Posts tagged: eyrnabólga

Hrafnkell segir frá

Halló öll!hrafnkell_fastelavn

Mamma hefur ákveðið að hætta með barnalandssíðuna mína og ætlar í staðinn að hafa fréttir af mér hérna. Hún mun, hægt og rólega setja allar myndirnar af mér í albúmið mitt í gallerýinu svo að þær verða ennþá aðgengilegar – þar er líka hægt að skrifa komment. Ef ykkur vantar lykilorðið sendið mömmu minni bara email á eddaros@eddaros.com og spyrjið um það.

Það er margt búið að gerast, enda skrifaði mamma seinast í desember – sem er alveg á seinasta ári. Við komum heim, eftir langt ferðalag, í byrjun janúar. Það var bara alveg ágætt, eftir öll lætin um jólin, að komast í smá ró og næði hérna heima. Pabbi fór fljótlega aftur, hann þurfti að fara í vinnuna sína, langt upp í fjöllunum. Mér fannst nú eiginlega svolítið súrt að Þórný frænka mín fengi að hafa pabba minn hjá sér, einsog hún geti ekki bara notað sinn eiginn pabba.

Ég talaði oft við pabba í tölvunni hennar mömmu, þó það væri nú ekki alltaf eitthvað gáfulegt sem við töluðum um þá fífluðumst við svolítið saman.

Í janúar þá var ég ofsalega listarlítill, einsog seinni partinn í desember, mamma var eiginlega farin að hafa smá áhyggjur af þessu. En ég er farinn að borða aðeins meira núna, mamma ætlar svo að fara að vera duglegri að gefa mér fjölbreyttara nesti fyrst ég er farinn að vera duglegri að borða. Nefnilega þá var ég farinn að borða svo lítið að mamma var farin að gefa mér bara að borða það sem hún vissi að ég myndi borða. Ég er nefnilega svo grannur að það er ekkert gott fyrir mig að vera í einhverju aðhaldi.

Ég er líka búinn að vera óttarlegur lasarus. Ég var veikur í desember, í janúar var ég óttalega leiður og pirraður (og mamma hélt að það væri mest megnis vegna pabbaskorts) en svo í byrjun febrúar þá fékk ég heiftarlega eyrnabólgu. Daginn sem pabbi ætlaði að koma heim fór ég að kvarta undan verk í eyranu mínu. Það var svo vont að ég fór að gráta, mamma reyndi að laga það einsog hún gat og svo fór ég til læknis strax daginn eftir. Læknirinn sagði að ég væri með bakteríueyrnabólgu (bakteríu vegna þess að þetta var bara í einu eyra sagði hann) og ég fékk lyf. Mér fannst þetta lyf ekki sérstakt til að byrja með en í lokin fannst mér það svo gott að mér fannst hálf fúlt að klára það, vildi bara fá meira lyf. Svo í þessari viku þá fékk ég háan hita á þriðjudaginn og var samt orðinn fínn daginn eftir. Konurnar í leikskólanum segja samt að ég sé eitthvað slappur, svo að mamma sótti mig snemma í gær EN ég var samt bara hress og fínn þegar hún sótti mig svo að hún veit ekki alveg hvað þær voru að tala um.

Í dag er svo Fastelavn – það er reyndar ekki fyrr en á sunnudaginn en  við höldum uppá það í dag í leikskólanum. Þá fara allir í búningum í leikskólann og við sláum köttinn úr tunnunni, fáum fastalavnsboller  og fleira gott. Mamma heldur að þetta sé eiginlega bara bolludagur-sprengidagur-öskudagur í einni blöndu. Ég er galdrakall, með sítt hár, hatt og töfrasprota.

Ég tala mikið um Ísland, ég vil helst bara fara til Íslands sem fyrst. Kannski þarf ég bara að fá smá frí frá leikskólanum, veikindum ofl án þess þó að lenda í öllum skarkalanum og látunum sem voru í Noregi. Heima hjá ömmum mínum og öfum á Íslandi er svo rólegt, þar fæ ég líka alla athyglina einn (sem mér finnst ekkert hræðilegt sko). Í Hrísateignum er ég líka aðeins frjálsari en annars staðar. Þar er svo auðvelt að fara út í garð að leika sér þegar maður vill, þar er líka hægt að hjálpa afa að gera ýmislegt sem þarf að gera. Mig langar líka til að sjá litla barnið hennar Valdísar, sko litla strákinn sem hún er með í bambanum (svo til að koma í veg fyrir misskilning þá vitum við ekkert hvort þetta er strákur eða stelpa, nema að Hrafnkell VEIT að þetta er STRÁKUR ekki stelpa ;-) ). Mamma segir samt að það sé ekki hægt að gefa honum nammi fyrr en í fyrsta lagi eftir að hann kemur út úr mallakútnum hennar. Helst vildi ég bara að mamma fengi litla barn í mallakútinn sinn, en hún vill það ekki. Segir alltaf bara kannski seinna eða fer bara að tala um það hvað ég þarf að vera duglegur þegar ég hitti litla barnið hennar Valdísar. Það er sko margt sem ég vil gera þegar ég hitti hann, ég ætla að halda á honum, leika við hann, skipta um kúkableyjur (aha!) og hugga hann, finna mömmu hans fyrir hann og bara gera allt til að hann hafi það sem best. Ég verð nefnilega svo risalega stærri en hann. Mamma segir samt alltaf að þegar ég hitti litla barnið hennar Valdísar þá verði ég að passa mig rosalega vel og umfram allt að hlýða Valdísi.

En kveðjur í bili
Hrafnkell Myrkvi

Spennandi tímar

Þessi önn snýst aðalega um samvinnu við alvöru fyrirtæki. Fyrsta vikan á önninni fer því í það að komast í tengsl við fyrirtæki. Í þessari viku hafa nokkur fyrirtæki komið í skólann og lýst því hvað þau eru að gera og hvað þau vilja að við gerum – sum hafa komið virkilega á óvart og önnur hafa valdið manni ótrúlegum vonbrigðum.

Við, í hópnum mínum (sem er ég, Michelle og Kirsten – Jeffrey og Morten fóru til Cumbria og eru þess vegna ekki memm lengur), erum búin að hafa samband við 5 fyrirtæki. 2 sem við höfum verulegan áhuga á, 2 sem gætu verið ok og 1 sem væri örugglega mjög áhugavert en er líka alveg rosalega mikil eftirspurn eftir (ætli það óski ekki amk helmingurinn af 4ðu önn eftir að komast að hjá þeim). Það jákvæða er að þessi 2 sem við höfum áhuga á eru þau einu sem hafa svarað okkur strax. Þau eru Startour og JDS-Architects, semsagt eitt gamalt og rótgróið ferðamálafyrirtæki (það stærsta í DK) og eitt ungt arkitektafyrirtæki í mikilli framsókn (hannar td nýja skýðahoppipallinn í Osló – Holmenkollen).

Vonandi kemur svo í ljós fyrir helgi, já eða um helgina, hvort við fáum annað þessara fyrirtækja. Það hljómar amk mjög spennandi, ekki bara að vera að vinna með alvöru fyrirtækjum, að vera að vinna með fyrirtækjum sem eru í alvörunni þekkt á sínum sviðum. Ef það, sem við gerum, er notað gæti það skilað sér í mjög góðum dæmi til að hafa á CV hjá sér.

Annars hvað varðar Hrafnkel þá fórum við með hann til læknis á þriðjudaginn. Hægra eyrað hjá honum var stokkbólgið og mjög rautt en það vinstra alveg fínt þar af leiðandi sagði læknirinn að þetta væri örugglega bakteríueyrnabólga (þar sem að vírusar vilja víst dreyfa sér meira og vera í báðum eyrunum, sérstaklega þar sem þetta var orðið frekar slæmt) og þess vegna fékk hann pensilín og verkjastíla. Pensilínið er auðvitað viðbjóðslega vont á bragðið, ég myndi segja eyrnamergur falinn í sykur-gerfi-ávaxtabragði. Við erum samt sammála um að hann verði að taka lyfið sitt því að það séu lítil skrímsli í eyranu sem vilji bara meiða eyrað og það bara þurfi lyfið til að drepa þessi skrímsli. Lyfið fer nefnilega úr mallanum og upp í eyrað og drepur skrímslin, það sé ekki nóg að berja sig í hausinn með Svampi Sveinssyni (bangsa) – hann er bara ekki skrímslabani. Þar fyrir utan eru smá verðlaun fyrir að vera duglegur að taka lyfið sitt.

Hann virðist reyndar ennþá finna til í eyranu og það er mjög viðkvæmt svo að hann fer ekkert í leikskólann fyrr en á mánudag. Þeir voru saman heima feðgarnir í dag, Hrafnkell segir að það hafi verið gaman en mér skilst á pabbanum að pjakkurinn hafi farið nokkrum sinnum fram til að “bíða eftir að mamma komi heim”. Ekki skrítið að barnið sé háð mér svosem.

Eyrnaverkur og ullarpjatt

Hrafnkell hefur þjáðst af einhverskonar eyrnaverk í dag. Hann er svosem búinn að vera mjög kvefaður undanfarið, við fórum td ekkert út um helgina útaf því að mér fannst hann of kvefaður. Hann kvartar undan því að honum sé svo illt í hægra eyranu. Ég prufaði 2 húsráð af húsráða síðunni minni, bæði virkuðu en misvel. Best var að taka lauk, skera hann niður og leggja við eyrað. Ég notaði svo augnlepp sem við áttum til að halda lauknum á réttum stað og barnið hætti að gráta og er amk sofandi núna.

Ég ákvað eiginlega strax að hafa ekki samband við lækni nema ef hann yrði verri og/eða ef þessi ráð myndu ekkert virka. Ég hef aðalega tvær ástæður fyrir því, annarsvegar að það er vesen að hafa samband við lækni utan opnunartíma og það gæti reynst erfitt að útskýra almennilega í gegnum síma hvað gengi á og læknirinn gæti lítið gert nema hugsanlega ávísa einhverjum lyfjum sem við þyrftum svo að komast og ná í (og þar kemur að hinni ástæðunni), það er skítkalt úti og Doddi kemur ekki fyrr en í kvöld með bílinn og það þýðir að ef við þyrftum að fara eitthvert til að ræða við lækninn eða redda einhverjum lyfjum þá þyrftum við að fara út í kuldan (og það er líka rok) og hjóla.

En svo er sagan af ullarpjattinu í mér. Ég fór í búð í dag, ég var búin að ákveða að kaupa garn til að prjóna kraga handa Hrafnkel, svona í svipuðum dúr og Lauga amma gerði handa öllum. Ég fór inní einu búðina sem ég mundi eftir í þessum hluta bæjarins, sem selur garn það er að segja. Þar fann ég einn dágóðan rekka með margar gerðir af garni – en ég varð svo hneigsluð þegar ég fór að skoða dokkurnar og þetta var allt eitthvað gerviefnadrasl. Það var ekki séns að ég væri að fara að kaupa polyamid til að prjóna úr eða akryl. Eftir langa leit fann ég 2 tegundir af garni, lítið úrval af hvoru, sem ég gat hugsað mér að kaupa, annars vegar lífræn bómull og hinsvegar lífræn ull. Ég fór þá að spá, er það bara ég sem er svona pjöttuð að vilja helst bara hreina ull (já eða bómull þegar hún hentar) eða er þetta eitthvað íslenskt? Ég get bara ekki hugsað mér að nota gerviefni í eitthvað sem á að halda hita.

Svo náttúrulega útaf því að þetta var svo lífrænt og fínt þá var garnið náttúrulega bara til í sauðalitunum…

Sem betur fer veit ég af annarri prjónabúð sem selur alvöru almennilegt garn, ég þarf bara að nenna að fara þangað einhverntíman.