Category: Hrafnkell segir frá

Nokkrar afmælismyndir

Svalur í gallanum frá Hjöddu ömmu og Bjössa afa

Svalur í gallanum frá Hjöddu ömmu og Bjössa afa

Töffari

Töffari

Og það er hægt að hreyfa sig í honum

Og það er hægt að hreyfa sig í honum

Svona gerðum við herbergið

Svona gerðum við herbergið

Að borða

Að borða

að leika okkur

að leika okkur

að horfa á teiknimynd

að horfa á teiknimynd

Smá vídeo

Hæhæ

Ég fékk að prufa stigvélina þeirra ömmu og afa og ég er heldur betur góður!

Kveðja úr Hrísateignum
Hrafnkell Myrkvi

Ég er alveg að koma til Íslands!

Það er nú aldreilis farið að styttast í að ég komi til Íslands, ég er farinn að hlakka mikið til. Mamma hefur bara smá áhyggjur af því að ég eigi aftir að sakna Amiru, hún er nefnilega langbesta vinkona mín í leikskólanum. Ég elska hana svo mikið að ég sakna hennar þegar ég er heima, ég vildi óska að ég mætti bara taka hana með heim. Ég sagði meira að segja við mömmu og pabba að ég ætlaði bara að skilja þau eftir hérna og taka Amiru með mér í staðinn til Íslands :-)

Ég er búin að læra svoldið nýtt, mamma er svo glöð, ég er nefnilega búinn að læra að það sé stundum gott að kúra pínu í lúllinu á morgnanna. Mömmu og pabba finnst nefnilega rosalega gott að kúra svoldið og ég vakna alltaf svo snemma þessa dagana að stundum fæ ég að skríða upp í millið og bíða þar eftir því að það komi dagur (vekjaraklukkan hringi). Meðan ég býð þá tölum við mamma oftast saman um eitthvað sniðugt, pabbi heldur samt yfirleitt bara áfram að sofa.

Ég er líka farinn að telja upp að 13, amk þegar ég man eftir því að halda áfram eftir 10.

Um daginn þá kom vinkona hennar mömmu, hún Dísa, aðeins í heimsókn til okkar. Hún fékk að sofa á sófanum okkar og svo lékum við okkur aðeins. Hún gaf mér lítið páskaegg og harðfisk og flögur. Hún er sko líka vinkona mín núna – ég lofaði að ég kæmi að heimsækja hana þegar ég kæmi til Íslands.

Heyrumst seinna
Hrafnkell Íslandsfari

Sundstrákur

Við fórum saman í sund, ég, mamma og pabbi. Við fórum bara í sundlaugina sem er hérna rétt hjá okkur. Við höfum reyndar aldrei farið þangað áður og það er reyndar orðið líka mjög langt síðan við fórum í sund seinast. Ég var samt ekkert búin að gleyma, en var ólíkt þægari en seinast – núna var þetta nefnilega allt svo spennandi. Mér fannst gaman að klæða mig úr fötunum í stelpuklefanum, það var síðan líka gaman að vera í sturtunni. Svo þurftum við mamma að labba laaangan gang og niður stiga og svo annan langan gang til að komast í laugina. Sundlaugin var, einsog danskar laugar eru almennt, frekar köld en það var í lagi því að ég buslaði aðeins. Fyrst fannst mömmu og pabba ég vera búinn að gleyma miklu, ég kvartaði yfir því að það væri vatn í augunum á mér og kunni varla að kafa lengur. Mamma sagði að það væri útaf því að ég væri svo gamall og það væri svo langt síðan við fórum seinast. En ég sannaði það enn og aftur að ég er ótrúlegur vatnsköttur. Ég var fljótur að sleppa takinu á mömmu og pabba og vildi helst bara kafa á milli þeirra – kútalaus, aftur og aftur. Svo fékk ég kútana mína og þá var ég ekki hræddur við neitt. Það var samt gott að hafa mömmu og pabba til að halda í þegar maður þurfti að anda aðeins, en svo var ég bara farinn. Ég nota bara fæturnar mínar til að busla og þá kemst ég hratt áfram. Ég þori líka alveg að hoppa ofan í vatnið og mamma og pabbi þurftu stundum að stoppa mig og segja mér að anda aðeins rólega í smá stund.

Þarna voru nokkrir stærri krakkar sem voru miklu óöruggari en ég, mamma sá til dæmis einn strák sem virtist vera 5-6 ára horfa á mig með aðdáunaraugum á bak við kútana, flotholtin og traustatakið sem hann hafði á mömmu sinni. En þetta er samt ekkert nýtt, ég hef alltaf vakið athygli þegar við förum í sund – sérstaklega hérna í dk – vegna þess hversu óhræddur og duglegur. Samt er ég líka góður að því leyti að ég er ekki mikið fyrir það að hlaupa í burtu, sem mömmu finnst mjög gott mál því annars væri ég stórhættulegur.

Það verður gaman að koma heim til Íslands og fara í sund þar, þar er líka miklu heitara (og bragðbetra) vatn og svoleiðis.

Kveðja frá Köben
Hrafnkell Myrkvi

Góðan tannlæknadag

Ég er bara heima með mömmunni minni núna, það er frí í leikskólanum og svo þarf ég að fara til tannlæknis í dag. Ég veit ekki alveg hvað þessi tannlæknir ætlar að gera en mamma segir að hann muni skoða tennurnar mínar svo að ég hef verið að æfa mig aðeins að opna betur munninn. Ég er líka búinn að vera rosalega þægur undanfarna daga þegar verið er að tannbursta mig.

Það var líka frí í leikskólanum í gær og þá fór ég í skólann hennar mömmu. Hún og Michelle voru með tölvurnar sínar í skrítnu stóru herbergi þar sem að ég gat leikið mér með bolta. Svo teiknaði ég, bjó til pakka og púslaði svolítið. Ég var rosalega duglegur.

Í skólanum hennar mömmu var líka mikið af fólki sem kom og talaði við mig, þó að ég þekkti það ekki neitt. Það fannst mér pínu óþægilegt. Svo í eitt skiptið kom maður til að vinna í sama herbergi og mamma og Michelle. Hann vildi mikið tala við mig en ég vildi sko ekki tala við hann svo að ég hunsaði hann algerlega. Mamma sagði að hann héti Lau og væri einn af kennurunum hennar en mér var sama, ég vildi ekki tala við hann. Ég gaf honum samt nokkra pakka, svo að hann væri ekki útundan.

Svo kom Kirsten líka aðeins til okkar, Kirsten er líka vinkona hennar mömmu og hún gaf mér sleikjó. Mamma sagði mér að segja takk og ég kom öllum á óvart og sagði “thank you”. Michelle var búin að segja það nokkrum sinnum við mig, hún kann nefnilega alls enga íslensku og ekki mikla dönsku.

Bólurnar mínar eru nánast allar farnar, það eru bara þessar allra stærstu sem eru ennþá. Mamma er eiginlega mjög undrandi á því hvað bólurnar fara hratt, hún man nefnilega eftir þegar hún var að vinna á leikskólanum á Íslandi hvað það voru mörg börn með bólur lengi lengi eftir hlaupabóluna. Það sést ekki á mér, nema fólk sé að leita að bólunum, að ég hafi verið með hlaupabólu.

Jæja bless í bili
Hrafnkell tannálfur

Bólustrákur

Hæhæ

Ég er bólustrákur, ég er nefnilega með hlaupabóluna. Hún byrjaði sem ein auka brjóstabóla (aukageirvarta) en núna er ég sko með bólur út um allt. Ég er með bólur í rassinum, á pungnum, inní báðum eyrunum (og á bak við þau), undir ilinni, á puttunum, í hársverðinum osfr. Ég er með bólur alls staðar. Allra mestu bólurnar eru þó á rassinum (ath ekki í rassinum heldur á rassinum). Þar er ég bara einsog hraun, minnst er af bólum á bakinu og á fótunum. Bólurnar pirra mig ekki mikið, mér finnst þær samt kitla mig svolítið svo að mamma keypti krem í apótekinu til að setja á bólurnar. Þetta er ekki svona bleikt krem einsog mamma þekkir frá Íslandi heldur er þetta hvítt í spreybrúsa. Ég er þessvegna hvítflekkóttur og þarf að vera berrassaður heillengi á meðan kremið þornar alveg. Svo sá mamma að það er nánast ómögulegt að þvo þetta krem úr hárinu á mér bara með vatni svo að hún þarf að kaupa sjampó fyrir mig.

Ég veit að ég er veikur en mér líður ekkert illa, ég er ekki með neinn hita, ég er glaður og hress. Mér leiðist svolítið mikið, pabbi er líka veikur (með flensu) og mamma þarf að læra mikið, það væri gaman að komast bara í leikskólann og hitta krakkana. Eða amk að fara út og leika mér, mamma ætlar nú að fara með mig eitthvað út á morgun þó að ég sé örugglega bráðsmitandi ennþá.

Ég er búin að horfa mikið á teiknimyndir, of mikið segir mamma, svo keypti mamma kennaratyggjó svo að ég er búinn að vera að teikna og klippa myndir til að skreyta veggina okkar, mamma bjó til leir handa mér og ég leiraði aðeins. Ég var aðalega að leira litla bolta handa barninu hennar Valdísar, ég er líka búinn að vera duglegur að fara í bað. Mér líður vel í baðinu en mig klæjar mest þegar ég kem uppúr því.

Mamma segir að það séu bara 5 vikur (ekki 6 einsog hún hélt) þangað til að við förum til Íslands. Við ætlum að fara í flugvélina og fljúga lengi, lengi og svo komum við til Íslands. Það verður sko rosalega gaman, ég ætla að fara aftur og sjá tröllið undir brúnni (sem ég sá í sumar þegar ég fór í Vaglaskóg með Bobbu ömmu og Steina afa (og mömmu reyndar)).

Jæja heyrumst seinna
Hrafnkell bólustrákur

Fjölskyldan mín

desktopmini

Mamma notaði hluta af þessari mynd sem facebook profile picture. Þarna má sjá pabba minn, mig í miðjunni og svo mamma. Ég og mamma eru græn en pabbi er brúnn. Pabbi er með mikið af fínum tönnum en mamma er með svona flott 2 löng hár. Ég var svo orðinn þreyttur þegar ég teiknaði mig.

Hrafnkell segir frá

Halló öll!hrafnkell_fastelavn

Mamma hefur ákveðið að hætta með barnalandssíðuna mína og ætlar í staðinn að hafa fréttir af mér hérna. Hún mun, hægt og rólega setja allar myndirnar af mér í albúmið mitt í gallerýinu svo að þær verða ennþá aðgengilegar – þar er líka hægt að skrifa komment. Ef ykkur vantar lykilorðið sendið mömmu minni bara email á eddaros@eddaros.com og spyrjið um það.

Það er margt búið að gerast, enda skrifaði mamma seinast í desember – sem er alveg á seinasta ári. Við komum heim, eftir langt ferðalag, í byrjun janúar. Það var bara alveg ágætt, eftir öll lætin um jólin, að komast í smá ró og næði hérna heima. Pabbi fór fljótlega aftur, hann þurfti að fara í vinnuna sína, langt upp í fjöllunum. Mér fannst nú eiginlega svolítið súrt að Þórný frænka mín fengi að hafa pabba minn hjá sér, einsog hún geti ekki bara notað sinn eiginn pabba.

Ég talaði oft við pabba í tölvunni hennar mömmu, þó það væri nú ekki alltaf eitthvað gáfulegt sem við töluðum um þá fífluðumst við svolítið saman.

Í janúar þá var ég ofsalega listarlítill, einsog seinni partinn í desember, mamma var eiginlega farin að hafa smá áhyggjur af þessu. En ég er farinn að borða aðeins meira núna, mamma ætlar svo að fara að vera duglegri að gefa mér fjölbreyttara nesti fyrst ég er farinn að vera duglegri að borða. Nefnilega þá var ég farinn að borða svo lítið að mamma var farin að gefa mér bara að borða það sem hún vissi að ég myndi borða. Ég er nefnilega svo grannur að það er ekkert gott fyrir mig að vera í einhverju aðhaldi.

Ég er líka búinn að vera óttarlegur lasarus. Ég var veikur í desember, í janúar var ég óttalega leiður og pirraður (og mamma hélt að það væri mest megnis vegna pabbaskorts) en svo í byrjun febrúar þá fékk ég heiftarlega eyrnabólgu. Daginn sem pabbi ætlaði að koma heim fór ég að kvarta undan verk í eyranu mínu. Það var svo vont að ég fór að gráta, mamma reyndi að laga það einsog hún gat og svo fór ég til læknis strax daginn eftir. Læknirinn sagði að ég væri með bakteríueyrnabólgu (bakteríu vegna þess að þetta var bara í einu eyra sagði hann) og ég fékk lyf. Mér fannst þetta lyf ekki sérstakt til að byrja með en í lokin fannst mér það svo gott að mér fannst hálf fúlt að klára það, vildi bara fá meira lyf. Svo í þessari viku þá fékk ég háan hita á þriðjudaginn og var samt orðinn fínn daginn eftir. Konurnar í leikskólanum segja samt að ég sé eitthvað slappur, svo að mamma sótti mig snemma í gær EN ég var samt bara hress og fínn þegar hún sótti mig svo að hún veit ekki alveg hvað þær voru að tala um.

Í dag er svo Fastelavn – það er reyndar ekki fyrr en á sunnudaginn en  við höldum uppá það í dag í leikskólanum. Þá fara allir í búningum í leikskólann og við sláum köttinn úr tunnunni, fáum fastalavnsboller  og fleira gott. Mamma heldur að þetta sé eiginlega bara bolludagur-sprengidagur-öskudagur í einni blöndu. Ég er galdrakall, með sítt hár, hatt og töfrasprota.

Ég tala mikið um Ísland, ég vil helst bara fara til Íslands sem fyrst. Kannski þarf ég bara að fá smá frí frá leikskólanum, veikindum ofl án þess þó að lenda í öllum skarkalanum og látunum sem voru í Noregi. Heima hjá ömmum mínum og öfum á Íslandi er svo rólegt, þar fæ ég líka alla athyglina einn (sem mér finnst ekkert hræðilegt sko). Í Hrísateignum er ég líka aðeins frjálsari en annars staðar. Þar er svo auðvelt að fara út í garð að leika sér þegar maður vill, þar er líka hægt að hjálpa afa að gera ýmislegt sem þarf að gera. Mig langar líka til að sjá litla barnið hennar Valdísar, sko litla strákinn sem hún er með í bambanum (svo til að koma í veg fyrir misskilning þá vitum við ekkert hvort þetta er strákur eða stelpa, nema að Hrafnkell VEIT að þetta er STRÁKUR ekki stelpa ;-) ). Mamma segir samt að það sé ekki hægt að gefa honum nammi fyrr en í fyrsta lagi eftir að hann kemur út úr mallakútnum hennar. Helst vildi ég bara að mamma fengi litla barn í mallakútinn sinn, en hún vill það ekki. Segir alltaf bara kannski seinna eða fer bara að tala um það hvað ég þarf að vera duglegur þegar ég hitti litla barnið hennar Valdísar. Það er sko margt sem ég vil gera þegar ég hitti hann, ég ætla að halda á honum, leika við hann, skipta um kúkableyjur (aha!) og hugga hann, finna mömmu hans fyrir hann og bara gera allt til að hann hafi það sem best. Ég verð nefnilega svo risalega stærri en hann. Mamma segir samt alltaf að þegar ég hitti litla barnið hennar Valdísar þá verði ég að passa mig rosalega vel og umfram allt að hlýða Valdísi.

En kveðjur í bili
Hrafnkell Myrkvi