Hugmyndaleysi – eiginlega algert neyðarástand

Það ríkir hálfgert neyðarástand á heimilinu. Ég er eiginlega algerlega komin með fullkominn eldunarleiða. Ég nenni ekki að elda mat, ég nenni ekki að undirbúa mat, ég nenni ekki að ákveða mat, ég nenni eiginlega bara engu sem viðkemur mat. Þetta er orðið svo slæmt að ég nenni varla að baka heldur.

Hvað á maður að gera þegar svona ástand ríkir? Einnig langar mig ekkert sérstaklega í mat, ég borða því að maður þarf að borða og útaf því að það er skemmtilegra að borða en að vera svangur.

Gefiði mér hugmyndir af einföldum, góðum kvöldmataruppskriftum. Það er ekki í boði að hafa bara snarl í kvöldmatinn þar sem að við lifum öll 3 á snarli fyrri part dagsins.

Þar fyrir utan þá dreymdi mig að Valdísi og pabba var svo illa við jólaóskalistann minn, þeim fannst það svo mikil frekja í mér að vilja fá knitpro prjónasett. Einsog ég bennti þeim á í nótt þá er þetta svo sniðugt sett því að maður getur tengt saman tvær 120cm snúrur og prjónað stærsta teppi í heimi og þar fyrir utan þá ÞARF ekki að gefa mér það sem er á listanum, þetta eru bara hugmyndir. ;-)

allir saman nú, einn – tveir – þrír…

Jæja það fer að líða að því að við skreppum í ofurverslunarferð til úgglanda (Malmö hehe) svo að það er ekki seinna vænna fyrir ykkur að byrja að spá í óskalistanum fyrir jólin. Núna, þessi jólin, er planið að vera svolítið hagsýnn og fara til ódýrari landa í verslunarleiðangur. Þungir og stórir hlutir eru ekki jafn vinsælir og litlir og léttir hlutir – en þó er allt tekið til greina.

Annað í fréttum er að þar sem að syninum var bannað að segja fullorðinsorðin (andskotans, helvítis, fjandans ofl í þeim dúr) að þá fáum við ekki heldur að segja fullorðinsorðin. Hann er líka gáttaður yfir því hvað okkur (sérstaklega mömmunni) gengur illa að muna það að maður má ekki segja þessi orð. Þar sem að við höfum verið agalega léleg í trúarlegu uppeldi sonarins er þó erfitt að útskýra fyrir honum af hvað þessi orð þýða og af hverju þau eru ljót. Æði oft er maður skammaður fyrir að segja eitthvað allt annað vegna þess að einræðisherranum misheyrist oft þegar hann er 75% á kafi í einhverjum leik en aðeins 25% að fylgjast með orðalagi foreldra sinna. Ég held að eina skiptið sem ég komst upp með að blóta all hressilega var í gær þegar ég brenndi mig við að taka franskar út úr ofninum, missti plötuna í kjölfarið og það flugu franskar útum allt (og auðvitað voru töluverð læti í þokkabót), ég er sannfærð að í gegnum sársaukann tvinnaði ég saman nokkur misfalleg orð. Sem betur fer var bruninn ekki alvarlegur og rosalega fljótur að jafna sig (þumall).

Annað markvert í fréttum er að það “snjóaði” fyrsta snjónum hérna í gær. Kom eitthvað hallærislegt fjúk, mini snjókorn, sem að bráðnuðu áður en þau komu við jörð. Hrafnkell var yfir sig hamingjusamur yfir þessu – sennilega eini Kaupmannahafnarbúinn sem var svona kátur reyndar.

Annars gerist ekki margt. Við hóstum hérna í kór, sjúgum upp í nef og snýtum okkur – mjög geðsleg fjölskyldan. Hrafnkell er þó ekkert slappur (og í raun minnst kvefaður) og ég vil meina að Doddi hafi það ekki jafn skítt og ég… Spurning hvort að hann sé sammála. Næturnar eru jafn yndislegar, ég skríð yfirleitt frekar snemma upp í rúm, svo þegar Doddi kemur þá getur hann annað hvort ekki sofnað útaf hrotunum í mér eða hóstanum í sér. Sjálf vakna ég óteljandi oft á nóttu, geri ráð fyrir að hroturnar í mér eða hósti sé orsökin.

Einsog Rögnu þá hefur mig dreymt ýmislegt undanfarið, man minnst af því nákvæmlega núna en oftast þegar ég vakna þá á ég eitthvað eftir “óklárað”. Eitt sem ég man þó er að um daginn þá þurfti ég að prjóna brúðarkjól, það var mikið stress og ég var sko ekki ein að prjóna kjólinn – en ég var þó yfir verkinu. Hinar prjónakonurnar voru alveg glataðar og nánast engin hjálp í þeim. Þar að auki vorum við ekki með neina uppskrift og við byrjuðum á faldinum – ég var alveg viss um að það væru mistök. Anyway það gekk illa að prjóna þennan kjól.

En nóg komið af blaðri

Stuttur draumur

Á þessum örfáu dögum, frá því að við sáum frammá að það væri kannski raunhæft að koma til Íslands um jólin, hefur verðið á farmiðum rokið upp úr öllu valdi. Það er því eiginlega algerlega útséð um það að við komum ekki til Íslands um jólin. Það er ömurlegt að þurfa að taka þessa ákvörðun en það er ekki fyrirgefanlegt að borga amk 10.000 kr á dag fyrir þessa örfáu daga sem við myndum vera á Íslandi.

Við verðum því bara hérna í Solbakken :-(