Veikindi (nöldur og væl)

Október er búinn að vera mánuður veikinda hjá okkur mæðginum. Hrafnkell hefur tvisvar fengið skarlatssótt (sennilega var reyndar september þegar hann fékk hana fyrst) og í seinna skiptið leið svo langur tími áður en hann fór til læknis (ætla ekki að fara út í smáatriði – bara að segja að það var ekki mér að kenna) að hann þurfti að fara á extra sterkan og langan pensillín kúr – með tilheyrandi töflugleypingum. Það var ákveðinn þröskuldur sem við þurftum að komast yfir, en það hófst á fyrsta degi (reyndar seinasta skammti fyrsta dags en well…) og hefur gengið vel síðan þá. Listin að gleypa töflu kostar enn góðan undirbúning af beggja hálfu og það skiptir máli að gera allt “rétt”. En pillan hefur alltaf farið niður og við erum alltaf jafn glöð yfir því.

Hvað varðar mín veikindi… Það byrjaði allt fyrir rúmum 2 vikum með því að ég var þreytt, með strengi, en á leið á djammið. Þrátt fyrir þreytu, slen og almenna vanlíðan þá reif ég mig upp og dreif barnið í pössun og mig í partý. Það var greinilega ekki hið rétta múv þar sem að ég var komin heim kl 21, ælandi einsog múkki. Eyddi svo þeirri nótt mestu með hausinn ofan í klósetti eða fötu. Ég skildi lítið í því hversu illa áfengið hefði farið í mig fyrr en kvöldið eftir þegar ég fattaði að mér var illt í hálsinum, með beinverki og hita. Ég greindi sjálfa mig með streptókokka, hef fengið svoleiðis áður og þekkti einkennin, en það var mömmuhelgi, haustfrí og ég búin að lofa barninu að fara í Halloween-Tivoli. Svo að mánudagurinn fór í verkjatöflur, te og tivoli.

Hrafnkell fór svo til pabba síns á þriðjudeginum og ég gerði lítið annað þann daginn (þaes annað en að skila honum af mér og eiga bátt). Á miðvikudeginum leið mér aðeins betur, fór í ræktina (stúpid mí) og dó þar næstum því, og ákvað að ég væri örugglega að vinna á streptóinu sjálf. Fimmtudagur fór í hópavinnu, fór svo nánast beint á barinn að hitta Önnu og Guðný um kvöldið – hafði þó vit á því að drekka ekki mikið þó að mér liði ekkert svo skelfilega.

Föstudagsmorguninn leið mér herfilega, hefndist fyrir þriðjudaginn og sérstaklega fimmtudaginn – EN fór samt í mat til vinafólks míns sem býr í Frederikssund (langt í burtu) enda löngu búin að lofa mér í það. Helgin fór í að vera veik og svo kom Hrafnkell á sunnudagskvöldið. Hann var svo veikur mánudaginn, ég fór með honum til læknis og læknirinn staðfesti að ég væri búin að vinna á streptóinu sjálf og ekki væri þörf á sýklalyfjum fyrir mig. Þriðjudaginn var ég heima með Hrafnkel en í raun var hann bara að verða hress (pínu orkulaus eftir að vera veikur í svoldið langan tíma en samt bara einsog börn eru – óþolandi hress) en ég fékk flensuógeð, sem fylgdi stíflað nef, smá hiti, beinverkir osfr.

Fór í skólann á fimmtudegi, var samt mjög efins um þá ákvörðun mína, sé svosem ekki eftir því þar sem þetta var mjög “merkilegur” dagur í skólanum. En var algerlega búin á því eftir daginn. Föstudagsmorguninn leið mér herfilega svo að ég ákvað að vera heima, svaf allan daginn en leið ekkert mikið betur svosem eftir á. Dröslaði mér samt með barninu í halloween dýragarðinn um kvöldið – til að gera eitthvað með honum.

Svo fór loksins að birta til, laugardagurinn og sunnudagurinn voru eiginlega bara “yndislegir”. Þokan, sem hafði yfirtekið hausinn á mér, fór að létta og þrátt fyrir töluvert kvef þá var þetta ekki svo slæmt ennþá. Þar til í gærkveldi.

Um kvöldmatarleytið þá var ég bara algerlega lystarlaus. Af einhverri undarlegri ástæðu hafði ég bara engan áhuga á því að borða eitthvað. Ég gaf þó Hrafnkeli að borða og kom honum svo í rúmið. Smá seinna fékk ég heiftarlegan magaverk og hef átt ansi “góðar” setur á klósettinu síðan. Allt sem ég set upp í mig fer beint í gegn, með tilheyrandi verkjum og skruðningum. Svo að enn og aftur er ég heima…

En núna er ég búin að fá bakteríuvesen, veiruvesen, hita, hósta, nefrennsli, hálsbólgu, beinverki, slen (heilaþoku hehe), ælu og svo núna niðurgang á rúmum 2 vikum… Er þetta ekki bara komið gott?

Að fara í ræktina

Eftir töluvert miklar pælingar ákvað ég á mánudaginn að skella mér í að kaupa mér kort í ræktina. Það var hvort eð er tilboð á áskrift í fitness world – þar sem Anna vinkona mín er reglulegur gestur, fram að áramótum svo að þetta var ekki jafn dýr ákvörðun og hún hefði getað verið, einnig hafði ég nýlega náð að lækka linsukaupakosnað minn um ansi mikinn pening – sérstaklega fram að áramótum (sparnaðurinn á næsta ári mun vera ca. 56þús íkr) svo að ég ákvað að prufa.

Þar sem að ég er afskaplega lítil íþróttamanneskja, hef ekki áhuga á íþróttum annarra og fæ almennt séð afskaplega litla gleði af því að fara sjálf og dunda mér við þetta eitthvað, þá veit ég að það hentar mér best að fara í hópatíma. Að fara í tíma þar sem ég stend, í hóp af fólki, fyrir framan einhvern líkamsræktarnörd og geri bara nákvæmlega það sem mér er sagt hentar mér ágætlega. Ef ég ætla að standa í þessu ein þá verður klst fljótlega að 45 mín sem breytast svo í hálftíma osfr. þar til að ég fer ekki aftur í ræktina.

Mitt helsta vandamál núna er tími, ég hef tíma frá 8-16 á daginn til að gera það sem þarf að gera utan heimilis. Sumt get ég reyndar dregið Hrafnkel með mér, einsog að kaupa mat og eitthvað, en það færir hvorugu okkar mikla gleði þannig að ég reyni að haga mínu lífi þannig að skóli og annað gerist milli 8-16, milli 16-20 er ég að mammast, eftir kl 20 læri ég heima, slappa af og geri annað þess háttar. En með skipulagningu og rannsóknarvinnu virðist ætla að ganga upp að fara í ræktina milli þess sem ég fer í skólann, versla inn og græja og geri annað sem þarf – ég er nefnilega svo heppin að búa frekar miðsvæðis í KBH og komast því auðveldlega í þónokkuð margar stöðvar, einnig mun ég þurfa að ‘sætta’ mig við að fara í mjög fjölbreytta tíma því að það er ekki hvað sem er í boði hvenær sem er, núna er ég búin að fara í hatha yoga (fínt), latinmix (mjög gaman), thai bo (ekkert sérstakt, útvötnuð dansútgáfa af kickboxi – sem ég fílaði mun betur í gamla daga) og svo dansmix (best í heimi, vibbaerfitt og ótrúlega skemmtilegt).

En af hverju er ég að standa í þessu öllu? Jú mig langar til að létta mig, td. vegna pcos einkenna, einnig langar mig til að vera bara almennt séð heilbrigðari en þegar öllu er á botninn hvolft langar mig mest til að líta betur út. Og það angrar mig að vita þetta, það angrar mig að það skiptir mig meira máli að ná að líta betur út líkamlega heldur en tilhugsunin um að verða kannski heilbrigðari. Og af hverju langar mig að líta betur út? Því að þá er skemmtilegra að kaupa föt, þá er skemmtilegra að fara á djammið, því að þá á ég meiri líkur á því að fá góða vinnu (sorglegt en satt) og fá betri þjónustu í búðum.

Einnig hef ég aðeins verið að spá í því hvernig fólk (konur) tala við hvora aðra. Við erum ansi jákvæðar þegar vinkonur okkar ákveða að byrja í einhverri hreyfingu eða breyta mataræðinu til hins betra, við hvetjum hvor aðra áfram og erum duglegar að hrósa. En svo þegar kemur að því að einhver segir “ohhh, þetta er búinn að vera svo ömurlegur dagur – mig langar bara mest til að leggjast upp í sófa með stóra skál af nammi og slappa af, frekar en að fara í ræktina (einsog ég var búin að plana)” þá keppumst við um það hver er fljótust að segja “endilega, þú átt það skilið”. Við erum rosalega fljótar að ýta á hvor aðra að sleppa ræktinni og vera ‘góðar’ við sjálfar okkur, eins erum við fljótar að hvetja hvor aðra til að borða eitthvað fitandi/óholt – einmitt til að vera ‘góð’ við sjálfan sig.

Í morgun vaknaði ég nýbyrjuð á túr, með netta túrverki en rosalega verki í eggjastokkunum (pcos blöðrur) báðum. Ég fann fyrir hverjum andardrætti, hakkaði í mig verkjalyf og reyndi að gera allt til að hundsa þetta (þar á meðal ekki hreyfa mig því að hver miðsvæðis hreyfing gerir verkina verri). Hugsaði með sjálfri mér að ég gæti ekki farið í ræktina líðandi svona, en svo þegar ég ætlaði að ‘afmelda’ mig þá var það of seint, ef ég hefði ekki mætt þá hefði ég þurft að borga 30dkk sekt! Ég dreif mig á fætur og af stað í dansfit. Þetta er erfiðasti tími sem ég hef farið í, en jafnframt sá skemmtilegasti. Gaurinn sem var að kenna þetta virkaði á mig einsog hann ætti frekar að taka þátt í SYTYCD sem hip-hoppari, var enganvegin íþróttanördalegur. Við dönsuðum og dönsuðum og dönsuðum og ég hef aldrei svitnað svona mikið áður. Ég var að fatta alltíeinu núna (5 1/2 tíma seinna) að ég var með verki í eggjastokkunum því að þeir eru að koma aftur núna.