Posts tagged: Amira

Alltaf yndislegt að búa í útlöndum

Um daginn var yndislegt veður, einsog flesta aðra daga hérna síðan við komum heim frá Íslandi. Hrafnkell hafði sjálfur orð á því, stuttu eftir að við komum heim aftur, að allt væri svo breytt núna væru trén vöknum og búin að búa sér til laufblöð og svo væru komin blóm í öllum litum. Hann var mjög glaður með þetta allt þrátt fyrir að vera alveg tilbúinn að fara aftur til Íslands – núna er hann farinn að plana að taka Amiru og mömmu hennar með sér til Íslands, því að þær hafa aldrei áður farið til Íslands, en það er allt önnur saga.

Um daginn var yndislegt veður, flestir íbúar Solbakken (amk flestir íslendingarnir) voru úti í garði með börnin sín. Foreldrarnir lágu í hálfgerðu hitamóki og börnin léku sér. Eftir 1-2 tíma af hita, sól og íslendingaslúðir nennti ég ekki að hanga þarna lengur í aðgerðarleysi svo að ég fékk son minn til að koma með mér á halakörtuveiðar. 

Við fórum í sokka og skó og lögðum svo af stað. Þegar við vorum komin að götunni sem liggur inn í kirkjugarðinn, að legsteinabúðinni, sáum við 2 unga menn við bíl, sem var lagt hinum megin við götuna. Þeir voru eitthvað undarlegir, frekar skuggalegir að mínu mati, svo að ég reyndi að sjá hvað þeir væru að gera (vitanlega reyndi ég samt að láta ekki bera mikið á þessari forvitni minni). Ég sá síðan greinilega hvernig þeir voru að græja sér sprautu… Ég fór þá að labba hraðar, mun hraðar, og nánast dró vesalings barnið inn í garðinn.

Inn í kirkjugarðinum fundum við einn poll sem iðaði af halakörtum svo að veiðarnar gengu frekar hratt fyrir sig. Svo héldum við heim með körturnar til að koma þeim fyrir í betri dollu. Á leiðinni heim sá ég svo hvar gaurarnir tveir voru búnir að koma sér fyrir á bekk, sem er í beint fyrir framan legsteinabúðina, og voru þar að græja sé vatnspípu. Ég veit svosem alveg að sumir reykja venjulegt tóbak í vatnspípum, ég veit líka að flestir reykja eitthvað annað í þeim. Ég var því fljót að ákveða að fara aðra leið (sem lá ekki framhjá þeim) til að komast heim. 

Ég á rosalega erfitt með að ímynda mér að ég yrði vitni af svona hátterni heima á klakanum. Amk ekki ca 50 metra frá leikvelli fullum af börnum og foreldrum. Amk ekki fyrir utan höfuðborgina… held ég.

Komin heim

Við erum komin heim til Kaupmannahafnar. Flugvélin var ekki lent þegar Hrafnkell fór að tala um að hann vildi endilega fara aftur í heimsókn til ömmu og afa, brúnin lyftist þó eilítið þegar við fórum að tala um allt sem hann gæti sagt Amiru, og hinum krökkunum í börnehaven, frá því sem hann hafði gert í páskafríinu. En svo kom babb í bátinn, hann fattaði að Amira talar ekki íslensku og hann kann ekki að segja frá öllu á dönsku, hvernig segir maður td sundlaug, heitur pottur og páskaegg? Þetta olli smá áhyggjum en við komumst örugglega yfir það.

En já við komum til Hveragerðis á föstudagskvöld, fengum gistingu hjá Frosta og Sonju. Þar var auðvitað gott að vera, einsog allstaðar annarsstaðar sem við höfum verið um páskana. Gylfi, Hrafnkell og Kristín voru strax góð að leika sér öll saman þrátt fyrir mikinn aldursmun (8 ára, 3,5 ára og 9 mánaða). Þarna var Hrafnkell líka búinn að finna “litla barn” sem var bæði lítið og vitlaust og skemmtilegt! Ekki alveg jafn leiðinlegt, og grenjar ekki jafn hátt. Hann komst reyndar að því fljótlega að hún var ekki gallalaus, heldur var hún bæði of lítil og vitlaus til að vita að maður má ekki meiða aðra og svo varð maður alltíeinu að passa upp á að hún væri ekki að éta dótið mans. En heilt yfir þá náðu þau þrjú vel saman.

Við áttum svo bæði góða stundir með Frosta og Sonju og svo aftur góðar verslunarstundir með Hrafnhildi í gær.

En svo í dag þá skiluðum við bílnum, fórum út á völl, flugum heim, borðuðum kvöldmat, svæfðum barnið og erum núna bara að slappa af. Það var notalegra en ég hélt (miðað við “Íslandsheimþránna” sem hefur hrjáð mig undanfarna daga) að koma hingað heim. Engu að síður nenni ég engan vegin að takast á við skólann og að koma sér aftur inn í venjulega rútínu  *dæs* en þetta hefst einhverntíman. Ég hugsa að morgundagurinn verði erfiðastur og svo jafni sig flest all.

Ég er alveg að koma til Íslands!

Það er nú aldreilis farið að styttast í að ég komi til Íslands, ég er farinn að hlakka mikið til. Mamma hefur bara smá áhyggjur af því að ég eigi aftir að sakna Amiru, hún er nefnilega langbesta vinkona mín í leikskólanum. Ég elska hana svo mikið að ég sakna hennar þegar ég er heima, ég vildi óska að ég mætti bara taka hana með heim. Ég sagði meira að segja við mömmu og pabba að ég ætlaði bara að skilja þau eftir hérna og taka Amiru með mér í staðinn til Íslands :-)

Ég er búin að læra svoldið nýtt, mamma er svo glöð, ég er nefnilega búinn að læra að það sé stundum gott að kúra pínu í lúllinu á morgnanna. Mömmu og pabba finnst nefnilega rosalega gott að kúra svoldið og ég vakna alltaf svo snemma þessa dagana að stundum fæ ég að skríða upp í millið og bíða þar eftir því að það komi dagur (vekjaraklukkan hringi). Meðan ég býð þá tölum við mamma oftast saman um eitthvað sniðugt, pabbi heldur samt yfirleitt bara áfram að sofa.

Ég er líka farinn að telja upp að 13, amk þegar ég man eftir því að halda áfram eftir 10.

Um daginn þá kom vinkona hennar mömmu, hún Dísa, aðeins í heimsókn til okkar. Hún fékk að sofa á sófanum okkar og svo lékum við okkur aðeins. Hún gaf mér lítið páskaegg og harðfisk og flögur. Hún er sko líka vinkona mín núna – ég lofaði að ég kæmi að heimsækja hana þegar ég kæmi til Íslands.

Heyrumst seinna
Hrafnkell Íslandsfari