leiðangur í H&M

Í dag fór ég í Fisketorvet, ástæðan var aðalega sú að ég var orðin hálfbuxnalaus (ég segi hálf því að ég á alveg vel nothæfar “heimabuxur”) og svo voru snyrtivörurnar mínar af skornum skammti. Ég ákvað að byrja að buxunum, enda kannski mikilvægast að hafa eitthvað til að hylja á sér rassinn þegar maður hittir fólk.

Ég fór í gallabuxnahlutann af H&M og varð nett þunglynd þegar ég sá að flestar týpurnar voru annað hvort slim leg eða low waist og mig langaði í buxur sem væru amk normal waist (high waist hefði verið frábært, en að mér sýndist var það bara ekki í boði núna) og helst boot cut. Þar að auki voru auðvitað flestar buxurnar í einhverjum mjónustærðum og það hefur aldrei henntað mér sérstaklega vel. En ég fann einhverjar 2 buxur í stærðinni minni og tók, svona meira að gamni en alvöru, líka 2 buxur af næstu stærð fyrir neðan. Einnig tók ég með einn kjól sem mér fannst álitlegur – en hann var ekki heldur til í minni stærð svo að ég, aftur í hálfgerðu djóki, tók næstu stærð fyrir neðan.

Ég byrjaði á því að máta kjólinn, með til mikillar furðu og ánægju þá smellpassaði hann. Ég var bara nokkuð hot í honum þó að það væri samt greinilegt að ég myndi þurfa annað sett af nærfötum undir hann – fyrir utan þá staðreynd að nýr kjóll er svo sannarlega ekki á neinu budgetti. Það voru reyndar ekki nýjar buxur heldur en einsog ég segi þá var það annað hvort að kaupa nýjar buxur, ganga bara í pilsi eða vera bara á brókinni.

Well í nokkuð góðu skapi yfir því hvað kjóllinn var flottur fór ég í fyrstu buxurnar, í minni stærð, og þær voru of stórar. Tók næstu buxur í minni stærð og þær voru líka of stórar. Svo prufaði ég aðrar litlu buxurnar og þær pössuðu en voru bara fokk-ljótar og svo prufaði ég hinar litlu buxurnar og þær passa svona líka fínt :-D og ég þarf ekki að stytta þær um 3 km heldur bara ca. 1,5! Sem að þýðir að sniðið (hvar hné eru staðsett ofl í þeim dúr) er bara á næstum því réttum stað.

Þannig að ég held að ég geti barasta farið að breyta því hver “mín” stærð er í gallabuxum :-)

En já svo fór ég bara og fann mér restina af því sem mér vantaði og það var ekkert neitt extra ánægjulegt við það, nema jú að núna vantar mig ekki lengur þessa hluti…

Pönnukökur – úr gulu bókinni, mín útgáfa

Það eru ansi margir sem að slumpa bara þegar þeir hræra í pönnukökudeig, mér finnst það aðdáunarvert en ég er engu að síður manneskja sem get ekki slumpað í bakstri. Get það hugsanlega í eldamennsku en er samt almennt séð ekki mikil slump-manneskja. En þar sem að ég slumpa ekki í pönnukökubakstri þá þarf ég auðvitað að hafa uppskrift og þá er nú heppilegt að ég á bestu pönnukökuuppskrift í heimi (hef prufað eina aðra og þó að hún væri ágæt þá var hún ekki rétt hehe) og hérna kemur hún:

  • 2 1/2 dl hveiti
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • (1/2 msk sykur) ég sleppi sykrinum oftast þar sem að hann veldur því að það eru meiri líkur á því að pönnukökurnar festist við pönnuna ef maður notar sykur, einnig borða ég pönnukökur ansi oft bara upprúllaðar með sykri. Það er í alvörunni alger óþarfi að hafa sykur í deginu.
  • 2 egg
  • 4 dl mjólk (nýmjólk er best, þeim mun feitara sem degið er, þeim mun minni líkur á að kökurnar festist við pönnuna)
  • 1/2 tsk vanilludropar (ég reyndar nota oft aðeins meira, eða skipti þessu út fyrir vanillusykur þar sem að hann er miklu ódýrari hérna í baunaveldi)
  • 25 gr smjör (eða smjörlíki eða 2 msk matarolía, ég persónulega nota alltaf smjör. Já og bæði smjör og smjörlíki eru betri en olía, again vegna þess að það dregur úr líkunum á því að kökurnar festist við pönnuna, og einsog ykkur grunar sennilega núna þá þoli ég ekki þegar það gerist)

Settu smjörið á pönnuna og kveiktu undir, ekki setja samt á allra heitasta strauminn því að þá er hætt við að það brenni við og verði ógeðslegt.

Blandaðu saman öllum hráefnunum (nema smjörinu, obviously, þar sem að það er upptekið á pönnunni), það getur verið gott að sigta þurrefnin fyrst – það dregur úr líkunum á því að allt fari í kekki. Ef maður er svo óheppinn að allt fer í kekki þá er alltaf hægt að láta blönduna fara í eina ferð eða svo í gegnum sigti. En já setja allt saman í skál og blandað vel saman. Svo þegar allt er vel blandað saman og smjörið bráðnað þá er því hrært saman við.

Svo bakar maður pönnukökur úr deginu :-)