Að ljúga að börnum (íþróttaálfurinn)…

Í gær fórum við Hrafnkell á smá sýningu, við fórum að sjá íþróttaálfinn og Sollu stirðu. Barnið var, skiljanlega, mjög spennt yfir þessu öllu saman. Íþróttaálfurinn er náttúrulega kúl og Solla stirða er jafnvel ennþá meira töff. Á leiðinni var mikil eftirvænting, það var erfitt að sitja kjurr í strætónum osfr.

Þegar við mættum svo á svæðið vorum við með þeim fyrstu. Það kom svosem ekkert á óvart þar sem að ég HATA að vera sein og þegar ég er við stjórn þá er sjaldgæft að ég og mínir séu seinir (og ég þoli ekki að þurfa að reiða mig á aðra einstaklinga sem eru síðan seinir osfr osfr). Við náðum góðum sætum, ég í fremstu röð og Hrafnkell beint fyrir framan sviðið.

Svo fór þetta aðeins að versna, salurinn fyltist fljótlega af dónalegum og háværum íslendingum. Þvílík læti, á tímabili var ég við það að fara bara að grenja og hlaupa út. Ég þoli ekki svona mikil læti og ég skil heldur ekki af hverju foreldrar sem sitja aftarlega geta ekki bara staðið upp og labbað til barnanna sinna til að að tala við þau. Það var endalaust verið að kalla “Siggi minn komdu úr úlpunni þinni” og “Gunna mín sittu kjurr” þvert og endilangt yfir salinn (og svo reyndar þegar sýningin byrjaði þá virtist fólki vera alveg sama þó að englarnir þeirra væru að troða sér upp á sviðið og svoleiðis, ég bara skil ekki af hverju fólk hefur ekki hemil á börnunum sínum). Svo lennti Hrafnkell líka í því að það kom einhver stór og leiðinlegur strákur og hreinlega bolaði honum í burtu. Ég sá hvað gerðist og fór og hreinlega hundskammaði strákinn (ég hafði smá áhyggjur eftir á af því að það kæmi eitthvað foreldri til mín í kjölfarið til að skamma mig fyrir að skamma “engilinn” sinn – en engu að síður það á enginn að komast upp með að láta svona). En auðvitað vildi Hrafnkell ekki lengur sitja þarna og þá upphófst smá tímabil þar sem að hann virtist ekki geta fundið sér stað sem hann var sáttur við. Sem betur fer komum við, að lokum, auga á fleiri Solbakken krakka og hann fór og fékk að vera hjá þeim.

Sýningin sjálf var ágæt að mestu leyti, kannski ekki alveg peninganna virði að mínu mati en what ever. Það kom þó aðeins á óvart að í staðinn fyrir að sjá Magga Schev þá var þarna mun yngri og meira aðlaðandi íþróttaálfur að verki. Hann var reyndar alveg frábær, kunni rútínuna sína greinilega mjög vel, náði vel til krakkanna og var í raun svona gaur sem ég myndi vilja hafa til að stjórna pallatímum í ræktinni (eða einhverjum svona hópatímum). Solla fannst mér ekki jafn góð, en samt alltílagi.

Hrafnkell var í skýjunum, þetta var æði. En svo kom að því að sýningin var búin og börnin gátu fengið að hitta íþróttaálfinn og Sollu og fengið myndir af sér með þeim. Hrafnkell stóð í röð og hitti fyrst íþróttaálfinn, það var ok, svo fór hann í röðina til að hitta Sollu og meðan hann stóð þar í röðinni fór hann greinilega að hugsa. Hann hugsaði, pældi, spáði og spögleraði og komst að hræðilegri niðurstöðu. Þegar hann kom svo alveg að Sollu og sá hana up-close-and-personal þá voru vonbrigðin alger og hann vildi bara komast í burtu. Þetta var allt ömurlegt.

Hann vildi svosem ekki ræða mikið við mig hvað hann hafði verið að pæla, hann var bara ósáttur við þetta allt. En í morgun þá sagði hann mér að hann væri reiður því að þessi maður þarna hefði sko ekki verið íþróttaálfurinn, hann hafði sko alveg séð hvernig skeggið var bara límt á OG hann hafði sko líka séð að Solla var með BRÚNT hár undir bleika hárinu svo að þetta fólk var bara að ljúga og það var sko ekki til neinn íþróttaálfur eða latibær eða Solla stirða. Þetta var bara allt eitt stórt samsæri.

Þegar hér er komið við sögu ætti ég kannski að minnast á það að hingað til hef ég almennt séð leyft honum að velja hverju hann trúir og hverju ekki, ég segi honum “staðreyndirnar” og leyfi honum að ákveða hvað er raunhæft og hvað ekki. Hann trúir ekki á Guð, honum finnst ekki vera miklar líkur á því að einhver sé allsstaðar og heyri allt og sjái allt. Honum finnst líka frekar asnalegt að vera að biðja til einhvers Guðs sem að gerir svo ekki það sem að maður segir honum nema það þóknist honum (guðinum sko). Hann trúir á jólasveinana og Grýlu, enda koma þeir með drasl í skóinn og svoleiðis þannig að það er nú varla hægt að trúa ekki. Og hvað varðar aðrar lífsins staðreyndir þá reyni ég að vera nokkuð nálægt sannleikanum, ég reyni þó að hafa sannleikann í bútum sem að barn myndi skilja. Hann veit td. hvernig börnin verða til og hvernig þau koma út aftur. Hann er byrjaður að sætta sig við þróunarkenninguna, þaes. að fólk sé komið af öpum en það tók smá rökræður og hann veit nokkurnvegin hvernig líkaminn fúnkerar osfr. osfr. Ég reyni semsagt að segja honum bara einsog er, með flest.

En í morgun var lífið ömurlegt. Íþróttaálfurinn var bara einhver fóní asni og þetta hafði verið ógeðslega leiðinlegt allt saman. Svo að ég braut odd á oflæti mínu. Ég spurði Hrafnkel hvort að það væri ekki séns að íþróttaálfurinn og Solla stirða hefðu bara svo mikið að gera að þau hefðu fengið einhverja til að koma og þykjast vera þau, til að gleðja krakkana í Kaupmannahöfn. Einsog að um jólin þá fá jólasveinarnir oft menn til að þykjast vera jólasveinar því að þeir þurfa að vera á svo mörgum stöðum í einu og það væri stundum bara alveg ómögulegt.

Hann hugsaði þetta aðeins og komst að þeirri niðurstöðu að sennilega væri þetta bara þannig, hann varð kátur aftur og ánægður með íþróttaálfinn.

Hrafnkell og (fake) íþróttaálfurinn