Vondur draumur

Í gærkveldi fór ég aðeins seint að sofa, því einsog svo mörg önnur kvöld fékk ég ægilegt hugstrump rétt þegar ég var að búa mig í rúmið og bara varð að græja og gera aðeins áður en ég færi að sofa. Klukkan var því 1:17 þegar ég fór upp í rúm, þar sem ég var þreytt þá las ég eiginlega ekkert og var því klukkan 1:20 þegar ég slökkti ljósið og ákvað að fara að sofa.

Það tók mig smá stund að sofna, mér fannst mér vera óþægilega heitt og ég var með fótapirring. Þannig að ég bylti mér svolítið en það gékk svosem ekki svo langt að ég myndi segja að ég hafi verið andvaka. En þar sem ég ligg þarna og er að reyna að sofna þá opnast hurðin á herberginu mínu og það kemur inn maður – ég sest beint upp (reisi mig upp án þess að nota hendur – skemmtilegt trikk sem ég gæti aldrei gert ef ég væri með fullri meðvitund en þó hef ég amk einu sinni gert þetta áður) og sé að hann er rosalega hávaxinn. En þar sem að það er myrkur í herberginu sé ég bara skuggamynd af honum – engin smáatriði nema að hann er rosalega hávaxinn og ég öskra “get out, get out, get out”… og þannig vaknaði ég, við öskrin í sjálfri mér.

Þar sem að ég hafði ekki einu sinni náð að meðtaka það að ég væri sofnuð tók það smá tíma að meðtaka það að ég væri vöknuð aftur, hjartað barðist um í brjósti mér meðan ég sat í rúminu og starði í átt að “manninum” og reyndi að átta mig á því hvort að hann væri þarna eða ekki. Ég held að ég hafi í raun varla áttað mig á því að þetta var í alvörunni bara draumur fyrr en ég heyrði mjóróma rödd sem sagði “mamma, ég er ennþá alveg rosalega þreyttur” koma úr barnarúminu. Þegar ég hafði sannfært Hrafnkel um að hann mætti sofa meira og sjálfa mig um að ég hefði ekki hrætt líftóruna úr honum þá leit ég aftur á klukkuna og hún var 1:41.

Shit hvað þetta var óþægilegt, ég er ekki að grínast ég drapst næstum úr hræðslu og mér finnst ég ennþá vera í smá adrenalínsjokki. Þó átti ég, sem betur fer, ekkert erfitt með að sofna aftur og svaf ágætlega restina af nóttunni.

Hlutirnir farnir að skýrast meira

Við Þórður teljum okkur vera nokkurnvegin búin að skipta draslinu okkar upp, næsta skref verða svo bílarnir og skuldir. En ég semsagt losaði mig við meira af dótinu í stofunni – það sem að verður eftir verður tölvuborðið mitt (sem er reyndar í svefnherberginu einsogstendur), tölvustóllinn, lítill billy skápur og svo eitthvað dót sem Hrafnkell á… Frekar tómlegt kannski hehe.

Þannig að ég þarf að finna einhverja sófalausn og svo vantar mig góða hugmynd fyrir það hvað ég á að gera við bækurnar mínar, ekki það að núna verður nóg af skápaplássi sko en ég vil hafa bækur uppi við – nenni ekki að þurfa að gramsa inni í skáp til að sjá hvaða bækur ég á. Ég er að spá í að kíkja á einn loppemarked um helgina, aðalega til að skoða (draslið hans Dodda er náttúrulega ennþá hérna) og sjá svona hvort að það sé eitthvað sniðugt þarna.

Einnig hef ég mjög verið að velta  grjónapoka hugmyndinni hennar Valdísar fyrir mér, er alveg sannfærð um að það gæti verið mjög kósý ef að það sé vel gert og vel úthugsað. Það er bara svo erfitt að úthugsa þetta þegar maður hefur ekki fyllinguna og ég tími ekki að kaupa fyllingu fyrr en ég er alveg viss um það hvað ég er að gera. Ég er að hugsa um að græja grjónasófa en ég veit ekki hvort að ég ætti að gera stóran kodda (einsog fatboy) er og setja það svo þannig upp við vegginn að það sé nokkurnskonar sófi, eða hvort að maður ætti að gera kassa (semsagt kodda sem er með hliðar) og reyna að leggja það svo að það sé sófi, eða hvort að maður eigi að sníða áklæðið í L og þá hvort að bak og seta eigi að vera eitt stykki eða 2 stykki – eða hvort að þetta sé bara glötuð hugmynd yfirleitt.

Annars var ég að ræða við son minn um daginn og ég sagði honum að pabbi hans ætlaði að taka sófann okkar þegar hann kæmi aftur til Danmerkur og strákurinn var alveg sáttur við það, sá ekkert vandamál. Svo sagði ég honum að pabbi hans ætlaði að taka sjónvarpið og þá var HM ekki jafn sáttur, hann missti reyndar ekki stjórn á skapi sínu en hann reyndi eftir fremsta megni að benda mér á það að við þyrftum að eiga sjónvarp og að pabbi hans gæti bara fundið eitthvað annað sjónvarp því að við þyrftum að nota okkar sjónvarp. Honum leist ekkert á þá hugmynd mína að eiga ekkert sjónvarp – en reyndar er það kannski þetta ástfóstur hans við sjónvarpið sem veldur því að ég vildi alls ekki fá sjónvarpið og er mjög sátt við að Doddi taki það.

Annars er ég bara núna að dunda mér við að fara í gegnum allt draslið okkar, skipta í mitt – hans – Hrafnkell (sumt dót sem hann fær seinna bara einsog myndir af okkur Dodda saman osfr) og síðan óákveðið. Þar af leiðandi er heimilið í smá upplausn, pokar og drasl alls staðar en þetta verður þess virði þegar uppi er staðið. Ég vil nefnilega helst að þegar þar að kemur (sem er vonandi frekar fyrr en seinna – þó að ég átti mig alveg á því að Þórður verður að hafa einhvern stað til að setja draslið sitt á áður en hann tekur það) geti hann bara komið með fluttningaliðið sitt og gengið að öllu vísu. Já og einnig hef ég verið að dunda mér við að reyna að ákveða hvað ég ætla að kaupa mér þegar lín kemur, fyrst og fremst ætla ég að fá mér nýja og ábyrga tölvu (voða fín asus tölva sem ég hef í huga) og svo ætla ég að splæsa í nýja og meðfærilegri myndavél (og svo ætla ég líka að kaupa mér ný nærföt og…. og… og….)

Og svo það sem “mestu” máli skiptir er að þegar Doddi verður loksins kominn með húsnæði og það verða loksins komnar pabbahelgar þá ætla ég að halda feitt partý hérna ;-) og ég get varla beðið eftir að það komist einhverjar dagsetningar á pabbahelgarnar svo að ég geti byrjað að skipuleggja það ;-)

*geisp*

Ég er búin að koma mér í smá vítahring. Ég vakna ógeðslega þreytt og úldin á morgnanna, kem syni mínum í leikskólann og svo annað hvort hef ég lagt mig en oftar (því að ég er svo þrjósk að ég vil ekki leggja mig á daginn) þá kem ég mér fyrir og horfi á eitthvað og jafnvel prjóna með (því að þá er þetta ekki alger leti sko). Svo líður dagurinn og mest lítið gerist (þarf svo mikið að prjóna sjáiði til), svo sæki ég Hrafnkel – er svona þokkaleg mamma þar til að hann þarf að fara að sofa, rembist við að sofna ekki við lesturinn og fer svo fram. Það sem gerist síðan frá 8-11 er að ég hressist við, verð full af orku og framkvæmdagleði. En þó, af tillitssemi við nágrannana, hef ég hemil á mér og fer yfirleitt í mesta lagi í smávægilegar framkvæmdir (einsog að vaska upp eða ganga frá einhverju) og svo fer ég í rúmið. Þegar þangað er komið er ég glaðvakandi og hress, svo að ég fer að lesa. Svo les ég og les og les þar til að ég hef ekki samvisku til að lesa meira, þá legg ég frá mér bókina og fer að hugsa. Eftir einhvern pirring yfir öllu þessu hugsi sofna ég svo allt of seint.

Í morgun kom það svo fyrir að við sváfum yfir okkur. Barnið svaf og ég virðist hafa bara slökkt á vekjaranum, þó ég muni svosem ekki eftir framkvæmdinni. Ég rumskaði þó kl 20 mín í 10 og fékk vægt taugaáfall – það er nefnilega mælst til þess að börn séu komin fyrir klukkan 9 á leikskólann. Úps… Þannig að ég rauk á fætur, dró barnið á fætur – klæddi það úr og í og rauk svo inn í eldhús til að græja nesti meðan barnið skreið undir mömmu sæng og sagði “ég er þreyttur, ég vil sofa meira, það er ekki kominn dagur”
Eftir smá þref tókst mér að sannfæra hann um að fara á fætur, það væri víst kominn dagur og allir væru farnir að sakna hans í leikskólanum – það sem setti punktinn yfir i-ið var loforð um kökusneið í morgunmat :-s En engu að síður tókst mér að græja hann (og mig svona nokkurnvegin) og koma honum út og í leikskólann á ca 30 mín, sem er að mínu mati nokkuð gott þar sem að samstarfviljinn hjá honum var ekki alveg með besta móti.

Svo fór ég í ikea og tiger og í linskuskoðun og svo fór ég heim til að ég myndi kannski hugsanlega hætta að eyða peningum. Þegar heim var komið þá fór ég í gegnum prjónadótið mitt og saumadótið mitt og endurraðaði svolítið og gekk svo frá hinu og þessu. Náði svo í Hrafnkel og við leiruðum og lituðum og horfðum svo (já eða hann horfði) á youtube  á meðan ég eldaði mat.

Núna verð ég bara að segja að ég er úrvinda svo að ég ætla að leyfa mér að horfa bara á eitthvað sniðugt, prjóna og jafnvel fá mér 1/2 rauðvínsglas (sem ég keypti í ikea)…

En að öðru… Núna erum við Þórður loksins farin að ræða eitthvað skiptingu á draslinu okkar, það eru reyndar bara nokkrir hlutir sem við erum nokkurnvegin búin að ákveða, ég mun fá rúmið, tölvuskjáinn (af borðtölvunni), góðu tölvuhátalarana og prentarann – en hann mun fá sjónvarpið (og meððí), stóru myndina í stofunni og sófasettið. Og það vekur upp spurninguna, hvað í ósköpunum á ég að gera við stofuna þegar bæði sófasettið og sjónvarpið verður horfið (núna er ég alls ekki að segja að ég vilji fá þessa hluti, er alveg viss um að þeir munu veita Þórði meiri ánægju en mér)? Ég er amk ekki alveg á því að fara að kaupa mér sófasett, amk ekki nýtt – spurning hvort að maður kíki á einhverja flóamarkaði eða eitthvað – en maður verður að geta boðið fólki uppá að setjast niður er það ekki? Svona ef ég geri ráð fyrir því að fá einhverja í heimsókn. Kannski maður saumi bara fullt af púðum og svo þegar fólk kemur þá segir maður bara “gjörðu svo vel, veldu þér púða og komdu þér vel fyrir á góflinu” hehe. Mig langar reyndar líka til að geta einhvernvegin boðið fólki uppá gistingu, en því væri hægt að redda með því að kaupa bedda í ikea eða vindsæng eða eitthvað.

En anyway það verður spennandi að sjá hvernig stofan verður þegar Þórður verður búinn að taka sitt – endar kannski bara þannig að Hrafnkell fái geggjað stórt leikherbergi ;-)

hvað á maður að segja eiginlega?

Nokkrum sinnum hefur mér dottið í hug að skrifa eitthvað hérna en ég hef alltaf hætt við. Síðan mamma, pabbi og Ragna fóru hefur líf mitt að mestu snúist um að læra fyrir próf og reyna svo að sjá hvernig ég sný í lífinu. Enn sem komið er hef ég voðalega lítið til að tala um annað en skólann (og ekki mikið áhugavert að gerast þar núna), Hrafnkel (sem er auðvitað alltaf jafn frábær) og skilnaðinn við Þórð. Satt best að segja langar mig meira til að skrifa um eitthvað annað – maður á víst ekki að segja hvað sem er á netinu og þar fyrir utan veit ég vel að fyrrverandi tengdamóðir mín les hérna reglulega og sumt á hún ekki að þurfa að lesa hérna.

Málið er að hingað til hafa samskiptin á milli mín og Dodda ekki verið einsog best hefði á kosið. Þau hafa ekkert verið hræðileg, hefðu alveg pottþétt getað verið verri, en engu að síður hafa verið fleiri misfellur en ég hefði viljað. Ég ætla ekki að fara út í nein smáatriði hérna.

Prófin hafa hingað til gengið vel, eitt próf eftir en ég efast um að það verði til vandræða – þó að ég átti mig ekki alveg á því hvernig er hægt að prófa úr nánast engu efni. En það kemur bara í ljós.

Hrafnkell hefur það líka mjög gott. Hann er duglegur að stækka og lita þessa dagana – gerir nánast ekkert annað en að lita alla daga, amk hérna heima við. Svo á milli höfum við haft það heldur náðugt og horft á þónokkrar nýjar prinsessuteiknimyndir og rætt saman um hitt og þetta. Mamman er kannski heldur knúsin við hann því að í dag sagði hann “Æi mamma, ekki elska mig alveg svona mikið” ;-)

Það er kannski ljótt að segja það en ég hlakka til að fá pabbahelgar og einhvern tíma til að eyða bara í sjálfa mig, þaes einhvern tíma sem er ekki á leikskólatíma – ég er svo mikil B manneskja að sá tími nýtist aldrei í neitt skemmtilegt. Þegar þar að kemur mun ég kannski fara að hafa eitthvað skemmtilegra að skrifa. Það er satt best að segja hundleiðinlegt að hafa aldrei neitt að segja nema eitthvað sem tengist Þórði – sérstaklega þar sem mig langar bara hreinlega ekkert til að tala endalaust um hann.

Ps. Ég veit ekki af hverju það stendur alltaf bara 1 comment við allar færslur hvort sem er 0 comment, 1 comment eða 50. Ég mun (kannski) kíkja á það einhverntíman – en ég nenni því ekki núna.

Gleðilegt nýtt ár!

Gleðilegt nýtt ár!

Núna er komið nýtt ár, mamma og pabbi fara aftur til síns heima á morgun – Ragna fer svo á miðvikudaginn og svo er próf á fimmtudaginn og ef Þórður stendur við sitt þá verður smá djamm á föstudaginn, svo er próf á þriðjudaginn (eftir viku) – þannig að það er nóg að gerast næstu daga. Svo kemur smá pása og svo er seinasta prófið 25. janúar.

Ég get ekki beðið eftir að þessi önn verður búin, já eða amk eftir að klára prófið sem verður á þriðjudaginn (eftir viku) því að þá fær maður smá tíma til að anda. Þá ætla ég líka að taka mig til og fara í gegnum mest allt draslið hérna og flokka Þórð í burtu – það er að segja föt og smáhluti, við erum víst ekki búin að skipta neinu öðru upp. En kannski verðum við komin eitthvað áleiðis með að gera það eftir hálfan mánuð – vonandi amk, ég vil nefnilega bara koma öllu á hreint.

Tags:

categories almennt