Category: skólinn

What to do, what to do?

Já þegar stórt er spurt…

Ég verð að fara að finna mér einhverja stefnu, eitthvað takmark. Það styttist og styttist í það að skólinn klárist og það væri betra að hafa einhver plön. Ég fann mjög spennandi mastersnám í Álaborgarháskóla (já nei, ég er ekkert að spá í að flytja út á landsbyen, þeir eru með útibú hérna í menningunni) þetta reyndar hljómar reyndar sem frekar krefjandi og jafnvel erfitt nám og ég veit ekki alveg hvort að minn bachelor myndi vera nóg sem grunnur en titillinn sem ég myndi fá á endanum væri Master of Science (MSc) in Engineering in Innovative Communication Technologies and Entrepreneurship – hljómar það ekki bara fancy?

En svo er það alltaf masterinn í ITU, sem gæfi mér titilinn cand. it i Digital design og kommunikation og það er ekki nærri því jafn fancy og þá þyrfti ég líka að fara að demba mér í dönskunám. Það er einhvernvegin ekki mjög heillandi að læra á dönsku og það er alls ekki víst að ég þætti nógu góð í dönsku til að mega byrja námið í febrúar.

Og svo er það alltaf spurningin um að reyna að finna sér vinnu, hér eða á Íslandi og þá þarf maður að flytja (hvort heldur sem er þá myndi ég þurfa að flytja, ég veit reyndar ekki hvað ég fengi langan tíma hérna eftir að ég útskrifast) og eiginlega eini kosturinn sem ég sé við það að aktually flytja (þá er ég bara að tala um flutning, ekki flutning á einhvern ákveðinn stað) er að ég myndi þá reyna einsog ég gæti að hafa sér herbergi fyrir gaurinn minn.

En hvar ætti maður svosem að finna vinnu? Það er hátt hlutfall atvinnuleysis á Íslandi og ennþá hærra hlutfall hérna. Ég er náttúrulega awesome og það væru allir heppnir að fá mig í vinnu – það er náttúrulega ekki spurning, en samt finnst mér bara hugmyndin um að leyta að vinnu ógeðslega óspennandi. (haha já ég hljóma æðislega) Fyrir utan að ef ég er að flytja til Íslands þá ætla ég ekkert að flytja á höfuðborgarsvæðið, þar sem er kannski mestar líkur á að ég fyndi vinnu í mínum geira, heldur myndi ég vilja vera töluvert mikið nær vinum og fjölskyldu (sorry Ragna, þú ert hvort eð er bara part-time á höfuðborgarsvæðinu).

Fyrir utan spurninguna um það hvar maður ætti að búa. Æi mér finnst ógeðslega óþægilegt að vera svona stefnulaus eitthvað, það er ekkert sem mig langar brjálæðislega til að gera, það er ekkert sem togar í mig meira en annað. Auðvitað langar mig heim en ég vil ekki koma heim ef það þýðir að ég muni búa í einu herbergi hjá mömmu og pabba og vera á atvinnuleysisbótum (sem ég btw. hef ekkert rétt á held ég).

Og svo er það alltaf spurningin um jólin, ég er nú nokkuð viss um að ég ætla að koma heim til Íslands en ég þarf að fara að díla við Þórð og reyna að sjá hvenær ég ætli að koma, hvað ég verði lengi og allt það.

fluga í hausnum….

Undanfarnar vikur hef ég mikið hugsað um framtíðina, skiljanlega myndi ég segja þar sem að framtíð minni var kollvarpað í byrjun desember. Ég hef sveiflast öfganna á milli, svona já eða þannig. Fyrst vildi ég bara komast heim til Íslands sem fyrst, ég vildi reyna bara að komast í praktík heima – helst á Akureyri – og umvefja mig öllu því frábæra fólki sem ég á (og ég á sko heilan helvítis helling af frábæru fólki, það er sko alveg pottþétt).

Núna er ég tvístígandi, mig langar heim – þar er fólkið mitt, þar hef ég öryggisnetið mitt, þar hef ég barnapössun sem ég get treyst á (og þar af leiðandi hugsanlega tækifæri til að eiga mér líf utan skóla og heimilis), þar hef ég býsna margt. Fyrir utan að þar hefur Hrafnkell ömmur sínar og afa, þar fær hann betra tækifæri til að læra íslenskuna betur (en að sama skapi væri hætta á að hann tapaði niður dönskunni og það væri alger synd).

En ég veit að ef ég flyt heim strax eftir námið hérna þá verður ekki hlaupið að því að fara aftur út í nám seinna meir. Ég get ekki rifið Hrafnkel upp og farið með hann heim til Íslands bara til að rífa hann upp þar og flytja aftur hingað (eða eitthvað annað) þegar það henntar mér. Einnig er alls ekki gáfulegt (að mínu mati) að vera “jójó-skólast” – það er ekki einsog ég hafi kall til að búa til vísitölufjölskyldu með mér heima á Íslandi og það væri heldur ekkert auðveldara að flytja þá fjölskyldu út aftur og ekki er neitt nám í boði á Íslandi sem að henntar mér (einsog stendur amk).

Þar fyrir utan þá má ég ekki flytja með Hrafnkel einsog mér sýnist meðan við Þórður erum með sameiginlegt forræði. Eins heimskulegt og það er þá má Þórður flytja til Japans þess vegna en ég má ekki flytja á milli landa með barnið hans án þess að fá leyfi frá honum. Þó að ég voni auðvitað að Þórður muni ekki vera með nein leiðindi þá veit maður aldrei fyrr en á reynir.

Svo að ég er farin að spá í að fara í master (heitir reyndar kandidat) hérna, eftir bachelorinn. Það yrðu 2 ár í viðbót, sem þýddi að þegar því lyki þá hefðum við Hrafnkell verið í 5 ár í Danmörku – hann myndi vera 2 ár í dönskum grunnskóla og í raun vera orðinn býsna fullorðinn þegar við gætum flutt aftur. Það er að mörgu að hyggja, ég þarf að fara á dönskunámskeið fyrst (sem ég er reyndar að spá í að gera hvort eð er, amk ef ég finn tímasetningar sem að ég get nýtt mér) og einnig þarf ég að athuga hvort að ég myndi geta haldið íbúðinni ef að ég útskrifast hérna í janúar en byrja svo ekki aftur í skóla fyrr en í ágúst – eða hvort að það sé hægt að byrja í þessu námi strax að loknum bachelornum. Mér finnst þetta nám, sem ég hef verið að skoða, mjög spennandi og það er gaman að skoða hvaða möguleika maður hefur. En engu að síður finnst mér samt eilítið hræðileg tilhugsun að vera hérna 2 árum lengur – sérstaklega þar sem mér finnst ég afskaplega ein eitthvað (ekki misskilja, ég á góða vini hérna líka en engu að síður finnst mér öryggisnetið mitt mjög þunnt).

En já það getur verið gaman að fá flugu í höfuðið ;-)

Smá smotterí

Það er löngu kominn tími til að skrifa eitthvað en einhvernvegin hefur verið svo “mikið” að gera. Það virðist líka enginn vera almennilega í blogggírnum þessa dagana.

Anyway þá tókst mér að nöldra mig inn í skólann. Skólinn byrjaði á miðvikudaginn og um miðjan miðvikudag fékk ég tilkynningu um að ég fengi sæti í bekknum. Þetta er bein afleiðing af því að vesalings maðurinn, sem sér um sætisveitingar í þetta nám, var búinn að þola síendurtekna tölvupósta frá mér seinustu vikur þar sem að ég pressaði á hann um að gefa mér endanlegt svar. Þegar ég mætti svo á fimmtudaginn í skólann þá komst ég að því að bekkurinn er ca 35 manns (gróflega áætlað) og það eru yfir 100 manns á biðlista svo að ég tel mig bara nokkuð góða með að nöldra mig inn í bekkinn.

Námið virkar vel á mig, fyrsta önnin verður reyndar frekar þurr en það var alveg vitað fyrirfram, en það er gaman að komast í bekk þar sem flestir virðast actually vera þarna til þess að læra. Það á þó eftir að koma í ljós þegar maður kemst lengra inn í þetta hvort að námið standi undir væntingum. Reyndar eru þær væntingar, því miður, ekkert rosalega háar þar sem að mín kynni af dönsku skólakerfi eru ekki mjög góð. Allt sem ég hef hingað til séð af þeirra skólakerfi bendir til þess að það sé rosalega illa skipulagt og undarlega metið (og léleg samskiptamunstur hjá kennurunum). Vonandi verður KNORD til þess að bæta álit mitt á dönunum.

Doddi er kominn og farinn, kom frá Noregi á laugardagskvöldi og fór svo í morgun til Króatíu í skólaferðalag. Hrafnkell telur sig vera orðinn 4 ára þar sem að við báðum um að það yrði haldið upp á afmælið á föstudaginn í leikskólanum og svo gáfum við honum einn pakka á föstudaginn og fórum svo í sirkus (sem var by the way geggjað kúl). Svo á morgun verður smá sýnishorn af barnaafmæli hérna.

Ný síða

Ég hef ekki bloggað mikið undanfarið, hef satt best að segja ekki verið í stuði til að segja frá einu né neinu. Þrátt fyrir að Magni Steinn hafi verið hérna hjá mér í eina skemmtilega viku þá hefur framtíðin átt hug minn allan. Ég komst ekki inn í skólann, ég virðist ekki hafa komist inn eftir að biðlistanemendurnir voru teknir inn en þrátt fyrir að ég hafi sent tölvupóst og óskað eftir að fá endanlegt svar þá hef ég ekki fengið það. Skólinn byrjar á miðvikudaginn í næstu viku svo að ég efast stórlega um að einhver undur og stórmerki gerist þangað til. Það sem mér finnst verra en að hafa ekki komist inn er að vita hverjir komust inn, því að þar á meðal er fólk sem mér fannst undarlegt að skildi útskrifast yfirleitt. Fólk sem var ekki bara með verri einkunnir en ég heldur líka með töluvert lægri einkunnir en ég – en hinsvegar er það fólk sem þarf að borga skólagjöld. Djöfulli er ég komin með leið á þessari útlendingastefnu dana. Danir eru ógeðslega fordómafullir, leiðir og pirraðir yfir öllum innflytjendunum en engu að síður þá vilja þeir helst af öllu fá þetta fólk í skólana sína. Þetta er útaf skólagjöldunum, þeir græða svo mikið á því að fá þetta fólk hingað. Svo getur þetta fólk heldur ekki fallið, sem er ennþá meira pirrandi fyrir okkur hvítingjana. Auðvitað eru sumir af þeim í skóla til að læra en það er líka augljóst að flestir af þeim eru í skóla til að fá visa.

En já anyway þar sem að ég komst ekki inn í skólann þá veit ég ekki hvað í fjandanum ég á að gera og ég hata að vera svona stefnulaus. Það er of seint að reyna að skrá sig í einhver önnur nám svo að það eina sem er í stöðunni er að reyna að fá vinnu einhverstaðar. Þó að maður geti ekki beint verið picky þá vil ég nú fyrst reyna á það að fá vinnu sem hefur eitthvað með mína menntun að gera, svona áður en maður fer í skeiningarog skúringar.  Ég er því bæði búin að sækja um slatta af störfum (það er ekki beint mikið í boði, en samt eitthvað), einnig búin að senda umsókn á staði sem eru ekki að leita að fólki, og svo ákvað ég að uppfæra heimasíðuna mína með það í huga að hún sé nokkurnskonar portfolio fyrir mig.

Svo að ég  hef uppfært heimasíðuna mína, er ennþá að slípa hana til, breyta og laga texta við myndir og ég á eftir að bæta við linkum á heimasíður sem ég hef gert en endilega kíkið, skoðið og kommentið.

www.eddaros.com

Og hvað svo?

Hvað gerir maður þegar plan A gengur ekki upp og svo virðist plan B ekki heldur ætla að ganga upp og plan C er eiginlega bara „þetta reddast“?

Ég er semsagt komin heim, eftir gott frí heima á Íslandi, og þar beið bréfið mikla meðal óendanlega mikils ruslpósts. Ég var með óþægilega tilfinningu gagnvart þessu bréfi, reyndi að afsaka það með því að ég er svartsýnismanneskja almennt séð, sem var svo staðfest þegar ég opnaði það. Því miður komst ég ekki að í skólanum en er þó að biðlista, ef ské kynni að einhverjir detti út. Þannig að það er ekki öll von úti en samt eiginlega.

Kallinn sagði, í viðtalinu sem ég fór í, að skólinn væri með þjóðerniskvóta og tæki bara inn 3-4 af hverju þjóðerni og ég býst við að það hafi ýtt mér út því að ég veit um einstaklinga sem komust inn þrátt fyrir að hafa td verri einkunnir en ég úr KTS en þeir einstaklingar eru danir. Þannig að núna þarf ég að skrifa honum email og spyrjast fyrir um þennan biðlista, hvernig ég standi og hvort að það sé raunhæfur möguleiki að ég komist samt inn – og benda honum á að þetta er eitthvað sem ég virkilega vil (þó að ég hafi ekki verið svo sannfærð um það í vor þá er ég sannfærð núna).

Þar fyrir utan sé ég ekki annað í stöðunni en að byrja á því að sækja um allar þær vinnur sem ég finn, sem actually koma menntun minni eitthvað við. Einnig þyrfti ég líka að fara fljótlega í það að sækja um vinnur við að skeina rassa eða eitthvað álíka spennandi, hugsa samt að ég myndi frekar vilja fara bara í einhver þrif eða eitthvað. Hvað sem hverju líður þá höfum við ekki efni á því að hafa mig tekjulausa.

Búhú! Ég er hundfúl, var eiginlega búin að treysta alveg á að komast inn, þrátt fyrir þetta gut-instinct um að ég kæmist ekki inn. Þar fyrir utan er heillangt þangað til að Doddi kemur heim og satt best að segja þá finnst mér ég óttalega ein í heiminum eitthvað . EN það þýðir ekkert annað en að hrista af sér slenið, ganga frá hérna og vona það besta.

Prófið búið, skólinn búinn

Við kláruðum prófið og fengum allar 10. Sem er ágæt einkunn, eiginlega bara mjög góð og engin ástæða til að vera fúll yfir því – nema ein. Þegar við vorum kallaðar inn til að fá einkunnirnar okkar þá byrjaði annar prófdómarinn (sá sem réði meira) að segja “þetta var mjög gott verkefni og blabla bla og þið ættuð eiginlega skilið að fá 12 blablabla en vegna blabla (nenni ekki að fara út í það nánar en þetta blabla er að mínu mati ekki tengt því sem að við áttum að vera með á hreinu á þessari önn – eða nokkurri annarri önn í þessum skóla – og hefði þar af leiðandi ekki átt að draga okkur niður. Eiginlega einsog ef einhver hefði tekið próf í að baka pönnukökur en verið lækkaður fyrir að dreifa sykrinum ekki rétt á eftir á (en sykur hefur ekkert með pönnukökubaksturinn sjálfan að gera)) þá vil ég ekki gefa ykkur hærra en 10. Blablabla en þið hefðuð fengið 12 fyrir þennan hluta og þennan hluta og þennan hluta af verkefninu, framkvæmdin og skýrslan voru upp á 12 en blablabla var bara uppá 10. Þið verðið svo bara að muna að 10 er mjög góð einkunn og þar fyrir utan er þetta bara tala sem skiptir ekki máli. Osfr blblbla”

Ég þarf ekki að vera sátt við ástæðurnar fyrir því að við vorum lækkaðar úr 12 í 10 en fjandinn hafi það það er ekki næs að segja við einhvern að hann hafi á allan hátt átt skilið að fá hærri einkunn OG að þetta sé bara tala ef að maður fær síðan “bara” 10.

Þegar prófdómari gefur einkunn þá hann hreinlega að segja “þið fenguð x” svo ef að x<12 þá ætti hann að gefa hnitmiðaðar ástæður fyrir því að nemandinn fékk ekki 12. Engar afsakanir, ekkert um það hvað hinn prófdómarinn vildi gefa nemandanum, ekkert til að reyna að peppa nemandann upp heldur hreint og beint bara af hverju.

Þegar ég sat þarna þá var ég farin að bíða eftir því að hann hætti bara að afsaka sig. Gervibrosið mitt er ekki neitt rosalega endingargott.

En engu að síður mjög góð einkunn.

Mikið að gera

Það er mikið að gera þessa dagana, aðalega þó í skólanum. Kúnninn virðist ekki skilja þegar við segjum honum að þrátt fyrir allt þá sé þetta skólaverkefni og að við höfum skiladag sem við verðum að virða ef við ætlum að fá að taka prófið og útskrifast, og það gerir málin eilítið flóknari en þau þyrftu að vera. Við erum reyndar búnar að ræða þetta innan hópsins og búnar að ákveða að núna þá ætlum við bara að gera hlutina eins vel og tíminn leyfir, eftir okkar höfði, og ef kúnninn vill ennþá nota síðuna og vill ennþá fá breytingar þegar við erum búnar að skila verkefninu til skólans þá getur kúnninn alveg beðið okkur um að gera breytingar og vinna að síðunni í sumar – gegn gjaldi auðvitað. Við erum reyndar 2 í hópnum sem erum svolítið að vonast til að svo verði (að kúnninn vilji borga okkur fyrir að vinna að síðunni í sumar) því að okkur vantar pening. Sú þriðja er alveg róleg því að hún fær SU (danska skólastyrkinn) í sumar (vegna þess að í DK þurfa nemendur að fá frí einsog aðrar vinnandi stéttir) og þar fyrir utan getur hún stokkið inní gamla starfið sitt á Jylland þar sem hún fær amk 17000dkr á hálfsmánaðar fresti – sem gerir um 25000dkr á mánuði sem  er meira en 500þús íslenskar! Svo að hún þarf ekkert að pæla of mikið í þessu.

Annað í fréttum er að allir fiskarnir okkar eru dauðir, það er bara einn snigill eftir og hann er frekar slappur. Hrafnkell fann nefnilega hnetu úti í garði, kom með hana inn, opnaði hana og laumaði svo sjálfri hnetunni ofan í fiskabúrið. Einhverju seinna tók ég þó eftir hnetunni en ég hélt að það gerði nú ekki svo mikið til, en morguninn voru allir fiskarnir dauðir eða deyjandi. Svo að núna þurfum við að ákveða hvað við gerum, hvor að við kaupum einhverja ódýra fiska eða hvort að við pökkum búrinu niður í bili. Hvort heldur sem er þá þarf örugglega að taka allt í gegn og þrífa, sjóða það sem hægt er að sjóða osfr til að drepa niður hvað sem það var sem að drap fiskana.

Við höfum ekkert heyrt frá Bispebjerg hospital um það hvenær við eigum að fara með Hrafnkel í tjekkið. Ég er farin að vera svoldið óróleg útaf þessu því að ég hef heyrt sögur af fólki sem hefur verið að bíða eftir sambærilegum bréfum (veit reyndar ekki hvort það var frá sama sjúkrahúsi) og fengu þau of seint. Td þá var einn vinur minn hérna að fara með kærustunni sinni í fóstureyðingu, þau voru búin að fara í öll viðtölin og fá grænt ljós á aðgerðina og voru send heim og sagt að þau myndu fá tilkynningu í póstinum um það hvenær aðgerðin yrði framkvæmd (já þetta eru danir, þurfa alltaf að vera með vesen). Þau fengu bréfið kl 1 og í því stóð að aðgerðin ætti að fara fram kl 11  sama morgun. Ég varð ekkert smá reið fyrir þeirra hönd, þó að málunum hefði verið reddað, því að þetta er ekki aðgerð sem má bíða, hver dagur skiptir máli -enda má gera ráð fyrir að kona sé komin amk 4-5 vikur áður en hún áttar sig á því að hún er ólétt, svo koma einhverjir dagar þar sem að hún veltir möguleikum fyrir sér, svo er viðtal og annað viðtal og það tekur þá einhverja daga í viðbót, svo er þá að bíða eftir þessu bréfi og það gerir einhverja daga í viðbót og það má ekki framkvæma þessa aðgerð eftir 12 vikurnar. Einnig hugsa ég að það sé erfiðara fyrir konu að fara í þessa aðgerð eftir því sem að hún er ólétt lengur. En já amk þá erum við ekki búin að fá tíma uppi á sjúkrahúsi (sem ég veit ekkert hvort er uppi eða ekki, það er bara svo eðlilegt að segja uppi á sjúkrahúsi).

Um páskana þá varð ég aftur frænka, núna er ég rík og á 2 náfrændur, einn stóran sem ég hef ekki séð í alltof langan tíma og enn lítinn sem ég sá reyndar um páskana en ég sá bara alltof lítið af honum og alltof stutt. Hrafnkeli fannst þessi frændi mjög merkilegur, hann var ótrúlega lítill en gat grenjað ótrúlega hátt – eiginlega alltof hátt. Þessi frændi var samt ótrúlega leiðinlegur, uppfyllti ekki væntingar um skemmtanagildi, en samt merkilegur. Hefði Hrafnkell getað skipt honum Hartmanni Völundi út fyrir Magna Stein þá hefði það verið gert á núll einni (enda var það stærsti gallinn við Íslandsförina að Magni Steinn skildi ekki vera þarna einsog hann átti að vera) en samt var sá litli merkilegur. 

Svo eftir páska, rétt áður en við fórum til baka til DK, þá gistum við 2 nætur hjá Frosta og Sonju og þau eiga bæði einn stóran strák og eina 9 mánaða skruddu. Hrafnkeli líkaði mjög vel við það að hafa þau 2 til að leika við. Stelpan var einmitt mjög skemmtileg, og áhugaverð, en honum fannst hún frekar erfið í umgengni. Hann varð að passa að hún borðaði ekki dótið hans (hún er alger ryksuga, litla rófan) og þar fyrir utan þá átti hún það til að meiða hann aðeins og ef hann svaraði fyrir sig þá þurfti svo lítið til að hún færi að grenja og þá fékk hann samviskubit (haha ég sá það á svipnum á honum, hann ýtti aðeins við henni og hún fór að grenja og hann var næstum farinn að grenja sjálfur hann skammaðist sín svo mikið þó að það hefði enginn skammað hann). Hún var eiginlega erfiðari en hún var skemmtileg og því var hann voða feginn þegar heimsóknin var búin.

Þessi tvö litlubörn urðu svo til þess að við Doddi fengum frið frá “við skulum eignast litla barn” tuðinu í 2,5 vikur. Það var ágætt því að þetta var orðið frekar þreytt þarna fyrir páska. En í morgun þá vaknaði Hrafnkell fílelfdur og vildi eignast litla barn, hann var búinn að plana hvar litlabarnarúmið ætti að vera og sagði að ég gæti bara gefið barninu að drekka úr brjóstunum mínum, ég þyrfti bara að vera duglega að drekka mjólk, djús og kók til að litla barnið gæti fengið mjólk, djús eða kók úr brjóstunum – rökrétt ekki satt? Ég bennti honum á að litlabarnarúmið væri eiginlega fyrir öllu dótinu hans og ef við fengum litla barn og settum rúmið þarna þá gæti hann ekkert leikið sér að dótinu sínu. Lausnin á því vandamáli var einföld, við geymum bara litla barnið í stofunni. Svo fórum við inní stofu og hann sýndi okkur hvar litlabarnarúmið gæti verið í stofunni og hvernig við þyrftum að labba í kringum það til að meiða ekki barnið. Svo labbaði hann þvert fyrir svæðið tilkynnti að það mætti alls ekki labba svona yfir litla barnið því að þá kæmi blóð og barnið myndi meiða sig ofsalega mikið og við vildum það ekki. 

En anyway þá vona ég að þessi morgun hafi bara verið einstakur, mér finnst þetta “ég vil eignast litlabarn” tal ekkert skemmtilegt svona til lengdar.

Sumarið að skýrast

Það lítur allt út fyrir að Doddi fari til Noregs (ef þeir hafa einhverja vinnu fyrir hann þar) í sumar, strax eftir prófið hans – sem er í byrjun júní – og ætli hann verði ekki þar nánast í allt sumar – komi rétt heim áður en hann fer svo aftur til Alexandríu í skólaferðalagið sitt. 

Ég er hinsvegar ekki búin fyrr en 26. júní, þegar ég útskrifast. Svo er stefnan að byrja aftur í skóla í haust, þó að ég viti nú þegar um 2 skóla sem ég fer ekki í, þó að ég viti í raun ekki um neinn skóla sem er búinn að segja já þá er það samt stefnan ennþá. Það má gera ráð fyrir því að sá skóli byrji í endanum á ágúst – sem þýðir 2 mánuðir í sumarfrí hjá mér.  Eða með öðrum orðum 8-9 vikur.

Sú krafa hefur komið frá leikskólanum hans Hrafnkels að hann sé í 3 vikur í samfelldu fríi í sumar. Eðlileg krafa, bæði er þetta viku minna en er krafist heima á Íslandi og þá veljum við alveg hvenær hann verður í fríi og hvenær ekki.

Þetta gerir 5-6 vikur í frí fyrir mig svo að það þarf ekki neinn snilling til að átta sig á því að ég fæ hvergi vinnu hérna í 5-6 vikur. Það tekur því ekki að þjálfa upp hálfótalandi starfsmann fyrir svona stuttan tíma. Þannig að ég get lítið gert annað en að setja inn smáauglýsingar hér og þar og óska eftir einhverjum verkefnum sem ég gæti hugsanlega unnið heima hjá mér í sumar. Ég er ekki bjartsýn á að það gangi vel en hvað getur maður annað gert? Það hjálpar aðeins til að ég held að ég ætti að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þetta sumarið þar sem að ég er að útskrifast úr dönskum skóla, það er amk eitthvað sem maður þarf að kanna. Eftir Noregsferð um jólin og svo Íslandsferð um páskana þá erum við ekkert að vaða í peningum, sérstaklega þar sem kom í ljós (eftir á) að fjárhagsáætlunin hafði leiðinlega áhrifaríka innsláttarvillu. Það vantaði nefnilega eitt núll í húsaleiguna og þó að núll sé bara núll þá munaði ótrúlega um það hvort að húsaleigan sé 10 þús eða 100 þús á mánuði. En þetta reddast, það gerir það alltaf.

En vegna þess að við þurfum að ákveða hvaða 3 vikur Hrafnkell á að vera í fríi þá væri gaman að heyra hvort að einhverjir séu með einhver heimsóknarplön í sumar? 

En já aftur að skólapælingum. Það beið mín umslag frá einum skólanum þegar ég kom heim frá Íslandi. Í því var ég beðin um að koma í inntökupróf nokkrum dögum áður – þar með var einn skóli farinn. Svo fékk ég email um daginn þar sem mér var tilkynnt að ég hefði ekki komist inn í inntökuprófið í Mediehojskolen. Það merkilega við það var að ég þekki þó nokkra sem sóttu um og það voru bara danir sem komust áfram í inntökuprófið og ég veit með vissu að nokkrir af þessum dönum eru slakari en nokkrir af útlendingunum. Eiginlega efast ég ekki, þegar ég sé hverjir komust áfram og hverjir ekki, um það að málið var einfaldlega það að þeir voru ekki að leita að útlendingum – en það hefði verið gott að vita það áður en maður eyddi lööööngum hluta af páskafríinu í að vinna að inntökuverkefninu.

oh shit

Ég fattaði það í morgun að ég þarf að undirbúa og græja allar mögulegar skólaumsóknir fyrir helgi. Þar sem þær eiga að vera komnar í viðeigandi hús, með viðeigandi við hengjum, á sunnudag þá er einsgott að hafa þetta tilbúið í póst á miðvikudag – ekki nema að ég stefni að því að keyra þetta sjálf út á föstudag því að ég treysti póstinum hérna ekki fyrir fimm aura til að skila þessu án þess að hafa nógan tíma.

Vandamálið er að ég er eiginlega ekki búin að ákveða hvað ég vil gera. Mig langar, td, mjög mikið til að fara í Grafíska hönnun en það þýðir samt 3,5 ár í viðbót og ég er ekki viss um að ég nenni því fyrir batchelorgráðu sem er ekki svo mikils virði á Íslandi (það er sko alveg nóg af grafískum hönnuðum á Íslandi og þar fyrir utan er þetta lúxusvara og ef kreppan er jafn hræðileg og hún er þá gæti það sko vel komið niður á starfi grafískra hönnuða). Svo eru 2 top-up gráður í boði, það þýðir að með því að vera 1,5 ár í viðbót gæti ég náð mér í Batchelor en þó í fögum sem ég hef ekki alveg jafn mikinn áhuga á og Grafísku hönnunninni – en reyndar þá eru þær batchelorgráður (amk önnur þeirra) miklu betur nýtanleg á Íslandi og báðar bjóða upp á víðari starfsgrundvöll en grafíska hönnunin.

En hvað sem verður þá ætla ég að sækja um þetta allt, ég hef þá alltaf möguleikann að hafna náminu ef  ég kemst inn. Ég vil nefnilega frekar sækja um þetta allt og hafa möguleikann á því að segja bara nei, en að sækja ekki um þetta og a) vita ekki hvort ég hefði komist inn yfirleitt og b) sjá kannski eftir möguleikanum.

Núna vona ég bara að skjölin komi bráðum frá Rögnu (staðfestingar á námi mínu í VMA).

MONT!

Hópurinn minn fékk svar, degi fyrr en búist var við og við fengum verkefni hjá….. (TROMMUSLÁTTUR)

GORM LARSEN & PARTNERS!

og bara fyrir þá sem ekki vita og nenna ekki að skoða heimasíðuna þeirra þá er þetta eitt stærsta og virstasta auglýsingafyrirtæki DK!