Að lifa lífinu hættulega ;-)

Í kvöld lifi ég lífinu hættulega. Ég ákvað, algerlega óvænt, að skoða atvinnuauglýsingar og skellti saman pdf útgáfu af ferilskránni minni og barasta sótti um á 3 stöðum. Ég veit varla hvað mér finnst um sjálfa mig, það er ekki líkt mér að taka svona skyndiákvarðanir. En það fer víst að líða að sumri, það fer líka að líða að útskrift og satt best að segja þá neyðist maður til að hugsa aðeins um framtíðina. Hvort sem ég fer í skóla eða ekki í haust þá þyrfti ég helst að fá einhverja sumarvinnu – þó að Hrafnkell þurfi örugglega að fara í sumarfrí í leikskólanum (þó maður viti ekki hvernig það passar saman við nýjar vinnur, já eða að sækja um vinnu yfirleitt) – já eða framtíðarvinnu. En mikið rosalega vildi ég óska að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu. Það er líka spuring um það hvað Doddi gerir í sumarfríinu sínu, hann verður víst búinn snemma í júní (en ég ekki fyrr en undir lok júní) og verður því í þokkalegu sumarfríi. Það eru, því miður, mjög takmarkaðar líkur á því að hann gæti fengið vinnu hérna annað hvort sem smiður eða tengda náminu – þetta eru einmitt þau störf sem að standa verst hérna einsog á svo mörgum öðrum stöðum. Mig hryllir þó við tilhugsuninni um að vera kannski 2- 2 1/2 mánuð Doddalaus, ef að hann þarf að fara eitthvert í burtu til að fá vinnu, hann er nefnilega alveg ágætur ;-)

En hvernig sem allt fer þá var ég dugleg í kvöld.

Ég er alveg að koma til Íslands!

Það er nú aldreilis farið að styttast í að ég komi til Íslands, ég er farinn að hlakka mikið til. Mamma hefur bara smá áhyggjur af því að ég eigi aftir að sakna Amiru, hún er nefnilega langbesta vinkona mín í leikskólanum. Ég elska hana svo mikið að ég sakna hennar þegar ég er heima, ég vildi óska að ég mætti bara taka hana með heim. Ég sagði meira að segja við mömmu og pabba að ég ætlaði bara að skilja þau eftir hérna og taka Amiru með mér í staðinn til Íslands :-)

Ég er búin að læra svoldið nýtt, mamma er svo glöð, ég er nefnilega búinn að læra að það sé stundum gott að kúra pínu í lúllinu á morgnanna. Mömmu og pabba finnst nefnilega rosalega gott að kúra svoldið og ég vakna alltaf svo snemma þessa dagana að stundum fæ ég að skríða upp í millið og bíða þar eftir því að það komi dagur (vekjaraklukkan hringi). Meðan ég býð þá tölum við mamma oftast saman um eitthvað sniðugt, pabbi heldur samt yfirleitt bara áfram að sofa.

Ég er líka farinn að telja upp að 13, amk þegar ég man eftir því að halda áfram eftir 10.

Um daginn þá kom vinkona hennar mömmu, hún Dísa, aðeins í heimsókn til okkar. Hún fékk að sofa á sófanum okkar og svo lékum við okkur aðeins. Hún gaf mér lítið páskaegg og harðfisk og flögur. Hún er sko líka vinkona mín núna – ég lofaði að ég kæmi að heimsækja hana þegar ég kæmi til Íslands.

Heyrumst seinna
Hrafnkell Íslandsfari

bara 8 dagar

Bankinn hefur ekki ennþá haft fyrir því að svara okkur, vonandi þýðir það að hann er virkilega að skoða málin og átta sig á því hvað hann er heimskur.

Það eru bara 8 dagar þangað til að við komum heim og satt best að segja þá gengur hræðilega að planleggja heimförina. Þar sem að við eigum bæði eftir að skila af okkur töluverðri vinnu þangað til þá er heimferðin einhvernvegin mjög óraunveruleg – amk fyrir mér. Ég held líka að Hrafnkell trúi okkur ekkert í alvörunni þegar við segjumst vera að fara til Íslands.

Ég get ekki beðið eftir tímabreytingunni – sumartíminn byrjar um helgina (og þó fyrr hefði verið). Það er orðið svo bjart á morgnanna að Hrafnkell vaknar alltaf fyrir 7, vonandi heldur hann áfram að vakna á sama tíma – það verður bara klukkustund seinna á klukkunni. Einsog mér finnst asnalegt þegar fólk talar um að það eigi að vera sumartími á Íslandi þá finnst mér þetta nauðsynlegt fyrirbæri hérna.

Annað (þessi færsla er rosalega hingað og þangað) er að ég hef verið ógeðslega orkulaus undanfarna daga, það gengur reyndar ágætlega að vakna og koma sér í skólann og svo heim aftur – en þegar heim er komið þá er ég bara ónýt. Ég er örugglega ekki mjög skemmtileg mamma þessa dagana, er búin að sofna óvart alla dagana í þessari viku :-/ Sem er bara ekki gott því að ég verð svo ógeðslega pirruð þegar ég þarf að vakna aftur.

En anyway þá eru bara 8 dagar þangað til að við komum og barnið þeirra Valdísar og Tryggva er áætlað á morgun :-)

ég er reið, ógeðslega reið

Ég er eiginlega bara rétt rúmlega brjáluð út í bankann okkar núna. Þetta eru andskotans helvítis glæpamenn.

Þegar hrunið varð þá reyndum við að millifæra peningana okkar til DK, ein færsla komst í gegn (10.000dkr). Við þökkuðum okkar sæla og borguðum leiguna. Nokkrum dögum seinna þá var peningurinn sendur aftur til Íslands og við sátum eftir algerlega á kúpunni 0g í stórskuld við bankann okkar en reyndar búin að redda húsnæðinu þann mánuðinn.

Núna vill bankinn að við borgum þeim peninginn. Þeir halda því fram að millifærslan hafi farið til dk en vegna mistaka hafi einnig haldið áfram að vera peningur inn á reikningnum svo að þeir segja að við skuldum þeim 264.300kr fyrir pening sem var sendur aftur heim.

Við erum búin að útskýra nákvæmlega fyrir þeim hvað gerðist og hvernig það gerðist en nei þeir vilja ekki viðurkenna að við skuldum þeim ekki jackshit fyrir þetta. Næsta skref er að senda þeim screenshot’s af danska netbankanum þar sem það sést svart á hvítu að þarna kom peningurinn inn og þarna fór hann aftur til baka. Ef það virkar ekki þá verður maður bara að finna hálfitana sem eru á bak við þessar ásakanir sjálfur með rör og gaddavír – andskotinn hafi það þetta er ömurlegur andskotans skítabanki!

Döðlu og súkkulaðiterta ala tengdó

 • 4 egg
 • 1 bolli sykur
 • 1 1/2 bolli döðlur
 • 100 gr suðusúkklaði
 • 1/2 bolli hveiti
 • 1 tsk lyftiduft


Eggin og sykurinn þeytt vel saman. Hitt er brytjað smátt og blandað saman. Því er svo blandað rólega saman við eggin/sykurinn. Sett í 2 tertubotna og bakað við 180°C .
Þeyttur rjómi og bananar settir á milli.

og dagurinn bara hálfnaður…

Ég vaknaði í morgun með strákunum mínum, sendi þá af stað í skólana sína og hófst svo handa. Sem betur fer hafði ég haft rænu á því að ákveða fyrirfram að mæta ekki í skólann í dag því að…

Í dag er svokallað páskaföndur í leikskólanum, það hefst klukkan 15:00 og stendur til 17:00 og þá hefst sameiginlegur kvöldmatur foreldra og barna í leikskólanum sem líkur klukkan 19:00. Fyrir löngu síðan kom upp listi í stofunni hans Hrafnkels þar sem að foreldrar voru beðnir um að skrá sig ef þeir væru tilbúnir til að baka fyrir föndrið. Ég var auðvitað tilbúin að baka svolítið, ég er eiginlega alltaf tilbúin til að baka – mér finnst það pínu gaman.

Nokkru seinna kom miðinn með öllum upplýsingunum um þetta allt. Við sáum að þeir sem vildu vera með í kvöldmatnum þyrftu að koma með einhvern rétt á hlaðborðið – við vorum fljót að ákveða að við nenntum ekki að fara. En svo var foreldraviðtalið og þar vorum við eindregið hvött til að mæta á þennan fja**ans kvöldmat því að það sýndi barninu í verki að við hefðum raunverulegan áhuga á því starfi sem færi fram í leikskólanum. Einsog það sé ekki nóg fyrir Hrafnkel að við segjum vá þegar hann gefur okkur eitthvað, spyrjum hann daglega um það hvað fór fram í leikskólanum osfr. Hann er þriggja ára, þetta skiptir hann örugglega ekki höfuðmáli.

En já þarna eiginlega neyddumst við til að melda okkur í matinn líka. Þannig að ég þurfti að finna einhvern rétt sem ég gæti gert, sem þyrfti ekki að hita upp (ekkert mötuneyti = bara einn bakaraofn fyrir 50+ börn og fjölskyldur þeirra að hita upp), sem þeir feðgar borða og sem sýnir hæfileika mína í eldhúsinu (og já það skiptir máli ;-) ) Þrautalendingin var sú að gera eitt kalt ostapasta með skinku, beikoni og leifunum af hamborgarahryggnum sem var á sunnudaginn (já það er ódýr helgarsteik) annars vegar og svo kjúklingasalat hinsvegar.

Svo kom upp spurningin hvað ég ætti eiginlega að baka, Doddi stakk upp á einhverju íslensku einsog td mjúkum bakaríssnúðum. Svo að ég ákvað að gera snúða (þeir eru geggjað góðir, kannski ég skelli uppskriftinni hérna inn bráðlega).

Síðan í morgun er ég þess vegna búin að hræra saman gerdeig, láta hefast, steikja beikon, steikja hunangsgljáðan kjúkling, fletja út og fylla snúða, láta hefast, ofsjóða pasta, taka úr uppþvottavél, setja í uppþvottavél (og af stað), setja snúða í ofninn og taka þá út aftur, fá mér að borða, sjóða pasta (aftur hitt var ógeðslegt), skera niður grænmeti, skera niður skinku, beikon og hamborgarahrygg, hræra ostasósu, blanda salat, blanda ostapastað, búa til glassúr og pennsla því á snúðana og að lokum setja allt í réttar skálar/á rétt föt.

Það sem ég þyrfti að gera er að taka úr uppþvottavélinni og setja í hana aftur, finna réttu áhöldin (til að taka með), skipta um föt (þið sem þekkið mig vitið alveg hvers vegna fötin sem ég fór í í morgun duga ekki lengur), græja mig og svo koma mér í leikskólann.

Ég ætla rétt að vona að Hrafnkell hugsi í kvöld, þegar hann er að sofna, “ég er svo glaður að mamma mín og pabbi minn hafa svo mikinn áhuga á því starfi sem fer fram á leikskólanum mínum að þau eyða öllum þessum tíma og fyrirhöfn að græja mat og bakkelsi til að hafa á svona degi einsog í dag”

En að lokum: ÞAÐ ERU BARA 2 VIKUR ÞANGAÐ TIL VIÐ KOMUM HEIM!

Geðveik eplakaka

Ég fékk mikla eplakökulöngun í dag svo ég ákvað að leita á netinu og finna eitthvað sniðugt og ég fann þessa:

 • 125gr smjör
 • 125gr sykur
 • 1 egg
 • 125gr hveiti
 • 2tsk lyftiduft
 • 2-3 epli (ég notaði 2 epli og eina peru – ofsa gott)
 • kanilsykur

Sykur og egg þeytt vel saman, smjörinu bætt út í (og hitaði það aðeins upp svo að það væri nógu lint til að nota með þeytaranum í græjunni minni) og blandið vel saman. Hrærið svo hveitinu og lyftiduftinu hægt saman við. Deigið er sett í mót og eplin (og peran) skorin niður, uppskriftin segir í þunna báta en ég skar þetta abra niður í litla bita – mér var svosem sama þó að þetta væri ekkert of fallegt. Eplunum (og perunni) raðað ofan á deigið og svo stráð vel að af kanisykri yfir.

Bakað við 175° (blæstri) í hálftíma (og þá er hún frekar blaut, margir myndu baka hana lengur).

Svo er mælt með að borða hana heita með rjóma eða ís… Við áttum engin svoleiðis dýrindi en það hindraði okkur ekki í því að borða alltof mikið, alltof hratt ;-)

Sundstrákur

Við fórum saman í sund, ég, mamma og pabbi. Við fórum bara í sundlaugina sem er hérna rétt hjá okkur. Við höfum reyndar aldrei farið þangað áður og það er reyndar orðið líka mjög langt síðan við fórum í sund seinast. Ég var samt ekkert búin að gleyma, en var ólíkt þægari en seinast – núna var þetta nefnilega allt svo spennandi. Mér fannst gaman að klæða mig úr fötunum í stelpuklefanum, það var síðan líka gaman að vera í sturtunni. Svo þurftum við mamma að labba laaangan gang og niður stiga og svo annan langan gang til að komast í laugina. Sundlaugin var, einsog danskar laugar eru almennt, frekar köld en það var í lagi því að ég buslaði aðeins. Fyrst fannst mömmu og pabba ég vera búinn að gleyma miklu, ég kvartaði yfir því að það væri vatn í augunum á mér og kunni varla að kafa lengur. Mamma sagði að það væri útaf því að ég væri svo gamall og það væri svo langt síðan við fórum seinast. En ég sannaði það enn og aftur að ég er ótrúlegur vatnsköttur. Ég var fljótur að sleppa takinu á mömmu og pabba og vildi helst bara kafa á milli þeirra – kútalaus, aftur og aftur. Svo fékk ég kútana mína og þá var ég ekki hræddur við neitt. Það var samt gott að hafa mömmu og pabba til að halda í þegar maður þurfti að anda aðeins, en svo var ég bara farinn. Ég nota bara fæturnar mínar til að busla og þá kemst ég hratt áfram. Ég þori líka alveg að hoppa ofan í vatnið og mamma og pabbi þurftu stundum að stoppa mig og segja mér að anda aðeins rólega í smá stund.

Þarna voru nokkrir stærri krakkar sem voru miklu óöruggari en ég, mamma sá til dæmis einn strák sem virtist vera 5-6 ára horfa á mig með aðdáunaraugum á bak við kútana, flotholtin og traustatakið sem hann hafði á mömmu sinni. En þetta er samt ekkert nýtt, ég hef alltaf vakið athygli þegar við förum í sund – sérstaklega hérna í dk – vegna þess hversu óhræddur og duglegur. Samt er ég líka góður að því leyti að ég er ekki mikið fyrir það að hlaupa í burtu, sem mömmu finnst mjög gott mál því annars væri ég stórhættulegur.

Það verður gaman að koma heim til Íslands og fara í sund þar, þar er líka miklu heitara (og bragðbetra) vatn og svoleiðis.

Kveðja frá Köben
Hrafnkell Myrkvi

erfið vika (ekki fyrir viðkvæmar sálir)

Mér hefur liðið betur. Ég fór á barinn á föstudagskvöld, skemmti mér svona líka ljómandi vel. Vaknaði á laugardaginn með magapínu, tengdi það vitaskuld áfengisdrykkjunni. Svo leið og beið og ólíkt venjulegum þynnkum þá fór allt niður en ekki upp hjá mér og mér leið ekkert betur um kvöldið. Svo kom annar dagur og mér leið ennþá illa, kom í bylgjum – stundum leið mér ok en stundum bölvanlega. Mánudagur var lítið skárri og þriðjudagur eilítið skárri.

En ég var ekkert rosalega klár og fór í partý á þriðjudagskvöldið, 4. annar nemendur geta leyft sér svona hegðun ekki satt? (haha annað partý næsta miðvikudag) Ætlaði ekki að drekka mikið en stútaði þó einni rauðvínsflösku (haha já ég er svo klár eða þannig) og einum stubb (lítill bjór) og mér leið svo illa að ég fór snemma heim. Svaf í 7 tíma, kom Hrafnkel í leikskólann, svaf svo aðra 3-4 tíma og leið bölvanlega það sem eftir leið af degi. Núna er kominn fimmtudagur og mér líður ennþá illa, betur en í gær en samt illa.

Magaástandið hefur reyndar ekki verið alltaf bara niður, heldur líka aðeins upp þó er mér meira bara óglatt stundum en hef bara ælt 2x. Einnig er þetta ekki alltaf lekandi, stundum þvert á móti – en það sem er sameiginlegt með ástandinu er ónotatilfinning í meltingarfærunum. Ég ætti að fara til læknis en ég er alveg viss um að ef ég pannta tíma þá lagast þetta áður en ég hitti hann. Það er líka asnalegt og segja “mér er illt í maganum, stundum er mér óglatt, stundum er ég með niðurgang og stundum með harðlífi og já ég hef dottið í það 2x á innan við viku… hvað ætli sé eiginlega að mér?”

Anyway þá er ég ógeðslega þreytt, get engan vegin einbeitt mér (á að vera að gera einfalda javascript æfingu í skólanum), veit ekki hvort ég þarf að fara á klósettið eða ekki OG UMFRAM ALLT þá vorkenni ég mér agalega. Sérstaklega því að ég hef mestann tímann ekki getað vorkennt mér fyrir að vera veik því að þegar maður er veikur rétt eftir drykkju þá heitir það ÞYNNKA :-(

Skrítinn draumur

Mig dreymdi skrítinn draum, mér leið eiginlega verulega illa yfir honum þegar ég vaknaði.

Mig dreymdi að ég var að fela mig því að ég vildi ekki að öldruð frænka mín (well ekki alvöru frænka heldur kona föðurbróðurs míns) sæi mig. Hún var svo reið yfir öllu útaf því að það væru svo margir látnir og frænka mín (dóttir hennar) átti í fullu fangi með að passa hana. Ég var svo viss um að ef gamla konan sæi mig þá yrði hún ennþá sorgmæddari (sem ég held reyndar að sé ekki satt) og ég grét og grét yfir því að henni leið svo illa. Semsagt alveg rosalegt drama.  Ég vona að svona rosalega tilfinningaþrunginn draumur þýði eitthvað gott, sérstaklega fyrir þennan væng af fjölskyldunni, er ekki yfirleitt annars þannig að draumar eru öfugsnúnir (svona ef maður tekur eitthvað mark á þeim yfirleitt)?