Posts tagged: Danmörk

Jólin jólin allsstaðar….

Það er langt liðið á haustið, næstum farið að koma frost (var  bara 2,5°c í morgun birrrr) og jólapælingar farnar að láta bera á sér. Seinustu jól vorum við í Noregi og þar af leiðandi leitar hugurinn heim til Íslands – í mínum huga eru jól á Íslandi það besta í heimi. Að geta verið með fjölskyldunni sinni og vinum, slappað af og étið ógrynnin öll af góðgæti, drukkið malt (og jafnvel styrkt það aðeins með appelsíni) já eða jafnvel jólaöl, spila spil og svo auðvitað að eiga gott afmæli.

Því miður virðist frekar ólíklegt (mjög ólíklegt) að mér verði að ósk minni að komast til Íslands um jólin. Ég var náttúrulega þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fara til Íslands í sumar, Doddi fór til Króatíu í haust – sem var ekkert ókeypis þó það hafi svosem ekki verið dýr utanlandsferð þannig lagað, íslensku lánin okkar hækka (og það munar um hverja krónu), gengið lækkar (sem þýðir dýrari dkk fyrir okkur) og verðlagið hér (matur, leiga, föt) hækkar. Þar að auki virðist útilokað núna að Doddi nái að vinna eitthvað í janúar, og það er pottþétt útilokað að ég gæti gert það þar sem að ég er í 3 prófum sem verður vandlega dreift yfir allan janúarmánuð. Þar af leiðandi getum við ekki leift okkur að kaupa núna miða til Íslands sem gerir það að verkum að þegar nær dregur og við sjáum betur hvernig peningamál standa að þá verður flugfarið hvort eð er orðið ógeðslega dýrt.

Og þá spyr maður sig, hvað getur maður gert í staðinn? Við Doddi teljumst örugglega sem stórskrítið fólk en við höfum voðalega lítinn áhuga á því að stofna okkar eigin einkajól – bara við 3 saman. Okkur langar til að eyða jólunum með öðru skemmtilegu fólki. Langar ekki bara einhverjum til að koma til Köben um jólin? Eða einhverjar aðrar góðar hugmyndir?

Anyway svona eru jólapælingarnar á þessum bæ, hvaða jólapælingar hafið þið?

læknisheimsókn

Í þetta sinn byrjuðum við veru okkar hér í Danmörku með því að skreppa aftur til eyrnalæknis. Það henntaði ágætlega þar sem að mamman ákvað þá að taka einn aukadag í fríi og við sváfum út (sem var lovely). Doddi fór svo reyndar í skólann sinn en við pjakkur fórum og hittum aftur Halim-Al eyrnalækninn. 

Eyrnalæknirinn var öllu viðkunnalegri í þetta skiptið, virkaði ekki nærri jafn hrokafullur og hann talaði meira að segja aðeins við Hrafnkel. Hann kíkti í eyrun, sá að það var engin eyrnabólga í gangi – hljóðhimnurnar litu báðar vel út. Svo mældi hann þrýstinginn í miðeyranu og þar kom í ljós að það er þó nokkur vökvi í eyrunum á barninu, en þar sem er að koma sumar þá vildi hann ekki gera neitt í því fyrr en í haust – þaes ef að vökvinn væri ennþá til staðar þá. Ég er svosem sátt við þá ákvörðun þar sem að mér finnst óþarfi að setja rör í barnið ef að vökvinn getur lagast sjálfur yfir sumarið. Svo ákvað hann að mæla þrýstinginn (já eða eitthvað svoleiðis, ég veit svosem ekki nákvæmlega hvað hann var að mæla) í innra eyranu. Þá aulaði læknirinn út úr sér að sú mæling hefði verið aðeins skrítin seinast (það sem hann sagði mér seinast var að það væri allt í lagi með allt, en að hann vildi samt fá að hitta okkur aftur bara til öryggis og þess vegna komum við aftur) sérstaklega í öðru eyranu og að núna væri hún líka skrítin og þess vegna vill hann að við förum á eyrnadeildina í Bispebjerg sjúkrahúsinu. Svo að núna er bara að bíða eftir boðun þaðan.

Ég er mjög ánægð með að fá nákvæmari skoðun og allt það, ég er líka ánægð með að læknirinn skildi vilja sjá okkur aftur þó að ég sé óánægð með að hafa ekki fengið að vita þá hvers vegna. Eins spurði læknirinn hvort að Hrafnkell hefði verið eitthvað öðruvísi en venjulega og eftir á að hyggja þá er hann búinn að vera mjög órólegur undanfarið og óeðlilega mömmusjúkur (sem lýsir sér í því að þó að hann væri glaður og ánægður hjá ömmum sínum og öfum þá vildi hann alls ekki gera hluti einsog fara í labbitúra einn með þeim eða vera þar í stuttri pössun). 

Ég verð líka að viðurkenna að ég er nett stressuð, ég hef ekki hugmynd hverju ég má búast við (ég fattaði ekki að spyrja nánar út í það hvað gæti verið að osfr). Ég vona þó að annað hvort komi í ljós að það er ekkert að eða ef það kemur í ljós að það sé eitthvað að að það sé þá eitthvað sem er auðvelt að laga eða vinna með. 

…og ég sem var búin að skrifa þennan hávaða í barninu bara á það að hann væri líkur Hjöddu ömmu sinni og ég þakkaði guði fyrir það að hún er nú ekkert svo hávær í dag ;-)

Komin heim

Við erum komin heim til Kaupmannahafnar. Flugvélin var ekki lent þegar Hrafnkell fór að tala um að hann vildi endilega fara aftur í heimsókn til ömmu og afa, brúnin lyftist þó eilítið þegar við fórum að tala um allt sem hann gæti sagt Amiru, og hinum krökkunum í börnehaven, frá því sem hann hafði gert í páskafríinu. En svo kom babb í bátinn, hann fattaði að Amira talar ekki íslensku og hann kann ekki að segja frá öllu á dönsku, hvernig segir maður td sundlaug, heitur pottur og páskaegg? Þetta olli smá áhyggjum en við komumst örugglega yfir það.

En já við komum til Hveragerðis á föstudagskvöld, fengum gistingu hjá Frosta og Sonju. Þar var auðvitað gott að vera, einsog allstaðar annarsstaðar sem við höfum verið um páskana. Gylfi, Hrafnkell og Kristín voru strax góð að leika sér öll saman þrátt fyrir mikinn aldursmun (8 ára, 3,5 ára og 9 mánaða). Þarna var Hrafnkell líka búinn að finna “litla barn” sem var bæði lítið og vitlaust og skemmtilegt! Ekki alveg jafn leiðinlegt, og grenjar ekki jafn hátt. Hann komst reyndar að því fljótlega að hún var ekki gallalaus, heldur var hún bæði of lítil og vitlaus til að vita að maður má ekki meiða aðra og svo varð maður alltíeinu að passa upp á að hún væri ekki að éta dótið mans. En heilt yfir þá náðu þau þrjú vel saman.

Við áttum svo bæði góða stundir með Frosta og Sonju og svo aftur góðar verslunarstundir með Hrafnhildi í gær.

En svo í dag þá skiluðum við bílnum, fórum út á völl, flugum heim, borðuðum kvöldmat, svæfðum barnið og erum núna bara að slappa af. Það var notalegra en ég hélt (miðað við “Íslandsheimþránna” sem hefur hrjáð mig undanfarna daga) að koma hingað heim. Engu að síður nenni ég engan vegin að takast á við skólann og að koma sér aftur inn í venjulega rútínu  *dæs* en þetta hefst einhverntíman. Ég hugsa að morgundagurinn verði erfiðastur og svo jafni sig flest all.

Sundstrákur

Við fórum saman í sund, ég, mamma og pabbi. Við fórum bara í sundlaugina sem er hérna rétt hjá okkur. Við höfum reyndar aldrei farið þangað áður og það er reyndar orðið líka mjög langt síðan við fórum í sund seinast. Ég var samt ekkert búin að gleyma, en var ólíkt þægari en seinast – núna var þetta nefnilega allt svo spennandi. Mér fannst gaman að klæða mig úr fötunum í stelpuklefanum, það var síðan líka gaman að vera í sturtunni. Svo þurftum við mamma að labba laaangan gang og niður stiga og svo annan langan gang til að komast í laugina. Sundlaugin var, einsog danskar laugar eru almennt, frekar köld en það var í lagi því að ég buslaði aðeins. Fyrst fannst mömmu og pabba ég vera búinn að gleyma miklu, ég kvartaði yfir því að það væri vatn í augunum á mér og kunni varla að kafa lengur. Mamma sagði að það væri útaf því að ég væri svo gamall og það væri svo langt síðan við fórum seinast. En ég sannaði það enn og aftur að ég er ótrúlegur vatnsköttur. Ég var fljótur að sleppa takinu á mömmu og pabba og vildi helst bara kafa á milli þeirra – kútalaus, aftur og aftur. Svo fékk ég kútana mína og þá var ég ekki hræddur við neitt. Það var samt gott að hafa mömmu og pabba til að halda í þegar maður þurfti að anda aðeins, en svo var ég bara farinn. Ég nota bara fæturnar mínar til að busla og þá kemst ég hratt áfram. Ég þori líka alveg að hoppa ofan í vatnið og mamma og pabbi þurftu stundum að stoppa mig og segja mér að anda aðeins rólega í smá stund.

Þarna voru nokkrir stærri krakkar sem voru miklu óöruggari en ég, mamma sá til dæmis einn strák sem virtist vera 5-6 ára horfa á mig með aðdáunaraugum á bak við kútana, flotholtin og traustatakið sem hann hafði á mömmu sinni. En þetta er samt ekkert nýtt, ég hef alltaf vakið athygli þegar við förum í sund – sérstaklega hérna í dk – vegna þess hversu óhræddur og duglegur. Samt er ég líka góður að því leyti að ég er ekki mikið fyrir það að hlaupa í burtu, sem mömmu finnst mjög gott mál því annars væri ég stórhættulegur.

Það verður gaman að koma heim til Íslands og fara í sund þar, þar er líka miklu heitara (og bragðbetra) vatn og svoleiðis.

Kveðja frá Köben
Hrafnkell Myrkvi

Verur og bakteríur

Þetta ár, allir tveir mánuðirnir sem eru (nánast) liðnir af því, er búið að vera mjög undarlegt. Það hefur einkennst af pestum og aumingjaskap, heimahangsi og leti. Maður er varla búinn að ná sér eftir eina pest þegar sú næsta herjar, alltaf þegar ég er ekki með pest þá er Hrafnkell veikur og núna er Doddi líka veikur. Milli pesta er maður almennt með einhverja kvefdrullu, sem er þá annað hvort leifar af seinustu pest eða byrjunin af þeirri næstu. Mér leiðist þetta.

Skólinn hefur líka verið undarlegur. Fyrst var janúarmánuður með bara 2 prófum og ekki meir, sem var reyndar ágætt því að þá gat maður þó verið svoldið veikur inn á milli. Reyndar þá var ég frekar mikið veik í seinna prófinu en jæja skítt með það, ég fékk samt 10. Svo kom febrúar og hann hefur nánast bara farið í það að finna sér fyrirtæki og bíða eftir fyrsta fundinum með kúnnanum. Svo þegar ég hef ekki verið veik þá hafa hópfélagar mínir (Kirsten og Michelle) verið veikar. Kirsten tók sig meira að segja til að fá lungnabólgu og henni er alltaf að slá niður, ég er reyndar að reyna að segja henni að druslast til að vera lengur í rúminu, hætta að hafa áhyggjur af þessu – við getum alveg reddað því sem þarf að gera án hennar, svo framarlega sem hún hætti bara að vera veik á endanum.

Mig er oft búið að langa á djammið en það hefur lítið orðið úr því, vegna þess að ég hef orðið veik, ég hef verið barnapíulaus og þeir sem ég hef ætlað að djamma með hafa orðið veikir. Ég held að allar veirur og bakteríur Danmerkur hljóti að vera á sterum eða eitthvað.

Það væri fínt að hætta þessu veikindabasli, þá gæti maður kannski haft það af að þrífa hérna almennilega, komist kannski heila viku í skólann osfr. Maður verður svo mikill aumingi þegar svona ástand varir lengi lengi. Við máttum svosem vita að það kæmi að þessu þar sem við höfum ekki verið oft veik undanfarið ár.

Fyrir þá sem vilja vita

Kaupmannahöfn til Reykjavík
Flug 1 fimmtudagur, 2. apríl 2009
Brottför: 19:45 Kaupmannahöfn, Danmörk – Copenhagen Flugvöllur, Terminal 3
Komust. 20:55 Reykjavík, Ísland – Keflavik International
Flugfélag: Icelandair FI213 Flugvél: 75W
Fargjald : Economy Class/Lægsta fargjald
Farangur: 20 kíló á farþega
Reykjavík til Kaupmannahöfn
Flug 1 sunnudagur, 19. apríl 2009
Brottför: 13:15 Reykjavík, Ísland – Keflavik International
Komust. 18:15 Kaupmannahöfn, Danmörk – Copenhagen Flugvöllur, Terminal 3
Flugfélag: Icelandair FI212 Flugvél: 75W
Fargjald : Economy Class/Lægsta fargjald
Farangur: 20 kíló á farþega

Smá annáll

Það er varla að ég muni hvað gerðist á árinu 2008 :-/

Við vorum heima á Íslandi um seinustu áramót, komum svo heim til Köben til þess að fara í próf. Mér gékk mjög vel í prófinu mínu, en það var engin einkunn gefin í það skiptið.  Svo eftir prófin keyrðum við uppeftir til Balestrand, Noregi, til að heimsækja Ödda og Birnu. Það gékk ekki betur en svo að við þurftum að gista 2 nætur hjá Helgu Maríu og Sverri í Geilo (sem er mjög kósí skíðabær) vegna leti Noregsmanna við mokstur (já eða amk þá voru öll fjöll stengt og ekkert hægt að komast). Þar af leiðandi tók ferðalagið alltof langan tíma og heimsóknin fékk of stuttan tíma, maður var varla kominn þegar kominn var tími til að fara til baka. Hrafnkell sannaði þá, enn og aftur, að hann er draumabarn þegar kemur að ferðalögum, rólegur og nægjusamur.

Þegar heim var komið þá tók bara við skólinn aftur. Við vorum öll heilsuhraust (ólíkt haustönninni þar á undan) en engu að síður var rútínan okkar ekki alveg nógu góð vegna alls konar fría og vesena. Það liðu margar vikur án þess að Hrafnkell væri heila viku í Vuggestuen.Við fjölguðum í fjölskyldunni og komum upp ferskvatnsfiskabúri.

Við höfum fengið margar heimsóknir á þessu ári, flestar þó rétt fyrir verkefnaskil hjá Dodda svo að fólk hefur meira verið að heimsækja mig og Hrafnkel. Mamma, pabbi og Ragna komu um páskana, fengu að upplifa Kaupmannahafnískan vetur og kulda. Í lok apríl komu svo tengdó að heimsækja okkur, svo kom Hrafnhildur í miðjum maí og upplifði geggjað sumarveður. Næst var Valdís á ferðinni, seinni partinn í júní, kom með þrumum og eldingum. Hulda og Lára (Öddadóttir) komu í heimsókn fyrri partinn í júlí, kíktu í Tívolí og fleira. Mánaðamótin september-október komu Hjödda og Bjössi aftur í heimsókn en í þetta skiptið komu þau líka með Margréti og Hrein með sér, en það eru amma og afi Dodda.

Við ætluðum að vera hérna í sumar og reyna að finna okkur vinnu en það gékk ekki mjög vel, enda erum við illa talandi útlendingar með stutt sumarfrí. Það fór svo þannig að Doddi rauk uppeftir til Ödda til að vinna sem smiður. Ég og Hrafnkell skældum okkur til Íslands, þar sem við vorum uppá náð og miskunn mömmu og pabba. Hrafnkell naut þess að umgangast ættmenni sín, bætti íslenskuna sína mikið og hafði það almennt mjög gott á meðan ég naut þess að geta (amk stundum) sofið aðeins meira frameftir en venjulega, ég naut þess líka að komast aðeins barnlaus og kalllaus til eyja með vinum mínum (það hefði samt verið alltílagi að vera með Dodda með sér) en annars gerði ég ekkert. Hrafnkell sannaði enn og aftur að hann er draumaferðafélagi, var rólegur þegar mamman fékk smá panikk yfir flugmiðanum á leiðinni til Íslands, var rólegur í flugvélinni þrátt fyrir mikið og langt ferðalag. Á ferðalögum er Hrafnkell nefnilega bæði rólegur og skemmtilegur (oftast amk) og það er allt sem maður getur beðið um hjá 2-3 ára gömlu barni.

Það var aftur brotist inní bílinn okkar, núna var meira skemmt heldur en stolið – en þetta er svosem hluti af því að búa í mjög rólegu hverfi í stórborg. Því miður var það ekki það eina sem var stolið, Doddi varð fyrir nokkrum vasaþjófum (einstaklega óheppinn á djamminu) og svo var hjólinu hans stolið. Einnig tókst Dodda að tína (eða láta stela af sér) peningaveskinu, sem betur fer var ekki mikill peningur í því en verra var að glata greiðslukortum ofl svoleiðis.

Ég fór til Berlínar í Október, með bekknum mínum. Það var mjög gaman, góð tilbreyting frá hinu daglega lífi. Já og Doddi fékk sér mús (sem er skaðræðiskvikindi). Já og Hrafnkell fluttist úr Vuggestue yfir í Börnehave í sumar, enda orðinn stór strákur.

Svo fórum við til Noregs til að halda jólin, þar sem að Hrafnkell sannaði það enn og aftur að hann er frábær á ferðalagi (haha ég get ekki sagt þetta of oft ;-) ).

Árið 2009 er óskipulagt að miklu leiti. Ég útskrifast í vor og þarf því að fara að ákveða hvað ég vil gera, mig langar til að læra meira – sérhæfa mig meira þar sem að þetta nám finnst mér vera of víðtækt og ekki nógu nákvæmt. Ég hef verið að skoða hvort og hvaða möguleika maður hefur á fjarnámi, en því miður eru þeir ekki fjölbreyttir – amk ef maður ætlar að læra á Íslandi. Ég vil frekar halda áfram að læra núna, halda áfram að læra, heldur en að stoppa og fara að vinna og eiga kannski erfiðara með að halda áfram að læra seinna. Þar fyrir utan er mikill samdráttur í atvinnulífinu hérna í Kaupmannahöfn alveg einsog á Íslandi, kannski ekki miklar draumavinnur í boði fyrir útlending einsog mig – sérstaklega þegar maður er að reyna að troða sér inní geira sem tilheyrir algerlega lúxus og munaði. Þá er kannski betra að vera í skóla á meðan heimskreppan jafnar sig aðeins. Ég verð líka að viðurkenna að þessa dagana þá þjáist ég af heimþrá, í fyrsta skiptið síðan við fluttum út langar mig mikið til að pakka saman og flytja heim. En ég vil samt ekki flytja heim í ekkert, enga vinnu, enga peninga, ekkert heimili – ég vil vinna lottó fyrst ;-)

Þreytt á hávaða og látum

Ég er orðin þreytt á hávaða og látum hérna. Mikið rosalega er ég samt stolt af mínum syni, þetta gæti verið móðurástin sem gerir mig blinda, mér finnst hann vera lang þægastur og taka tiltali lang best.

Ég velti því þó fyrir mér hvort að ég sé svona rosalega ströng mamma því að það er svo margt sem að viðgengst hérna sem myndi aldrei leifast á mínu heimili. Við Doddi erum, sem betur fer, alveg sammála um þetta – svo að við verðum sennilega hræðilega vondu foreldrarnir þegar/ef við eignumst fleiri unga. Við verðum með einhvern ofur heraga LOL ;-)

Maður sér samt alveg hvernig svona hegðun smitast út frá sér, því að við sjáum takta hjá Hrafnkel sem sjást almennt séð ekki. Takta sem við teljum að hann sé að apa eftir frændsystkinum sínum. Þetta er samt alveg synd því að þegar þau (Hrafnkell og Þórný frænka hans) taka sig til og leika fallega þá eru þau að leika rosalega fallega. En þess á milli *argh*

Ég er að verða nokkuð sátt við lúkkið á síðunni, búin að prufa nokkrar útgáfur, breyta og bæta. Er reyndar með hugmynd um eitt sem ég vil bæta við, en ég geri það þá ekki fyrr en við komum heim til Danmerkur.