Grænmetisbrownie ;-)

Ég var eitthvað að gúggla, leita að leiðum til að plata soninn til að borða meira (eitthvað) grænmeti og ég fann þessa uppskrift, ég ákvað að prufa hana og niðurstaðan var nokkuð góð – mætti vera sætari en samt nokkuð góð.

 • 85 gr súkkulaði
 • 1/2 bolli gulrótamauk (gufusoðnar gulrætur mixaðar vel með smá vatni)
 • 1/2 bolli spínatmauk (ég gufusauð frosna spínatköggla og mixaði þá svo vel)
 • 1/2 bolli púðursykur
 • 1/4 bolli ósætt kakó
 • 2 matskeiðar mjúkt smjörlíki
 • 2 teskeiðar vanilluextract
 • 2 stórar eggjahvítur
 • 3/4 bolli hveiti
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt

Hitið ofninn í 175°c. Smyrjið 20x20cm form. Bræðið súkkulaðið . Blandið saman í skál grænmetinu, sykrinum, kakóinu, smjörlíkinu, vanillunni og brædda súkkulaðinu og hrærið vel saman (1-2 mínútur). Blandið eggjahvítunum vel saman við. Blandið svo hveitinu, lyftiduftinu og saltinu rólega saman við með sleif. 

Setja deigið í formið og baka í 35-40 mínútur, kælið vel áður en kakan er skorin niður í hæfilega stóra bita.

Sumarið að skýrast

Það lítur allt út fyrir að Doddi fari til Noregs (ef þeir hafa einhverja vinnu fyrir hann þar) í sumar, strax eftir prófið hans – sem er í byrjun júní – og ætli hann verði ekki þar nánast í allt sumar – komi rétt heim áður en hann fer svo aftur til Alexandríu í skólaferðalagið sitt. 

Ég er hinsvegar ekki búin fyrr en 26. júní, þegar ég útskrifast. Svo er stefnan að byrja aftur í skóla í haust, þó að ég viti nú þegar um 2 skóla sem ég fer ekki í, þó að ég viti í raun ekki um neinn skóla sem er búinn að segja já þá er það samt stefnan ennþá. Það má gera ráð fyrir því að sá skóli byrji í endanum á ágúst – sem þýðir 2 mánuðir í sumarfrí hjá mér.  Eða með öðrum orðum 8-9 vikur.

Sú krafa hefur komið frá leikskólanum hans Hrafnkels að hann sé í 3 vikur í samfelldu fríi í sumar. Eðlileg krafa, bæði er þetta viku minna en er krafist heima á Íslandi og þá veljum við alveg hvenær hann verður í fríi og hvenær ekki.

Þetta gerir 5-6 vikur í frí fyrir mig svo að það þarf ekki neinn snilling til að átta sig á því að ég fæ hvergi vinnu hérna í 5-6 vikur. Það tekur því ekki að þjálfa upp hálfótalandi starfsmann fyrir svona stuttan tíma. Þannig að ég get lítið gert annað en að setja inn smáauglýsingar hér og þar og óska eftir einhverjum verkefnum sem ég gæti hugsanlega unnið heima hjá mér í sumar. Ég er ekki bjartsýn á að það gangi vel en hvað getur maður annað gert? Það hjálpar aðeins til að ég held að ég ætti að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þetta sumarið þar sem að ég er að útskrifast úr dönskum skóla, það er amk eitthvað sem maður þarf að kanna. Eftir Noregsferð um jólin og svo Íslandsferð um páskana þá erum við ekkert að vaða í peningum, sérstaklega þar sem kom í ljós (eftir á) að fjárhagsáætlunin hafði leiðinlega áhrifaríka innsláttarvillu. Það vantaði nefnilega eitt núll í húsaleiguna og þó að núll sé bara núll þá munaði ótrúlega um það hvort að húsaleigan sé 10 þús eða 100 þús á mánuði. En þetta reddast, það gerir það alltaf.

En vegna þess að við þurfum að ákveða hvaða 3 vikur Hrafnkell á að vera í fríi þá væri gaman að heyra hvort að einhverjir séu með einhver heimsóknarplön í sumar? 

En já aftur að skólapælingum. Það beið mín umslag frá einum skólanum þegar ég kom heim frá Íslandi. Í því var ég beðin um að koma í inntökupróf nokkrum dögum áður – þar með var einn skóli farinn. Svo fékk ég email um daginn þar sem mér var tilkynnt að ég hefði ekki komist inn í inntökuprófið í Mediehojskolen. Það merkilega við það var að ég þekki þó nokkra sem sóttu um og það voru bara danir sem komust áfram í inntökuprófið og ég veit með vissu að nokkrir af þessum dönum eru slakari en nokkrir af útlendingunum. Eiginlega efast ég ekki, þegar ég sé hverjir komust áfram og hverjir ekki, um það að málið var einfaldlega það að þeir voru ekki að leita að útlendingum – en það hefði verið gott að vita það áður en maður eyddi lööööngum hluta af páskafríinu í að vinna að inntökuverkefninu.

læknisheimsókn

Í þetta sinn byrjuðum við veru okkar hér í Danmörku með því að skreppa aftur til eyrnalæknis. Það henntaði ágætlega þar sem að mamman ákvað þá að taka einn aukadag í fríi og við sváfum út (sem var lovely). Doddi fór svo reyndar í skólann sinn en við pjakkur fórum og hittum aftur Halim-Al eyrnalækninn. 

Eyrnalæknirinn var öllu viðkunnalegri í þetta skiptið, virkaði ekki nærri jafn hrokafullur og hann talaði meira að segja aðeins við Hrafnkel. Hann kíkti í eyrun, sá að það var engin eyrnabólga í gangi – hljóðhimnurnar litu báðar vel út. Svo mældi hann þrýstinginn í miðeyranu og þar kom í ljós að það er þó nokkur vökvi í eyrunum á barninu, en þar sem er að koma sumar þá vildi hann ekki gera neitt í því fyrr en í haust – þaes ef að vökvinn væri ennþá til staðar þá. Ég er svosem sátt við þá ákvörðun þar sem að mér finnst óþarfi að setja rör í barnið ef að vökvinn getur lagast sjálfur yfir sumarið. Svo ákvað hann að mæla þrýstinginn (já eða eitthvað svoleiðis, ég veit svosem ekki nákvæmlega hvað hann var að mæla) í innra eyranu. Þá aulaði læknirinn út úr sér að sú mæling hefði verið aðeins skrítin seinast (það sem hann sagði mér seinast var að það væri allt í lagi með allt, en að hann vildi samt fá að hitta okkur aftur bara til öryggis og þess vegna komum við aftur) sérstaklega í öðru eyranu og að núna væri hún líka skrítin og þess vegna vill hann að við förum á eyrnadeildina í Bispebjerg sjúkrahúsinu. Svo að núna er bara að bíða eftir boðun þaðan.

Ég er mjög ánægð með að fá nákvæmari skoðun og allt það, ég er líka ánægð með að læknirinn skildi vilja sjá okkur aftur þó að ég sé óánægð með að hafa ekki fengið að vita þá hvers vegna. Eins spurði læknirinn hvort að Hrafnkell hefði verið eitthvað öðruvísi en venjulega og eftir á að hyggja þá er hann búinn að vera mjög órólegur undanfarið og óeðlilega mömmusjúkur (sem lýsir sér í því að þó að hann væri glaður og ánægður hjá ömmum sínum og öfum þá vildi hann alls ekki gera hluti einsog fara í labbitúra einn með þeim eða vera þar í stuttri pössun). 

Ég verð líka að viðurkenna að ég er nett stressuð, ég hef ekki hugmynd hverju ég má búast við (ég fattaði ekki að spyrja nánar út í það hvað gæti verið að osfr). Ég vona þó að annað hvort komi í ljós að það er ekkert að eða ef það kemur í ljós að það sé eitthvað að að það sé þá eitthvað sem er auðvelt að laga eða vinna með. 

…og ég sem var búin að skrifa þennan hávaða í barninu bara á það að hann væri líkur Hjöddu ömmu sinni og ég þakkaði guði fyrir það að hún er nú ekkert svo hávær í dag ;-)

Komin heim

Við erum komin heim til Kaupmannahafnar. Flugvélin var ekki lent þegar Hrafnkell fór að tala um að hann vildi endilega fara aftur í heimsókn til ömmu og afa, brúnin lyftist þó eilítið þegar við fórum að tala um allt sem hann gæti sagt Amiru, og hinum krökkunum í börnehaven, frá því sem hann hafði gert í páskafríinu. En svo kom babb í bátinn, hann fattaði að Amira talar ekki íslensku og hann kann ekki að segja frá öllu á dönsku, hvernig segir maður td sundlaug, heitur pottur og páskaegg? Þetta olli smá áhyggjum en við komumst örugglega yfir það.

En já við komum til Hveragerðis á föstudagskvöld, fengum gistingu hjá Frosta og Sonju. Þar var auðvitað gott að vera, einsog allstaðar annarsstaðar sem við höfum verið um páskana. Gylfi, Hrafnkell og Kristín voru strax góð að leika sér öll saman þrátt fyrir mikinn aldursmun (8 ára, 3,5 ára og 9 mánaða). Þarna var Hrafnkell líka búinn að finna “litla barn” sem var bæði lítið og vitlaust og skemmtilegt! Ekki alveg jafn leiðinlegt, og grenjar ekki jafn hátt. Hann komst reyndar að því fljótlega að hún var ekki gallalaus, heldur var hún bæði of lítil og vitlaus til að vita að maður má ekki meiða aðra og svo varð maður alltíeinu að passa upp á að hún væri ekki að éta dótið mans. En heilt yfir þá náðu þau þrjú vel saman.

Við áttum svo bæði góða stundir með Frosta og Sonju og svo aftur góðar verslunarstundir með Hrafnhildi í gær.

En svo í dag þá skiluðum við bílnum, fórum út á völl, flugum heim, borðuðum kvöldmat, svæfðum barnið og erum núna bara að slappa af. Það var notalegra en ég hélt (miðað við “Íslandsheimþránna” sem hefur hrjáð mig undanfarna daga) að koma hingað heim. Engu að síður nenni ég engan vegin að takast á við skólann og að koma sér aftur inn í venjulega rútínu  *dæs* en þetta hefst einhverntíman. Ég hugsa að morgundagurinn verði erfiðastur og svo jafni sig flest all.

Heimferð í nánd

Það fer að líða að því að við keyrum suður á bóginn, svo stuttu seinna munum við fara enn lengra suður og enda í Kaupmannahöfn á sunnudaginn. Það er ekki laust við að maður vilji bara helst fá að vera hérna áfram. Ég hef “þjáðst” af töluverðri heimþrá síðan um áramót og hélt nú að hún myndi lagast, að einhverju leiti amk, með þessari heimferð en svo er nú ekki. Það er nefnilega helvíti notalegt að vera hérna, hvort heldur sem er í Hrísateignum eða hérna hjá tengdó á Akureyri. Maður er búinn að sakna ýmislegs án þess kannski að hafa áttað sig almennilega á því að maður hafi verið að sakna þess. Vonandi fer maður að hugsa aðeins öðruvísi þegar maður kemur aftur heim í Solbakken, kemst í rútínuna og hittir skólafélagana.

Ekki það að í sumar munu ég og mínir skólafélagar útskrifast og þá munum við örugglega fara hvert í sína áttina. 

En að öðru þá er ég búin að skila inn verkefninu sem ég þurrfti að gera fyrir Mediehojskolen, er bara nokkuð sátt hvort sem að þetta er eitthvað sem að þeir eru að leita eftir. Það eru “bara” 115 umsækjendur og það eru 21 sem komast inn. Það er gott að vera búin að skila þessu af sér svo að núna getur maður einbeitt sér að því að stressa sig yfir lokaverkefninu í skólanum. Það má segja að það sé ólíkt meira vinnuálag á þessari önn en hinum þremur. Það er ágætt að sumu leyti en pirrandi að öðru leyti. Ég hefði td alveg viljað geta slappað bara almennilega af, þá daga sem ég hef ekki verið að vinna að verkefnum, án samviskubits.

Og að enn öðru þá er frændinn minn æði, geggjað sætur og flottur.

Mikið að gera um páskana

Páskafríið mitt hefur ekki verið alveg jafn mikið frí og ég hefði óskað. Þess vegna ætla ég bara að monnta mig aðeins af því sem ég hef verið að teikna (sem er reyndar bara helmingurinn af því sem ég hef þurft að gera en jæja)…

[nggallery id=2]

Reyndar er himmelskipet ekki fullklárað, en það eiga að vera rólur sem að fara hringinn í kring svo að því verður bætt inn á í öðru forriti. 

Ég held að ég þurfi ekki að taka það fram að þetta er búið að vera töluverð vinna, með fyrirmyndaleit og öllu…

Smá vídeo

Hæhæ

Ég fékk að prufa stigvélina þeirra ömmu og afa og ég er heldur betur góður!

Kveðja úr Hrísateignum
Hrafnkell Myrkvi

Komin heim

Við erum komin heim, fimmtudagurinn gékk fáránlega vel. Svo vel að ég sat um miðjan dag í eldhúsinu mínu og hugsaði hvað í andskotanum ég væri að gleyma að gera því að ég gæti bara ekki verið tilbúin.

En við semsagt flugum um kvöldið, keyrðum svo beint á Akureyrina og allt gékk einsog í sögu. Síðan þá erum við búin að kíkja í teiginn, eiga mjög góðan dag þar, koma á Akureyri og fara í afmælisveislu og bara almennt séð hafa það rosalega gott.

Það er mjög velkomið að geta slakað aðeins á eftir frekar stressaðar vikur í skólanum. Á morgun þarf maður samt að fara að vinna aðeins í verkefnum en það er ekki í dag heldur á morgun ;-)