Category: uppskriftir

Kókos, karrý, brokkolí fiskur í ofni

 • 2 lítil flök hvítur fiskur
 • 1 dós kókosmjólk
 • 1 teningur fiskikraftur
 • smá reykt paprikka
 • 1 tsk karry
 • 2 stórar gulrætur (eða meira)
 • slatti af brokkolí
 • hnefafylli af rækjum
 • 200gr niðurrifinn ostur
Brokkolíið rifið niður (gróflega), gulræturnar skornar niður í bita og sett í eldfast mót. Ofan á það eru fiskiflökin sett (mín voru frosin).
Kókosmjólkin, krafturinn og kryddin, sett í pott og látið sjóða aðeins. Þessu er svo hellt yfir fiskinn í mótinu. Settur álpappír og allt inn í ofn (175° og blástur) í ca. 30 mín.
Tekið út og rækjunum dreift yfir og osturinn þar ofan á. Sett aftur inn í ofn í 10 mín – eða þar til að osturinn er fallega bakaður.
Ammi namm!

 

Sveppa-kókossósa….

Ég veit að ég var búin að segjast kannski tala um eitthvað annað en mat, en ég prufaði þessa sósu með fimmtudagskjúklingnum (hehe bara heill kjúlli í ofni – voða simple) og hún var AWESOME.

Semsagt einn heill laukur skorinn niður í bita, ógeðslega mikið af niðurskornum sveppum – ég er að meina að þetta var alveg hálfur pottur saman – og smjörklípa sett saman í pott, látið malla þar til að sveppirnir og laukurinn er orðið mjúkt og djúsí. Þá er einni dós af kókosmjólk helt yfir og allt látið malla aðeins.

Ekki hræðast vibbalega gráa litinn, hann skánar og bragðið gerir þetta allt þess virði. En já svo er þetta smakkað til með salt og pipar og svo bara borið fram.

Ég gæti vel hugsað mér að prufa að bæta við kannski annarri dós af kókosmjólk, og skella svo nokkrum bitum af niður rifnum kjúlla út í og kalla þetta súpu.

heimagert möndlusmjör

ég elska hnetusmjör, helst þetta óholla sem er stútfullt af sykri. En svo átti ég áðan að vera að læra svo að ég fór að lesa með til um mat og mataræði og velta hinu og þessu fyrir mér og þar las ég að möndlusmjör væri svo rosalega hollt. Svo að ég ákvað að gúggla mér til og sjá hvort að ég fyndi einhverja uppskrift af heimagerðu möndlusmjöri og ég fann þessa síðu hérna.

Ég á nú alltaf möndlur til, þetta er bara svona hlutur sem er til í skápunum hjá mér, og hunang (sem ég nota mikið í tein mín eða í staðinn fyrir sykur í uppskriftum sem bjóða upp á það) svo að ég skellti mér bara í möndlusmjörsgerð.

Og semsagt það sem fór í þetta hjá mér var:

 • rúmlega bolli af möndlum (byrgðirnar)
 • hálf msk hunang (varð frekar sætt)
 • smá af salti

Og aðferðin var semsagt að skella möndlunum í mixarann ógeðslega lengi, ég þurfti að skrapa þær niður ansi oft en með tíð og tíma hitnaði þetta allt saman og svo varð þetta að svona hálffljótandi mauki (skoðiði linkinn sem ég setti, þar eru góðar útskýringar og myndir af ferlinu) og þá var það tilbúið til að blanda saman við hunangið og saltið. Og shit hvað þetta er guðdómlegt! Veit samt ekki alveg hvað ég ætla að gera við þetta en gott er það!

★★★★★ Fiskréttur

Í gær gerði ég góða fiskrétt í ofni, rétt sem að gikkurinn sonur minn fílaði í botn :-)

Ég setti hrísgrjón (parboiled því að þau eru aðeins hollari, fyrir mig eru hrísgrjón eiginlega algert eitur því að þau hafa svo slæm áhrif á blóðsykurinn) í pott með vatni – sauð þau þar til að þau voru farin að brúnast á botninum (óvart, ég er mesti klaufi í heimi þegar kemur að því að sjóða hrísgrjón).

Ég græjaði sósu í potti, ein dós af kókosmjólk (svona í hálfdósarstærð, sem er stærri gerðin af kókosmjólkurdósum – amk af þeim sem ég hef fundið) sem ég kryddaði til. Ég notaði dash af laukdufti, hvítlauksdufti og salti, böns af svörtum pipar og svo MIKIÐ af venjulegu karrýi (því ég elska karrý og kókosmjólk saman). Þetta sauð ég aðeins og bragðaði til, hafði það frekar sterkt en svo varð þetta ekki svo sterkt (en mjög gott samt) því að ég bætti mjólk út í.

Svo græjaði ég 3 eldföst mót, en ég á alveg snilldar mót úr Ikea sem passa fullkomlega í eina máltíð fyrir okkur tvö, setti hrísgrjón í botninn á þeim, svo hálffrosinn hvítan fisk (sem heitir pangasius í dönskum búðum – ekkert sérstakur fiskur og eiginlega alger þörf að hafa eitthvað bragðsterkt með – eða amk að rétturinn snúist ekki um gott fiskbragð), svo frosnar rækjur, svo sósa – þar sem að hún var ekki alveg nóg í öll 3 formin þá bætti ég aðeins af mjólk út í (en kannski hefði ég ekki þurft að gera það, rétturinn var alveg mjög blautur og hefði mátt verða þurrari) og svo rifinn ostur ofan á allt.

Eitt formið fór svo inn í ofn, á ca. 200°c blástur, nógu lengi til að osturinn var vel brúnaður (veit ekki 25-35 mín) og fiskurinn eldaður, hin formin stóðu á bekknum í smá stund – meðan þau kólnuðu smá – og fóru svo í poka og í frystinn. Svo að núna á ég 2 skammta af geggjuðum fiskrétti tilbúna í frystinum :-D

Pönnukökur – úr gulu bókinni, mín útgáfa

Það eru ansi margir sem að slumpa bara þegar þeir hræra í pönnukökudeig, mér finnst það aðdáunarvert en ég er engu að síður manneskja sem get ekki slumpað í bakstri. Get það hugsanlega í eldamennsku en er samt almennt séð ekki mikil slump-manneskja. En þar sem að ég slumpa ekki í pönnukökubakstri þá þarf ég auðvitað að hafa uppskrift og þá er nú heppilegt að ég á bestu pönnukökuuppskrift í heimi (hef prufað eina aðra og þó að hún væri ágæt þá var hún ekki rétt hehe) og hérna kemur hún:

 • 2 1/2 dl hveiti
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • (1/2 msk sykur) ég sleppi sykrinum oftast þar sem að hann veldur því að það eru meiri líkur á því að pönnukökurnar festist við pönnuna ef maður notar sykur, einnig borða ég pönnukökur ansi oft bara upprúllaðar með sykri. Það er í alvörunni alger óþarfi að hafa sykur í deginu.
 • 2 egg
 • 4 dl mjólk (nýmjólk er best, þeim mun feitara sem degið er, þeim mun minni líkur á að kökurnar festist við pönnuna)
 • 1/2 tsk vanilludropar (ég reyndar nota oft aðeins meira, eða skipti þessu út fyrir vanillusykur þar sem að hann er miklu ódýrari hérna í baunaveldi)
 • 25 gr smjör (eða smjörlíki eða 2 msk matarolía, ég persónulega nota alltaf smjör. Já og bæði smjör og smjörlíki eru betri en olía, again vegna þess að það dregur úr líkunum á því að kökurnar festist við pönnuna, og einsog ykkur grunar sennilega núna þá þoli ég ekki þegar það gerist)

Settu smjörið á pönnuna og kveiktu undir, ekki setja samt á allra heitasta strauminn því að þá er hætt við að það brenni við og verði ógeðslegt.

Blandaðu saman öllum hráefnunum (nema smjörinu, obviously, þar sem að það er upptekið á pönnunni), það getur verið gott að sigta þurrefnin fyrst – það dregur úr líkunum á því að allt fari í kekki. Ef maður er svo óheppinn að allt fer í kekki þá er alltaf hægt að láta blönduna fara í eina ferð eða svo í gegnum sigti. En já setja allt saman í skál og blandað vel saman. Svo þegar allt er vel blandað saman og smjörið bráðnað þá er því hrært saman við.

Svo bakar maður pönnukökur úr deginu :-)

Regnbogamuffins

Ég fékk þessa uppskrift hjá konu sem heitir Díana Lynn – í gegnum www.er.is, þetta er tiltölulega einfalt í framkvæmd en tekur smá tíma :-)

Ljóst möffins deig – geðveikt gott og tilvalið að lita það og búa til Regnbogamöffins.

2 Bollar all purpose hveiti
2 tsk lyftiduft
3/4 tsk salt
½ bolli (115gr) mjúkt Ísl. smjör, ósaltað, og það verður að vera ósaltað, það er þetta í græna álpappírnum.
1 bolli sykur
3 egg – stofuhiti
2 tsk vanilludropar
¾ bolli nýmjólk (verður að vera nýmjólk)

Þurrefnin eru sigtuð í skál.
Sykur og smjör þreytt vel saman (með víraþeytara á hrærivel) og svo er eggjunum bætt við, eitt og eitt í einu og hræra vel á milli þess sem maður bætir eggjunum við. Hræra þangað til deigið verður „puffy“
Bæta svo við vanilludropunum, gott að bæta svo við pínu vanillusykur en ekki nauðsynlegt og hræra svo vel saman.
Núna á að bæta þurrefninu og mjólkinni saman við, og þá í 3 pörtum fyrst hveiti, hræra, mjólk, hræra,hveiti, hræra, mjólk, hræra.. and so on!
Svo bara passa að nota sleikju til að losa um kantanna sem myndast í hrærivélaskálinni og svo bara skipta deiginu í 5-6 og hræra Wilton liti við, mér persónulega finnst það bestu litirnir í þetta, þarf ekki mikið af því og það þynnir ekki deigið.
Baka við 170° í 20-22 min.

Ég gerði tvöfalda uppskrift og úr því urðu 24 stórar muffins.

regnbogamuffins

Kjúklingapönnueitthvað

Ég var eitthvað að prufa mig áfram áðan og það bragðaðist svona líka guðdómlega :-) Veit svosem ekki hversu hollt þetta er – en þetta er amk ekki óholt ;-) En já sorry þetta er lítil uppskrift

 • 1 kjúklingabringa, niðurskorin í teninga og steikt á pönnu
 • 1/4 paprika (notaði gula), niðurskorin og sett á pönnuna þegar kjúklingurinn er næstum steiktur (má örugglega fara fyrr)
 • Þetta er kryddað með vel af laukdufti, hvítlauksdufti og smá paprikkukryddi
 • 1/2 dós (æi hálf svona afbrygðilega lítil dós) af kókosmjólk hellt út á og látið malla smá
 • 2 sneiðar af niðurskornum, niðursoðnum ananas + 3-4 msk af safanum er sett út á og látið malla meira
 • Jafnað aðeins með hveiti og vatni
 • og svo saltað með ca 1 tsk sjávarsalti í lokin (útaf því að ég gleymdi því alveg fram að því)

Þetta er ógeðslega einfalt og ógeðslega gott. Ég borðaði þetta með gufusoðnum, niðurskornum sætum kartöflum (sem passaði reyndar bara semi vel við) og spagettíi en ég held að það myndi passa betur að hafa hrísgrjón (nema bara að þau (sérstaklega hvít) eru frá djöflinum komin skv. “mataræðinu”)

Kjúklingabaunasnakk (ala. Simbad á er.is)

 • Kjúklingabaunir (annað hvort úr dós eða þá þurrar sem þurfa þá að hafa legið í bleyti í amk hálfan sólarhring)
 • salt
 • krydd
 • Ólívuolía

Kjúklingabaunirnar (miðað við eina dós)  eru settar í poka með ca. 1tsk krydd (karrý, paprika, laukduft, hvítlauksduft, eða whatever) 1tsk salt (ég notaði maldon saltflögur sem ég muldi aðeins fyrst) og 1/2msk ólívuolíu (því að hún er hollari fita en venjuleg) og svo er allt hrisst vel saman. Þessu er svo jafnað á plötu og bakað í ca 20 mín (passið ykkur að fylgjast með því að þær brenni ekki við, þær eiga að verða svona vel tanaðar) við 220°c á blæstri.

Þetta er síðan bara borðað sem snakk, er kannski ekki eins gott og doritos eða þykkvabæjareitthvað EN er samt nokkuð gott :-)

Alvöru sápukúlur

Ég keypti sápukúluglas fyrir Hrafnkel um daginn. Hann, náttúrulega bara þriggja ára, var fljótur að hella úr almennilegu sápukúlusápunni svo að ég varð að fara að brugga sápukúlusápu. Uppþvottalögurinn okkar var ekki alveg að standa sig svo að ég ákvað að reyna að finna betra ráð.

Uppskriftin sem ég fann var töluvert nákvæmari en ég slurkaði bara

ca. 3 hlutar vatn
ca. 2 hlutar uppþvottalögur
ca. 1 síróp

Þetta er ekki jafn gott og upprunalegi sápukúlulögurinn en töluvert mikið betra en bara eintómur uppþvottalögur, spurning hvort að það skipti ekki líka máli að hafa réttan uppþvottalög og rétt síróp (ég notaði bara venjulegt, ljóst síróp en uppskriftin sagði hlynsíróp og það er töluvert öðruvísi)

Kreppuvax

Ég  hef nokkrum sinnum tekið þá drastísku ákvörðun að vaxa á mér leggina. Einu sinni fór ég bara á stofu og lét einhverja konu sjá um þetta og það var fínt, vont en fínt. Hin skiptin hef ég asnast til að kaupa hinar og þessar tegundir af heimavaxi og svo reynt að sjá um þetta sjálf. Það er bæði vont og erfitt – og aðalega erfitt því að þetta er svo vont.

En ég rakst á uppskrift af “vaxi” (ég held reyndar að þetta kallist sugaring og er mun líkara sírópi eða karamellu heldur en vaxi) á netinu og ég ákvað að prufa – hráefnin eru ódýr og auðvelt að nálgast þau svo að það versta væri að ég myndi gefast upp og skola þessu niður. En þetta var langbesta og sársaukaminnsta vax sem ég hef prufað. Það var ekki bara sársaukaminnst heldur tók það hárin betur en öll keyptu heimavöxin sem ég hef prufað.

Uppskriftin er svona:

ca 150gr sykur
2 msk sítrónusafi (uppskriftin segir úr belg en ég kreisti bara sítrónu og það var ca 2 msk úr 1/2 sítrónunni)
2 msk vatn

Sett í pott og á vel heita eldavélahellu. Hrært í reglulega. Þegar blandan er farin að bulla aðeins, farið að koma smá “froða” ofan á, þá á að lækka á hellunni og láta þetta malla þar til að það er orðið gullið á lit. Þá er bara að taka pottinn af hellunni og láta þetta kólna niður í þægilegan hita (en ekki of kallt því að þá er erfiðara að vinna með þetta).

Bera á lappirnar, skella bómullarefnisræmu ofan á og rífa hárdraslið af. (bara svona einsog með venjulegt vax). Þetta þrífst af með hreinu vatni svo að þú þarft ekki að vesenast með einhverjar olíur eða hreinsiefni til að hreinsa restarnar af vaxinu af. Einnig er hægt að skola ræmurnar í vatni og nota þær aftur (þegar þær hafa þornað auðvitað).