Posts tagged: afmæli

Afmæli í uppsiglingu

Hér á heimilinu er ungur maður sem þykist ætla að eiga afmæli bráðum, eða eftir ca. 1,5 viku. Ég er reyndar ekkert búin að plana, ætla sennilega að hafa þetta bara einsog í fyrra þar sem ég bauð helstu jafnöldrum, af sama þjóðerni, úr húsinu. Ég meika ekki að fylla íbúðina af krökkum sem ég skil ekki almennilega ;-)

En já það sem er mest inn hjá honum í dag eru auðvitað Barbie og félagar, lego (hann er að átta sig á töfrunum við að eiga eitthvað sem að hann getur rifið í sundur og byggt aftur (eftir leiðbeiningunum auðvitað, hann er meyja) og aftur og aftur) og playmo. Hann segir að playmo sé flottara en lego skemmtilegra.
Hann hefur ekki áhuga á bílum, það heyrir til algerra undantekninga að hann vilji leika sér með svoleiðis. Allt Ben10, gormiti, bakugan og svoleiðis drasl er líka flott, en hann leikur sér ekkert rosalega með það. En það eru til dæmis til Ben10 kubbakallar, sem eru svolítið í stíl við Bionicle, sem að myndu örugglega falla í kramið.

Hann er farinn að passa í föt nr 110.

Ef einhver vill þá get ég alveg farið og keypt pakka til hans frá ykkur (þaes ef þú, lesandi góður, finnur ástæðu til að gefa barninu afmælisgjöf) en þá vil ég helst fá einhver fyrirmæli (td. farðu í hm og keyptu buxur á hann fyrir X mikinn pening eða kauptu lego fyrir hann fyrir x mikinn pening eða eitthvað í þá áttina). Þannig er hægt að spara sér töluverðan pening í póstburðargjöld. Það er helvíti súrt þegar sendingarkosnaðurinn er orðinn hærri en andvirði pakkans, í staðinn væri td. hægt að senda bara kort sem ég myndi setja á pakkann….

Ef einhverjum langar til að gefa honum pening þá er MIKLU gáfulegra að viðkomandi fái bara reikningsnúmerið hans Hrafnkels hjá mér og leggi inn á hann. Ef Hrafnkell fær einhvern pening þá heimtar hann bara að eyða honum í eitthvað barbiedrasl, hann hefur líka engan sans fyrir verðmætum og það endar bara með þrefi um það hvort að hann hafi efni á þessu eða hinu.

Haha shit hvað þetta hljómar einsog betl… en ætli þetta sé það ekki, maður verður jú bara einu sinni 5 ára!

Orðin 27 og alveg að koma nýtt ár

26 ára afmælisdagurinn minn var ekki skemmtilegur. Mest allur dagurinn fór í sjálfsvorkun yfir því að vera föst í einhverjum útnára án vina og fjölskyldu svo hjálpaði ekki til að kvöldmaturinn voru pylsur og eitthvað álíka rusl. Ég var sár og leið því að þó að 26 ára sé ekki merkilegt afmæli þá ætti afmælisdagurinn manns alltaf að vera sérstakur að einhverju leiti. 26 ára afmælisdagurinn minn var bara sérstaklega leiðinlegur.

27 ára afmælisdagurinn minn var rólegur en góður. Hrafnkell kom upp í til okkar Rögnu og horfði á teiknimyndir, heimtaði svo að ég bakaði köku þegar hann fattaði að það væri afmælið mitt. Ég sofnaði aftur og dreymdi langan og ruglingslegan draum þar sem að aðalatriðið var að Ragnar afi sagði að Hrafnkell yrði yfir 100 ára gamall. Svo fór mestur dagurinn í leti, ég fór í sturtu og dúllaði mér við að gera mig pínu fína meðan mamma og pabbi elduðu dýrindis lambahrygg, meðlæti og svo súkkulaðimús fyrir eftirmatinn. Ég fékk 2 pakka, annarsvegar dagbók frá Hrafnhildi og hinsvegar peysu frá mömmu og pabba. Ég eyddi smá hluta af deginum í að hugsa hvað það væri gaman ef maður hefði einhverja vini hjá sér til að djamma mér en ákvað svo að ég myndi bara djamma með þeim seinna.

Árið 2009 hefur verið skrítið. Það byrjaði með því að ég fór í 2 próf og fékk góðar einkunnir, svo tók við 4. og seinasta önnin í KTS. Sú önn var eiginlega ekkert nema vesen og leiðindi, samstarfið í hópnum mínum gékk ekki mjög vel (ég og önnur stelpa áttum ekki vel saman) og einnig var fyrirtækið sem við unnum með alveg hrikalega erfitt í samstarfi.

Við fórum til Íslands um páskana, sú ferð átti sína kosti og galla. Valdís og Tryggvi eignuðust “lítinn” strák, ég átti góðar stundir með vinum og fjölskyldu – en það voru líka neikvæð atriði (sem ég ætla ekkert að velta mér uppúr hérna).

Um sumarið útskrifaðist ég og það hefði sko getað verið frábær tími í mínu lífi ef að Doddi hefði ekki verið farinn til Noregs til að vinna svo að ég var ein og yfirgefin með Hrafnkel og hafði ekki tækifæri til að taka þátt í félagslífinu að neinni alvöru. Til þess að geta tekið þátt í sjálfri útskriftinni þurfti ég að standa í hellingsveseni við að koma Hrafnkeli í pössun – en það hafðist allt. Ég útskrifaðist og stuttu seinna fórum við Hrafnkell til Íslands. Á Íslandi áttum við góðan tíma í góðu veðri og með góðu fólki, við gerðum margt en þó var margt fleira sem við hefðum viljað gera.

Í haust var svo mikil óvissa þar sem að ég komst ekki strax inn í skólann minn, ég fékk ekki endanlegt svar um inngöngu fyrr en daginn sem skólinn byrjaði. Það var mikill léttir að komast inn í skólann, þar sem að það er meira en að segja það að fá vinnu einhverstaðar í danmörku þessa dagana. Gallinn við skólann er þó hvað hann er langt í burtu.

Skólinn gékk bara nokkuð vel framan af þrátt fyrir að námsefnið væri þurrt og já eiginlega frekar leiðinlegt. En síðan hefur bæði lífið og skólinn verið mjög erfitt síðan í miðjum nóvember. Þórður ákvað að fara frá mér og ég komst að því að ég er (mjög líklega) með pcos. Tíminn hefur farið í að halda haus, komast fram úr rúminu á morgnanna og rembast við að einbeita sér að skólanum til þess að eiga möguleika á að fá að taka próf í janúar. Ég er ennþá sár, reið og varla búin að átta mig á þessu. Það var þó ekki fyrr en mamma, pabba og Ragna voru komin til okkar og ég var búin að skila inn verkefninu sem að raunveruleikinn helltist yfir mig aftur. Jólin voru góð, einsgóð og þau gátu verið miðað við kringumstæður – en þau voru samt pínu erfið.

Þannig að í minningunni þá var árið 2009 bæði gott og vont, vondu punktarnir skyggja þó á góðu punktana. Mér finnst pínu einsog allt sem gat farið til fjandans hafi farið til fjandans.

Það tímabil sem tekur við núna verður örugglega erfitt en gefandi. Ég er sannfærð um að ég mun enda með meira en ég byrja með, ég er sannfærð um að ég mun vera hamingjusamari að ári en ég er núna. Ég er sannfærð um að árið 2010 verður mér betra en 2009. En fyrst þarf ég að komast í gegnum prófin og einnig að fá Þórð til að gera upp öll okkar mál, því fyrr sem við gerum þau upp því fyrr getum við haldið áfram með lífið. Þó að mér þyki vænt um hann, þó að ég óski honum alls hins besta í lífinu og þó að ég hafi einhverjar vonir um að við getum verið vinir í framtíðinni þá held ég að það væri best fyrir alla að koma öllum málum á hreint.

Í mínum huga er árið 2010 ár uppbyggingar og sjálfsþekkingar. Núna er tíminn til að kynnast sjálfum sér aftur og verða sterkari einstaklingur fyrir vikið.

Jólin jólin allsstaðar….

Það er langt liðið á haustið, næstum farið að koma frost (var  bara 2,5°c í morgun birrrr) og jólapælingar farnar að láta bera á sér. Seinustu jól vorum við í Noregi og þar af leiðandi leitar hugurinn heim til Íslands – í mínum huga eru jól á Íslandi það besta í heimi. Að geta verið með fjölskyldunni sinni og vinum, slappað af og étið ógrynnin öll af góðgæti, drukkið malt (og jafnvel styrkt það aðeins með appelsíni) já eða jafnvel jólaöl, spila spil og svo auðvitað að eiga gott afmæli.

Því miður virðist frekar ólíklegt (mjög ólíklegt) að mér verði að ósk minni að komast til Íslands um jólin. Ég var náttúrulega þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fara til Íslands í sumar, Doddi fór til Króatíu í haust – sem var ekkert ókeypis þó það hafi svosem ekki verið dýr utanlandsferð þannig lagað, íslensku lánin okkar hækka (og það munar um hverja krónu), gengið lækkar (sem þýðir dýrari dkk fyrir okkur) og verðlagið hér (matur, leiga, föt) hækkar. Þar að auki virðist útilokað núna að Doddi nái að vinna eitthvað í janúar, og það er pottþétt útilokað að ég gæti gert það þar sem að ég er í 3 prófum sem verður vandlega dreift yfir allan janúarmánuð. Þar af leiðandi getum við ekki leift okkur að kaupa núna miða til Íslands sem gerir það að verkum að þegar nær dregur og við sjáum betur hvernig peningamál standa að þá verður flugfarið hvort eð er orðið ógeðslega dýrt.

Og þá spyr maður sig, hvað getur maður gert í staðinn? Við Doddi teljumst örugglega sem stórskrítið fólk en við höfum voðalega lítinn áhuga á því að stofna okkar eigin einkajól – bara við 3 saman. Okkur langar til að eyða jólunum með öðru skemmtilegu fólki. Langar ekki bara einhverjum til að koma til Köben um jólin? Eða einhverjar aðrar góðar hugmyndir?

Anyway svona eru jólapælingarnar á þessum bæ, hvaða jólapælingar hafið þið?

Nokkrar afmælismyndir

Svalur í gallanum frá Hjöddu ömmu og Bjössa afa

Svalur í gallanum frá Hjöddu ömmu og Bjössa afa

Töffari

Töffari

Og það er hægt að hreyfa sig í honum

Og það er hægt að hreyfa sig í honum

Svona gerðum við herbergið

Svona gerðum við herbergið

Að borða

Að borða

að leika okkur

að leika okkur

að horfa á teiknimynd

að horfa á teiknimynd

www.eddaros.com

Loksins kom að því að ég festi mér urlið mitt. Núna þarf bara að hanna, græja og gera ;-)

Þetta blog er nú að stórum hluta bara til að setja eitthvað, þar sem að mig vantar fleiri færslur til að sjá hvernig þetta lítur allt út. Ég hef svosem smá reynslu af því að fikta í wordpress eftir seinasta verkefni í skólanum.

WordPress er reyndar komið með nýja útgáfu og lítur auðvitað allt öðruvísi út (stjórnborðið) heldur en það gerði áður, svo að ég er að læra á nýtt lúkk. Þetta er samt nokkurnvegin sama stöffið, en mikil útlitbreyting.

Auðvitað lenti ég í smá installation vandræðum, veit ekki alveg hvað var málið en amk þá náði ég að laga það…. einhvernvegin….

Annars langaði mig bara til að segja, til hamingju ég með að eiga afmæli og vera orðin ennþá eldri ;-)