Posts tagged: barnaland

Hrafnkell segir frá

Halló öll!hrafnkell_fastelavn

Mamma hefur ákveðið að hætta með barnalandssíðuna mína og ætlar í staðinn að hafa fréttir af mér hérna. Hún mun, hægt og rólega setja allar myndirnar af mér í albúmið mitt í gallerýinu svo að þær verða ennþá aðgengilegar – þar er líka hægt að skrifa komment. Ef ykkur vantar lykilorðið sendið mömmu minni bara email á eddaros@eddaros.com og spyrjið um það.

Það er margt búið að gerast, enda skrifaði mamma seinast í desember – sem er alveg á seinasta ári. Við komum heim, eftir langt ferðalag, í byrjun janúar. Það var bara alveg ágætt, eftir öll lætin um jólin, að komast í smá ró og næði hérna heima. Pabbi fór fljótlega aftur, hann þurfti að fara í vinnuna sína, langt upp í fjöllunum. Mér fannst nú eiginlega svolítið súrt að Þórný frænka mín fengi að hafa pabba minn hjá sér, einsog hún geti ekki bara notað sinn eiginn pabba.

Ég talaði oft við pabba í tölvunni hennar mömmu, þó það væri nú ekki alltaf eitthvað gáfulegt sem við töluðum um þá fífluðumst við svolítið saman.

Í janúar þá var ég ofsalega listarlítill, einsog seinni partinn í desember, mamma var eiginlega farin að hafa smá áhyggjur af þessu. En ég er farinn að borða aðeins meira núna, mamma ætlar svo að fara að vera duglegri að gefa mér fjölbreyttara nesti fyrst ég er farinn að vera duglegri að borða. Nefnilega þá var ég farinn að borða svo lítið að mamma var farin að gefa mér bara að borða það sem hún vissi að ég myndi borða. Ég er nefnilega svo grannur að það er ekkert gott fyrir mig að vera í einhverju aðhaldi.

Ég er líka búinn að vera óttarlegur lasarus. Ég var veikur í desember, í janúar var ég óttalega leiður og pirraður (og mamma hélt að það væri mest megnis vegna pabbaskorts) en svo í byrjun febrúar þá fékk ég heiftarlega eyrnabólgu. Daginn sem pabbi ætlaði að koma heim fór ég að kvarta undan verk í eyranu mínu. Það var svo vont að ég fór að gráta, mamma reyndi að laga það einsog hún gat og svo fór ég til læknis strax daginn eftir. Læknirinn sagði að ég væri með bakteríueyrnabólgu (bakteríu vegna þess að þetta var bara í einu eyra sagði hann) og ég fékk lyf. Mér fannst þetta lyf ekki sérstakt til að byrja með en í lokin fannst mér það svo gott að mér fannst hálf fúlt að klára það, vildi bara fá meira lyf. Svo í þessari viku þá fékk ég háan hita á þriðjudaginn og var samt orðinn fínn daginn eftir. Konurnar í leikskólanum segja samt að ég sé eitthvað slappur, svo að mamma sótti mig snemma í gær EN ég var samt bara hress og fínn þegar hún sótti mig svo að hún veit ekki alveg hvað þær voru að tala um.

Í dag er svo Fastelavn – það er reyndar ekki fyrr en á sunnudaginn en  við höldum uppá það í dag í leikskólanum. Þá fara allir í búningum í leikskólann og við sláum köttinn úr tunnunni, fáum fastalavnsboller  og fleira gott. Mamma heldur að þetta sé eiginlega bara bolludagur-sprengidagur-öskudagur í einni blöndu. Ég er galdrakall, með sítt hár, hatt og töfrasprota.

Ég tala mikið um Ísland, ég vil helst bara fara til Íslands sem fyrst. Kannski þarf ég bara að fá smá frí frá leikskólanum, veikindum ofl án þess þó að lenda í öllum skarkalanum og látunum sem voru í Noregi. Heima hjá ömmum mínum og öfum á Íslandi er svo rólegt, þar fæ ég líka alla athyglina einn (sem mér finnst ekkert hræðilegt sko). Í Hrísateignum er ég líka aðeins frjálsari en annars staðar. Þar er svo auðvelt að fara út í garð að leika sér þegar maður vill, þar er líka hægt að hjálpa afa að gera ýmislegt sem þarf að gera. Mig langar líka til að sjá litla barnið hennar Valdísar, sko litla strákinn sem hún er með í bambanum (svo til að koma í veg fyrir misskilning þá vitum við ekkert hvort þetta er strákur eða stelpa, nema að Hrafnkell VEIT að þetta er STRÁKUR ekki stelpa ;-) ). Mamma segir samt að það sé ekki hægt að gefa honum nammi fyrr en í fyrsta lagi eftir að hann kemur út úr mallakútnum hennar. Helst vildi ég bara að mamma fengi litla barn í mallakútinn sinn, en hún vill það ekki. Segir alltaf bara kannski seinna eða fer bara að tala um það hvað ég þarf að vera duglegur þegar ég hitti litla barnið hennar Valdísar. Það er sko margt sem ég vil gera þegar ég hitti hann, ég ætla að halda á honum, leika við hann, skipta um kúkableyjur (aha!) og hugga hann, finna mömmu hans fyrir hann og bara gera allt til að hann hafi það sem best. Ég verð nefnilega svo risalega stærri en hann. Mamma segir samt alltaf að þegar ég hitti litla barnið hennar Valdísar þá verði ég að passa mig rosalega vel og umfram allt að hlýða Valdísi.

En kveðjur í bili
Hrafnkell Myrkvi

Hvar á ég að byrja?

Ætli ég byrji ekki á sögunni af veskinu hans Dodda. Þannig var það að einhverntíman seinni partinn á seinasta ári þá týndi Doddi veskinu sínu, þaes það týndist eða því var stolið. Það komu þó, sem betur fer, engar skrítnar færslur á kortin hans og því var trassað og trassað að gera eitthvað í þessu. Hann var reyndar búinn að hafa samband við lögguna en þar var ekkert að finna, hvorki veski né hjól. Svo núna um daginn var maðurinn búinn að ákveða að það væri kominn tími til að pannta sér ný kort, nýtt ökuskýrteini, nýtt gult kort osfr. Eitthvað sem hefði kostað örugglega 15-20 þús (ísl) en var víst óhjákvæmilegt. En viti menn alltíeinu fékk hann veskið bara sent í pósti, frá löggunni, og í því var allt nema peningurinn sem hafði verið í því. Bara nokkuð gott :-)

Hrafnkell er orðinn býsna duglegur, enda heyrist “ég kann sjálfur” býsna oft (og ég veit aldrei hvort að hann er að segja að hann kunni (ísl) eða að hann geti (dan)) á dag, hann getur núna klætt sig í öll föt frá nærbuxum til útigalla algerlega sjálfur, með hneppum, tölum, rennilásum (ef þeir eru lokaðir að neðan, hann þarf hjálp að setja saman rennilás þó að hann geti alveg rennt upp sjálfur) og öllu. Og hvað varðar tölur þá kann hann bæði að hneppa þeim og losa þær, sem ég tel bara býsna gott miðað við að hann á nánast engin föt sem eru með tölum.
Hann er líka með Íslandsáráttu, talar mikið um það hvað hann ætlar að gera á Íslandi, með hverjum osfr. Hann vill mest hitta Bobbu ömmu, Steina afa og Magna Stein, ef maður spyr hann um Hjöddu ömmu og Bjössa afa þá er hann alveg til í að hitta þau EN þau eru sko búin að fá að hitta hann, sem er alveg rétt þannig lagað.
Hann er líka orðinn aðeins duglegri að borða, janúar var hræðilegur – barnið vildi ekkert borða nánast, en maður þarf að halda honum við efnið. Í gær borðaði hann td heila skál af graut bara fyrir allt fólkið sem honum þykir vænt um svo að ef þér finnst að þú hafir kannski fengið 1-2 skeiðar af graut í gær þá kemur það frá Hrafnkeli Myrkva ;-)
Hrafnkell er líka með lítill börn á heilanum, hann vill endilega að við fáum okkur eitt stk litla barn. (Valdís fær marga plússa í hans huga fyrir það að vera svona dugleg að hafa litla barn í mallanum á sér, honum finnst þetta mjög gott framtak hjá henni). Hann kom meira að segja til mín um daginn, þar sem ég sat á klósettinu og gerði mitt, með báðar hendur útréttar einsog hann héldi á einhverju alveg ofurviðkvæmu (en það var ekkert) og sagði “sjáðu mamma” rétti fram hendurnar svo ég gæti séð betur “hérna er litla barn sem þú getur sett í bambann þinn”. Hvað segir maður við svona?
Annars er ég að spá í að flytja Hrafnkel hingað á síðuna mína, færa albúmið hans í gallerýið mitt. Viðmótið á barnalandi er bara svo leiðinlegt, ég nenni varla að setja inn myndir og skrifa þangað. Hérna væri líka hægt að skrifa athugasemdir við myndirnar, sem gæti alveg verið gaman.

Hvað varðar mig þá erum við, hópurinn minn, búin að fara á nokkra fundi með fyrirtækjum og núna höfum við eiginlega ekkert að gera nema að bíða. Eitt fyrirtækið ætlaði að svara í morgun en það er ekki ennþá komið svar, ég er farin að hallast að því að það sé ekki gott merki :-( Annað fyrirtæki ætlar að láta okkur vita á föstudaginn (sem er víst á morgun hehe) og enn eitt ætlar bara að láta vita næstu daga. Ég veit að þetta er ósköp eðlilegt ferli en mikið rosalega finnst mér þetta óþægilegt. Ég vil bara fá verkefni og geta byrjað að skipuleggja, græja og gera.

Well best að halda áfram að bíða…

The Folklore of Discworld

Jæja þá er ég búin að hespa af bók nr 2 í jólabókaflóðinu. Þessi bók er æðisleg í alla staði (nema einn og ég minnist á það á eftir), hún fékk mig til að velta því verulega fyrir mér, af hverju í andskotanum ég fór ekki í þjóðsagnafræði – en svo mundi ég að það væri örugglega eitthvað náskilt sagnfræði og ég var búin að skoða þá skor í HÍ og mikið rosalega virkaði það sem leiðinleg braut.

En já ég elska Discworld og ég elska þjóðsögur, það kom mér á óvart hversu mikið af þessu ég vissi þegar – en ég hef svosem verið kölluð brunnur ónauðsynlegrar vitneskju ;-) Eftir lesturinn þá væri ég alveg til í að lesa meira eftir Jacqueline Simpson, hún virðist alveg vita sínu viti.

En já það sem böggaði mig voru tilvitnanir í Íslenska þjóðtrú. Í hvert skipti (og þau voru nokkur) sem að ég las orðið Iceland þá tók ég betur eftir, þjóðarstoltið alveg að drepa mig, en shit í nánast hvert einasta skipti þá var farið rangt með “staðreyndir”. Þetta er reyndar svo slæmt að ég hef verið að velta því fyrir mér hvort að ég ætti að senda kallinum email (hehe og vonast til að það kæmist í alvörunni til hans) og benda honum á hitt og þetta í sambandið við jólasveinana, grýlu ofl. Reyndar þegar maður skoðar bókallistann aftast þá sér maður að það er ekki vitnað í neinar íslenskar heimildir.

En samt æðisleg bók að flestu leyti.

ps. Ég lofaði Valdísi að setja myndir af Hrafnkel inná barnalandssíðuna hans en þar sem að barnaland virðist vera að klúðra færslu á gagnagrunninum (frá dk til ísl) þá bara veit ég ekki hvenær ég get sett inn myndir. Ef það verður ekki fyrir þriðjudag þá verður það ekki fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudag því að þriðjudag og miðvikudag verð ég að einbeita mér að læra fyrir hitt prófið mitt.