Posts tagged: Ikea

★★★★★ Fiskréttur

Í gær gerði ég góða fiskrétt í ofni, rétt sem að gikkurinn sonur minn fílaði í botn :-)

Ég setti hrísgrjón (parboiled því að þau eru aðeins hollari, fyrir mig eru hrísgrjón eiginlega algert eitur því að þau hafa svo slæm áhrif á blóðsykurinn) í pott með vatni – sauð þau þar til að þau voru farin að brúnast á botninum (óvart, ég er mesti klaufi í heimi þegar kemur að því að sjóða hrísgrjón).

Ég græjaði sósu í potti, ein dós af kókosmjólk (svona í hálfdósarstærð, sem er stærri gerðin af kókosmjólkurdósum – amk af þeim sem ég hef fundið) sem ég kryddaði til. Ég notaði dash af laukdufti, hvítlauksdufti og salti, böns af svörtum pipar og svo MIKIÐ af venjulegu karrýi (því ég elska karrý og kókosmjólk saman). Þetta sauð ég aðeins og bragðaði til, hafði það frekar sterkt en svo varð þetta ekki svo sterkt (en mjög gott samt) því að ég bætti mjólk út í.

Svo græjaði ég 3 eldföst mót, en ég á alveg snilldar mót úr Ikea sem passa fullkomlega í eina máltíð fyrir okkur tvö, setti hrísgrjón í botninn á þeim, svo hálffrosinn hvítan fisk (sem heitir pangasius í dönskum búðum – ekkert sérstakur fiskur og eiginlega alger þörf að hafa eitthvað bragðsterkt með – eða amk að rétturinn snúist ekki um gott fiskbragð), svo frosnar rækjur, svo sósa – þar sem að hún var ekki alveg nóg í öll 3 formin þá bætti ég aðeins af mjólk út í (en kannski hefði ég ekki þurft að gera það, rétturinn var alveg mjög blautur og hefði mátt verða þurrari) og svo rifinn ostur ofan á allt.

Eitt formið fór svo inn í ofn, á ca. 200°c blástur, nógu lengi til að osturinn var vel brúnaður (veit ekki 25-35 mín) og fiskurinn eldaður, hin formin stóðu á bekknum í smá stund – meðan þau kólnuðu smá – og fóru svo í poka og í frystinn. Svo að núna á ég 2 skammta af geggjuðum fiskrétti tilbúna í frystinum :-D

*geisp*

Ég er búin að koma mér í smá vítahring. Ég vakna ógeðslega þreytt og úldin á morgnanna, kem syni mínum í leikskólann og svo annað hvort hef ég lagt mig en oftar (því að ég er svo þrjósk að ég vil ekki leggja mig á daginn) þá kem ég mér fyrir og horfi á eitthvað og jafnvel prjóna með (því að þá er þetta ekki alger leti sko). Svo líður dagurinn og mest lítið gerist (þarf svo mikið að prjóna sjáiði til), svo sæki ég Hrafnkel – er svona þokkaleg mamma þar til að hann þarf að fara að sofa, rembist við að sofna ekki við lesturinn og fer svo fram. Það sem gerist síðan frá 8-11 er að ég hressist við, verð full af orku og framkvæmdagleði. En þó, af tillitssemi við nágrannana, hef ég hemil á mér og fer yfirleitt í mesta lagi í smávægilegar framkvæmdir (einsog að vaska upp eða ganga frá einhverju) og svo fer ég í rúmið. Þegar þangað er komið er ég glaðvakandi og hress, svo að ég fer að lesa. Svo les ég og les og les þar til að ég hef ekki samvisku til að lesa meira, þá legg ég frá mér bókina og fer að hugsa. Eftir einhvern pirring yfir öllu þessu hugsi sofna ég svo allt of seint.

Í morgun kom það svo fyrir að við sváfum yfir okkur. Barnið svaf og ég virðist hafa bara slökkt á vekjaranum, þó ég muni svosem ekki eftir framkvæmdinni. Ég rumskaði þó kl 20 mín í 10 og fékk vægt taugaáfall – það er nefnilega mælst til þess að börn séu komin fyrir klukkan 9 á leikskólann. Úps… Þannig að ég rauk á fætur, dró barnið á fætur – klæddi það úr og í og rauk svo inn í eldhús til að græja nesti meðan barnið skreið undir mömmu sæng og sagði “ég er þreyttur, ég vil sofa meira, það er ekki kominn dagur”
Eftir smá þref tókst mér að sannfæra hann um að fara á fætur, það væri víst kominn dagur og allir væru farnir að sakna hans í leikskólanum – það sem setti punktinn yfir i-ið var loforð um kökusneið í morgunmat :-s En engu að síður tókst mér að græja hann (og mig svona nokkurnvegin) og koma honum út og í leikskólann á ca 30 mín, sem er að mínu mati nokkuð gott þar sem að samstarfviljinn hjá honum var ekki alveg með besta móti.

Svo fór ég í ikea og tiger og í linskuskoðun og svo fór ég heim til að ég myndi kannski hugsanlega hætta að eyða peningum. Þegar heim var komið þá fór ég í gegnum prjónadótið mitt og saumadótið mitt og endurraðaði svolítið og gekk svo frá hinu og þessu. Náði svo í Hrafnkel og við leiruðum og lituðum og horfðum svo (já eða hann horfði) á youtube  á meðan ég eldaði mat.

Núna verð ég bara að segja að ég er úrvinda svo að ég ætla að leyfa mér að horfa bara á eitthvað sniðugt, prjóna og jafnvel fá mér 1/2 rauðvínsglas (sem ég keypti í ikea)…

En að öðru… Núna erum við Þórður loksins farin að ræða eitthvað skiptingu á draslinu okkar, það eru reyndar bara nokkrir hlutir sem við erum nokkurnvegin búin að ákveða, ég mun fá rúmið, tölvuskjáinn (af borðtölvunni), góðu tölvuhátalarana og prentarann – en hann mun fá sjónvarpið (og meððí), stóru myndina í stofunni og sófasettið. Og það vekur upp spurninguna, hvað í ósköpunum á ég að gera við stofuna þegar bæði sófasettið og sjónvarpið verður horfið (núna er ég alls ekki að segja að ég vilji fá þessa hluti, er alveg viss um að þeir munu veita Þórði meiri ánægju en mér)? Ég er amk ekki alveg á því að fara að kaupa mér sófasett, amk ekki nýtt – spurning hvort að maður kíki á einhverja flóamarkaði eða eitthvað – en maður verður að geta boðið fólki uppá að setjast niður er það ekki? Svona ef ég geri ráð fyrir því að fá einhverja í heimsókn. Kannski maður saumi bara fullt af púðum og svo þegar fólk kemur þá segir maður bara “gjörðu svo vel, veldu þér púða og komdu þér vel fyrir á góflinu” hehe. Mig langar reyndar líka til að geta einhvernvegin boðið fólki uppá gistingu, en því væri hægt að redda með því að kaupa bedda í ikea eða vindsæng eða eitthvað.

En anyway það verður spennandi að sjá hvernig stofan verður þegar Þórður verður búinn að taka sitt – endar kannski bara þannig að Hrafnkell fái geggjað stórt leikherbergi ;-)