Orðin 27 og alveg að koma nýtt ár

26 ára afmælisdagurinn minn var ekki skemmtilegur. Mest allur dagurinn fór í sjálfsvorkun yfir því að vera föst í einhverjum útnára án vina og fjölskyldu svo hjálpaði ekki til að kvöldmaturinn voru pylsur og eitthvað álíka rusl. Ég var sár og leið því að þó að 26 ára sé ekki merkilegt afmæli þá ætti afmælisdagurinn manns alltaf að vera sérstakur að einhverju leiti. 26 ára afmælisdagurinn minn var bara sérstaklega leiðinlegur.

27 ára afmælisdagurinn minn var rólegur en góður. Hrafnkell kom upp í til okkar Rögnu og horfði á teiknimyndir, heimtaði svo að ég bakaði köku þegar hann fattaði að það væri afmælið mitt. Ég sofnaði aftur og dreymdi langan og ruglingslegan draum þar sem að aðalatriðið var að Ragnar afi sagði að Hrafnkell yrði yfir 100 ára gamall. Svo fór mestur dagurinn í leti, ég fór í sturtu og dúllaði mér við að gera mig pínu fína meðan mamma og pabbi elduðu dýrindis lambahrygg, meðlæti og svo súkkulaðimús fyrir eftirmatinn. Ég fékk 2 pakka, annarsvegar dagbók frá Hrafnhildi og hinsvegar peysu frá mömmu og pabba. Ég eyddi smá hluta af deginum í að hugsa hvað það væri gaman ef maður hefði einhverja vini hjá sér til að djamma mér en ákvað svo að ég myndi bara djamma með þeim seinna.

Árið 2009 hefur verið skrítið. Það byrjaði með því að ég fór í 2 próf og fékk góðar einkunnir, svo tók við 4. og seinasta önnin í KTS. Sú önn var eiginlega ekkert nema vesen og leiðindi, samstarfið í hópnum mínum gékk ekki mjög vel (ég og önnur stelpa áttum ekki vel saman) og einnig var fyrirtækið sem við unnum með alveg hrikalega erfitt í samstarfi.

Við fórum til Íslands um páskana, sú ferð átti sína kosti og galla. Valdís og Tryggvi eignuðust “lítinn” strák, ég átti góðar stundir með vinum og fjölskyldu – en það voru líka neikvæð atriði (sem ég ætla ekkert að velta mér uppúr hérna).

Um sumarið útskrifaðist ég og það hefði sko getað verið frábær tími í mínu lífi ef að Doddi hefði ekki verið farinn til Noregs til að vinna svo að ég var ein og yfirgefin með Hrafnkel og hafði ekki tækifæri til að taka þátt í félagslífinu að neinni alvöru. Til þess að geta tekið þátt í sjálfri útskriftinni þurfti ég að standa í hellingsveseni við að koma Hrafnkeli í pössun – en það hafðist allt. Ég útskrifaðist og stuttu seinna fórum við Hrafnkell til Íslands. Á Íslandi áttum við góðan tíma í góðu veðri og með góðu fólki, við gerðum margt en þó var margt fleira sem við hefðum viljað gera.

Í haust var svo mikil óvissa þar sem að ég komst ekki strax inn í skólann minn, ég fékk ekki endanlegt svar um inngöngu fyrr en daginn sem skólinn byrjaði. Það var mikill léttir að komast inn í skólann, þar sem að það er meira en að segja það að fá vinnu einhverstaðar í danmörku þessa dagana. Gallinn við skólann er þó hvað hann er langt í burtu.

Skólinn gékk bara nokkuð vel framan af þrátt fyrir að námsefnið væri þurrt og já eiginlega frekar leiðinlegt. En síðan hefur bæði lífið og skólinn verið mjög erfitt síðan í miðjum nóvember. Þórður ákvað að fara frá mér og ég komst að því að ég er (mjög líklega) með pcos. Tíminn hefur farið í að halda haus, komast fram úr rúminu á morgnanna og rembast við að einbeita sér að skólanum til þess að eiga möguleika á að fá að taka próf í janúar. Ég er ennþá sár, reið og varla búin að átta mig á þessu. Það var þó ekki fyrr en mamma, pabba og Ragna voru komin til okkar og ég var búin að skila inn verkefninu sem að raunveruleikinn helltist yfir mig aftur. Jólin voru góð, einsgóð og þau gátu verið miðað við kringumstæður – en þau voru samt pínu erfið.

Þannig að í minningunni þá var árið 2009 bæði gott og vont, vondu punktarnir skyggja þó á góðu punktana. Mér finnst pínu einsog allt sem gat farið til fjandans hafi farið til fjandans.

Það tímabil sem tekur við núna verður örugglega erfitt en gefandi. Ég er sannfærð um að ég mun enda með meira en ég byrja með, ég er sannfærð um að ég mun vera hamingjusamari að ári en ég er núna. Ég er sannfærð um að árið 2010 verður mér betra en 2009. En fyrst þarf ég að komast í gegnum prófin og einnig að fá Þórð til að gera upp öll okkar mál, því fyrr sem við gerum þau upp því fyrr getum við haldið áfram með lífið. Þó að mér þyki vænt um hann, þó að ég óski honum alls hins besta í lífinu og þó að ég hafi einhverjar vonir um að við getum verið vinir í framtíðinni þá held ég að það væri best fyrir alla að koma öllum málum á hreint.

Í mínum huga er árið 2010 ár uppbyggingar og sjálfsþekkingar. Núna er tíminn til að kynnast sjálfum sér aftur og verða sterkari einstaklingur fyrir vikið.

og lífið heldur áfram

Það er komin vika og satt best að segja þá finnst mér ótrúlegt hversu vel mér líður – miðað við hvað ég var í miklu rusli á fimmtudag og föstudag. Kannski er ég bara í einhverri afneitun eða kannski er ég bara loksins að átta mig á því að þetta reddast, þetta verður bara allt í lagi. Ég vil reyndar líka þakka þessu það að ég hef reynt að vera jákvæð, amk meiri hluta dagsins, ég hef líka talað óendalega mikið við alla mína góðu vini – og er eiginlega komin með ógeð á vælinu í sjálfri mér hehe.

Núna, í fyrsta skiptið í töluvert langan tíma, finnst mér ég vera sjálf við stjórn í lífi mínu og það er góð tilfinning. Núna get ég tekist á við dagleg verkefni – enda kominn tími til hehe. Skólaverkefnin eru loksins farin að ganga eitthvað, ég er byrjuð að kaupa jólagjafir og bíð bara eftir að fá blekið mitt svo að ég geti sent jólakort. Svo er planið að taka aðeins í gegn hérna áður en fjölskyldan mín kemur en bakstur og konfekt gerð fær að bíða þar til þau koma. Ég er hvort eð er alin upp við að þetta er oft gert svona seinustu daga fyrir jól, þegar skólinn er kominn í frí.

Ég fór í “keilu” í gær, það er að segja við Anna ætluðum í keilu en svo fórum við bara og fengum okkur að borða og komumst ekki lengra vegna seddu og leti. En við borðuðum góðan mat og töluðum mikið saman og það var bara ljómandi gaman. Og svo ætla ég að fara út á föstudagskvöldið með Camillu, Önnu og vinafólki Önnu – sem er að koma að heimsækja hana yfir helgina – og það á eftir að verða ljómandi gaman, ég er búin að ákveða það :-)

Doddi býr hérna ennþá, ég veit ekkert hvort að eitthvað er að gerast í þeim málum. Vonandi þó okkar allra vegna.

… einn dagur í einu

Ég hef ákveðið að ég vil hafa allt uppi á borðinu, ég ætla að blogga um það hvernig mér líður og hvernig mér gengur. Ég hef eytt of löngum tíma í að þykjast að allt sé í lagi, hef forðast að tala við vini mína og fjölskyldu þegar hlutirnir hafa verið erfiðir og ég nenni því ekki lengur. Það er ekki í eðli mínu að vera óheiðarleg, sumir myndu eiginlega frekar segja að ég væri óþægilega hreinskilin (brutally honest) og ég held hreinlega að það fari mér betur.

Þegar ég var lítil þá var ég alltaf að gera eitthvað af mér og þegar einhver kom að mér þá var ég ævinlega búin að upplýsa þann hinn sama um allt sem ég hafði gert áður en nokkur hafði grunað mig um eitt eða neitt.

En já, til að koma í veg fyrir misskilning, ég fór til læknis í gær til að fá niðurstöður úr blóðprufum. Málið er ekki að ég hafi haldið að ég væri ólétt heldur var ég hjá lækninum vegna annarra vandræða. Niðurstöðurnar úr blóðprufunum sýndu að ég er með töluvert of mikið magn af testósteróni í líkamanum og það bendir til þess að ég sé með PCOS eða fjölblöðrueggjastokka heilkenni. Til þess að fá staðfestingu á þessari greiningu þarf ég að fara til kvennsjúkdómalæknis, sem mun sennilega spyrja mig fjölda spurninga um hitt og þetta sem og gera ómskoðun á eggjastokkunum mínum. Þar sem að þetta er heilkenni þá er þetta ekki læknanlegt en það er hægt að halda þessu niðri með bæði lyfjum og því að koma sér í form (haha er það ekki hvort eð er svarið við öllu þegar of feitir fara til læknis?).

Ég hef fengið ótal margar kveðjur  frá óendanlega mörgu fólki og það virðast allir boðnir og búnir til að gera hvað sem er til að láta mér líða betur. Það er ótrúlegt hvað það er gott að finna svona mikinn stuðning, finna það hvað maður er rosalega heppinn að eiga svona gott fólk útum allt. Það hjálpar mikið, þá er maður ekki jafn mikið einn eitthvað.

Mér líður miklu betur í dag en í gær og betur í gær en í fyrradag og á morgun ætla ég að dýfa mér í lærdóm – guð veit að þörf er á. Það hjálpar líka að ég náði að sofa vel í nótt (þrátt fyrir pirrandi draumfarir) og svo náði ég að borða svolítið í dag.

Ég er byrjuð að móta með mér skoðanir á því hvað ég ætla að gera næst því að núna get ég virkilega gert það sem ég vil gera og þarf bara að sjá til þess að Hrafnkell passi inní þá mynd og satt best að segja þá er pínu notalegt að hugsa bara um eigins rassgat til tilbreytingar. Það er alveg kominn tími til að vera svolítið sjálfselskur held ég.

Já og auðvitað eitt það mikilvægasta! Mamma, pabbi og Ragna ætla að vera svo yndisleg að koma til okkar Hrafnkels 20. desember og vera með okkur yfir jólin og áramótin :-) Ég er strax farin að hlakka til

…og einsog Helga María sagði: heitustu mömmurnar eru einstæðar… ;-)

Eftir endann á einum kafla leynist upphafið á þeim næsta

Í fyrradag tjáði Þórður mér það, eftir að ég hafði lifað í óvissu í nokkrar vikur, að hann teldi ekki grundvöll til að reyna áfram að vera í þessu sambandi. Hann sagði mér að þetta væri búið.

Eins sárt og var að heyra þessi orð þá voru dagarnir á undan búnir að vera óendanlega sárir líka, of fátt hafði verið sagt og ég hafði beðið í nánast fullkominni óvissu um framtíðina, og að vissu leyti var bara gott að fá loksins að vita hvar ég stend. En þetta er samt bæði erfitt og sárt, ég syrgi sambandið sem ég hélt að ég ætti, ég syrgi framtíðina sem ég hafði stefnt að og mér líður illa í óvissunni sem umlykur næstu daga.

Við skiljum ekki í illu, enda græðum við ekkert á því. Ég er sár og reið og hrædd en ég óska Þórði bara alls hins besta. Hann mun flytja út, um leið og hann finnur sér einhvern stað til að vera á. Þangað til verður hann hér og við verðum að reyna að púsla saman lífinu þannig að allt gangi þokkalega smurt í kringum Hrafnkel. Við erum ekki búin að segja Hrafnkeli ennþá, veit ekki alveg hvenær við komum okkur í það, hann er á erfiðum aldri. Hann skilur svo margt en svo lítið, og hann spyr óhikað ef hann hefur spurningar.

En núna er upphafið af nýju tímabili og ég hvorki sé eftir kaflanum sem var að ljúka né óska þess að hann haldi áfram. Þeim sem hafa spurt hef ég sagt að það þurfi eitthvað stórfenglegt að gerast til þess að við byrjum saman aftur, það er of mikið sem er enn ósagt og það litla sem var sagt særir alveg nóg. En ég ætla aldrei að segja aldrei. Við erum bæði á markaðnum núna, við munum alltaf þurfa að hafa samskipti – þetta er ekkert klippt og skorið – og hver veit hvað gerist í framtíðinni, en ég held þó að hvorugt okkar muni fara og leita að hinu aftur.

Það sem ég hef áttað mig á, seinustu daga, er að ég á óendanlega góða vini og fólk sem ég vissi ekki að væru vinir mínir hafa svo sannarlega sannað gildi sitt. Ég er líka ekki jafn “hræðilega gömul” og mér var farið að finnst einhvernvegin, þegar systur mínar voru 26 (uss, ég er enn bara 26) þá fannst mér þær ekki nærri jafn fullorðnar og mér hefur fundist ég vera undanfarnar vikur eða mánuði. Og ég er búin að vera í þessum fullorðinsleik meira og minna síðan ég byrjaði með Þórði. Núna er kominn tími til að lifa aðeins, gera það sem ég vill, einsog ég vill, þegar ég vill. Núna get ég farið í river rafting án þess að hafa samviskubit yfir því að hann hafi ekki farið, núna get ég farið í bíó án þess að spá í því hvort að honum langaði að sjá þessa mynd osfr.

En þetta þýðir líka að ég mun búa ein með Hrafnkeli og það er svolítið scary. Því að þó ég hafi alltaf kunnað að meta einveruna þá hef ég líka þörf fyrir fullorðinssamkipti. Einnig finn ég að núna hef ég rosalega þörf til að tala um þetta, tala um þetta og allt annað. Og þá eru miðlar einsog facebook og msn ómetanlegir. Ég get pikkað gegnum tárin.

En núna þarf ég að græja mig og fara til læknis. Fara í læknisheimsókn sem ég hef beðið eftir lengi en er líka mjög scary og ég get ekki ákveðið hvort er hræðilegra ef að læknirinn segir já eða nei. Einhvernvegin er ég hrædd við allar niðurstöður. En meira um það seinna.