Kjúklingabaunasnakk (ala. Simbad á er.is)

  • Kjúklingabaunir (annað hvort úr dós eða þá þurrar sem þurfa þá að hafa legið í bleyti í amk hálfan sólarhring)
  • salt
  • krydd
  • Ólívuolía

Kjúklingabaunirnar (miðað við eina dós)  eru settar í poka með ca. 1tsk krydd (karrý, paprika, laukduft, hvítlauksduft, eða whatever) 1tsk salt (ég notaði maldon saltflögur sem ég muldi aðeins fyrst) og 1/2msk ólívuolíu (því að hún er hollari fita en venjuleg) og svo er allt hrisst vel saman. Þessu er svo jafnað á plötu og bakað í ca 20 mín (passið ykkur að fylgjast með því að þær brenni ekki við, þær eiga að verða svona vel tanaðar) við 220°c á blæstri.

Þetta er síðan bara borðað sem snakk, er kannski ekki eins gott og doritos eða þykkvabæjareitthvað EN er samt nokkuð gott :-)

Kolvetni eru ekki það sama og kolvetni

Undanfarna daga hef ég verið dugleg við að lesa mér til um hinn nýja lífsstíl sem ég á víst að koma mér upp (ég hef meira að segja reynt að fylgja þessu líka, svona aðeins). Þar sem að pcos er efnaskiptavandamál – fyrst og fremst (það er grunnvandamálið, hin vandamálin hlaðast svo ofan á það) – sem að dílar við það hvernig líkaminn vinnur úr kolvetnum og leiðir oft á tíðum til þess að viðkomandi fái sykursýki 2 þá þarf ég eiginlega, þrátt fyrir að vera ekki með sykursýki (ennþá), að hugsa einsog ég sé með sykursýki. Ég þarf líka að léttast, en með því að breyta kolvetnainntöku minni þá ætti ég að ná að breyta því hvernig líkaminn bregst við þeim (fá hann til að hætta að senda endalaus “ég er svo svangur” og “mig vantar meiri sykur” skilaboð til heilans og actually nota þau kolvetni sem eru étin) og það ætti svo að leiða til þess að ég gæti hugsanlega grennst.

En þar sem að líkaminn þarf að fá kolvetni, ráðlagður dagsskammtur breytist ekkert þó að maður þoli ekki að éta viðkomandi efni. Líkaminn myndi ekki bregðast vel við því ef maður hætti bara að borða kolvetni en hann er að bregðast illa við því að maður borði kolvetni… hmmm þetta virðist vera hálfgerð klemma.

Sem betur fer er kolvetni ekki það sama og kolvetni, sum kolvetni troðast inn í blóðið á methraða svo að maður kemst í smá sugar-high og hrynur svo niður aftur (og í mínu tilfelli verður svengri og langar í meiri sykur en nokkurntíman fyrr) en önnur kolvetni sogast bara aðeins út í blóðið í maganum og svo pínu meira í þörmunum osfr. þau eru svona langtíma-fix. Maður kemst ekki jafn hátt en maður nýtur þess lengur. Það eru þau kolvetni sem að ég á að borða. Það sem að ég á að leita eftir eru semsagt matvörur sem eru með lágt GI (Glycemic Index) því að því lægra sem það er þeim mun lengri tíma er líkaminn að vinna úr kolvetnunum. Því miður er þetta GI ekki skrifað utan á umbúðir, amk ekki hér, þó mér skiljist að það sé farið að vera algengara og algengara í BNA að þetta sé skráð. Einnig getur fæða verið með mjög lágt GI en samt verið með mikið af kaloríum, þar sem að við fáum víst kaloríur úr fleiru en bara kolvetnum.

Síðan ég byrjaði að lesa um þetta þá hef ég séð óteljandi uppskriftir af einhverju jukki sem er alls ekki spennandi – jebb það virðist vera að öll bragðgóðu kolvetnin séu þau sem að eru með hátt GI og þess vegna ætla ég að reyna að safna saman einhverjum uppskriftum hérna (lofa engu samt) sem eru bragðgóðar, helst lágar í kaloríum (en háar í vítamínum, steinefnum og svoleiðis drasli) og með meðal eða lágt GI.

fluga í hausnum….

Undanfarnar vikur hef ég mikið hugsað um framtíðina, skiljanlega myndi ég segja þar sem að framtíð minni var kollvarpað í byrjun desember. Ég hef sveiflast öfganna á milli, svona já eða þannig. Fyrst vildi ég bara komast heim til Íslands sem fyrst, ég vildi reyna bara að komast í praktík heima – helst á Akureyri – og umvefja mig öllu því frábæra fólki sem ég á (og ég á sko heilan helvítis helling af frábæru fólki, það er sko alveg pottþétt).

Núna er ég tvístígandi, mig langar heim – þar er fólkið mitt, þar hef ég öryggisnetið mitt, þar hef ég barnapössun sem ég get treyst á (og þar af leiðandi hugsanlega tækifæri til að eiga mér líf utan skóla og heimilis), þar hef ég býsna margt. Fyrir utan að þar hefur Hrafnkell ömmur sínar og afa, þar fær hann betra tækifæri til að læra íslenskuna betur (en að sama skapi væri hætta á að hann tapaði niður dönskunni og það væri alger synd).

En ég veit að ef ég flyt heim strax eftir námið hérna þá verður ekki hlaupið að því að fara aftur út í nám seinna meir. Ég get ekki rifið Hrafnkel upp og farið með hann heim til Íslands bara til að rífa hann upp þar og flytja aftur hingað (eða eitthvað annað) þegar það henntar mér. Einnig er alls ekki gáfulegt (að mínu mati) að vera “jójó-skólast” – það er ekki einsog ég hafi kall til að búa til vísitölufjölskyldu með mér heima á Íslandi og það væri heldur ekkert auðveldara að flytja þá fjölskyldu út aftur og ekki er neitt nám í boði á Íslandi sem að henntar mér (einsog stendur amk).

Þar fyrir utan þá má ég ekki flytja með Hrafnkel einsog mér sýnist meðan við Þórður erum með sameiginlegt forræði. Eins heimskulegt og það er þá má Þórður flytja til Japans þess vegna en ég má ekki flytja á milli landa með barnið hans án þess að fá leyfi frá honum. Þó að ég voni auðvitað að Þórður muni ekki vera með nein leiðindi þá veit maður aldrei fyrr en á reynir.

Svo að ég er farin að spá í að fara í master (heitir reyndar kandidat) hérna, eftir bachelorinn. Það yrðu 2 ár í viðbót, sem þýddi að þegar því lyki þá hefðum við Hrafnkell verið í 5 ár í Danmörku – hann myndi vera 2 ár í dönskum grunnskóla og í raun vera orðinn býsna fullorðinn þegar við gætum flutt aftur. Það er að mörgu að hyggja, ég þarf að fara á dönskunámskeið fyrst (sem ég er reyndar að spá í að gera hvort eð er, amk ef ég finn tímasetningar sem að ég get nýtt mér) og einnig þarf ég að athuga hvort að ég myndi geta haldið íbúðinni ef að ég útskrifast hérna í janúar en byrja svo ekki aftur í skóla fyrr en í ágúst – eða hvort að það sé hægt að byrja í þessu námi strax að loknum bachelornum. Mér finnst þetta nám, sem ég hef verið að skoða, mjög spennandi og það er gaman að skoða hvaða möguleika maður hefur. En engu að síður finnst mér samt eilítið hræðileg tilhugsun að vera hérna 2 árum lengur – sérstaklega þar sem mér finnst ég afskaplega ein eitthvað (ekki misskilja, ég á góða vini hérna líka en engu að síður finnst mér öryggisnetið mitt mjög þunnt).

En já það getur verið gaman að fá flugu í höfuðið ;-)

pcos – fjölblöðrueggjastokka heilkenni

Ég fór loksins að hitta kvennsjúkdómalækni, hitti ósköp indælan eldri mann, eftir 2,5 mánaða bið. Við byrjuðum á að ræða söguna mína, getnaðarvarnir og svo hvernig Hrafnkell kom til osfr. síðan skoðaði hann eggjastokkana mína. Þeir voru, eiginlega einsog við mátti búast, dæmigerðir fyrir konu með pcos og þar með uppfylli ég 2 (af 3) af þeim skilyrðum sem eru fyrir  pcos. Ég er bæði með töluvert of hátt magn karlhormóna (sem eiginlega þýðir að ég er tifandi hormónasprengja þar sem að líkamsvöxtur minn og frjósemi (stundaglas en ekki epli einsog flestar pcos konur eru) bendir til að ég sé líka með hátt magn kvennhormóna í gangi) og svo þessar fínu blöðrur.

Þar sem að ég hef ekki góða reynslu af þeim getnaðarvarnarpillum sem oftast eru notaðar til að sporna gegn karlhormónunum (amk hjá konum sem eru ekki að reyna að eignast börn) þá vildi læknirinn ekki setja mig á þær, amk ekki strax. Í staðinn þarf ég að fara í fleiri blóðprufur (ætla að reyna að komast á miðvikudag – annars þarf ég að bíða í mánuð þar sem ég verð að fara fyrstu 5 daga tíðarhringsins) og ef þær benda til þess að innyflin mín þoli sykursýkislyf þá mun ég fá þau. Sykursýkislyfin ættu nefnilega að koma jafnvægi á insúlínið (hluti af pcos er að maður fær insúlínónæmi, sem þýðir að líkaminn framleiðir insúlín og setur það í blóðið en vöðvarnir taka það ekki upp þannig að það er bara alltof mikið af insúlíni fljótandi þarna um) og það ætti að draga úr sykurlöngun og bæta orkuleysið (letina) sem hrjáir mig. Þetta aukna insúlín veldur því síðan að ég framleiði enn meira af karlhormónum svo að það er eiginlega vítahringur sem er þar í gangi.

Þar fyrir utan þarf ég að læra að borða upp á nýtt – kolvetni eru víst eitur fyrir mig svo að ég þarf að endurhugsa mataræðið töluvert held ég (sem er gott mál, það hefur ekki verið beint gáfulegt undanfarið). Og þar fyrir utan sagði læknirinn að ég ætti að fara í spinning (sem ég mun reyndar ekki gera, ökklarnir mínir þola ekki spinning) eða eitthvað álíka amk 3x í viku.

En þrátt fyrir að það sé ekkert æði að vera með pcos þá er gott að vita það. Það er gott að vita að ég er ekki bara svona ógeðslega loðin og bólótt bara afþví bara, að vita að ég er ekki bara alltaf svona löt heldur sé það hluti af pcos-inu, að vita að það á ekki að vera svona erfitt að grennast heldur sé það sérstaklega erfitt vegna þess hvernig efnaskiptin hjá mér eru. Og ég virðist líka vera ein af þeim heppnu sem er með pcos, ég fer á túr – mjög reglulega meira að segja, ég fæ egglos og Hrafnkell sannar að ég ætti að geta eignast börn.

Af þeim konum sem fá hjálp vegna frjósemisvandamála eru 90-95% þeirra með pcos! Þó svo að það þýði ekki að konur með pcos eigi við frjósemisvandamál að stríða þá fylgist þetta mjög að. Þar sem að blöðrurnar geta verið merki um að eggi þroskist ekki nóg til að geta frjóvgast (og stundum sleppir eggjastokkurinn þeim ekki einu sinni).

Það er hægt að lesa meira um pcos á doktor.is

Ein heima

Jæja Þórður og Frida (stjúpan hans Hrafnkels) komu og sóttu strákinn minn áðan. Á leiðinni niður sagði Hrafnkell “en mamma þú verður alein heima, þú mátt ekki sakna mín of mikið – ég kem bráðum aftur til þín” svo að ég ætla að reyna að hemja mig, Hrafnkell kemur sko í kvöld ;-)

En til að drepa tímann ákvað ég að versla í matinn og baka svo vatnsdeigsbollur – og við erum að tala um að þær eru FULLKOMNAR svo að núna ætla ég að verða stór og feit – nammi namm!

Upp er runninn fastelavn….

Og það er ekki venjulegt öskudagsveður hérna, það er heiðskýrt, sól og viðbjóðslegur kuldi. Hérna var fyrst vaknaði klukkan 4, ég náði þó að sannfæra barnið að það væri svo sannarlega ekki kominn dagur, næst var vaknað klukkan 7 – sem er töluvert nær því að vera dagur. Þar sem að ég nennti þó ekki alveg á fætur þarna á slaginu 7 þá fór sonurinn og klæddi sig sjálfur, kom svo við og við í rúmið til mömmu sinnar til að fá samþykki – og þurfti nokkrum sinnum að fara og skipta. Við vorum ekki sammála um það hvað passaði best undir búninginn. Svo tókst nú loksins að fá mig á fætur, hann fékk morgunmat og síðan var kominn tími á að fara í get-öpp-ið.

Þvílík hamingja, það var dansað og sungið (“na na na nananana once upon a dream… na na nananana NA nanananananan once upon a dream”) á meðan kjóllinn var græjaður, hárkollan sótt og kórónunni komið fyrir. Útkoman var alveg óendanlega sæt og hamingjusöm Þyrnirós, sem að meira að segja leyfði smá myndatöku :-D

Gott og vont

Lífið heldur áfram, skólinn er byrjaður aftur og það heldur bara áfram að vera snjór og kallt. Það er margt til að vera spenntur yfir, ég hlakka til að fara til Íslands um páskana, ég fékk borgaðar aukabarnabæturnar þó að Þórður hafi gengi seint frá sínum málum, ég er spennt yfir því að græja íbúðina eftir mínu höfði, mér er boðið í partý eftir rúma viku osfr. Það er margt gott í gangi núna.

En svo á móti kemur leiðinlega stöffið. Það virðist engum hafa dottið í hug að fólk gæti verið skráð saman í sambúð á Íslandi, flutt út og síðan hætt saman erlendis – þannig að því fylgir leiðindar skriffinska – sem ég er að vinna mig hægt í gegnum. Lín virðist ætla að taka heila eilífð í að vinna úr láninu mínu og var ekki búið að borga út seinast þegar ég athugaði (í gær) og á meðan styrkist íslenska krónan og styrkist og ég gæti þess vegna endað í mínus. Og þar af leiðandi get ég hvorki borgað mömmu og pabba fyrir flugið heim né keypt nýja tölvu – og svo er tölvan sem ég ætlaði að kaupa orðin uppseld að mér sýnist (var nóg til af henni fyrir hálfum mánuði) og ég nenni ekki að leggjast aftur í rannsóknarvinnu og reyna að finna aðra góða (fyrir þolanlegt verð). Einnig lennti Þórður í einhverju íbúðarsvindli og tapaði fullt af peningum og stendur uppi með enga íbúð – sem er bæði leiðinlegt fyrir hann og ef ég horfi á málið á einstaklega sjálfselskan hátt (sem reyndar skiptir ekki öllu máli, mér finnst þetta líka ömurlegt hans vegna) þá hefur það þau áhrif að hugsanlega á hann erfiðara með að taka Hrafnkel (einsog td. þegar partýið er í næstu viku) en er ég þó búin að bjóða honum að vera hérna með strákinn því að ég á góða vini sem ég get fengið að vera hjá á meðan, og einnig að þá er örugglega lengra í að hann geti tekið draslið sitt og satt best að segja þá get ég ekki beðið eftir því þegar hann loksins tekur þetta.

Þar fyrir utan er ég að prjóna lopapeysu, sem ég vona að stækki í þvotti því að þrátt fyrir prjónfestuprufur og alles þá virðist hún vera frekar lítil – en hún verður gjöðveikt flott.

Ein mynd á við þúsund orð :-)

this too shall pass…?

Gærdagurinn var ekki alveg yndislegur. Tíminn sem átti að vera fyrir hádegi hafði allt í einu verið færður og settur eftir hádegi – sem er mun óhenntugra fyrir mig en jæja ég fór í skólann.

Kennarinn virðist vera algert fífl, ég get eiginlega ekki orðað það öðruvísi. Hann er sannfærður um að hann viti best og það skiptir engu hvaða rök eru færð á móti hann hlustar ekki. Hann td. hélt því fram að 4 ára börn gætu ekki lært að fara vel með dót, það væri í eðli þeirra að henda öllu til og frá, labba á því osfr. Ég hélt því fram að það væri kjaftæði og ef að 4 ára börn höguðu sér svoleiðis þá væri það foreldra-/uppeldisvandamál og ekkert annað.  Anyway þá er náttúrulega æðislegt að byrja önnina á því að rífast við kennarafíflið – en svo leið tíminn og hann talaði og talaði og talaði og svo af rælni kíkti ég á úrið mitt….

Málið er að til að komast heim nógu snemma til að sækja Hrafnkel áður en leikskólinn lokar þá þarf ég að leggja af stað úr skólanum í seinasta lagi nákvæmlega þegar tíminn á að vera búinn  - kl 15:45. Þegar ég leit á klukkuna var hún nákvæmlega 16:00 svo að ég greip saman dótið mitt (eða svona stærstan hlutann af því) og hljóp (bókstaflega) út að strætóstöð.

Þar tók við að bíða eftir strætó, sem var seinn – ekki mjög seinn en nógu seinn til að stressa mig enn meira. Svo þegar strætóinn stoppið við lestarstöðina hljóp ég að réttum lestarpalli – og þurfti þar að bíða eftir lestinni.

Svo í lestinni hringdi ég í leikskólann til að segja þeim að ég væri að koma eins hratt og ég gæti.  Þegar ég kom svo (hlaupandi frá lestarstöðinni)  í leikskólann þá var klukkan 3 mín í 5 (leikskólinn lokar kl 5) .

Í dag var ég viss um að dagurinn yrði betri en í gær. Ég fann líka þetta fallega bréf í póstkassanum um að ég fengi þrátt fyrir allt aukabarnabæturnar borgaðar í næstu viku – jey! Ég ætlaði að fara á bílnum í skólann því að ég er ekki með neinn pening (bókstaflega) á mér til að borga í lestarnar en þegar ég kom að bílnum þá hafði einhver lagt brjálæðislega nálægt bílnum og þar sem að það er snjór þá þurfti ég að hjakka út úr stæðinu. Ég gat ekki reynt að hjakka neitt með þennan bíl alveg upp við minn.

Svo að ég ákvað að fara bara inn aftur, segja fokkit með skólann í dag og fjandinn hafi það á morgun verður góður dagur :-)