Category: Uncategorized

Veikindi (nöldur og væl)

Október er búinn að vera mánuður veikinda hjá okkur mæðginum. Hrafnkell hefur tvisvar fengið skarlatssótt (sennilega var reyndar september þegar hann fékk hana fyrst) og í seinna skiptið leið svo langur tími áður en hann fór til læknis (ætla ekki að fara út í smáatriði – bara að segja að það var ekki mér að kenna) að hann þurfti að fara á extra sterkan og langan pensillín kúr – með tilheyrandi töflugleypingum. Það var ákveðinn þröskuldur sem við þurftum að komast yfir, en það hófst á fyrsta degi (reyndar seinasta skammti fyrsta dags en well…) og hefur gengið vel síðan þá. Listin að gleypa töflu kostar enn góðan undirbúning af beggja hálfu og það skiptir máli að gera allt “rétt”. En pillan hefur alltaf farið niður og við erum alltaf jafn glöð yfir því.

Hvað varðar mín veikindi… Það byrjaði allt fyrir rúmum 2 vikum með því að ég var þreytt, með strengi, en á leið á djammið. Þrátt fyrir þreytu, slen og almenna vanlíðan þá reif ég mig upp og dreif barnið í pössun og mig í partý. Það var greinilega ekki hið rétta múv þar sem að ég var komin heim kl 21, ælandi einsog múkki. Eyddi svo þeirri nótt mestu með hausinn ofan í klósetti eða fötu. Ég skildi lítið í því hversu illa áfengið hefði farið í mig fyrr en kvöldið eftir þegar ég fattaði að mér var illt í hálsinum, með beinverki og hita. Ég greindi sjálfa mig með streptókokka, hef fengið svoleiðis áður og þekkti einkennin, en það var mömmuhelgi, haustfrí og ég búin að lofa barninu að fara í Halloween-Tivoli. Svo að mánudagurinn fór í verkjatöflur, te og tivoli.

Hrafnkell fór svo til pabba síns á þriðjudeginum og ég gerði lítið annað þann daginn (þaes annað en að skila honum af mér og eiga bátt). Á miðvikudeginum leið mér aðeins betur, fór í ræktina (stúpid mí) og dó þar næstum því, og ákvað að ég væri örugglega að vinna á streptóinu sjálf. Fimmtudagur fór í hópavinnu, fór svo nánast beint á barinn að hitta Önnu og Guðný um kvöldið – hafði þó vit á því að drekka ekki mikið þó að mér liði ekkert svo skelfilega.

Föstudagsmorguninn leið mér herfilega, hefndist fyrir þriðjudaginn og sérstaklega fimmtudaginn – EN fór samt í mat til vinafólks míns sem býr í Frederikssund (langt í burtu) enda löngu búin að lofa mér í það. Helgin fór í að vera veik og svo kom Hrafnkell á sunnudagskvöldið. Hann var svo veikur mánudaginn, ég fór með honum til læknis og læknirinn staðfesti að ég væri búin að vinna á streptóinu sjálf og ekki væri þörf á sýklalyfjum fyrir mig. Þriðjudaginn var ég heima með Hrafnkel en í raun var hann bara að verða hress (pínu orkulaus eftir að vera veikur í svoldið langan tíma en samt bara einsog börn eru – óþolandi hress) en ég fékk flensuógeð, sem fylgdi stíflað nef, smá hiti, beinverkir osfr.

Fór í skólann á fimmtudegi, var samt mjög efins um þá ákvörðun mína, sé svosem ekki eftir því þar sem þetta var mjög “merkilegur” dagur í skólanum. En var algerlega búin á því eftir daginn. Föstudagsmorguninn leið mér herfilega svo að ég ákvað að vera heima, svaf allan daginn en leið ekkert mikið betur svosem eftir á. Dröslaði mér samt með barninu í halloween dýragarðinn um kvöldið – til að gera eitthvað með honum.

Svo fór loksins að birta til, laugardagurinn og sunnudagurinn voru eiginlega bara “yndislegir”. Þokan, sem hafði yfirtekið hausinn á mér, fór að létta og þrátt fyrir töluvert kvef þá var þetta ekki svo slæmt ennþá. Þar til í gærkveldi.

Um kvöldmatarleytið þá var ég bara algerlega lystarlaus. Af einhverri undarlegri ástæðu hafði ég bara engan áhuga á því að borða eitthvað. Ég gaf þó Hrafnkeli að borða og kom honum svo í rúmið. Smá seinna fékk ég heiftarlegan magaverk og hef átt ansi “góðar” setur á klósettinu síðan. Allt sem ég set upp í mig fer beint í gegn, með tilheyrandi verkjum og skruðningum. Svo að enn og aftur er ég heima…

En núna er ég búin að fá bakteríuvesen, veiruvesen, hita, hósta, nefrennsli, hálsbólgu, beinverki, slen (heilaþoku hehe), ælu og svo núna niðurgang á rúmum 2 vikum… Er þetta ekki bara komið gott?

Hlutirnir farnir að skýrast meira

Við Þórður teljum okkur vera nokkurnvegin búin að skipta draslinu okkar upp, næsta skref verða svo bílarnir og skuldir. En ég semsagt losaði mig við meira af dótinu í stofunni – það sem að verður eftir verður tölvuborðið mitt (sem er reyndar í svefnherberginu einsogstendur), tölvustóllinn, lítill billy skápur og svo eitthvað dót sem Hrafnkell á… Frekar tómlegt kannski hehe.

Þannig að ég þarf að finna einhverja sófalausn og svo vantar mig góða hugmynd fyrir það hvað ég á að gera við bækurnar mínar, ekki það að núna verður nóg af skápaplássi sko en ég vil hafa bækur uppi við – nenni ekki að þurfa að gramsa inni í skáp til að sjá hvaða bækur ég á. Ég er að spá í að kíkja á einn loppemarked um helgina, aðalega til að skoða (draslið hans Dodda er náttúrulega ennþá hérna) og sjá svona hvort að það sé eitthvað sniðugt þarna.

Einnig hef ég mjög verið að velta  grjónapoka hugmyndinni hennar Valdísar fyrir mér, er alveg sannfærð um að það gæti verið mjög kósý ef að það sé vel gert og vel úthugsað. Það er bara svo erfitt að úthugsa þetta þegar maður hefur ekki fyllinguna og ég tími ekki að kaupa fyllingu fyrr en ég er alveg viss um það hvað ég er að gera. Ég er að hugsa um að græja grjónasófa en ég veit ekki hvort að ég ætti að gera stóran kodda (einsog fatboy) er og setja það svo þannig upp við vegginn að það sé nokkurnskonar sófi, eða hvort að maður ætti að gera kassa (semsagt kodda sem er með hliðar) og reyna að leggja það svo að það sé sófi, eða hvort að maður eigi að sníða áklæðið í L og þá hvort að bak og seta eigi að vera eitt stykki eða 2 stykki – eða hvort að þetta sé bara glötuð hugmynd yfirleitt.

Annars var ég að ræða við son minn um daginn og ég sagði honum að pabbi hans ætlaði að taka sófann okkar þegar hann kæmi aftur til Danmerkur og strákurinn var alveg sáttur við það, sá ekkert vandamál. Svo sagði ég honum að pabbi hans ætlaði að taka sjónvarpið og þá var HM ekki jafn sáttur, hann missti reyndar ekki stjórn á skapi sínu en hann reyndi eftir fremsta megni að benda mér á það að við þyrftum að eiga sjónvarp og að pabbi hans gæti bara fundið eitthvað annað sjónvarp því að við þyrftum að nota okkar sjónvarp. Honum leist ekkert á þá hugmynd mína að eiga ekkert sjónvarp – en reyndar er það kannski þetta ástfóstur hans við sjónvarpið sem veldur því að ég vildi alls ekki fá sjónvarpið og er mjög sátt við að Doddi taki það.

Annars er ég bara núna að dunda mér við að fara í gegnum allt draslið okkar, skipta í mitt – hans – Hrafnkell (sumt dót sem hann fær seinna bara einsog myndir af okkur Dodda saman osfr) og síðan óákveðið. Þar af leiðandi er heimilið í smá upplausn, pokar og drasl alls staðar en þetta verður þess virði þegar uppi er staðið. Ég vil nefnilega helst að þegar þar að kemur (sem er vonandi frekar fyrr en seinna – þó að ég átti mig alveg á því að Þórður verður að hafa einhvern stað til að setja draslið sitt á áður en hann tekur það) geti hann bara komið með fluttningaliðið sitt og gengið að öllu vísu. Já og einnig hef ég verið að dunda mér við að reyna að ákveða hvað ég ætla að kaupa mér þegar lín kemur, fyrst og fremst ætla ég að fá mér nýja og ábyrga tölvu (voða fín asus tölva sem ég hef í huga) og svo ætla ég að splæsa í nýja og meðfærilegri myndavél (og svo ætla ég líka að kaupa mér ný nærföt og…. og… og….)

Og svo það sem “mestu” máli skiptir er að þegar Doddi verður loksins kominn með húsnæði og það verða loksins komnar pabbahelgar þá ætla ég að halda feitt partý hérna ;-) og ég get varla beðið eftir að það komist einhverjar dagsetningar á pabbahelgarnar svo að ég geti byrjað að skipuleggja það ;-)

jáhá lín kannski ekki jafn slæm og maður hélt

Ja sey sey. Var að fá lánsloforðið frá lín og það hljómar bara uppá miklu fleiri peninga en við bjuggumst við. Við nefnilega gengum bara frá láninu hans Dodda í haust, því að það var allt svo óljóst með mitt nám, og erum því að græja mitt núna.  Einnig þarf að láta endurmeta lánið hans Dodda, það voru nefnilega gerðar breytingar á lín eftir að það var gengið frá því, og reiknivélin segir að við eigum að fá meiri pening í því en upphaflega lánsloforðið sagði.

Þetta gerir það að verkum að það er séns á því að við getum komið heim til Íslands um jólin – við þurfum bara að hafa hraðar hendur og klára að græja peningamálin sem fyrst svo við sjáum hvort að það þetta er raunhæfur möguleiki (og biðja til guðs og annarra vætta að farið hjá Icelandexpress hækki ekki mikið meira)

Próf á morgun

Ég er smá stressuð – ekki alvarlega. Nóg þó til að eiga við smá einbeitingarvandamál að stríða (aka. ég blogga og geri margt annað en að læra). Ég held þó að okkur eigi eftir að ganga vel en það er samt erfitt að spá hvernig spurningar við fáum.
Þetta próf er býsna langt (skiljanlegt svosem þar sem að þetta er lokaprófið) og er fyrst 15 mín presentation og síðan hálftíma yfirheyrsla á mann.
En well það kemur í ljós á morgun hvernig gengur :-)

Fyrir þá sem hafa áhuga

Síðan okkar er orðin eins tilbúin og hún verður nokkurntíman.
Endilega skoðið þetta og munið að a) Við urðum að þóknast kúnna með margt og rembast við að gera hlutina þokkalega og b) Síðan er bara “prototype” og þar af leiðandi töluvert frá því að vera einsog lokaútgáfa myndi vera.

Á heildina er ég mjög sátt með síðuna, margt tæknilega flókið sem liggur að baki, mikil vinna í grafík – bæði hugmyndavinnu og myndvinnslu, og það þrátt fyrir að hugmyndafræðinni hafi verið breytt algerlega (af hálfu kúnnans) á seinasta fundið fyrir páska svo að segja má að þessi síða hafi verið unnin á 1 -1 1/2 mánuði.

Ath: Það eru 2 valmöguleikar um tungumál, enska og danska. Við erum bara búnar með “dönsku” útgáfuna. Ég segi “dönsku” með gæsalöppum vegna þess að í raun eru 2 bls á dönsku og hinar á ensku/lorem ipsum (lorem ipsum er þykistunni texti sem þýðir ekki neitt en lítur út einsog alvöru texti og er mjög oft notaður til að fylla upp í þegar það vantar rétta textann)

Til Jorrit: Ég veit að þetta er flash síða, ég geri mér grein fyrir hinum ýmsu vankönntum sem að fylgir því að gera flash síðu. Ég geri mér grein fyrir því að það er enginn “preloader” og grafíkin er í háum gæðum (sem lengir “loading” tímann). Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki hægt að nota “back” og “forth” í vafranum til að komast á milli síðna. Við minnumst á þetta allt í skýrslunni og nefnum hugsanlegar úrbætur á málinu (og þar stærst að hafa einfaldlega aðra síðu í xhtml (já eða php eða asp og javascript) þannig að notandinn hafi val milli þess að nota þessa síðu eða alvöru síðu).

Síðan okkar

Verkefninu verður svo skilað inn á fimmtudag (í seinasta lagi) og svo er maður “frír” þangað til í prófinu…

Fleiri myndir

Ég er búin, ótrúlegt en satt, að bæta við myndum í maí albúmið.
Nýjar myndir
Endilega skoðiði myndirnar, gefið þeim stjörnur og comment osfr. Það er líka kúl að skoða myndirnar sem slideshow, amk finnst okkur Hrafnkeli það ;-)

Smá mini aukafrétt

Ég er búin að vera dugleg og setja inn bæði nýjar myndir og gamlar inná gallerýið mitt endilega kíkjið

http://eddaros.com/gallery/main.php?g2_itemId=277

það ætti að vera lykilorð – ef allt er að virka rétt – og það ætti að vera bara það sama og það var á barnalandssíðunni