Posts tagged: Doddi

og lífið heldur áfram

Það er komin vika og satt best að segja þá finnst mér ótrúlegt hversu vel mér líður – miðað við hvað ég var í miklu rusli á fimmtudag og föstudag. Kannski er ég bara í einhverri afneitun eða kannski er ég bara loksins að átta mig á því að þetta reddast, þetta verður bara allt í lagi. Ég vil reyndar líka þakka þessu það að ég hef reynt að vera jákvæð, amk meiri hluta dagsins, ég hef líka talað óendalega mikið við alla mína góðu vini – og er eiginlega komin með ógeð á vælinu í sjálfri mér hehe.

Núna, í fyrsta skiptið í töluvert langan tíma, finnst mér ég vera sjálf við stjórn í lífi mínu og það er góð tilfinning. Núna get ég tekist á við dagleg verkefni – enda kominn tími til hehe. Skólaverkefnin eru loksins farin að ganga eitthvað, ég er byrjuð að kaupa jólagjafir og bíð bara eftir að fá blekið mitt svo að ég geti sent jólakort. Svo er planið að taka aðeins í gegn hérna áður en fjölskyldan mín kemur en bakstur og konfekt gerð fær að bíða þar til þau koma. Ég er hvort eð er alin upp við að þetta er oft gert svona seinustu daga fyrir jól, þegar skólinn er kominn í frí.

Ég fór í “keilu” í gær, það er að segja við Anna ætluðum í keilu en svo fórum við bara og fengum okkur að borða og komumst ekki lengra vegna seddu og leti. En við borðuðum góðan mat og töluðum mikið saman og það var bara ljómandi gaman. Og svo ætla ég að fara út á föstudagskvöldið með Camillu, Önnu og vinafólki Önnu – sem er að koma að heimsækja hana yfir helgina – og það á eftir að verða ljómandi gaman, ég er búin að ákveða það :-)

Doddi býr hérna ennþá, ég veit ekkert hvort að eitthvað er að gerast í þeim málum. Vonandi þó okkar allra vegna.

Eftir endann á einum kafla leynist upphafið á þeim næsta

Í fyrradag tjáði Þórður mér það, eftir að ég hafði lifað í óvissu í nokkrar vikur, að hann teldi ekki grundvöll til að reyna áfram að vera í þessu sambandi. Hann sagði mér að þetta væri búið.

Eins sárt og var að heyra þessi orð þá voru dagarnir á undan búnir að vera óendanlega sárir líka, of fátt hafði verið sagt og ég hafði beðið í nánast fullkominni óvissu um framtíðina, og að vissu leyti var bara gott að fá loksins að vita hvar ég stend. En þetta er samt bæði erfitt og sárt, ég syrgi sambandið sem ég hélt að ég ætti, ég syrgi framtíðina sem ég hafði stefnt að og mér líður illa í óvissunni sem umlykur næstu daga.

Við skiljum ekki í illu, enda græðum við ekkert á því. Ég er sár og reið og hrædd en ég óska Þórði bara alls hins besta. Hann mun flytja út, um leið og hann finnur sér einhvern stað til að vera á. Þangað til verður hann hér og við verðum að reyna að púsla saman lífinu þannig að allt gangi þokkalega smurt í kringum Hrafnkel. Við erum ekki búin að segja Hrafnkeli ennþá, veit ekki alveg hvenær við komum okkur í það, hann er á erfiðum aldri. Hann skilur svo margt en svo lítið, og hann spyr óhikað ef hann hefur spurningar.

En núna er upphafið af nýju tímabili og ég hvorki sé eftir kaflanum sem var að ljúka né óska þess að hann haldi áfram. Þeim sem hafa spurt hef ég sagt að það þurfi eitthvað stórfenglegt að gerast til þess að við byrjum saman aftur, það er of mikið sem er enn ósagt og það litla sem var sagt særir alveg nóg. En ég ætla aldrei að segja aldrei. Við erum bæði á markaðnum núna, við munum alltaf þurfa að hafa samskipti – þetta er ekkert klippt og skorið – og hver veit hvað gerist í framtíðinni, en ég held þó að hvorugt okkar muni fara og leita að hinu aftur.

Það sem ég hef áttað mig á, seinustu daga, er að ég á óendanlega góða vini og fólk sem ég vissi ekki að væru vinir mínir hafa svo sannarlega sannað gildi sitt. Ég er líka ekki jafn “hræðilega gömul” og mér var farið að finnst einhvernvegin, þegar systur mínar voru 26 (uss, ég er enn bara 26) þá fannst mér þær ekki nærri jafn fullorðnar og mér hefur fundist ég vera undanfarnar vikur eða mánuði. Og ég er búin að vera í þessum fullorðinsleik meira og minna síðan ég byrjaði með Þórði. Núna er kominn tími til að lifa aðeins, gera það sem ég vill, einsog ég vill, þegar ég vill. Núna get ég farið í river rafting án þess að hafa samviskubit yfir því að hann hafi ekki farið, núna get ég farið í bíó án þess að spá í því hvort að honum langaði að sjá þessa mynd osfr.

En þetta þýðir líka að ég mun búa ein með Hrafnkeli og það er svolítið scary. Því að þó ég hafi alltaf kunnað að meta einveruna þá hef ég líka þörf fyrir fullorðinssamkipti. Einnig finn ég að núna hef ég rosalega þörf til að tala um þetta, tala um þetta og allt annað. Og þá eru miðlar einsog facebook og msn ómetanlegir. Ég get pikkað gegnum tárin.

En núna þarf ég að græja mig og fara til læknis. Fara í læknisheimsókn sem ég hef beðið eftir lengi en er líka mjög scary og ég get ekki ákveðið hvort er hræðilegra ef að læknirinn segir já eða nei. Einhvernvegin er ég hrædd við allar niðurstöður. En meira um það seinna.

allir saman nú, einn – tveir – þrír…

Jæja það fer að líða að því að við skreppum í ofurverslunarferð til úgglanda (Malmö hehe) svo að það er ekki seinna vænna fyrir ykkur að byrja að spá í óskalistanum fyrir jólin. Núna, þessi jólin, er planið að vera svolítið hagsýnn og fara til ódýrari landa í verslunarleiðangur. Þungir og stórir hlutir eru ekki jafn vinsælir og litlir og léttir hlutir – en þó er allt tekið til greina.

Annað í fréttum er að þar sem að syninum var bannað að segja fullorðinsorðin (andskotans, helvítis, fjandans ofl í þeim dúr) að þá fáum við ekki heldur að segja fullorðinsorðin. Hann er líka gáttaður yfir því hvað okkur (sérstaklega mömmunni) gengur illa að muna það að maður má ekki segja þessi orð. Þar sem að við höfum verið agalega léleg í trúarlegu uppeldi sonarins er þó erfitt að útskýra fyrir honum af hvað þessi orð þýða og af hverju þau eru ljót. Æði oft er maður skammaður fyrir að segja eitthvað allt annað vegna þess að einræðisherranum misheyrist oft þegar hann er 75% á kafi í einhverjum leik en aðeins 25% að fylgjast með orðalagi foreldra sinna. Ég held að eina skiptið sem ég komst upp með að blóta all hressilega var í gær þegar ég brenndi mig við að taka franskar út úr ofninum, missti plötuna í kjölfarið og það flugu franskar útum allt (og auðvitað voru töluverð læti í þokkabót), ég er sannfærð að í gegnum sársaukann tvinnaði ég saman nokkur misfalleg orð. Sem betur fer var bruninn ekki alvarlegur og rosalega fljótur að jafna sig (þumall).

Annað markvert í fréttum er að það “snjóaði” fyrsta snjónum hérna í gær. Kom eitthvað hallærislegt fjúk, mini snjókorn, sem að bráðnuðu áður en þau komu við jörð. Hrafnkell var yfir sig hamingjusamur yfir þessu – sennilega eini Kaupmannahafnarbúinn sem var svona kátur reyndar.

Annars gerist ekki margt. Við hóstum hérna í kór, sjúgum upp í nef og snýtum okkur – mjög geðsleg fjölskyldan. Hrafnkell er þó ekkert slappur (og í raun minnst kvefaður) og ég vil meina að Doddi hafi það ekki jafn skítt og ég… Spurning hvort að hann sé sammála. Næturnar eru jafn yndislegar, ég skríð yfirleitt frekar snemma upp í rúm, svo þegar Doddi kemur þá getur hann annað hvort ekki sofnað útaf hrotunum í mér eða hóstanum í sér. Sjálf vakna ég óteljandi oft á nóttu, geri ráð fyrir að hroturnar í mér eða hósti sé orsökin.

Einsog Rögnu þá hefur mig dreymt ýmislegt undanfarið, man minnst af því nákvæmlega núna en oftast þegar ég vakna þá á ég eitthvað eftir “óklárað”. Eitt sem ég man þó er að um daginn þá þurfti ég að prjóna brúðarkjól, það var mikið stress og ég var sko ekki ein að prjóna kjólinn – en ég var þó yfir verkinu. Hinar prjónakonurnar voru alveg glataðar og nánast engin hjálp í þeim. Þar að auki vorum við ekki með neina uppskrift og við byrjuðum á faldinum – ég var alveg viss um að það væru mistök. Anyway það gekk illa að prjóna þennan kjól.

En nóg komið af blaðri

Jólin jólin allsstaðar….

Það er langt liðið á haustið, næstum farið að koma frost (var  bara 2,5°c í morgun birrrr) og jólapælingar farnar að láta bera á sér. Seinustu jól vorum við í Noregi og þar af leiðandi leitar hugurinn heim til Íslands – í mínum huga eru jól á Íslandi það besta í heimi. Að geta verið með fjölskyldunni sinni og vinum, slappað af og étið ógrynnin öll af góðgæti, drukkið malt (og jafnvel styrkt það aðeins með appelsíni) já eða jafnvel jólaöl, spila spil og svo auðvitað að eiga gott afmæli.

Því miður virðist frekar ólíklegt (mjög ólíklegt) að mér verði að ósk minni að komast til Íslands um jólin. Ég var náttúrulega þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fara til Íslands í sumar, Doddi fór til Króatíu í haust – sem var ekkert ókeypis þó það hafi svosem ekki verið dýr utanlandsferð þannig lagað, íslensku lánin okkar hækka (og það munar um hverja krónu), gengið lækkar (sem þýðir dýrari dkk fyrir okkur) og verðlagið hér (matur, leiga, föt) hækkar. Þar að auki virðist útilokað núna að Doddi nái að vinna eitthvað í janúar, og það er pottþétt útilokað að ég gæti gert það þar sem að ég er í 3 prófum sem verður vandlega dreift yfir allan janúarmánuð. Þar af leiðandi getum við ekki leift okkur að kaupa núna miða til Íslands sem gerir það að verkum að þegar nær dregur og við sjáum betur hvernig peningamál standa að þá verður flugfarið hvort eð er orðið ógeðslega dýrt.

Og þá spyr maður sig, hvað getur maður gert í staðinn? Við Doddi teljumst örugglega sem stórskrítið fólk en við höfum voðalega lítinn áhuga á því að stofna okkar eigin einkajól – bara við 3 saman. Okkur langar til að eyða jólunum með öðru skemmtilegu fólki. Langar ekki bara einhverjum til að koma til Köben um jólin? Eða einhverjar aðrar góðar hugmyndir?

Anyway svona eru jólapælingarnar á þessum bæ, hvaða jólapælingar hafið þið?

Smá smotterí

Það er löngu kominn tími til að skrifa eitthvað en einhvernvegin hefur verið svo “mikið” að gera. Það virðist líka enginn vera almennilega í blogggírnum þessa dagana.

Anyway þá tókst mér að nöldra mig inn í skólann. Skólinn byrjaði á miðvikudaginn og um miðjan miðvikudag fékk ég tilkynningu um að ég fengi sæti í bekknum. Þetta er bein afleiðing af því að vesalings maðurinn, sem sér um sætisveitingar í þetta nám, var búinn að þola síendurtekna tölvupósta frá mér seinustu vikur þar sem að ég pressaði á hann um að gefa mér endanlegt svar. Þegar ég mætti svo á fimmtudaginn í skólann þá komst ég að því að bekkurinn er ca 35 manns (gróflega áætlað) og það eru yfir 100 manns á biðlista svo að ég tel mig bara nokkuð góða með að nöldra mig inn í bekkinn.

Námið virkar vel á mig, fyrsta önnin verður reyndar frekar þurr en það var alveg vitað fyrirfram, en það er gaman að komast í bekk þar sem flestir virðast actually vera þarna til þess að læra. Það á þó eftir að koma í ljós þegar maður kemst lengra inn í þetta hvort að námið standi undir væntingum. Reyndar eru þær væntingar, því miður, ekkert rosalega háar þar sem að mín kynni af dönsku skólakerfi eru ekki mjög góð. Allt sem ég hef hingað til séð af þeirra skólakerfi bendir til þess að það sé rosalega illa skipulagt og undarlega metið (og léleg samskiptamunstur hjá kennurunum). Vonandi verður KNORD til þess að bæta álit mitt á dönunum.

Doddi er kominn og farinn, kom frá Noregi á laugardagskvöldi og fór svo í morgun til Króatíu í skólaferðalag. Hrafnkell telur sig vera orðinn 4 ára þar sem að við báðum um að það yrði haldið upp á afmælið á föstudaginn í leikskólanum og svo gáfum við honum einn pakka á föstudaginn og fórum svo í sirkus (sem var by the way geggjað kúl). Svo á morgun verður smá sýnishorn af barnaafmæli hérna.

Og hvað svo?

Hvað gerir maður þegar plan A gengur ekki upp og svo virðist plan B ekki heldur ætla að ganga upp og plan C er eiginlega bara „þetta reddast“?

Ég er semsagt komin heim, eftir gott frí heima á Íslandi, og þar beið bréfið mikla meðal óendanlega mikils ruslpósts. Ég var með óþægilega tilfinningu gagnvart þessu bréfi, reyndi að afsaka það með því að ég er svartsýnismanneskja almennt séð, sem var svo staðfest þegar ég opnaði það. Því miður komst ég ekki að í skólanum en er þó að biðlista, ef ské kynni að einhverjir detti út. Þannig að það er ekki öll von úti en samt eiginlega.

Kallinn sagði, í viðtalinu sem ég fór í, að skólinn væri með þjóðerniskvóta og tæki bara inn 3-4 af hverju þjóðerni og ég býst við að það hafi ýtt mér út því að ég veit um einstaklinga sem komust inn þrátt fyrir að hafa td verri einkunnir en ég úr KTS en þeir einstaklingar eru danir. Þannig að núna þarf ég að skrifa honum email og spyrjast fyrir um þennan biðlista, hvernig ég standi og hvort að það sé raunhæfur möguleiki að ég komist samt inn – og benda honum á að þetta er eitthvað sem ég virkilega vil (þó að ég hafi ekki verið svo sannfærð um það í vor þá er ég sannfærð núna).

Þar fyrir utan sé ég ekki annað í stöðunni en að byrja á því að sækja um allar þær vinnur sem ég finn, sem actually koma menntun minni eitthvað við. Einnig þyrfti ég líka að fara fljótlega í það að sækja um vinnur við að skeina rassa eða eitthvað álíka spennandi, hugsa samt að ég myndi frekar vilja fara bara í einhver þrif eða eitthvað. Hvað sem hverju líður þá höfum við ekki efni á því að hafa mig tekjulausa.

Búhú! Ég er hundfúl, var eiginlega búin að treysta alveg á að komast inn, þrátt fyrir þetta gut-instinct um að ég kæmist ekki inn. Þar fyrir utan er heillangt þangað til að Doddi kemur heim og satt best að segja þá finnst mér ég óttalega ein í heiminum eitthvað . EN það þýðir ekkert annað en að hrista af sér slenið, ganga frá hérna og vona það besta.

Á fésinu

Klaufinn (og byttan) ég datt á fésið í gær þegar ég var á leiðinni heim af barnum. Skildi ca 1/2 andlitið eftir á stéttinni og er frekar aum á eftir. Ég er þó algerlega á því að það var ekki algerlega áfenginu að kenna að ég datt, enda er ég klaufi með eindæmum og þetta var mikill klaufaskapur.

Afleiðingarnar af þessu falli eru sár og rispur, sem svíður í, bólgur og mör, smá hálsrígur og rosalega mikil sjálfsvorkunn. Ég er td með mar í hægri lófanum og á vinstra handarbakinu. Hrafnkell er glataður þegar kemur að því að vorkenna manni. Hann er meira fyrir það að potta í mann og spyrja svo hlæjandi hvort að þetta sé vont (ég veit, ég hef næstum því áhyggjur af þessu tilfinningaleysi hjá honum). Doddi er búinn að vera í skólanum í allan dag (einsog hann verður nánast þar til að hann fer til Noregs :-( ) svo að ekki hef ég fengið mikla vorkunn þaðan. Það hjálpaði aðeins að hringja í pabba og væla smá í honum.

Hérna má svo sjá ósköpin

smallJamm þetta er rosalega fallegt, ekki satt? Ég vil þó benda á að bólgan á hökunni hefur hjaðnað töluvert þegar þessi mynd var tekin.

En anyway BOOHOO!

Loksins eitthvað að frétta!

Jæja það er loksins eitthvað að frétta hérna í baunalandi. Það merkilegasta er kannski sumarplön okkar. Doddi fer til Noregs að vinna og við Hrafnkell förum til Íslands :-)

Mamma nefnilega reyndi að hringja í mig í dag, ég heyrði ekki í símanum en sá bara missed call á símanum mínum. Þegar ég hringdi aftur svaraði Ragna en mamma var upptekin í gemsanum sínum. Ég ætlaði þá bara að hringja aftur seinna þegar ég heyrði mömmu kalla “er þetta Edda” fyrir aftan og svo var hún bara búin að skella á vesalings manneskjuna sem hún var að tala við og komin í símann að tala við mig. Hún spurði hvar ég væri og þegar ég sagðist vera að labba heim, með Hrafnkel, úr leikskólanum þá sagðist hún ætla bara að hringja þegar við værum komin heim. Auðvitað bjóst ég við hinu versta. Svona áríðandi samtal, sem að þó varð að bíða þangað til að ég væri heima hlaut eiginlega að þýða eitthvað svakalegt. En þá var hún bara að hringja og segja mér að þau pabbi ætluðu að bjóða okkur pjakk til þeirra, það væri hvort eð er örugglega ódýrara fyrir þau en að koma hingað þó það væri í stuttan tíma. 

EN já amk þá erum við pjakkur að koma til Íslands, fljúgum til Akureyrar eftir akkurat mánuð! 

Við Hrafnkell vorum að ræða hverja við ætluðum að hitta, ég nefndi ömmurnar og afana, Valdís, Rögnu og Hartmann (sem hann kom nú ekki alveg fyrir sig, en hann vildi sko alveg hitta litla barnið haha, hann á eftir að læra þetta) og svo sagði ég að við myndum hitta einn enn sem héti M… og hann horfði á mig, hugsaði smá og sagði svo “Magna Stein! Oh…. Vúhú!” Það var sko toppurinn á öllu! En svo fór hann og fann mynd af Hrafnhildi og sagðist vilja hitta hana líka því að hann elskar hana :-)

Annars þá er Hrafnkell loksins búinn að læra að hjóla, við foreldrarnir vorum farin að örvænta. Hann fékk hjólið í afmælisgjöf þegar hann varð þriggja ára. Síðan þá hefur hjólið beðið niðri, læst, hjá hinum barnahjólunum. Við höfum farið framhjá því á hverjum degi, oftast höfum við minnst á það hvað hann sé heppinn að eiga svona flott hjól. Við höfum 3-4 sinnum neytt barnið til að fara að prufa. Það hefur gengið mjög illa að fá hann til að fatta að hjóla með löppunum. Svo um daginn þá prufuðum við einu sinni enn, og viti menn barnið bara hjólaði af stað – alveg jafn hissa á þessu og foreldrarnir. Núna hjólar hann einsog atvinnumaður, hann er reyndar svo heppinn að hann getur ekki dottið (dettur semsagt nokkrum sinnum í hverri ferð, er ekki alveg að pæla í því að hjálpardekkin bjarga ekki öllu) – að hans sögn amk, getur oftast farið sjálfur af stað og svoleiðis. Það er gott að vita að það er hjól til í Hrísateignum sem er í réttri stærð svo að kallinn á eftir að geta hjólað aðeins í sumar. 

Annars þá hafa halakörturnar (sem við veiddum í kirkjugarðinum) breyst í froska, en þar sem við nennum ekki að eiga við froska þá ætlum við að fara og sleppa þeim á morgun – amk ef þeir drepast ekki úr hungri á meðan. 

Hvað varðar skólamál þá er ég búin að sækja um top-up bachelor nám í Knord (Köbenhavn Nord) í námi sem heitir Web Development, núna er bara að bíða og vona að ég heyri eitthvað skemmtilegt frá þeim. Ef ekki þá veit ég ekki hvað í andsk**anum ég geri af mér.

Mikið að gera

Það er mikið að gera þessa dagana, aðalega þó í skólanum. Kúnninn virðist ekki skilja þegar við segjum honum að þrátt fyrir allt þá sé þetta skólaverkefni og að við höfum skiladag sem við verðum að virða ef við ætlum að fá að taka prófið og útskrifast, og það gerir málin eilítið flóknari en þau þyrftu að vera. Við erum reyndar búnar að ræða þetta innan hópsins og búnar að ákveða að núna þá ætlum við bara að gera hlutina eins vel og tíminn leyfir, eftir okkar höfði, og ef kúnninn vill ennþá nota síðuna og vill ennþá fá breytingar þegar við erum búnar að skila verkefninu til skólans þá getur kúnninn alveg beðið okkur um að gera breytingar og vinna að síðunni í sumar – gegn gjaldi auðvitað. Við erum reyndar 2 í hópnum sem erum svolítið að vonast til að svo verði (að kúnninn vilji borga okkur fyrir að vinna að síðunni í sumar) því að okkur vantar pening. Sú þriðja er alveg róleg því að hún fær SU (danska skólastyrkinn) í sumar (vegna þess að í DK þurfa nemendur að fá frí einsog aðrar vinnandi stéttir) og þar fyrir utan getur hún stokkið inní gamla starfið sitt á Jylland þar sem hún fær amk 17000dkr á hálfsmánaðar fresti – sem gerir um 25000dkr á mánuði sem  er meira en 500þús íslenskar! Svo að hún þarf ekkert að pæla of mikið í þessu.

Annað í fréttum er að allir fiskarnir okkar eru dauðir, það er bara einn snigill eftir og hann er frekar slappur. Hrafnkell fann nefnilega hnetu úti í garði, kom með hana inn, opnaði hana og laumaði svo sjálfri hnetunni ofan í fiskabúrið. Einhverju seinna tók ég þó eftir hnetunni en ég hélt að það gerði nú ekki svo mikið til, en morguninn voru allir fiskarnir dauðir eða deyjandi. Svo að núna þurfum við að ákveða hvað við gerum, hvor að við kaupum einhverja ódýra fiska eða hvort að við pökkum búrinu niður í bili. Hvort heldur sem er þá þarf örugglega að taka allt í gegn og þrífa, sjóða það sem hægt er að sjóða osfr til að drepa niður hvað sem það var sem að drap fiskana.

Við höfum ekkert heyrt frá Bispebjerg hospital um það hvenær við eigum að fara með Hrafnkel í tjekkið. Ég er farin að vera svoldið óróleg útaf þessu því að ég hef heyrt sögur af fólki sem hefur verið að bíða eftir sambærilegum bréfum (veit reyndar ekki hvort það var frá sama sjúkrahúsi) og fengu þau of seint. Td þá var einn vinur minn hérna að fara með kærustunni sinni í fóstureyðingu, þau voru búin að fara í öll viðtölin og fá grænt ljós á aðgerðina og voru send heim og sagt að þau myndu fá tilkynningu í póstinum um það hvenær aðgerðin yrði framkvæmd (já þetta eru danir, þurfa alltaf að vera með vesen). Þau fengu bréfið kl 1 og í því stóð að aðgerðin ætti að fara fram kl 11  sama morgun. Ég varð ekkert smá reið fyrir þeirra hönd, þó að málunum hefði verið reddað, því að þetta er ekki aðgerð sem má bíða, hver dagur skiptir máli -enda má gera ráð fyrir að kona sé komin amk 4-5 vikur áður en hún áttar sig á því að hún er ólétt, svo koma einhverjir dagar þar sem að hún veltir möguleikum fyrir sér, svo er viðtal og annað viðtal og það tekur þá einhverja daga í viðbót, svo er þá að bíða eftir þessu bréfi og það gerir einhverja daga í viðbót og það má ekki framkvæma þessa aðgerð eftir 12 vikurnar. Einnig hugsa ég að það sé erfiðara fyrir konu að fara í þessa aðgerð eftir því sem að hún er ólétt lengur. En já amk þá erum við ekki búin að fá tíma uppi á sjúkrahúsi (sem ég veit ekkert hvort er uppi eða ekki, það er bara svo eðlilegt að segja uppi á sjúkrahúsi).

Um páskana þá varð ég aftur frænka, núna er ég rík og á 2 náfrændur, einn stóran sem ég hef ekki séð í alltof langan tíma og enn lítinn sem ég sá reyndar um páskana en ég sá bara alltof lítið af honum og alltof stutt. Hrafnkeli fannst þessi frændi mjög merkilegur, hann var ótrúlega lítill en gat grenjað ótrúlega hátt – eiginlega alltof hátt. Þessi frændi var samt ótrúlega leiðinlegur, uppfyllti ekki væntingar um skemmtanagildi, en samt merkilegur. Hefði Hrafnkell getað skipt honum Hartmanni Völundi út fyrir Magna Stein þá hefði það verið gert á núll einni (enda var það stærsti gallinn við Íslandsförina að Magni Steinn skildi ekki vera þarna einsog hann átti að vera) en samt var sá litli merkilegur. 

Svo eftir páska, rétt áður en við fórum til baka til DK, þá gistum við 2 nætur hjá Frosta og Sonju og þau eiga bæði einn stóran strák og eina 9 mánaða skruddu. Hrafnkeli líkaði mjög vel við það að hafa þau 2 til að leika við. Stelpan var einmitt mjög skemmtileg, og áhugaverð, en honum fannst hún frekar erfið í umgengni. Hann varð að passa að hún borðaði ekki dótið hans (hún er alger ryksuga, litla rófan) og þar fyrir utan þá átti hún það til að meiða hann aðeins og ef hann svaraði fyrir sig þá þurfti svo lítið til að hún færi að grenja og þá fékk hann samviskubit (haha ég sá það á svipnum á honum, hann ýtti aðeins við henni og hún fór að grenja og hann var næstum farinn að grenja sjálfur hann skammaðist sín svo mikið þó að það hefði enginn skammað hann). Hún var eiginlega erfiðari en hún var skemmtileg og því var hann voða feginn þegar heimsóknin var búin.

Þessi tvö litlubörn urðu svo til þess að við Doddi fengum frið frá “við skulum eignast litla barn” tuðinu í 2,5 vikur. Það var ágætt því að þetta var orðið frekar þreytt þarna fyrir páska. En í morgun þá vaknaði Hrafnkell fílelfdur og vildi eignast litla barn, hann var búinn að plana hvar litlabarnarúmið ætti að vera og sagði að ég gæti bara gefið barninu að drekka úr brjóstunum mínum, ég þyrfti bara að vera duglega að drekka mjólk, djús og kók til að litla barnið gæti fengið mjólk, djús eða kók úr brjóstunum – rökrétt ekki satt? Ég bennti honum á að litlabarnarúmið væri eiginlega fyrir öllu dótinu hans og ef við fengum litla barn og settum rúmið þarna þá gæti hann ekkert leikið sér að dótinu sínu. Lausnin á því vandamáli var einföld, við geymum bara litla barnið í stofunni. Svo fórum við inní stofu og hann sýndi okkur hvar litlabarnarúmið gæti verið í stofunni og hvernig við þyrftum að labba í kringum það til að meiða ekki barnið. Svo labbaði hann þvert fyrir svæðið tilkynnti að það mætti alls ekki labba svona yfir litla barnið því að þá kæmi blóð og barnið myndi meiða sig ofsalega mikið og við vildum það ekki. 

En anyway þá vona ég að þessi morgun hafi bara verið einstakur, mér finnst þetta “ég vil eignast litlabarn” tal ekkert skemmtilegt svona til lengdar.

Sumarið að skýrast

Það lítur allt út fyrir að Doddi fari til Noregs (ef þeir hafa einhverja vinnu fyrir hann þar) í sumar, strax eftir prófið hans – sem er í byrjun júní – og ætli hann verði ekki þar nánast í allt sumar – komi rétt heim áður en hann fer svo aftur til Alexandríu í skólaferðalagið sitt. 

Ég er hinsvegar ekki búin fyrr en 26. júní, þegar ég útskrifast. Svo er stefnan að byrja aftur í skóla í haust, þó að ég viti nú þegar um 2 skóla sem ég fer ekki í, þó að ég viti í raun ekki um neinn skóla sem er búinn að segja já þá er það samt stefnan ennþá. Það má gera ráð fyrir því að sá skóli byrji í endanum á ágúst – sem þýðir 2 mánuðir í sumarfrí hjá mér.  Eða með öðrum orðum 8-9 vikur.

Sú krafa hefur komið frá leikskólanum hans Hrafnkels að hann sé í 3 vikur í samfelldu fríi í sumar. Eðlileg krafa, bæði er þetta viku minna en er krafist heima á Íslandi og þá veljum við alveg hvenær hann verður í fríi og hvenær ekki.

Þetta gerir 5-6 vikur í frí fyrir mig svo að það þarf ekki neinn snilling til að átta sig á því að ég fæ hvergi vinnu hérna í 5-6 vikur. Það tekur því ekki að þjálfa upp hálfótalandi starfsmann fyrir svona stuttan tíma. Þannig að ég get lítið gert annað en að setja inn smáauglýsingar hér og þar og óska eftir einhverjum verkefnum sem ég gæti hugsanlega unnið heima hjá mér í sumar. Ég er ekki bjartsýn á að það gangi vel en hvað getur maður annað gert? Það hjálpar aðeins til að ég held að ég ætti að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þetta sumarið þar sem að ég er að útskrifast úr dönskum skóla, það er amk eitthvað sem maður þarf að kanna. Eftir Noregsferð um jólin og svo Íslandsferð um páskana þá erum við ekkert að vaða í peningum, sérstaklega þar sem kom í ljós (eftir á) að fjárhagsáætlunin hafði leiðinlega áhrifaríka innsláttarvillu. Það vantaði nefnilega eitt núll í húsaleiguna og þó að núll sé bara núll þá munaði ótrúlega um það hvort að húsaleigan sé 10 þús eða 100 þús á mánuði. En þetta reddast, það gerir það alltaf.

En vegna þess að við þurfum að ákveða hvaða 3 vikur Hrafnkell á að vera í fríi þá væri gaman að heyra hvort að einhverjir séu með einhver heimsóknarplön í sumar? 

En já aftur að skólapælingum. Það beið mín umslag frá einum skólanum þegar ég kom heim frá Íslandi. Í því var ég beðin um að koma í inntökupróf nokkrum dögum áður – þar með var einn skóli farinn. Svo fékk ég email um daginn þar sem mér var tilkynnt að ég hefði ekki komist inn í inntökuprófið í Mediehojskolen. Það merkilega við það var að ég þekki þó nokkra sem sóttu um og það voru bara danir sem komust áfram í inntökuprófið og ég veit með vissu að nokkrir af þessum dönum eru slakari en nokkrir af útlendingunum. Eiginlega efast ég ekki, þegar ég sé hverjir komust áfram og hverjir ekki, um það að málið var einfaldlega það að þeir voru ekki að leita að útlendingum – en það hefði verið gott að vita það áður en maður eyddi lööööngum hluta af páskafríinu í að vinna að inntökuverkefninu.