Category: annað

Sveppa-kókossósa….

Ég veit að ég var búin að segjast kannski tala um eitthvað annað en mat, en ég prufaði þessa sósu með fimmtudagskjúklingnum (hehe bara heill kjúlli í ofni – voða simple) og hún var AWESOME.

Semsagt einn heill laukur skorinn niður í bita, ógeðslega mikið af niðurskornum sveppum – ég er að meina að þetta var alveg hálfur pottur saman – og smjörklípa sett saman í pott, látið malla þar til að sveppirnir og laukurinn er orðið mjúkt og djúsí. Þá er einni dós af kókosmjólk helt yfir og allt látið malla aðeins.

Ekki hræðast vibbalega gráa litinn, hann skánar og bragðið gerir þetta allt þess virði. En já svo er þetta smakkað til með salt og pipar og svo bara borið fram.

Ég gæti vel hugsað mér að prufa að bæta við kannski annarri dós af kókosmjólk, og skella svo nokkrum bitum af niður rifnum kjúlla út í og kalla þetta súpu.

heimagert möndlusmjör

ég elska hnetusmjör, helst þetta óholla sem er stútfullt af sykri. En svo átti ég áðan að vera að læra svo að ég fór að lesa með til um mat og mataræði og velta hinu og þessu fyrir mér og þar las ég að möndlusmjör væri svo rosalega hollt. Svo að ég ákvað að gúggla mér til og sjá hvort að ég fyndi einhverja uppskrift af heimagerðu möndlusmjöri og ég fann þessa síðu hérna.

Ég á nú alltaf möndlur til, þetta er bara svona hlutur sem er til í skápunum hjá mér, og hunang (sem ég nota mikið í tein mín eða í staðinn fyrir sykur í uppskriftum sem bjóða upp á það) svo að ég skellti mér bara í möndlusmjörsgerð.

Og semsagt það sem fór í þetta hjá mér var:

  • rúmlega bolli af möndlum (byrgðirnar)
  • hálf msk hunang (varð frekar sætt)
  • smá af salti

Og aðferðin var semsagt að skella möndlunum í mixarann ógeðslega lengi, ég þurfti að skrapa þær niður ansi oft en með tíð og tíma hitnaði þetta allt saman og svo varð þetta að svona hálffljótandi mauki (skoðiði linkinn sem ég setti, þar eru góðar útskýringar og myndir af ferlinu) og þá var það tilbúið til að blanda saman við hunangið og saltið. Og shit hvað þetta er guðdómlegt! Veit samt ekki alveg hvað ég ætla að gera við þetta en gott er það!

Alvöru sápukúlur

Ég keypti sápukúluglas fyrir Hrafnkel um daginn. Hann, náttúrulega bara þriggja ára, var fljótur að hella úr almennilegu sápukúlusápunni svo að ég varð að fara að brugga sápukúlusápu. Uppþvottalögurinn okkar var ekki alveg að standa sig svo að ég ákvað að reyna að finna betra ráð.

Uppskriftin sem ég fann var töluvert nákvæmari en ég slurkaði bara

ca. 3 hlutar vatn
ca. 2 hlutar uppþvottalögur
ca. 1 síróp

Þetta er ekki jafn gott og upprunalegi sápukúlulögurinn en töluvert mikið betra en bara eintómur uppþvottalögur, spurning hvort að það skipti ekki líka máli að hafa réttan uppþvottalög og rétt síróp (ég notaði bara venjulegt, ljóst síróp en uppskriftin sagði hlynsíróp og það er töluvert öðruvísi)

Kreppuvax

Ég  hef nokkrum sinnum tekið þá drastísku ákvörðun að vaxa á mér leggina. Einu sinni fór ég bara á stofu og lét einhverja konu sjá um þetta og það var fínt, vont en fínt. Hin skiptin hef ég asnast til að kaupa hinar og þessar tegundir af heimavaxi og svo reynt að sjá um þetta sjálf. Það er bæði vont og erfitt – og aðalega erfitt því að þetta er svo vont.

En ég rakst á uppskrift af “vaxi” (ég held reyndar að þetta kallist sugaring og er mun líkara sírópi eða karamellu heldur en vaxi) á netinu og ég ákvað að prufa – hráefnin eru ódýr og auðvelt að nálgast þau svo að það versta væri að ég myndi gefast upp og skola þessu niður. En þetta var langbesta og sársaukaminnsta vax sem ég hef prufað. Það var ekki bara sársaukaminnst heldur tók það hárin betur en öll keyptu heimavöxin sem ég hef prufað.

Uppskriftin er svona:

ca 150gr sykur
2 msk sítrónusafi (uppskriftin segir úr belg en ég kreisti bara sítrónu og það var ca 2 msk úr 1/2 sítrónunni)
2 msk vatn

Sett í pott og á vel heita eldavélahellu. Hrært í reglulega. Þegar blandan er farin að bulla aðeins, farið að koma smá “froða” ofan á, þá á að lækka á hellunni og láta þetta malla þar til að það er orðið gullið á lit. Þá er bara að taka pottinn af hellunni og láta þetta kólna niður í þægilegan hita (en ekki of kallt því að þá er erfiðara að vinna með þetta).

Bera á lappirnar, skella bómullarefnisræmu ofan á og rífa hárdraslið af. (bara svona einsog með venjulegt vax). Þetta þrífst af með hreinu vatni svo að þú þarft ekki að vesenast með einhverjar olíur eða hreinsiefni til að hreinsa restarnar af vaxinu af. Einnig er hægt að skola ræmurnar í vatni og nota þær aftur (þegar þær hafa þornað auðvitað).