Afturför í íslensku barnaefni?

Ég var að ræða við son minn í bílferð nokkurri núna um jólin og hann tilkynnti mér að þó að hann elskaði Ísland mest (og Danmörk minna) þá væri danska sjónvarpsefnið miklu betra en það íslenska. Ég vildi að vitaskuld fá útskýringu á þessum yfirlýsingum hans og hann útskýrði þetta með því að segja að íslenskt barnaefni væri svo mikið á ensku en danskt væri allt á dönsku. Mín fyrsta hugsun var sú að ástæðan fyrir þessu væri sú að hann horfir svo mikið á cartoon network þegar hann er á Íslandi en í Danmörku horfir hann mest á DR1 eða DR Ramasjang (sem er ríkisbarnasjónvarpið, markhópurinn 4-12 ára, en aðalmarkhópurinn er 8-12 ára) þar er nánast allt barnaefnið talsett, líka það sem er ætlað eldri krökkum. Í danska ríkissjónvarpinu er líka mikið af “stundinni okkar” þáttum, og reyndar finnst mér dönsku þættirnir mun skárri en stundin okkar þar sem að þeir snúast meira um fullorðna einstaklinga sem haga sér einsog bjánar heldur en fullorðna einstaklinga sem að leika börn eða dýr og haga sér einsog bjánar.

En svo fór ég að hugsa meiri hlutinn af barnaefninu sem ég hef séð hérna á RÚV og Stöð 2 hefur verið ótalsett og barnaefnið sem er talsett er ætlað smábörnum. Ekki bara krökkum heldur smábörnum. Þá rifjaðist upp fyrir mér þegar talsetningarbyltingin var þegar ég var “lítil”. Ég nefnilega ólst upp við He-Man sem gargaði alltaf “Ískápur!” (I’ve got the power er mér sagt hann hafi verið að meina) og annar ótalsett barnaefni. Þegar ég var svo orðin stærri (en ekki of stór til að horfa á þetta), og Ragna var pons, var bylting og ég man vel eftir því að það var mikið mál gert úr því að núna væri Ísland að þróast til betri vegar og allt barnaefni var talsett. Þetta fannst mér náttúrulega ömurlegt, allar raddir voru vitlausar og allir töluðu með sömu röddinni. Það var sami maðurinn sem talaði fyrir alla vondu kallana osfr. Og hvaða máli skipti það þó að barnaefnið væri á ensku, ég var hvort eð er farin að lesa textana ágætlega bara!

Ragna hinsvegar ólst upp við íslensku raddirnar og hún talar um Folann minn litla þegar ég segi My Little Pony, hún segir Lafði Lokkaprúð meðan ég segi Lady Lovely Locks, kærleiksbirnirnir vs. Care bears osfr osfr.

Ég velti því fyrir mér hvað gerðist, því að þó að ég hafi verið eigingjörn og búin að læra að lesa þegar talsetningarbyltingin varð og ekki kunnað að meta þetta á þeim tíma þá finnst mér það vera veruleg afturför ef að það er nánast krafa að 5 ára börn annað hvort kunni ensku (btw. Þá er minn gaur ansi góður í ensku miðað við að hafa aldrei verið í ensku umhverfi og hann skilur of mikið til að maður geti td. Talað ensku til að hann skilji ekki – já eða hann misskilur of mikið hehe) eða séu nógu læs til að lesa textann. Mér finnst það líka mikil afturför ef það er ætlast til þess að 5 ára börn hafi bara áhuga á því að horfa á Dóru landkönnuð eða strumpana.

En ég get svosem huggað mig við það að á þeim 2 árum sem að munu amk líða áður en ég og sonur minn munum flytja til Íslands mun hann bæði vera búinn að læra meira í ensku og að lesa…