Alvöru sápukúlur

Ég keypti sápukúluglas fyrir Hrafnkel um daginn. Hann, náttúrulega bara þriggja ára, var fljótur að hella úr almennilegu sápukúlusápunni svo að ég varð að fara að brugga sápukúlusápu. Uppþvottalögurinn okkar var ekki alveg að standa sig svo að ég ákvað að reyna að finna betra ráð.

Uppskriftin sem ég fann var töluvert nákvæmari en ég slurkaði bara

ca. 3 hlutar vatn
ca. 2 hlutar uppþvottalögur
ca. 1 síróp

Þetta er ekki jafn gott og upprunalegi sápukúlulögurinn en töluvert mikið betra en bara eintómur uppþvottalögur, spurning hvort að það skipti ekki líka máli að hafa réttan uppþvottalög og rétt síróp (ég notaði bara venjulegt, ljóst síróp en uppskriftin sagði hlynsíróp og það er töluvert öðruvísi)

Kreppuvax

Ég  hef nokkrum sinnum tekið þá drastísku ákvörðun að vaxa á mér leggina. Einu sinni fór ég bara á stofu og lét einhverja konu sjá um þetta og það var fínt, vont en fínt. Hin skiptin hef ég asnast til að kaupa hinar og þessar tegundir af heimavaxi og svo reynt að sjá um þetta sjálf. Það er bæði vont og erfitt – og aðalega erfitt því að þetta er svo vont.

En ég rakst á uppskrift af “vaxi” (ég held reyndar að þetta kallist sugaring og er mun líkara sírópi eða karamellu heldur en vaxi) á netinu og ég ákvað að prufa – hráefnin eru ódýr og auðvelt að nálgast þau svo að það versta væri að ég myndi gefast upp og skola þessu niður. En þetta var langbesta og sársaukaminnsta vax sem ég hef prufað. Það var ekki bara sársaukaminnst heldur tók það hárin betur en öll keyptu heimavöxin sem ég hef prufað.

Uppskriftin er svona:

ca 150gr sykur
2 msk sítrónusafi (uppskriftin segir úr belg en ég kreisti bara sítrónu og það var ca 2 msk úr 1/2 sítrónunni)
2 msk vatn

Sett í pott og á vel heita eldavélahellu. Hrært í reglulega. Þegar blandan er farin að bulla aðeins, farið að koma smá “froða” ofan á, þá á að lækka á hellunni og láta þetta malla þar til að það er orðið gullið á lit. Þá er bara að taka pottinn af hellunni og láta þetta kólna niður í þægilegan hita (en ekki of kallt því að þá er erfiðara að vinna með þetta).

Bera á lappirnar, skella bómullarefnisræmu ofan á og rífa hárdraslið af. (bara svona einsog með venjulegt vax). Þetta þrífst af með hreinu vatni svo að þú þarft ekki að vesenast með einhverjar olíur eða hreinsiefni til að hreinsa restarnar af vaxinu af. Einnig er hægt að skola ræmurnar í vatni og nota þær aftur (þegar þær hafa þornað auðvitað).

Langur dagur

Við Hrafnkell erum sko búin að vera dugleg í dag. Við fórum nefnilega á fætur (hægt og rólega reyndar), fórum í bað og fengum okkur að borða og svoleiðis. Svo tókum við okkur til og græjuðum okkur í ferðalag dagsins.

Við nefnilega löbbuðum inn í miðbæ, eftir Istedgade, þar sem Hrafnkell sá hunda, prinsessur (í prinsessuturnum), berfættar konur (sem verða að kaupa sína eigin skó, en mega sko ekki fá hans skó) og ýmislegt annað áhugavert – en ég sá róna, hórur, rusl og drasl (og þvílík pissufýla sumstaðar).

Á Ráðhústorgi var eitthvað Asíudæmi í gangi og við horfðum aðeins á einhverjar skrítnar, skáeygðar konur dansa við tónlist sem skar í eyrun. Svo fórum við aftur að aðalbrautarstöðinni, keyptum okkur klippikort vegna þess að við munum nota lestarnar slatta þar til að við förum heim til Íslands. Þar næst var förinni haldið í s-tog c í áttina að Ordrum (já eða Klampenborg er endastöðin) því að okur var boðið í babyshower (barnasturtu?) til Louisu, sem er bekkjarsystir og hópfélagi Þórðar (og sónarnir eru ekki sammála en hún er skrifuð á bilinu 6-8. sept!). Þegar þangað (á lestarstöðina) var komið þá tók við að finna húsið. Þar sem að ég hafði tekið mig til og teiknað þetta líka flotta kort af svæðinu (útaf því að prenntarinn er bæði bilaður og bleklaus) og það fyrsta sem ég fann var gata sem ég hafði ekki teiknað inn á kortið – en þetta hafðist samt og við fundum staðinn.

Í barnasturtunni voru aðalega bekkjarsystkini Þórðar og ég hafði engan hitt af þeim  nema Louisu, svo að ég átti smá erfitt með feimnina í mér (en þetta var samt ótrúlega alltílagi). Nokkrir höfðu hitt Hrafnkel áður en hann var líka mjög feiminn til að byrja með. Svo þegar feimnin fór að renna af honum og hann fór að haga sér einsog venjulega þegar hann er meðal fólks þá var ég spurð hvort að hann væri alltaf svona “energetic” og ég horfði til bara og sagði “well, he is his fathers son” og þau horfðu á mig og skildu þetta engan vegin því að Þórður ku vera svo yfirvegaður og rólegur! hahhahahahaha, þau hafa aldrei séð hann keyra í snjó…

En anyway þetta var reyndar bara frekar gaman, og þó að þetta sé svona sjúklega væminn og hallærislegur amerískur siður þá finnst mér þetta bara svoldið sniðugt. Í mínum huga kæmu gjafirnar þá sennilega á móti vöggugjöfunum reyndar en það skiptir ekki öllu máli.

Svo fórum við Hrafnkell heim með lestinni aftur – í þetta skiptið alla leið til Enghave, en það er bara 2 stoppum lengra en miðbærinn (við fórum sko bara labbandi í miðbæinn því að mig vantaði þetta klippekort og það er ekki hægt að kaupa það á Enghave st.) og svo var (pirraður) Hrafnkell sendur beint í rúmið því að klukkan var svona mikið.

Prófið búið, skólinn búinn

Við kláruðum prófið og fengum allar 10. Sem er ágæt einkunn, eiginlega bara mjög góð og engin ástæða til að vera fúll yfir því – nema ein. Þegar við vorum kallaðar inn til að fá einkunnirnar okkar þá byrjaði annar prófdómarinn (sá sem réði meira) að segja “þetta var mjög gott verkefni og blabla bla og þið ættuð eiginlega skilið að fá 12 blablabla en vegna blabla (nenni ekki að fara út í það nánar en þetta blabla er að mínu mati ekki tengt því sem að við áttum að vera með á hreinu á þessari önn – eða nokkurri annarri önn í þessum skóla – og hefði þar af leiðandi ekki átt að draga okkur niður. Eiginlega einsog ef einhver hefði tekið próf í að baka pönnukökur en verið lækkaður fyrir að dreifa sykrinum ekki rétt á eftir á (en sykur hefur ekkert með pönnukökubaksturinn sjálfan að gera)) þá vil ég ekki gefa ykkur hærra en 10. Blablabla en þið hefðuð fengið 12 fyrir þennan hluta og þennan hluta og þennan hluta af verkefninu, framkvæmdin og skýrslan voru upp á 12 en blablabla var bara uppá 10. Þið verðið svo bara að muna að 10 er mjög góð einkunn og þar fyrir utan er þetta bara tala sem skiptir ekki máli. Osfr blblbla”

Ég þarf ekki að vera sátt við ástæðurnar fyrir því að við vorum lækkaðar úr 12 í 10 en fjandinn hafi það það er ekki næs að segja við einhvern að hann hafi á allan hátt átt skilið að fá hærri einkunn OG að þetta sé bara tala ef að maður fær síðan “bara” 10.

Þegar prófdómari gefur einkunn þá hann hreinlega að segja “þið fenguð x” svo ef að x<12 þá ætti hann að gefa hnitmiðaðar ástæður fyrir því að nemandinn fékk ekki 12. Engar afsakanir, ekkert um það hvað hinn prófdómarinn vildi gefa nemandanum, ekkert til að reyna að peppa nemandann upp heldur hreint og beint bara af hverju.

Þegar ég sat þarna þá var ég farin að bíða eftir því að hann hætti bara að afsaka sig. Gervibrosið mitt er ekki neitt rosalega endingargott.

En engu að síður mjög góð einkunn.

Próf á morgun

Ég er smá stressuð – ekki alvarlega. Nóg þó til að eiga við smá einbeitingarvandamál að stríða (aka. ég blogga og geri margt annað en að læra). Ég held þó að okkur eigi eftir að ganga vel en það er samt erfitt að spá hvernig spurningar við fáum.
Þetta próf er býsna langt (skiljanlegt svosem þar sem að þetta er lokaprófið) og er fyrst 15 mín presentation og síðan hálftíma yfirheyrsla á mann.
En well það kemur í ljós á morgun hvernig gengur :-)

algerlega fanatísk

Einsog flest ykkar vita þá get ég verið svolítið fanatísk, ég er með sterkar skoðanir á mörgu og það getur verið erfitt að fá mig til að skipta um skoðun – enda er mín skoðun oftast rétt hahahaha. Þó reyni ég að hlusta á rök, þrátt fyrir að rök mótherja minna hljómi ansi oft í mínum eyrum einsog rök fyrir mínum skoðunum því að það sem að aðrir telja kosti get ég talið galla. Mér finnst fráleitt að allir eigi að hafa sömu skoðanir á málunum og ég þoli ekki þegar fólk heldur því fram að mín skoðun (já eða bara einhver skoðun) sé kjánaleg eða asnaleg, án þess að færa fram betri rök fyrir því en þetta, vegna þess eins að hún er ekki sú sama og þeirra eigin.

Undanfarnar vikur hef ég eytt meiri tíma úti í garði en í allan vetur, aðalega vegna þess að veðrið er búið að vera svo gott að ég get ekki afsakað það að fara ekki út með Hrafnkel. Ég bý á stóru kollegíi, með mörgum barnafjölskyldum og mjög mörgum íslendingum. Við erum með stóran garð sem skiptist í þrjá afmarkaða leikvelli, stóru grassvæði og grillsvæði. Þarna úti virðist fólk (aðalega íslendingarnir og færeyingarnir, ég veit alveg að það búa margir danir hérna líka en maður sér þá aldrei) hanga daginn út og inn og gera ekki neitt. Í fyrsta lagi þá skil ég ekki hvernig þvílíkur fjöldi af fólki – í námi, þetta er jú kollegí – getur leyft sér að hanga svona rosalega mikið úti og gert ekki neitt (mér til varnar þá hef ég oft með mér skissubók eða stílabók til að pæla og útfæra hugmyndir og plana námið þegar ég fer inn) og í öðru lagi þá skil ég ekki hvernig þetta sama fólk getur passað börnin sín svona rosalega illa.

Ég virðist vera fanatísk bómullarmamma miðað við margar foreldra hérna. Hrafnkell fer aldrei einn út, hann er þriggja ára og þó að hann væri fjögurra eða fimm þá fengi hann ekki að fara einn út. Hann fer aldrei úr augnsýn nema ef hann fer á eitthvert afmarkað svæði sem ég get fylgst með því hvort að hann fer útaf. Hann má ekki leika sér og vera fyrir fólkinu á gangstéttinni upp við hús (þar sem annað fólk þarf að labba með innkaupapoka, þreytt og pirruð börn, töskur ofl). Ef hann er pirraður og þreyttur þá förum við inn, ég neyði ekki aðra til að hlusta á vælið í honum því að það sé svo “gott og gaman” að vera úti.

Ég hef oft séð börn, yngri en Hrafnkel – alveg niður í örugglega ca 2 ára, rölta um, að því virðist, algerlega eftirlitslaus. Ég hef séð þau detta og meiða sig, fara að gráta og það er enginn nærri til að hugga þau – enginn nema einhverjir ókunnugir (oft útlendingar). Við erum að tala um að það er “hraðbraut” (ok gatan flokkast ekki sem hraðbraut hjá húsinu en aðeins lengra í burtu er sama gatan orðin hraðbraut, hún er stór og það er mikil og hröð umferð á henni) hinum megin við húsið. Við erum að tala um að ég hef séð dópista sprauta sig við götuna sem er við hinn endann á garðinum okkar. Mér finnst þetta óþolandi rangt, sérstaklega þegar foreldrarnir eru kannski úti – sitja við eitthvert borð í hinum enda garðsins, drekka kaffi og spjalla við vini sína. Það getur verið ógeðslega leiðinlegt að fara með krakka út að leika en, fjandinn hafi það, það er örugglega leiðinlegra ef að barnið manns verður fyrir bíl eða eitthvað álíka.

Annað er að þessi börn eru ótrúlega oft að leika sér á gangstéttinni upp við húsið – annað hvort er fólki alveg sama hvað börnin þeirra eru að gera (sem er það sem ég hallast að) eða þá að því er alveg sama um þau óþægindi sem skapast fyrir hini íbúana þegar eru kolklikkaðir krakkar að stoppa gangveginn (sem ég hallast líka að).

Og eitt enn sem ég þoli ekki er þegar maður fer út og maður heyrir ekki í sjálfum sér hugsa vegna þess að það eru svo mörg börn grenjandi. Þau eru þreytt, búin að vera heilan dag í leikskóla eða á vöggustofu, og jafnvel svöng og kannski búin að skíta á sig eða eitthvað. Ég skil ekki af hverju foreldrarnir druslast ekki til að fara með börnin sín inn þegar börnunum líður greinilega ekki vel. Barnið segist kannski vilja vera áfram úti en barnið er bara barn, við eigum að hafa vit fyrir þessum greyjum, það eiga að vera foreldrarnir sem ráða. Ég styð frekar það foreldri sem fer inn með þreytta, pirraða, barnið sitt og skellir því fyrir framan sjónvarpið að horfa á teiknimyndir heldur en foreldrið sem að þrjóskast til að vera með þreytta, pirraða, barnið sitt úti  því að það sé svo hollt og gott.

Og svo, fyrst ég er að nöldra til að byrja með, þá langar mig til að segja hvað það er ógeðslegt að sjá fólk úti með börnunum sínum (á ströndinni, í labbitúr, í dýragarðinum, úti á leikvelli) sem mökkreykir yfir þeim. Reykingar eru líka óbeinar þó að maður sé úti. (og reykingafólk (ekki að það sé svo mikið af þeim sem les þetta blogg) geriði það fyrir mig HENDIÐI STUBBUNUM Í RUSLIÐ!)

Á fésinu

Klaufinn (og byttan) ég datt á fésið í gær þegar ég var á leiðinni heim af barnum. Skildi ca 1/2 andlitið eftir á stéttinni og er frekar aum á eftir. Ég er þó algerlega á því að það var ekki algerlega áfenginu að kenna að ég datt, enda er ég klaufi með eindæmum og þetta var mikill klaufaskapur.

Afleiðingarnar af þessu falli eru sár og rispur, sem svíður í, bólgur og mör, smá hálsrígur og rosalega mikil sjálfsvorkunn. Ég er td með mar í hægri lófanum og á vinstra handarbakinu. Hrafnkell er glataður þegar kemur að því að vorkenna manni. Hann er meira fyrir það að potta í mann og spyrja svo hlæjandi hvort að þetta sé vont (ég veit, ég hef næstum því áhyggjur af þessu tilfinningaleysi hjá honum). Doddi er búinn að vera í skólanum í allan dag (einsog hann verður nánast þar til að hann fer til Noregs :-( ) svo að ekki hef ég fengið mikla vorkunn þaðan. Það hjálpaði aðeins að hringja í pabba og væla smá í honum.

Hérna má svo sjá ósköpin

smallJamm þetta er rosalega fallegt, ekki satt? Ég vil þó benda á að bólgan á hökunni hefur hjaðnað töluvert þegar þessi mynd var tekin.

En anyway BOOHOO!

Fyrir þá sem hafa áhuga

Síðan okkar er orðin eins tilbúin og hún verður nokkurntíman.
Endilega skoðið þetta og munið að a) Við urðum að þóknast kúnna með margt og rembast við að gera hlutina þokkalega og b) Síðan er bara “prototype” og þar af leiðandi töluvert frá því að vera einsog lokaútgáfa myndi vera.

Á heildina er ég mjög sátt með síðuna, margt tæknilega flókið sem liggur að baki, mikil vinna í grafík – bæði hugmyndavinnu og myndvinnslu, og það þrátt fyrir að hugmyndafræðinni hafi verið breytt algerlega (af hálfu kúnnans) á seinasta fundið fyrir páska svo að segja má að þessi síða hafi verið unnin á 1 -1 1/2 mánuði.

Ath: Það eru 2 valmöguleikar um tungumál, enska og danska. Við erum bara búnar með “dönsku” útgáfuna. Ég segi “dönsku” með gæsalöppum vegna þess að í raun eru 2 bls á dönsku og hinar á ensku/lorem ipsum (lorem ipsum er þykistunni texti sem þýðir ekki neitt en lítur út einsog alvöru texti og er mjög oft notaður til að fylla upp í þegar það vantar rétta textann)

Til Jorrit: Ég veit að þetta er flash síða, ég geri mér grein fyrir hinum ýmsu vankönntum sem að fylgir því að gera flash síðu. Ég geri mér grein fyrir því að það er enginn “preloader” og grafíkin er í háum gæðum (sem lengir “loading” tímann). Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki hægt að nota “back” og “forth” í vafranum til að komast á milli síðna. Við minnumst á þetta allt í skýrslunni og nefnum hugsanlegar úrbætur á málinu (og þar stærst að hafa einfaldlega aðra síðu í xhtml (já eða php eða asp og javascript) þannig að notandinn hafi val milli þess að nota þessa síðu eða alvöru síðu).

Síðan okkar

Verkefninu verður svo skilað inn á fimmtudag (í seinasta lagi) og svo er maður “frír” þangað til í prófinu…

Fleiri myndir

Ég er búin, ótrúlegt en satt, að bæta við myndum í maí albúmið.
Nýjar myndir
Endilega skoðiði myndirnar, gefið þeim stjörnur og comment osfr. Það er líka kúl að skoða myndirnar sem slideshow, amk finnst okkur Hrafnkeli það ;-)