bankinn hefur ekki ennþá haft fyrir því að svara okkur, vonandi þýðir það að hann er virkilega að skoða málin og átta sig á því hvað hann er heimskur.

Það eru bara 8 dagar þangað til að við komum heim og satt best að segja þá gengur hræðilega að planleggja heimförina. Þar sem að við eigum bæði eftir að skila af okkur töluverðri vinnu þangað til þá er heimferðin einhvernvegin mjög óraunveruleg – amk fyrir mér. Ég held líka að Hrafnkell trúi okkur ekkert í alvörunni þegar við segjumst vera að fara til Íslands.

Ég get ekki beðið eftir tímabreytingunni – sumartíminn byrjar um helgina (og þó fyrr hefði verið). Það er orðið svo bjart á morgnanna að Hrafnkell vaknar alltaf fyrir 7, vonandi heldur hann áfram að vakna á sama tíma – það verður bara klukkustund seinna á klukkunni. Einsog mér finnst asnalegt þegar fólk talar um að það eigi að vera sumartími á Íslandi þá finnst mér þetta nauðsynlegt fyrirbæri hérna.

Annað (þessi færsla er rosalega hingað og þangað) er að ég hef verið ógeðslega orkulaus undanfarna daga, það gengur reyndar ágætlega að vakna og koma sér í skólann og svo heim aftur – en þegar heim er komið þá er ég bara ónýt. Ég er örugglega ekki mjög skemmtileg mamma þessa dagana, er búin að sofna óvart alla dagana í þessari viku :-/ Sem er bara ekki gott því að ég verð svo ógeðslega pirruð þegar ég þarf að vakna aftur.

En anyway þá eru bara 8 dagar þangað til að við komum og barnið þeirra Valdísar og Tryggva er áætlað á morgun :-)