Posts tagged: draumur

Draumur um kaffigerð…

Mig dreymdi að ég var heima í Hrísateignum og Ragna kom heim með lúkufylli af kaffibaunum, nú skyldum við sko mala og gera okkar eigið kaffi! Við náðum okkur í duplo-kubba, skiptum baununum í tvennt og hófumst handa. 2-3 baunir varð að nota til að gera kaffið, restina þurfti að nota til að kveikja upp undir eldinum.
Við náðum okkur í sand (nota bene við lenntum stundum í veseni og fengum þá góða hjálp frá pabba gamla hehe) og settum hrúgu af sandi á pallinn – það var til þess að verja hann fyrir eldskemmdum. Ofan á sandinn settum við baunirnar sem voru til að kveikja upp með. Svo kubbuðum við stóran ramma (já eða bara svona öfugt U) til að hengja pottinn með kaffinu í. Í pottinn settum við mjólk og þessar 2-3 baunir – alveg fínmalaðar svo að maður fyndi ekki fyrir þeim þegar maður drykki kaffið. Pabbi bennti okkur svo á að við yrðum að fara rosalega varlega þar sem að ramminn okkar var ekki nógu hár og kubbarnir voru að bráðna og héngu eiginlega bara saman á klósettpappírnum (??? sem ég mundi ekki eftir að hafa notað en gerði ráð fyrir að væri styrking).
Þegar þetta var búið að sjóða þar til að mjólkin var orðin svolítið þykk þá var kominn tími til að setja vatnið. Við settum slatta af vatni og hrærðum og hrærðum en einhvernvegin breyttist þetta ekki í kaffi.

Needless to say þá urðum við Ragna fyrir miklum vonbrigðum, en þökkuðum þó fyrir það að við drekkum ekki kaffi hvort eð er. Það sem verra var að alltíeinu var Villi Jr, frændi okkar, OG hluti af ljótu hálfvitunum (Oddur, Toggi, Eddi og Ármann) og voru að gera grín af okkur og það var extra sárt því að við áttuðum okkur þá á því að við vorum bara í elstu bekkjum grunnskóla (sem er merkilegt að við höfum báðar náð að vera á sama tíma). Pabbi hló líka að okkur en hann hafði samt hjálpað okkur mikið og verið í hálfgerði verkstjórn.

Smá aukasaga, sem var í gagni í bakgrunninum, var að mamma fann leið til að láta Hrafnkel leika sér meira að strákadóti – málið var að hafa nóg pláss fyrir hann og nógu ógeðslega mikið af dóti og dreifa því vel. Btw. Hrafnkell var örugglega bara í kringum eins árs og já mamma var ógeðslega ánægð með sig.

Þetta var semsagt frekar pirrandi draumur, og fáránlega mikið af smáatriðum sem ég man. Ég svosem efast um að hann hafi mikla merkingu, þannig lagað. Nema að stundum er erfitt að vera til, sérstaklega þegar manni finnst maður vera lítill og allir hlæja að manni. heheheh

Vondur draumur

Í gærkveldi fór ég aðeins seint að sofa, því einsog svo mörg önnur kvöld fékk ég ægilegt hugstrump rétt þegar ég var að búa mig í rúmið og bara varð að græja og gera aðeins áður en ég færi að sofa. Klukkan var því 1:17 þegar ég fór upp í rúm, þar sem ég var þreytt þá las ég eiginlega ekkert og var því klukkan 1:20 þegar ég slökkti ljósið og ákvað að fara að sofa.

Það tók mig smá stund að sofna, mér fannst mér vera óþægilega heitt og ég var með fótapirring. Þannig að ég bylti mér svolítið en það gékk svosem ekki svo langt að ég myndi segja að ég hafi verið andvaka. En þar sem ég ligg þarna og er að reyna að sofna þá opnast hurðin á herberginu mínu og það kemur inn maður – ég sest beint upp (reisi mig upp án þess að nota hendur – skemmtilegt trikk sem ég gæti aldrei gert ef ég væri með fullri meðvitund en þó hef ég amk einu sinni gert þetta áður) og sé að hann er rosalega hávaxinn. En þar sem að það er myrkur í herberginu sé ég bara skuggamynd af honum – engin smáatriði nema að hann er rosalega hávaxinn og ég öskra “get out, get out, get out”… og þannig vaknaði ég, við öskrin í sjálfri mér.

Þar sem að ég hafði ekki einu sinni náð að meðtaka það að ég væri sofnuð tók það smá tíma að meðtaka það að ég væri vöknuð aftur, hjartað barðist um í brjósti mér meðan ég sat í rúminu og starði í átt að “manninum” og reyndi að átta mig á því hvort að hann væri þarna eða ekki. Ég held að ég hafi í raun varla áttað mig á því að þetta var í alvörunni bara draumur fyrr en ég heyrði mjóróma rödd sem sagði “mamma, ég er ennþá alveg rosalega þreyttur” koma úr barnarúminu. Þegar ég hafði sannfært Hrafnkel um að hann mætti sofa meira og sjálfa mig um að ég hefði ekki hrætt líftóruna úr honum þá leit ég aftur á klukkuna og hún var 1:41.

Shit hvað þetta var óþægilegt, ég er ekki að grínast ég drapst næstum úr hræðslu og mér finnst ég ennþá vera í smá adrenalínsjokki. Þó átti ég, sem betur fer, ekkert erfitt með að sofna aftur og svaf ágætlega restina af nóttunni.

Skrítinn draumur

Mig dreymdi skrítinn draum, mér leið eiginlega verulega illa yfir honum þegar ég vaknaði.

Mig dreymdi að ég var að fela mig því að ég vildi ekki að öldruð frænka mín (well ekki alvöru frænka heldur kona föðurbróðurs míns) sæi mig. Hún var svo reið yfir öllu útaf því að það væru svo margir látnir og frænka mín (dóttir hennar) átti í fullu fangi með að passa hana. Ég var svo viss um að ef gamla konan sæi mig þá yrði hún ennþá sorgmæddari (sem ég held reyndar að sé ekki satt) og ég grét og grét yfir því að henni leið svo illa. Semsagt alveg rosalegt drama.  Ég vona að svona rosalega tilfinningaþrunginn draumur þýði eitthvað gott, sérstaklega fyrir þennan væng af fjölskyldunni, er ekki yfirleitt annars þannig að draumar eru öfugsnúnir (svona ef maður tekur eitthvað mark á þeim yfirleitt)?