Posts tagged: Hrafnkell

What to do, what to do?

Já þegar stórt er spurt…

Ég verð að fara að finna mér einhverja stefnu, eitthvað takmark. Það styttist og styttist í það að skólinn klárist og það væri betra að hafa einhver plön. Ég fann mjög spennandi mastersnám í Álaborgarháskóla (já nei, ég er ekkert að spá í að flytja út á landsbyen, þeir eru með útibú hérna í menningunni) þetta reyndar hljómar reyndar sem frekar krefjandi og jafnvel erfitt nám og ég veit ekki alveg hvort að minn bachelor myndi vera nóg sem grunnur en titillinn sem ég myndi fá á endanum væri Master of Science (MSc) in Engineering in Innovative Communication Technologies and Entrepreneurship – hljómar það ekki bara fancy?

En svo er það alltaf masterinn í ITU, sem gæfi mér titilinn cand. it i Digital design og kommunikation og það er ekki nærri því jafn fancy og þá þyrfti ég líka að fara að demba mér í dönskunám. Það er einhvernvegin ekki mjög heillandi að læra á dönsku og það er alls ekki víst að ég þætti nógu góð í dönsku til að mega byrja námið í febrúar.

Og svo er það alltaf spurningin um að reyna að finna sér vinnu, hér eða á Íslandi og þá þarf maður að flytja (hvort heldur sem er þá myndi ég þurfa að flytja, ég veit reyndar ekki hvað ég fengi langan tíma hérna eftir að ég útskrifast) og eiginlega eini kosturinn sem ég sé við það að aktually flytja (þá er ég bara að tala um flutning, ekki flutning á einhvern ákveðinn stað) er að ég myndi þá reyna einsog ég gæti að hafa sér herbergi fyrir gaurinn minn.

En hvar ætti maður svosem að finna vinnu? Það er hátt hlutfall atvinnuleysis á Íslandi og ennþá hærra hlutfall hérna. Ég er náttúrulega awesome og það væru allir heppnir að fá mig í vinnu – það er náttúrulega ekki spurning, en samt finnst mér bara hugmyndin um að leyta að vinnu ógeðslega óspennandi. (haha já ég hljóma æðislega) Fyrir utan að ef ég er að flytja til Íslands þá ætla ég ekkert að flytja á höfuðborgarsvæðið, þar sem er kannski mestar líkur á að ég fyndi vinnu í mínum geira, heldur myndi ég vilja vera töluvert mikið nær vinum og fjölskyldu (sorry Ragna, þú ert hvort eð er bara part-time á höfuðborgarsvæðinu).

Fyrir utan spurninguna um það hvar maður ætti að búa. Æi mér finnst ógeðslega óþægilegt að vera svona stefnulaus eitthvað, það er ekkert sem mig langar brjálæðislega til að gera, það er ekkert sem togar í mig meira en annað. Auðvitað langar mig heim en ég vil ekki koma heim ef það þýðir að ég muni búa í einu herbergi hjá mömmu og pabba og vera á atvinnuleysisbótum (sem ég btw. hef ekkert rétt á held ég).

Og svo er það alltaf spurningin um jólin, ég er nú nokkuð viss um að ég ætla að koma heim til Íslands en ég þarf að fara að díla við Þórð og reyna að sjá hvenær ég ætli að koma, hvað ég verði lengi og allt það.

Afmæli í uppsiglingu

Hér á heimilinu er ungur maður sem þykist ætla að eiga afmæli bráðum, eða eftir ca. 1,5 viku. Ég er reyndar ekkert búin að plana, ætla sennilega að hafa þetta bara einsog í fyrra þar sem ég bauð helstu jafnöldrum, af sama þjóðerni, úr húsinu. Ég meika ekki að fylla íbúðina af krökkum sem ég skil ekki almennilega ;-)

En já það sem er mest inn hjá honum í dag eru auðvitað Barbie og félagar, lego (hann er að átta sig á töfrunum við að eiga eitthvað sem að hann getur rifið í sundur og byggt aftur (eftir leiðbeiningunum auðvitað, hann er meyja) og aftur og aftur) og playmo. Hann segir að playmo sé flottara en lego skemmtilegra.
Hann hefur ekki áhuga á bílum, það heyrir til algerra undantekninga að hann vilji leika sér með svoleiðis. Allt Ben10, gormiti, bakugan og svoleiðis drasl er líka flott, en hann leikur sér ekkert rosalega með það. En það eru til dæmis til Ben10 kubbakallar, sem eru svolítið í stíl við Bionicle, sem að myndu örugglega falla í kramið.

Hann er farinn að passa í föt nr 110.

Ef einhver vill þá get ég alveg farið og keypt pakka til hans frá ykkur (þaes ef þú, lesandi góður, finnur ástæðu til að gefa barninu afmælisgjöf) en þá vil ég helst fá einhver fyrirmæli (td. farðu í hm og keyptu buxur á hann fyrir X mikinn pening eða kauptu lego fyrir hann fyrir x mikinn pening eða eitthvað í þá áttina). Þannig er hægt að spara sér töluverðan pening í póstburðargjöld. Það er helvíti súrt þegar sendingarkosnaðurinn er orðinn hærri en andvirði pakkans, í staðinn væri td. hægt að senda bara kort sem ég myndi setja á pakkann….

Ef einhverjum langar til að gefa honum pening þá er MIKLU gáfulegra að viðkomandi fái bara reikningsnúmerið hans Hrafnkels hjá mér og leggi inn á hann. Ef Hrafnkell fær einhvern pening þá heimtar hann bara að eyða honum í eitthvað barbiedrasl, hann hefur líka engan sans fyrir verðmætum og það endar bara með þrefi um það hvort að hann hafi efni á þessu eða hinu.

Haha shit hvað þetta hljómar einsog betl… en ætli þetta sé það ekki, maður verður jú bara einu sinni 5 ára!

Draumur um kaffigerð…

Mig dreymdi að ég var heima í Hrísateignum og Ragna kom heim með lúkufylli af kaffibaunum, nú skyldum við sko mala og gera okkar eigið kaffi! Við náðum okkur í duplo-kubba, skiptum baununum í tvennt og hófumst handa. 2-3 baunir varð að nota til að gera kaffið, restina þurfti að nota til að kveikja upp undir eldinum.
Við náðum okkur í sand (nota bene við lenntum stundum í veseni og fengum þá góða hjálp frá pabba gamla hehe) og settum hrúgu af sandi á pallinn – það var til þess að verja hann fyrir eldskemmdum. Ofan á sandinn settum við baunirnar sem voru til að kveikja upp með. Svo kubbuðum við stóran ramma (já eða bara svona öfugt U) til að hengja pottinn með kaffinu í. Í pottinn settum við mjólk og þessar 2-3 baunir – alveg fínmalaðar svo að maður fyndi ekki fyrir þeim þegar maður drykki kaffið. Pabbi bennti okkur svo á að við yrðum að fara rosalega varlega þar sem að ramminn okkar var ekki nógu hár og kubbarnir voru að bráðna og héngu eiginlega bara saman á klósettpappírnum (??? sem ég mundi ekki eftir að hafa notað en gerði ráð fyrir að væri styrking).
Þegar þetta var búið að sjóða þar til að mjólkin var orðin svolítið þykk þá var kominn tími til að setja vatnið. Við settum slatta af vatni og hrærðum og hrærðum en einhvernvegin breyttist þetta ekki í kaffi.

Needless to say þá urðum við Ragna fyrir miklum vonbrigðum, en þökkuðum þó fyrir það að við drekkum ekki kaffi hvort eð er. Það sem verra var að alltíeinu var Villi Jr, frændi okkar, OG hluti af ljótu hálfvitunum (Oddur, Toggi, Eddi og Ármann) og voru að gera grín af okkur og það var extra sárt því að við áttuðum okkur þá á því að við vorum bara í elstu bekkjum grunnskóla (sem er merkilegt að við höfum báðar náð að vera á sama tíma). Pabbi hló líka að okkur en hann hafði samt hjálpað okkur mikið og verið í hálfgerði verkstjórn.

Smá aukasaga, sem var í gagni í bakgrunninum, var að mamma fann leið til að láta Hrafnkel leika sér meira að strákadóti – málið var að hafa nóg pláss fyrir hann og nógu ógeðslega mikið af dóti og dreifa því vel. Btw. Hrafnkell var örugglega bara í kringum eins árs og já mamma var ógeðslega ánægð með sig.

Þetta var semsagt frekar pirrandi draumur, og fáránlega mikið af smáatriðum sem ég man. Ég svosem efast um að hann hafi mikla merkingu, þannig lagað. Nema að stundum er erfitt að vera til, sérstaklega þegar manni finnst maður vera lítill og allir hlæja að manni. heheheh

fluga í hausnum….

Undanfarnar vikur hef ég mikið hugsað um framtíðina, skiljanlega myndi ég segja þar sem að framtíð minni var kollvarpað í byrjun desember. Ég hef sveiflast öfganna á milli, svona já eða þannig. Fyrst vildi ég bara komast heim til Íslands sem fyrst, ég vildi reyna bara að komast í praktík heima – helst á Akureyri – og umvefja mig öllu því frábæra fólki sem ég á (og ég á sko heilan helvítis helling af frábæru fólki, það er sko alveg pottþétt).

Núna er ég tvístígandi, mig langar heim – þar er fólkið mitt, þar hef ég öryggisnetið mitt, þar hef ég barnapössun sem ég get treyst á (og þar af leiðandi hugsanlega tækifæri til að eiga mér líf utan skóla og heimilis), þar hef ég býsna margt. Fyrir utan að þar hefur Hrafnkell ömmur sínar og afa, þar fær hann betra tækifæri til að læra íslenskuna betur (en að sama skapi væri hætta á að hann tapaði niður dönskunni og það væri alger synd).

En ég veit að ef ég flyt heim strax eftir námið hérna þá verður ekki hlaupið að því að fara aftur út í nám seinna meir. Ég get ekki rifið Hrafnkel upp og farið með hann heim til Íslands bara til að rífa hann upp þar og flytja aftur hingað (eða eitthvað annað) þegar það henntar mér. Einnig er alls ekki gáfulegt (að mínu mati) að vera “jójó-skólast” – það er ekki einsog ég hafi kall til að búa til vísitölufjölskyldu með mér heima á Íslandi og það væri heldur ekkert auðveldara að flytja þá fjölskyldu út aftur og ekki er neitt nám í boði á Íslandi sem að henntar mér (einsog stendur amk).

Þar fyrir utan þá má ég ekki flytja með Hrafnkel einsog mér sýnist meðan við Þórður erum með sameiginlegt forræði. Eins heimskulegt og það er þá má Þórður flytja til Japans þess vegna en ég má ekki flytja á milli landa með barnið hans án þess að fá leyfi frá honum. Þó að ég voni auðvitað að Þórður muni ekki vera með nein leiðindi þá veit maður aldrei fyrr en á reynir.

Svo að ég er farin að spá í að fara í master (heitir reyndar kandidat) hérna, eftir bachelorinn. Það yrðu 2 ár í viðbót, sem þýddi að þegar því lyki þá hefðum við Hrafnkell verið í 5 ár í Danmörku – hann myndi vera 2 ár í dönskum grunnskóla og í raun vera orðinn býsna fullorðinn þegar við gætum flutt aftur. Það er að mörgu að hyggja, ég þarf að fara á dönskunámskeið fyrst (sem ég er reyndar að spá í að gera hvort eð er, amk ef ég finn tímasetningar sem að ég get nýtt mér) og einnig þarf ég að athuga hvort að ég myndi geta haldið íbúðinni ef að ég útskrifast hérna í janúar en byrja svo ekki aftur í skóla fyrr en í ágúst – eða hvort að það sé hægt að byrja í þessu námi strax að loknum bachelornum. Mér finnst þetta nám, sem ég hef verið að skoða, mjög spennandi og það er gaman að skoða hvaða möguleika maður hefur. En engu að síður finnst mér samt eilítið hræðileg tilhugsun að vera hérna 2 árum lengur – sérstaklega þar sem mér finnst ég afskaplega ein eitthvað (ekki misskilja, ég á góða vini hérna líka en engu að síður finnst mér öryggisnetið mitt mjög þunnt).

En já það getur verið gaman að fá flugu í höfuðið ;-)

Upp er runninn fastelavn….

Og það er ekki venjulegt öskudagsveður hérna, það er heiðskýrt, sól og viðbjóðslegur kuldi. Hérna var fyrst vaknaði klukkan 4, ég náði þó að sannfæra barnið að það væri svo sannarlega ekki kominn dagur, næst var vaknað klukkan 7 – sem er töluvert nær því að vera dagur. Þar sem að ég nennti þó ekki alveg á fætur þarna á slaginu 7 þá fór sonurinn og klæddi sig sjálfur, kom svo við og við í rúmið til mömmu sinnar til að fá samþykki – og þurfti nokkrum sinnum að fara og skipta. Við vorum ekki sammála um það hvað passaði best undir búninginn. Svo tókst nú loksins að fá mig á fætur, hann fékk morgunmat og síðan var kominn tími á að fara í get-öpp-ið.

Þvílík hamingja, það var dansað og sungið (“na na na nananana once upon a dream… na na nananana NA nanananananan once upon a dream”) á meðan kjóllinn var græjaður, hárkollan sótt og kórónunni komið fyrir. Útkoman var alveg óendanlega sæt og hamingjusöm Þyrnirós, sem að meira að segja leyfði smá myndatöku :-D

Gott og vont

Lífið heldur áfram, skólinn er byrjaður aftur og það heldur bara áfram að vera snjór og kallt. Það er margt til að vera spenntur yfir, ég hlakka til að fara til Íslands um páskana, ég fékk borgaðar aukabarnabæturnar þó að Þórður hafi gengi seint frá sínum málum, ég er spennt yfir því að græja íbúðina eftir mínu höfði, mér er boðið í partý eftir rúma viku osfr. Það er margt gott í gangi núna.

En svo á móti kemur leiðinlega stöffið. Það virðist engum hafa dottið í hug að fólk gæti verið skráð saman í sambúð á Íslandi, flutt út og síðan hætt saman erlendis – þannig að því fylgir leiðindar skriffinska – sem ég er að vinna mig hægt í gegnum. Lín virðist ætla að taka heila eilífð í að vinna úr láninu mínu og var ekki búið að borga út seinast þegar ég athugaði (í gær) og á meðan styrkist íslenska krónan og styrkist og ég gæti þess vegna endað í mínus. Og þar af leiðandi get ég hvorki borgað mömmu og pabba fyrir flugið heim né keypt nýja tölvu – og svo er tölvan sem ég ætlaði að kaupa orðin uppseld að mér sýnist (var nóg til af henni fyrir hálfum mánuði) og ég nenni ekki að leggjast aftur í rannsóknarvinnu og reyna að finna aðra góða (fyrir þolanlegt verð). Einnig lennti Þórður í einhverju íbúðarsvindli og tapaði fullt af peningum og stendur uppi með enga íbúð – sem er bæði leiðinlegt fyrir hann og ef ég horfi á málið á einstaklega sjálfselskan hátt (sem reyndar skiptir ekki öllu máli, mér finnst þetta líka ömurlegt hans vegna) þá hefur það þau áhrif að hugsanlega á hann erfiðara með að taka Hrafnkel (einsog td. þegar partýið er í næstu viku) en er ég þó búin að bjóða honum að vera hérna með strákinn því að ég á góða vini sem ég get fengið að vera hjá á meðan, og einnig að þá er örugglega lengra í að hann geti tekið draslið sitt og satt best að segja þá get ég ekki beðið eftir því þegar hann loksins tekur þetta.

Þar fyrir utan er ég að prjóna lopapeysu, sem ég vona að stækki í þvotti því að þrátt fyrir prjónfestuprufur og alles þá virðist hún vera frekar lítil – en hún verður gjöðveikt flott.

Vondur draumur

Í gærkveldi fór ég aðeins seint að sofa, því einsog svo mörg önnur kvöld fékk ég ægilegt hugstrump rétt þegar ég var að búa mig í rúmið og bara varð að græja og gera aðeins áður en ég færi að sofa. Klukkan var því 1:17 þegar ég fór upp í rúm, þar sem ég var þreytt þá las ég eiginlega ekkert og var því klukkan 1:20 þegar ég slökkti ljósið og ákvað að fara að sofa.

Það tók mig smá stund að sofna, mér fannst mér vera óþægilega heitt og ég var með fótapirring. Þannig að ég bylti mér svolítið en það gékk svosem ekki svo langt að ég myndi segja að ég hafi verið andvaka. En þar sem ég ligg þarna og er að reyna að sofna þá opnast hurðin á herberginu mínu og það kemur inn maður – ég sest beint upp (reisi mig upp án þess að nota hendur – skemmtilegt trikk sem ég gæti aldrei gert ef ég væri með fullri meðvitund en þó hef ég amk einu sinni gert þetta áður) og sé að hann er rosalega hávaxinn. En þar sem að það er myrkur í herberginu sé ég bara skuggamynd af honum – engin smáatriði nema að hann er rosalega hávaxinn og ég öskra “get out, get out, get out”… og þannig vaknaði ég, við öskrin í sjálfri mér.

Þar sem að ég hafði ekki einu sinni náð að meðtaka það að ég væri sofnuð tók það smá tíma að meðtaka það að ég væri vöknuð aftur, hjartað barðist um í brjósti mér meðan ég sat í rúminu og starði í átt að “manninum” og reyndi að átta mig á því hvort að hann væri þarna eða ekki. Ég held að ég hafi í raun varla áttað mig á því að þetta var í alvörunni bara draumur fyrr en ég heyrði mjóróma rödd sem sagði “mamma, ég er ennþá alveg rosalega þreyttur” koma úr barnarúminu. Þegar ég hafði sannfært Hrafnkel um að hann mætti sofa meira og sjálfa mig um að ég hefði ekki hrætt líftóruna úr honum þá leit ég aftur á klukkuna og hún var 1:41.

Shit hvað þetta var óþægilegt, ég er ekki að grínast ég drapst næstum úr hræðslu og mér finnst ég ennþá vera í smá adrenalínsjokki. Þó átti ég, sem betur fer, ekkert erfitt með að sofna aftur og svaf ágætlega restina af nóttunni.

Hlutirnir farnir að skýrast meira

Við Þórður teljum okkur vera nokkurnvegin búin að skipta draslinu okkar upp, næsta skref verða svo bílarnir og skuldir. En ég semsagt losaði mig við meira af dótinu í stofunni – það sem að verður eftir verður tölvuborðið mitt (sem er reyndar í svefnherberginu einsogstendur), tölvustóllinn, lítill billy skápur og svo eitthvað dót sem Hrafnkell á… Frekar tómlegt kannski hehe.

Þannig að ég þarf að finna einhverja sófalausn og svo vantar mig góða hugmynd fyrir það hvað ég á að gera við bækurnar mínar, ekki það að núna verður nóg af skápaplássi sko en ég vil hafa bækur uppi við – nenni ekki að þurfa að gramsa inni í skáp til að sjá hvaða bækur ég á. Ég er að spá í að kíkja á einn loppemarked um helgina, aðalega til að skoða (draslið hans Dodda er náttúrulega ennþá hérna) og sjá svona hvort að það sé eitthvað sniðugt þarna.

Einnig hef ég mjög verið að velta  grjónapoka hugmyndinni hennar Valdísar fyrir mér, er alveg sannfærð um að það gæti verið mjög kósý ef að það sé vel gert og vel úthugsað. Það er bara svo erfitt að úthugsa þetta þegar maður hefur ekki fyllinguna og ég tími ekki að kaupa fyllingu fyrr en ég er alveg viss um það hvað ég er að gera. Ég er að hugsa um að græja grjónasófa en ég veit ekki hvort að ég ætti að gera stóran kodda (einsog fatboy) er og setja það svo þannig upp við vegginn að það sé nokkurnskonar sófi, eða hvort að maður ætti að gera kassa (semsagt kodda sem er með hliðar) og reyna að leggja það svo að það sé sófi, eða hvort að maður eigi að sníða áklæðið í L og þá hvort að bak og seta eigi að vera eitt stykki eða 2 stykki – eða hvort að þetta sé bara glötuð hugmynd yfirleitt.

Annars var ég að ræða við son minn um daginn og ég sagði honum að pabbi hans ætlaði að taka sófann okkar þegar hann kæmi aftur til Danmerkur og strákurinn var alveg sáttur við það, sá ekkert vandamál. Svo sagði ég honum að pabbi hans ætlaði að taka sjónvarpið og þá var HM ekki jafn sáttur, hann missti reyndar ekki stjórn á skapi sínu en hann reyndi eftir fremsta megni að benda mér á það að við þyrftum að eiga sjónvarp og að pabbi hans gæti bara fundið eitthvað annað sjónvarp því að við þyrftum að nota okkar sjónvarp. Honum leist ekkert á þá hugmynd mína að eiga ekkert sjónvarp – en reyndar er það kannski þetta ástfóstur hans við sjónvarpið sem veldur því að ég vildi alls ekki fá sjónvarpið og er mjög sátt við að Doddi taki það.

Annars er ég bara núna að dunda mér við að fara í gegnum allt draslið okkar, skipta í mitt – hans – Hrafnkell (sumt dót sem hann fær seinna bara einsog myndir af okkur Dodda saman osfr) og síðan óákveðið. Þar af leiðandi er heimilið í smá upplausn, pokar og drasl alls staðar en þetta verður þess virði þegar uppi er staðið. Ég vil nefnilega helst að þegar þar að kemur (sem er vonandi frekar fyrr en seinna – þó að ég átti mig alveg á því að Þórður verður að hafa einhvern stað til að setja draslið sitt á áður en hann tekur það) geti hann bara komið með fluttningaliðið sitt og gengið að öllu vísu. Já og einnig hef ég verið að dunda mér við að reyna að ákveða hvað ég ætla að kaupa mér þegar lín kemur, fyrst og fremst ætla ég að fá mér nýja og ábyrga tölvu (voða fín asus tölva sem ég hef í huga) og svo ætla ég að splæsa í nýja og meðfærilegri myndavél (og svo ætla ég líka að kaupa mér ný nærföt og…. og… og….)

Og svo það sem “mestu” máli skiptir er að þegar Doddi verður loksins kominn með húsnæði og það verða loksins komnar pabbahelgar þá ætla ég að halda feitt partý hérna ;-) og ég get varla beðið eftir að það komist einhverjar dagsetningar á pabbahelgarnar svo að ég geti byrjað að skipuleggja það ;-)

*geisp*

Ég er búin að koma mér í smá vítahring. Ég vakna ógeðslega þreytt og úldin á morgnanna, kem syni mínum í leikskólann og svo annað hvort hef ég lagt mig en oftar (því að ég er svo þrjósk að ég vil ekki leggja mig á daginn) þá kem ég mér fyrir og horfi á eitthvað og jafnvel prjóna með (því að þá er þetta ekki alger leti sko). Svo líður dagurinn og mest lítið gerist (þarf svo mikið að prjóna sjáiði til), svo sæki ég Hrafnkel – er svona þokkaleg mamma þar til að hann þarf að fara að sofa, rembist við að sofna ekki við lesturinn og fer svo fram. Það sem gerist síðan frá 8-11 er að ég hressist við, verð full af orku og framkvæmdagleði. En þó, af tillitssemi við nágrannana, hef ég hemil á mér og fer yfirleitt í mesta lagi í smávægilegar framkvæmdir (einsog að vaska upp eða ganga frá einhverju) og svo fer ég í rúmið. Þegar þangað er komið er ég glaðvakandi og hress, svo að ég fer að lesa. Svo les ég og les og les þar til að ég hef ekki samvisku til að lesa meira, þá legg ég frá mér bókina og fer að hugsa. Eftir einhvern pirring yfir öllu þessu hugsi sofna ég svo allt of seint.

Í morgun kom það svo fyrir að við sváfum yfir okkur. Barnið svaf og ég virðist hafa bara slökkt á vekjaranum, þó ég muni svosem ekki eftir framkvæmdinni. Ég rumskaði þó kl 20 mín í 10 og fékk vægt taugaáfall – það er nefnilega mælst til þess að börn séu komin fyrir klukkan 9 á leikskólann. Úps… Þannig að ég rauk á fætur, dró barnið á fætur – klæddi það úr og í og rauk svo inn í eldhús til að græja nesti meðan barnið skreið undir mömmu sæng og sagði “ég er þreyttur, ég vil sofa meira, það er ekki kominn dagur”
Eftir smá þref tókst mér að sannfæra hann um að fara á fætur, það væri víst kominn dagur og allir væru farnir að sakna hans í leikskólanum – það sem setti punktinn yfir i-ið var loforð um kökusneið í morgunmat :-s En engu að síður tókst mér að græja hann (og mig svona nokkurnvegin) og koma honum út og í leikskólann á ca 30 mín, sem er að mínu mati nokkuð gott þar sem að samstarfviljinn hjá honum var ekki alveg með besta móti.

Svo fór ég í ikea og tiger og í linskuskoðun og svo fór ég heim til að ég myndi kannski hugsanlega hætta að eyða peningum. Þegar heim var komið þá fór ég í gegnum prjónadótið mitt og saumadótið mitt og endurraðaði svolítið og gekk svo frá hinu og þessu. Náði svo í Hrafnkel og við leiruðum og lituðum og horfðum svo (já eða hann horfði) á youtube  á meðan ég eldaði mat.

Núna verð ég bara að segja að ég er úrvinda svo að ég ætla að leyfa mér að horfa bara á eitthvað sniðugt, prjóna og jafnvel fá mér 1/2 rauðvínsglas (sem ég keypti í ikea)…

En að öðru… Núna erum við Þórður loksins farin að ræða eitthvað skiptingu á draslinu okkar, það eru reyndar bara nokkrir hlutir sem við erum nokkurnvegin búin að ákveða, ég mun fá rúmið, tölvuskjáinn (af borðtölvunni), góðu tölvuhátalarana og prentarann – en hann mun fá sjónvarpið (og meððí), stóru myndina í stofunni og sófasettið. Og það vekur upp spurninguna, hvað í ósköpunum á ég að gera við stofuna þegar bæði sófasettið og sjónvarpið verður horfið (núna er ég alls ekki að segja að ég vilji fá þessa hluti, er alveg viss um að þeir munu veita Þórði meiri ánægju en mér)? Ég er amk ekki alveg á því að fara að kaupa mér sófasett, amk ekki nýtt – spurning hvort að maður kíki á einhverja flóamarkaði eða eitthvað – en maður verður að geta boðið fólki uppá að setjast niður er það ekki? Svona ef ég geri ráð fyrir því að fá einhverja í heimsókn. Kannski maður saumi bara fullt af púðum og svo þegar fólk kemur þá segir maður bara “gjörðu svo vel, veldu þér púða og komdu þér vel fyrir á góflinu” hehe. Mig langar reyndar líka til að geta einhvernvegin boðið fólki uppá gistingu, en því væri hægt að redda með því að kaupa bedda í ikea eða vindsæng eða eitthvað.

En anyway það verður spennandi að sjá hvernig stofan verður þegar Þórður verður búinn að taka sitt – endar kannski bara þannig að Hrafnkell fái geggjað stórt leikherbergi ;-)

hvað á maður að segja eiginlega?

Nokkrum sinnum hefur mér dottið í hug að skrifa eitthvað hérna en ég hef alltaf hætt við. Síðan mamma, pabbi og Ragna fóru hefur líf mitt að mestu snúist um að læra fyrir próf og reyna svo að sjá hvernig ég sný í lífinu. Enn sem komið er hef ég voðalega lítið til að tala um annað en skólann (og ekki mikið áhugavert að gerast þar núna), Hrafnkel (sem er auðvitað alltaf jafn frábær) og skilnaðinn við Þórð. Satt best að segja langar mig meira til að skrifa um eitthvað annað – maður á víst ekki að segja hvað sem er á netinu og þar fyrir utan veit ég vel að fyrrverandi tengdamóðir mín les hérna reglulega og sumt á hún ekki að þurfa að lesa hérna.

Málið er að hingað til hafa samskiptin á milli mín og Dodda ekki verið einsog best hefði á kosið. Þau hafa ekkert verið hræðileg, hefðu alveg pottþétt getað verið verri, en engu að síður hafa verið fleiri misfellur en ég hefði viljað. Ég ætla ekki að fara út í nein smáatriði hérna.

Prófin hafa hingað til gengið vel, eitt próf eftir en ég efast um að það verði til vandræða – þó að ég átti mig ekki alveg á því hvernig er hægt að prófa úr nánast engu efni. En það kemur bara í ljós.

Hrafnkell hefur það líka mjög gott. Hann er duglegur að stækka og lita þessa dagana – gerir nánast ekkert annað en að lita alla daga, amk hérna heima við. Svo á milli höfum við haft það heldur náðugt og horft á þónokkrar nýjar prinsessuteiknimyndir og rætt saman um hitt og þetta. Mamman er kannski heldur knúsin við hann því að í dag sagði hann “Æi mamma, ekki elska mig alveg svona mikið” ;-)

Það er kannski ljótt að segja það en ég hlakka til að fá pabbahelgar og einhvern tíma til að eyða bara í sjálfa mig, þaes einhvern tíma sem er ekki á leikskólatíma – ég er svo mikil B manneskja að sá tími nýtist aldrei í neitt skemmtilegt. Þegar þar að kemur mun ég kannski fara að hafa eitthvað skemmtilegra að skrifa. Það er satt best að segja hundleiðinlegt að hafa aldrei neitt að segja nema eitthvað sem tengist Þórði – sérstaklega þar sem mig langar bara hreinlega ekkert til að tala endalaust um hann.

Ps. Ég veit ekki af hverju það stendur alltaf bara 1 comment við allar færslur hvort sem er 0 comment, 1 comment eða 50. Ég mun (kannski) kíkja á það einhverntíman – en ég nenni því ekki núna.