Posts tagged: Þórður

Gott og vont

Lífið heldur áfram, skólinn er byrjaður aftur og það heldur bara áfram að vera snjór og kallt. Það er margt til að vera spenntur yfir, ég hlakka til að fara til Íslands um páskana, ég fékk borgaðar aukabarnabæturnar þó að Þórður hafi gengi seint frá sínum málum, ég er spennt yfir því að græja íbúðina eftir mínu höfði, mér er boðið í partý eftir rúma viku osfr. Það er margt gott í gangi núna.

En svo á móti kemur leiðinlega stöffið. Það virðist engum hafa dottið í hug að fólk gæti verið skráð saman í sambúð á Íslandi, flutt út og síðan hætt saman erlendis – þannig að því fylgir leiðindar skriffinska – sem ég er að vinna mig hægt í gegnum. Lín virðist ætla að taka heila eilífð í að vinna úr láninu mínu og var ekki búið að borga út seinast þegar ég athugaði (í gær) og á meðan styrkist íslenska krónan og styrkist og ég gæti þess vegna endað í mínus. Og þar af leiðandi get ég hvorki borgað mömmu og pabba fyrir flugið heim né keypt nýja tölvu – og svo er tölvan sem ég ætlaði að kaupa orðin uppseld að mér sýnist (var nóg til af henni fyrir hálfum mánuði) og ég nenni ekki að leggjast aftur í rannsóknarvinnu og reyna að finna aðra góða (fyrir þolanlegt verð). Einnig lennti Þórður í einhverju íbúðarsvindli og tapaði fullt af peningum og stendur uppi með enga íbúð – sem er bæði leiðinlegt fyrir hann og ef ég horfi á málið á einstaklega sjálfselskan hátt (sem reyndar skiptir ekki öllu máli, mér finnst þetta líka ömurlegt hans vegna) þá hefur það þau áhrif að hugsanlega á hann erfiðara með að taka Hrafnkel (einsog td. þegar partýið er í næstu viku) en er ég þó búin að bjóða honum að vera hérna með strákinn því að ég á góða vini sem ég get fengið að vera hjá á meðan, og einnig að þá er örugglega lengra í að hann geti tekið draslið sitt og satt best að segja þá get ég ekki beðið eftir því þegar hann loksins tekur þetta.

Þar fyrir utan er ég að prjóna lopapeysu, sem ég vona að stækki í þvotti því að þrátt fyrir prjónfestuprufur og alles þá virðist hún vera frekar lítil – en hún verður gjöðveikt flott.

Hlutirnir farnir að skýrast meira

Við Þórður teljum okkur vera nokkurnvegin búin að skipta draslinu okkar upp, næsta skref verða svo bílarnir og skuldir. En ég semsagt losaði mig við meira af dótinu í stofunni – það sem að verður eftir verður tölvuborðið mitt (sem er reyndar í svefnherberginu einsogstendur), tölvustóllinn, lítill billy skápur og svo eitthvað dót sem Hrafnkell á… Frekar tómlegt kannski hehe.

Þannig að ég þarf að finna einhverja sófalausn og svo vantar mig góða hugmynd fyrir það hvað ég á að gera við bækurnar mínar, ekki það að núna verður nóg af skápaplássi sko en ég vil hafa bækur uppi við – nenni ekki að þurfa að gramsa inni í skáp til að sjá hvaða bækur ég á. Ég er að spá í að kíkja á einn loppemarked um helgina, aðalega til að skoða (draslið hans Dodda er náttúrulega ennþá hérna) og sjá svona hvort að það sé eitthvað sniðugt þarna.

Einnig hef ég mjög verið að velta  grjónapoka hugmyndinni hennar Valdísar fyrir mér, er alveg sannfærð um að það gæti verið mjög kósý ef að það sé vel gert og vel úthugsað. Það er bara svo erfitt að úthugsa þetta þegar maður hefur ekki fyllinguna og ég tími ekki að kaupa fyllingu fyrr en ég er alveg viss um það hvað ég er að gera. Ég er að hugsa um að græja grjónasófa en ég veit ekki hvort að ég ætti að gera stóran kodda (einsog fatboy) er og setja það svo þannig upp við vegginn að það sé nokkurnskonar sófi, eða hvort að maður ætti að gera kassa (semsagt kodda sem er með hliðar) og reyna að leggja það svo að það sé sófi, eða hvort að maður eigi að sníða áklæðið í L og þá hvort að bak og seta eigi að vera eitt stykki eða 2 stykki – eða hvort að þetta sé bara glötuð hugmynd yfirleitt.

Annars var ég að ræða við son minn um daginn og ég sagði honum að pabbi hans ætlaði að taka sófann okkar þegar hann kæmi aftur til Danmerkur og strákurinn var alveg sáttur við það, sá ekkert vandamál. Svo sagði ég honum að pabbi hans ætlaði að taka sjónvarpið og þá var HM ekki jafn sáttur, hann missti reyndar ekki stjórn á skapi sínu en hann reyndi eftir fremsta megni að benda mér á það að við þyrftum að eiga sjónvarp og að pabbi hans gæti bara fundið eitthvað annað sjónvarp því að við þyrftum að nota okkar sjónvarp. Honum leist ekkert á þá hugmynd mína að eiga ekkert sjónvarp – en reyndar er það kannski þetta ástfóstur hans við sjónvarpið sem veldur því að ég vildi alls ekki fá sjónvarpið og er mjög sátt við að Doddi taki það.

Annars er ég bara núna að dunda mér við að fara í gegnum allt draslið okkar, skipta í mitt – hans – Hrafnkell (sumt dót sem hann fær seinna bara einsog myndir af okkur Dodda saman osfr) og síðan óákveðið. Þar af leiðandi er heimilið í smá upplausn, pokar og drasl alls staðar en þetta verður þess virði þegar uppi er staðið. Ég vil nefnilega helst að þegar þar að kemur (sem er vonandi frekar fyrr en seinna – þó að ég átti mig alveg á því að Þórður verður að hafa einhvern stað til að setja draslið sitt á áður en hann tekur það) geti hann bara komið með fluttningaliðið sitt og gengið að öllu vísu. Já og einnig hef ég verið að dunda mér við að reyna að ákveða hvað ég ætla að kaupa mér þegar lín kemur, fyrst og fremst ætla ég að fá mér nýja og ábyrga tölvu (voða fín asus tölva sem ég hef í huga) og svo ætla ég að splæsa í nýja og meðfærilegri myndavél (og svo ætla ég líka að kaupa mér ný nærföt og…. og… og….)

Og svo það sem “mestu” máli skiptir er að þegar Doddi verður loksins kominn með húsnæði og það verða loksins komnar pabbahelgar þá ætla ég að halda feitt partý hérna ;-) og ég get varla beðið eftir að það komist einhverjar dagsetningar á pabbahelgarnar svo að ég geti byrjað að skipuleggja það ;-)

*geisp*

Ég er búin að koma mér í smá vítahring. Ég vakna ógeðslega þreytt og úldin á morgnanna, kem syni mínum í leikskólann og svo annað hvort hef ég lagt mig en oftar (því að ég er svo þrjósk að ég vil ekki leggja mig á daginn) þá kem ég mér fyrir og horfi á eitthvað og jafnvel prjóna með (því að þá er þetta ekki alger leti sko). Svo líður dagurinn og mest lítið gerist (þarf svo mikið að prjóna sjáiði til), svo sæki ég Hrafnkel – er svona þokkaleg mamma þar til að hann þarf að fara að sofa, rembist við að sofna ekki við lesturinn og fer svo fram. Það sem gerist síðan frá 8-11 er að ég hressist við, verð full af orku og framkvæmdagleði. En þó, af tillitssemi við nágrannana, hef ég hemil á mér og fer yfirleitt í mesta lagi í smávægilegar framkvæmdir (einsog að vaska upp eða ganga frá einhverju) og svo fer ég í rúmið. Þegar þangað er komið er ég glaðvakandi og hress, svo að ég fer að lesa. Svo les ég og les og les þar til að ég hef ekki samvisku til að lesa meira, þá legg ég frá mér bókina og fer að hugsa. Eftir einhvern pirring yfir öllu þessu hugsi sofna ég svo allt of seint.

Í morgun kom það svo fyrir að við sváfum yfir okkur. Barnið svaf og ég virðist hafa bara slökkt á vekjaranum, þó ég muni svosem ekki eftir framkvæmdinni. Ég rumskaði þó kl 20 mín í 10 og fékk vægt taugaáfall – það er nefnilega mælst til þess að börn séu komin fyrir klukkan 9 á leikskólann. Úps… Þannig að ég rauk á fætur, dró barnið á fætur – klæddi það úr og í og rauk svo inn í eldhús til að græja nesti meðan barnið skreið undir mömmu sæng og sagði “ég er þreyttur, ég vil sofa meira, það er ekki kominn dagur”
Eftir smá þref tókst mér að sannfæra hann um að fara á fætur, það væri víst kominn dagur og allir væru farnir að sakna hans í leikskólanum – það sem setti punktinn yfir i-ið var loforð um kökusneið í morgunmat :-s En engu að síður tókst mér að græja hann (og mig svona nokkurnvegin) og koma honum út og í leikskólann á ca 30 mín, sem er að mínu mati nokkuð gott þar sem að samstarfviljinn hjá honum var ekki alveg með besta móti.

Svo fór ég í ikea og tiger og í linskuskoðun og svo fór ég heim til að ég myndi kannski hugsanlega hætta að eyða peningum. Þegar heim var komið þá fór ég í gegnum prjónadótið mitt og saumadótið mitt og endurraðaði svolítið og gekk svo frá hinu og þessu. Náði svo í Hrafnkel og við leiruðum og lituðum og horfðum svo (já eða hann horfði) á youtube  á meðan ég eldaði mat.

Núna verð ég bara að segja að ég er úrvinda svo að ég ætla að leyfa mér að horfa bara á eitthvað sniðugt, prjóna og jafnvel fá mér 1/2 rauðvínsglas (sem ég keypti í ikea)…

En að öðru… Núna erum við Þórður loksins farin að ræða eitthvað skiptingu á draslinu okkar, það eru reyndar bara nokkrir hlutir sem við erum nokkurnvegin búin að ákveða, ég mun fá rúmið, tölvuskjáinn (af borðtölvunni), góðu tölvuhátalarana og prentarann – en hann mun fá sjónvarpið (og meððí), stóru myndina í stofunni og sófasettið. Og það vekur upp spurninguna, hvað í ósköpunum á ég að gera við stofuna þegar bæði sófasettið og sjónvarpið verður horfið (núna er ég alls ekki að segja að ég vilji fá þessa hluti, er alveg viss um að þeir munu veita Þórði meiri ánægju en mér)? Ég er amk ekki alveg á því að fara að kaupa mér sófasett, amk ekki nýtt – spurning hvort að maður kíki á einhverja flóamarkaði eða eitthvað – en maður verður að geta boðið fólki uppá að setjast niður er það ekki? Svona ef ég geri ráð fyrir því að fá einhverja í heimsókn. Kannski maður saumi bara fullt af púðum og svo þegar fólk kemur þá segir maður bara “gjörðu svo vel, veldu þér púða og komdu þér vel fyrir á góflinu” hehe. Mig langar reyndar líka til að geta einhvernvegin boðið fólki uppá gistingu, en því væri hægt að redda með því að kaupa bedda í ikea eða vindsæng eða eitthvað.

En anyway það verður spennandi að sjá hvernig stofan verður þegar Þórður verður búinn að taka sitt – endar kannski bara þannig að Hrafnkell fái geggjað stórt leikherbergi ;-)

hvað á maður að segja eiginlega?

Nokkrum sinnum hefur mér dottið í hug að skrifa eitthvað hérna en ég hef alltaf hætt við. Síðan mamma, pabbi og Ragna fóru hefur líf mitt að mestu snúist um að læra fyrir próf og reyna svo að sjá hvernig ég sný í lífinu. Enn sem komið er hef ég voðalega lítið til að tala um annað en skólann (og ekki mikið áhugavert að gerast þar núna), Hrafnkel (sem er auðvitað alltaf jafn frábær) og skilnaðinn við Þórð. Satt best að segja langar mig meira til að skrifa um eitthvað annað – maður á víst ekki að segja hvað sem er á netinu og þar fyrir utan veit ég vel að fyrrverandi tengdamóðir mín les hérna reglulega og sumt á hún ekki að þurfa að lesa hérna.

Málið er að hingað til hafa samskiptin á milli mín og Dodda ekki verið einsog best hefði á kosið. Þau hafa ekkert verið hræðileg, hefðu alveg pottþétt getað verið verri, en engu að síður hafa verið fleiri misfellur en ég hefði viljað. Ég ætla ekki að fara út í nein smáatriði hérna.

Prófin hafa hingað til gengið vel, eitt próf eftir en ég efast um að það verði til vandræða – þó að ég átti mig ekki alveg á því hvernig er hægt að prófa úr nánast engu efni. En það kemur bara í ljós.

Hrafnkell hefur það líka mjög gott. Hann er duglegur að stækka og lita þessa dagana – gerir nánast ekkert annað en að lita alla daga, amk hérna heima við. Svo á milli höfum við haft það heldur náðugt og horft á þónokkrar nýjar prinsessuteiknimyndir og rætt saman um hitt og þetta. Mamman er kannski heldur knúsin við hann því að í dag sagði hann “Æi mamma, ekki elska mig alveg svona mikið” ;-)

Það er kannski ljótt að segja það en ég hlakka til að fá pabbahelgar og einhvern tíma til að eyða bara í sjálfa mig, þaes einhvern tíma sem er ekki á leikskólatíma – ég er svo mikil B manneskja að sá tími nýtist aldrei í neitt skemmtilegt. Þegar þar að kemur mun ég kannski fara að hafa eitthvað skemmtilegra að skrifa. Það er satt best að segja hundleiðinlegt að hafa aldrei neitt að segja nema eitthvað sem tengist Þórði – sérstaklega þar sem mig langar bara hreinlega ekkert til að tala endalaust um hann.

Ps. Ég veit ekki af hverju það stendur alltaf bara 1 comment við allar færslur hvort sem er 0 comment, 1 comment eða 50. Ég mun (kannski) kíkja á það einhverntíman – en ég nenni því ekki núna.

Orðin 27 og alveg að koma nýtt ár

26 ára afmælisdagurinn minn var ekki skemmtilegur. Mest allur dagurinn fór í sjálfsvorkun yfir því að vera föst í einhverjum útnára án vina og fjölskyldu svo hjálpaði ekki til að kvöldmaturinn voru pylsur og eitthvað álíka rusl. Ég var sár og leið því að þó að 26 ára sé ekki merkilegt afmæli þá ætti afmælisdagurinn manns alltaf að vera sérstakur að einhverju leiti. 26 ára afmælisdagurinn minn var bara sérstaklega leiðinlegur.

27 ára afmælisdagurinn minn var rólegur en góður. Hrafnkell kom upp í til okkar Rögnu og horfði á teiknimyndir, heimtaði svo að ég bakaði köku þegar hann fattaði að það væri afmælið mitt. Ég sofnaði aftur og dreymdi langan og ruglingslegan draum þar sem að aðalatriðið var að Ragnar afi sagði að Hrafnkell yrði yfir 100 ára gamall. Svo fór mestur dagurinn í leti, ég fór í sturtu og dúllaði mér við að gera mig pínu fína meðan mamma og pabbi elduðu dýrindis lambahrygg, meðlæti og svo súkkulaðimús fyrir eftirmatinn. Ég fékk 2 pakka, annarsvegar dagbók frá Hrafnhildi og hinsvegar peysu frá mömmu og pabba. Ég eyddi smá hluta af deginum í að hugsa hvað það væri gaman ef maður hefði einhverja vini hjá sér til að djamma mér en ákvað svo að ég myndi bara djamma með þeim seinna.

Árið 2009 hefur verið skrítið. Það byrjaði með því að ég fór í 2 próf og fékk góðar einkunnir, svo tók við 4. og seinasta önnin í KTS. Sú önn var eiginlega ekkert nema vesen og leiðindi, samstarfið í hópnum mínum gékk ekki mjög vel (ég og önnur stelpa áttum ekki vel saman) og einnig var fyrirtækið sem við unnum með alveg hrikalega erfitt í samstarfi.

Við fórum til Íslands um páskana, sú ferð átti sína kosti og galla. Valdís og Tryggvi eignuðust “lítinn” strák, ég átti góðar stundir með vinum og fjölskyldu – en það voru líka neikvæð atriði (sem ég ætla ekkert að velta mér uppúr hérna).

Um sumarið útskrifaðist ég og það hefði sko getað verið frábær tími í mínu lífi ef að Doddi hefði ekki verið farinn til Noregs til að vinna svo að ég var ein og yfirgefin með Hrafnkel og hafði ekki tækifæri til að taka þátt í félagslífinu að neinni alvöru. Til þess að geta tekið þátt í sjálfri útskriftinni þurfti ég að standa í hellingsveseni við að koma Hrafnkeli í pössun – en það hafðist allt. Ég útskrifaðist og stuttu seinna fórum við Hrafnkell til Íslands. Á Íslandi áttum við góðan tíma í góðu veðri og með góðu fólki, við gerðum margt en þó var margt fleira sem við hefðum viljað gera.

Í haust var svo mikil óvissa þar sem að ég komst ekki strax inn í skólann minn, ég fékk ekki endanlegt svar um inngöngu fyrr en daginn sem skólinn byrjaði. Það var mikill léttir að komast inn í skólann, þar sem að það er meira en að segja það að fá vinnu einhverstaðar í danmörku þessa dagana. Gallinn við skólann er þó hvað hann er langt í burtu.

Skólinn gékk bara nokkuð vel framan af þrátt fyrir að námsefnið væri þurrt og já eiginlega frekar leiðinlegt. En síðan hefur bæði lífið og skólinn verið mjög erfitt síðan í miðjum nóvember. Þórður ákvað að fara frá mér og ég komst að því að ég er (mjög líklega) með pcos. Tíminn hefur farið í að halda haus, komast fram úr rúminu á morgnanna og rembast við að einbeita sér að skólanum til þess að eiga möguleika á að fá að taka próf í janúar. Ég er ennþá sár, reið og varla búin að átta mig á þessu. Það var þó ekki fyrr en mamma, pabba og Ragna voru komin til okkar og ég var búin að skila inn verkefninu sem að raunveruleikinn helltist yfir mig aftur. Jólin voru góð, einsgóð og þau gátu verið miðað við kringumstæður – en þau voru samt pínu erfið.

Þannig að í minningunni þá var árið 2009 bæði gott og vont, vondu punktarnir skyggja þó á góðu punktana. Mér finnst pínu einsog allt sem gat farið til fjandans hafi farið til fjandans.

Það tímabil sem tekur við núna verður örugglega erfitt en gefandi. Ég er sannfærð um að ég mun enda með meira en ég byrja með, ég er sannfærð um að ég mun vera hamingjusamari að ári en ég er núna. Ég er sannfærð um að árið 2010 verður mér betra en 2009. En fyrst þarf ég að komast í gegnum prófin og einnig að fá Þórð til að gera upp öll okkar mál, því fyrr sem við gerum þau upp því fyrr getum við haldið áfram með lífið. Þó að mér þyki vænt um hann, þó að ég óski honum alls hins besta í lífinu og þó að ég hafi einhverjar vonir um að við getum verið vinir í framtíðinni þá held ég að það væri best fyrir alla að koma öllum málum á hreint.

Í mínum huga er árið 2010 ár uppbyggingar og sjálfsþekkingar. Núna er tíminn til að kynnast sjálfum sér aftur og verða sterkari einstaklingur fyrir vikið.

Eftir endann á einum kafla leynist upphafið á þeim næsta

Í fyrradag tjáði Þórður mér það, eftir að ég hafði lifað í óvissu í nokkrar vikur, að hann teldi ekki grundvöll til að reyna áfram að vera í þessu sambandi. Hann sagði mér að þetta væri búið.

Eins sárt og var að heyra þessi orð þá voru dagarnir á undan búnir að vera óendanlega sárir líka, of fátt hafði verið sagt og ég hafði beðið í nánast fullkominni óvissu um framtíðina, og að vissu leyti var bara gott að fá loksins að vita hvar ég stend. En þetta er samt bæði erfitt og sárt, ég syrgi sambandið sem ég hélt að ég ætti, ég syrgi framtíðina sem ég hafði stefnt að og mér líður illa í óvissunni sem umlykur næstu daga.

Við skiljum ekki í illu, enda græðum við ekkert á því. Ég er sár og reið og hrædd en ég óska Þórði bara alls hins besta. Hann mun flytja út, um leið og hann finnur sér einhvern stað til að vera á. Þangað til verður hann hér og við verðum að reyna að púsla saman lífinu þannig að allt gangi þokkalega smurt í kringum Hrafnkel. Við erum ekki búin að segja Hrafnkeli ennþá, veit ekki alveg hvenær við komum okkur í það, hann er á erfiðum aldri. Hann skilur svo margt en svo lítið, og hann spyr óhikað ef hann hefur spurningar.

En núna er upphafið af nýju tímabili og ég hvorki sé eftir kaflanum sem var að ljúka né óska þess að hann haldi áfram. Þeim sem hafa spurt hef ég sagt að það þurfi eitthvað stórfenglegt að gerast til þess að við byrjum saman aftur, það er of mikið sem er enn ósagt og það litla sem var sagt særir alveg nóg. En ég ætla aldrei að segja aldrei. Við erum bæði á markaðnum núna, við munum alltaf þurfa að hafa samskipti – þetta er ekkert klippt og skorið – og hver veit hvað gerist í framtíðinni, en ég held þó að hvorugt okkar muni fara og leita að hinu aftur.

Það sem ég hef áttað mig á, seinustu daga, er að ég á óendanlega góða vini og fólk sem ég vissi ekki að væru vinir mínir hafa svo sannarlega sannað gildi sitt. Ég er líka ekki jafn “hræðilega gömul” og mér var farið að finnst einhvernvegin, þegar systur mínar voru 26 (uss, ég er enn bara 26) þá fannst mér þær ekki nærri jafn fullorðnar og mér hefur fundist ég vera undanfarnar vikur eða mánuði. Og ég er búin að vera í þessum fullorðinsleik meira og minna síðan ég byrjaði með Þórði. Núna er kominn tími til að lifa aðeins, gera það sem ég vill, einsog ég vill, þegar ég vill. Núna get ég farið í river rafting án þess að hafa samviskubit yfir því að hann hafi ekki farið, núna get ég farið í bíó án þess að spá í því hvort að honum langaði að sjá þessa mynd osfr.

En þetta þýðir líka að ég mun búa ein með Hrafnkeli og það er svolítið scary. Því að þó ég hafi alltaf kunnað að meta einveruna þá hef ég líka þörf fyrir fullorðinssamkipti. Einnig finn ég að núna hef ég rosalega þörf til að tala um þetta, tala um þetta og allt annað. Og þá eru miðlar einsog facebook og msn ómetanlegir. Ég get pikkað gegnum tárin.

En núna þarf ég að græja mig og fara til læknis. Fara í læknisheimsókn sem ég hef beðið eftir lengi en er líka mjög scary og ég get ekki ákveðið hvort er hræðilegra ef að læknirinn segir já eða nei. Einhvernvegin er ég hrædd við allar niðurstöður. En meira um það seinna.

Jólin jólin allsstaðar….

Það er langt liðið á haustið, næstum farið að koma frost (var  bara 2,5°c í morgun birrrr) og jólapælingar farnar að láta bera á sér. Seinustu jól vorum við í Noregi og þar af leiðandi leitar hugurinn heim til Íslands – í mínum huga eru jól á Íslandi það besta í heimi. Að geta verið með fjölskyldunni sinni og vinum, slappað af og étið ógrynnin öll af góðgæti, drukkið malt (og jafnvel styrkt það aðeins með appelsíni) já eða jafnvel jólaöl, spila spil og svo auðvitað að eiga gott afmæli.

Því miður virðist frekar ólíklegt (mjög ólíklegt) að mér verði að ósk minni að komast til Íslands um jólin. Ég var náttúrulega þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fara til Íslands í sumar, Doddi fór til Króatíu í haust – sem var ekkert ókeypis þó það hafi svosem ekki verið dýr utanlandsferð þannig lagað, íslensku lánin okkar hækka (og það munar um hverja krónu), gengið lækkar (sem þýðir dýrari dkk fyrir okkur) og verðlagið hér (matur, leiga, föt) hækkar. Þar að auki virðist útilokað núna að Doddi nái að vinna eitthvað í janúar, og það er pottþétt útilokað að ég gæti gert það þar sem að ég er í 3 prófum sem verður vandlega dreift yfir allan janúarmánuð. Þar af leiðandi getum við ekki leift okkur að kaupa núna miða til Íslands sem gerir það að verkum að þegar nær dregur og við sjáum betur hvernig peningamál standa að þá verður flugfarið hvort eð er orðið ógeðslega dýrt.

Og þá spyr maður sig, hvað getur maður gert í staðinn? Við Doddi teljumst örugglega sem stórskrítið fólk en við höfum voðalega lítinn áhuga á því að stofna okkar eigin einkajól – bara við 3 saman. Okkur langar til að eyða jólunum með öðru skemmtilegu fólki. Langar ekki bara einhverjum til að koma til Köben um jólin? Eða einhverjar aðrar góðar hugmyndir?

Anyway svona eru jólapælingarnar á þessum bæ, hvaða jólapælingar hafið þið?

Langur dagur

Við Hrafnkell erum sko búin að vera dugleg í dag. Við fórum nefnilega á fætur (hægt og rólega reyndar), fórum í bað og fengum okkur að borða og svoleiðis. Svo tókum við okkur til og græjuðum okkur í ferðalag dagsins.

Við nefnilega löbbuðum inn í miðbæ, eftir Istedgade, þar sem Hrafnkell sá hunda, prinsessur (í prinsessuturnum), berfættar konur (sem verða að kaupa sína eigin skó, en mega sko ekki fá hans skó) og ýmislegt annað áhugavert – en ég sá róna, hórur, rusl og drasl (og þvílík pissufýla sumstaðar).

Á Ráðhústorgi var eitthvað Asíudæmi í gangi og við horfðum aðeins á einhverjar skrítnar, skáeygðar konur dansa við tónlist sem skar í eyrun. Svo fórum við aftur að aðalbrautarstöðinni, keyptum okkur klippikort vegna þess að við munum nota lestarnar slatta þar til að við förum heim til Íslands. Þar næst var förinni haldið í s-tog c í áttina að Ordrum (já eða Klampenborg er endastöðin) því að okur var boðið í babyshower (barnasturtu?) til Louisu, sem er bekkjarsystir og hópfélagi Þórðar (og sónarnir eru ekki sammála en hún er skrifuð á bilinu 6-8. sept!). Þegar þangað (á lestarstöðina) var komið þá tók við að finna húsið. Þar sem að ég hafði tekið mig til og teiknað þetta líka flotta kort af svæðinu (útaf því að prenntarinn er bæði bilaður og bleklaus) og það fyrsta sem ég fann var gata sem ég hafði ekki teiknað inn á kortið – en þetta hafðist samt og við fundum staðinn.

Í barnasturtunni voru aðalega bekkjarsystkini Þórðar og ég hafði engan hitt af þeim  nema Louisu, svo að ég átti smá erfitt með feimnina í mér (en þetta var samt ótrúlega alltílagi). Nokkrir höfðu hitt Hrafnkel áður en hann var líka mjög feiminn til að byrja með. Svo þegar feimnin fór að renna af honum og hann fór að haga sér einsog venjulega þegar hann er meðal fólks þá var ég spurð hvort að hann væri alltaf svona “energetic” og ég horfði til bara og sagði “well, he is his fathers son” og þau horfðu á mig og skildu þetta engan vegin því að Þórður ku vera svo yfirvegaður og rólegur! hahhahahahaha, þau hafa aldrei séð hann keyra í snjó…

En anyway þetta var reyndar bara frekar gaman, og þó að þetta sé svona sjúklega væminn og hallærislegur amerískur siður þá finnst mér þetta bara svoldið sniðugt. Í mínum huga kæmu gjafirnar þá sennilega á móti vöggugjöfunum reyndar en það skiptir ekki öllu máli.

Svo fórum við Hrafnkell heim með lestinni aftur – í þetta skiptið alla leið til Enghave, en það er bara 2 stoppum lengra en miðbærinn (við fórum sko bara labbandi í miðbæinn því að mig vantaði þetta klippekort og það er ekki hægt að kaupa það á Enghave st.) og svo var (pirraður) Hrafnkell sendur beint í rúmið því að klukkan var svona mikið.