Bólustrákur

Hæhæ

Ég er bólustrákur, ég er nefnilega með hlaupabóluna. Hún byrjaði sem ein auka brjóstabóla (aukageirvarta) en núna er ég sko með bólur út um allt. Ég er með bólur í rassinum, á pungnum, inní báðum eyrunum (og á bak við þau), undir ilinni, á puttunum, í hársverðinum osfr. Ég er með bólur alls staðar. Allra mestu bólurnar eru þó á rassinum (ath ekki í rassinum heldur á rassinum). Þar er ég bara einsog hraun, minnst er af bólum á bakinu og á fótunum. Bólurnar pirra mig ekki mikið, mér finnst þær samt kitla mig svolítið svo að mamma keypti krem í apótekinu til að setja á bólurnar. Þetta er ekki svona bleikt krem einsog mamma þekkir frá Íslandi heldur er þetta hvítt í spreybrúsa. Ég er þessvegna hvítflekkóttur og þarf að vera berrassaður heillengi á meðan kremið þornar alveg. Svo sá mamma að það er nánast ómögulegt að þvo þetta krem úr hárinu á mér bara með vatni svo að hún þarf að kaupa sjampó fyrir mig.

Ég veit að ég er veikur en mér líður ekkert illa, ég er ekki með neinn hita, ég er glaður og hress. Mér leiðist svolítið mikið, pabbi er líka veikur (með flensu) og mamma þarf að læra mikið, það væri gaman að komast bara í leikskólann og hitta krakkana. Eða amk að fara út og leika mér, mamma ætlar nú að fara með mig eitthvað út á morgun þó að ég sé örugglega bráðsmitandi ennþá.

Ég er búin að horfa mikið á teiknimyndir, of mikið segir mamma, svo keypti mamma kennaratyggjó svo að ég er búinn að vera að teikna og klippa myndir til að skreyta veggina okkar, mamma bjó til leir handa mér og ég leiraði aðeins. Ég var aðalega að leira litla bolta handa barninu hennar Valdísar, ég er líka búinn að vera duglegur að fara í bað. Mér líður vel í baðinu en mig klæjar mest þegar ég kem uppúr því.

Mamma segir að það séu bara 5 vikur (ekki 6 einsog hún hélt) þangað til að við förum til Íslands. Við ætlum að fara í flugvélina og fljúga lengi, lengi og svo komum við til Íslands. Það verður sko rosalega gaman, ég ætla að fara aftur og sjá tröllið undir brúnni (sem ég sá í sumar þegar ég fór í Vaglaskóg með Bobbu ömmu og Steina afa (og mömmu reyndar)).

Jæja heyrumst seinna
Hrafnkell bólustrákur

Verur og bakteríur

Þetta ár, allir tveir mánuðirnir sem eru (nánast) liðnir af því, er búið að vera mjög undarlegt. Það hefur einkennst af pestum og aumingjaskap, heimahangsi og leti. Maður er varla búinn að ná sér eftir eina pest þegar sú næsta herjar, alltaf þegar ég er ekki með pest þá er Hrafnkell veikur og núna er Doddi líka veikur. Milli pesta er maður almennt með einhverja kvefdrullu, sem er þá annað hvort leifar af seinustu pest eða byrjunin af þeirri næstu. Mér leiðist þetta.

Skólinn hefur líka verið undarlegur. Fyrst var janúarmánuður með bara 2 prófum og ekki meir, sem var reyndar ágætt því að þá gat maður þó verið svoldið veikur inn á milli. Reyndar þá var ég frekar mikið veik í seinna prófinu en jæja skítt með það, ég fékk samt 10. Svo kom febrúar og hann hefur nánast bara farið í það að finna sér fyrirtæki og bíða eftir fyrsta fundinum með kúnnanum. Svo þegar ég hef ekki verið veik þá hafa hópfélagar mínir (Kirsten og Michelle) verið veikar. Kirsten tók sig meira að segja til að fá lungnabólgu og henni er alltaf að slá niður, ég er reyndar að reyna að segja henni að druslast til að vera lengur í rúminu, hætta að hafa áhyggjur af þessu – við getum alveg reddað því sem þarf að gera án hennar, svo framarlega sem hún hætti bara að vera veik á endanum.

Mig er oft búið að langa á djammið en það hefur lítið orðið úr því, vegna þess að ég hef orðið veik, ég hef verið barnapíulaus og þeir sem ég hef ætlað að djamma með hafa orðið veikir. Ég held að allar veirur og bakteríur Danmerkur hljóti að vera á sterum eða eitthvað.

Það væri fínt að hætta þessu veikindabasli, þá gæti maður kannski haft það af að þrífa hérna almennilega, komist kannski heila viku í skólann osfr. Maður verður svo mikill aumingi þegar svona ástand varir lengi lengi. Við máttum svosem vita að það kæmi að þessu þar sem við höfum ekki verið oft veik undanfarið ár.

Kjúklingabólusótt – bollaútbrot – hlaupabóla

Ég hugsa að það sé nokkuð víst, hlaupabólan er komin í hús. Hrafnkell er með nokkrar kommur og svo eru komnar ca 10 bólur og þeim fer fjölgandi. Hann er varla búinn að jafna sig á einni pest þegar hann fær þá næstu :-( Svo má gera ráð fyrir að hann þurfi að vera heima í viku og hey það er frí í leikskólanum á fimmtudag og föstudag í næstu viku! Þannig að við þurfum að púsla saman hver er heima og hver fær að fara og læra, gæti verið að við (amk ég) þurfi svo að nota helgina til að læra líka (sem ég þoli ekki) en jæja það er lítið hægt að gera í því.

Vonandi nær hann bara að fá allar þessar pestir áður en við förum til Íslands, þá gæti hann kannski einhvern tíman verið á Íslandi í smá tíma án þess að verða veikur (seinustu 2 skipti hefur hann veikst).

Varizella zoster er vírus með mörg og skrítin nöfn. Á ensku heitir þetta chicken pox, sem útlegst á íslensku sem kjúklingabólusótt – það er vegna þess að þetta var talin vera saklausari útgáfa af bólusótt. Ef þeir hefðu bara kallað þetta innocent pox eða simple pox í staðinn þá væri fólk kannski ekki að missa sig af áhyggjum yfir þessari saklausu veiki – ég skil ekki af hverju fólk vill láta bólusetja við þessu og ég skil ekki af hverju frísk börn með hlaupabólu mega ekki fara á leikskólann, hvað með það þó þau smiti hina – þá bara smitast þau og þetta er búið.
Á dönsku heitir þetta skoldkopper, sem ég skilst að þýði bollaútbrot, hvaðan það nafn kemur hef ég ekki hugmynd en ég sé ekki alveg samlíkinguna á milli bolla og bólanna sem koma.
Á íslensku heitir þetta hlaupabóla, bóla augljóslega útaf bólunum en af hverju hlaupa? Það er ekki einsog bólurnar séu neitt að færa sig þegar þær eru komnar.

Anyway nóg komið af tilgangslausum pælingum, ég þarf að reyna að læra

Mangókarrýkjúklingur

Ég fann þessa mögnuðu uppskrift á matsedillinn.is og þetta var svo hrikalega gott að ég ákvað að blasta þessu hérna inn:

500gr kjúklingabringur
4 hvítlauksrif
250ml rjómi
½ -1 krukka mangó chutney
1msk karrý
Salt og pipar
Hrísgrjón og salat

Kjúklingabringurnar skornar niður og steiktar á pönnu með salti og pipar. Þegar þær eru nánast steiktar (kjötið nokkuð vel lokað) þá á að setja hvítlaukinn, niðurskorinn (eða niðurrifinn einsog ég gerði það), út á kjötið og svo rjómann (ég notaði matreiðslurjóma), mango chutney-ið og karrýið. Blandað saman og svo látið malla í ca 15 mínútur.  Borið fram með soðnum hrísgrjónum og salati.

Þetta er geðbilað gott, maður finnur allt í senn sæta bragðið af mango chutney-inu, hvítlaukskeim (sem er þó ekki yfirdrifinn) og karrýkeim. Bragðið helst síðan leeeeengi í munninum á manni þannig að maður nýtur matarins þegar maður er búinn að borða líka ;-)

Fyrir þá sem vilja vita

Kaupmannahöfn til Reykjavík
Flug 1 fimmtudagur, 2. apríl 2009
Brottför: 19:45 Kaupmannahöfn, Danmörk – Copenhagen Flugvöllur, Terminal 3
Komust. 20:55 Reykjavík, Ísland – Keflavik International
Flugfélag: Icelandair FI213 Flugvél: 75W
Fargjald : Economy Class/Lægsta fargjald
Farangur: 20 kíló á farþega
Reykjavík til Kaupmannahöfn
Flug 1 sunnudagur, 19. apríl 2009
Brottför: 13:15 Reykjavík, Ísland – Keflavik International
Komust. 18:15 Kaupmannahöfn, Danmörk – Copenhagen Flugvöllur, Terminal 3
Flugfélag: Icelandair FI212 Flugvél: 75W
Fargjald : Economy Class/Lægsta fargjald
Farangur: 20 kíló á farþega

Fjölskyldan mín

desktopmini

Mamma notaði hluta af þessari mynd sem facebook profile picture. Þarna má sjá pabba minn, mig í miðjunni og svo mamma. Ég og mamma eru græn en pabbi er brúnn. Pabbi er með mikið af fínum tönnum en mamma er með svona flott 2 löng hár. Ég var svo orðinn þreyttur þegar ég teiknaði mig.

Hrafnkell segir frá

Halló öll!hrafnkell_fastelavn

Mamma hefur ákveðið að hætta með barnalandssíðuna mína og ætlar í staðinn að hafa fréttir af mér hérna. Hún mun, hægt og rólega setja allar myndirnar af mér í albúmið mitt í gallerýinu svo að þær verða ennþá aðgengilegar – þar er líka hægt að skrifa komment. Ef ykkur vantar lykilorðið sendið mömmu minni bara email á eddaros@eddaros.com og spyrjið um það.

Það er margt búið að gerast, enda skrifaði mamma seinast í desember – sem er alveg á seinasta ári. Við komum heim, eftir langt ferðalag, í byrjun janúar. Það var bara alveg ágætt, eftir öll lætin um jólin, að komast í smá ró og næði hérna heima. Pabbi fór fljótlega aftur, hann þurfti að fara í vinnuna sína, langt upp í fjöllunum. Mér fannst nú eiginlega svolítið súrt að Þórný frænka mín fengi að hafa pabba minn hjá sér, einsog hún geti ekki bara notað sinn eiginn pabba.

Ég talaði oft við pabba í tölvunni hennar mömmu, þó það væri nú ekki alltaf eitthvað gáfulegt sem við töluðum um þá fífluðumst við svolítið saman.

Í janúar þá var ég ofsalega listarlítill, einsog seinni partinn í desember, mamma var eiginlega farin að hafa smá áhyggjur af þessu. En ég er farinn að borða aðeins meira núna, mamma ætlar svo að fara að vera duglegri að gefa mér fjölbreyttara nesti fyrst ég er farinn að vera duglegri að borða. Nefnilega þá var ég farinn að borða svo lítið að mamma var farin að gefa mér bara að borða það sem hún vissi að ég myndi borða. Ég er nefnilega svo grannur að það er ekkert gott fyrir mig að vera í einhverju aðhaldi.

Ég er líka búinn að vera óttarlegur lasarus. Ég var veikur í desember, í janúar var ég óttalega leiður og pirraður (og mamma hélt að það væri mest megnis vegna pabbaskorts) en svo í byrjun febrúar þá fékk ég heiftarlega eyrnabólgu. Daginn sem pabbi ætlaði að koma heim fór ég að kvarta undan verk í eyranu mínu. Það var svo vont að ég fór að gráta, mamma reyndi að laga það einsog hún gat og svo fór ég til læknis strax daginn eftir. Læknirinn sagði að ég væri með bakteríueyrnabólgu (bakteríu vegna þess að þetta var bara í einu eyra sagði hann) og ég fékk lyf. Mér fannst þetta lyf ekki sérstakt til að byrja með en í lokin fannst mér það svo gott að mér fannst hálf fúlt að klára það, vildi bara fá meira lyf. Svo í þessari viku þá fékk ég háan hita á þriðjudaginn og var samt orðinn fínn daginn eftir. Konurnar í leikskólanum segja samt að ég sé eitthvað slappur, svo að mamma sótti mig snemma í gær EN ég var samt bara hress og fínn þegar hún sótti mig svo að hún veit ekki alveg hvað þær voru að tala um.

Í dag er svo Fastelavn – það er reyndar ekki fyrr en á sunnudaginn en  við höldum uppá það í dag í leikskólanum. Þá fara allir í búningum í leikskólann og við sláum köttinn úr tunnunni, fáum fastalavnsboller  og fleira gott. Mamma heldur að þetta sé eiginlega bara bolludagur-sprengidagur-öskudagur í einni blöndu. Ég er galdrakall, með sítt hár, hatt og töfrasprota.

Ég tala mikið um Ísland, ég vil helst bara fara til Íslands sem fyrst. Kannski þarf ég bara að fá smá frí frá leikskólanum, veikindum ofl án þess þó að lenda í öllum skarkalanum og látunum sem voru í Noregi. Heima hjá ömmum mínum og öfum á Íslandi er svo rólegt, þar fæ ég líka alla athyglina einn (sem mér finnst ekkert hræðilegt sko). Í Hrísateignum er ég líka aðeins frjálsari en annars staðar. Þar er svo auðvelt að fara út í garð að leika sér þegar maður vill, þar er líka hægt að hjálpa afa að gera ýmislegt sem þarf að gera. Mig langar líka til að sjá litla barnið hennar Valdísar, sko litla strákinn sem hún er með í bambanum (svo til að koma í veg fyrir misskilning þá vitum við ekkert hvort þetta er strákur eða stelpa, nema að Hrafnkell VEIT að þetta er STRÁKUR ekki stelpa ;-) ). Mamma segir samt að það sé ekki hægt að gefa honum nammi fyrr en í fyrsta lagi eftir að hann kemur út úr mallakútnum hennar. Helst vildi ég bara að mamma fengi litla barn í mallakútinn sinn, en hún vill það ekki. Segir alltaf bara kannski seinna eða fer bara að tala um það hvað ég þarf að vera duglegur þegar ég hitti litla barnið hennar Valdísar. Það er sko margt sem ég vil gera þegar ég hitti hann, ég ætla að halda á honum, leika við hann, skipta um kúkableyjur (aha!) og hugga hann, finna mömmu hans fyrir hann og bara gera allt til að hann hafi það sem best. Ég verð nefnilega svo risalega stærri en hann. Mamma segir samt alltaf að þegar ég hitti litla barnið hennar Valdísar þá verði ég að passa mig rosalega vel og umfram allt að hlýða Valdísi.

En kveðjur í bili
Hrafnkell Myrkvi

Undarlegur email

Ég fékk svoldið undarlegan tölvupóst um daginn. Þar sem að ég er greinilega bæði gömul og barnaleg þá ætla ég að birta samtalið í heild sinni hérna – þar sem að ég er ekki alveg heimsk samt þá ætla ég ekki að birta neinar upplýsingar um það hvað greyið heitir.

Fyrst fékk ég þetta:

“Hææ…

Exxxx heiti ég, mig langar að spurja þig hvort þú hafir lesið min ven thomas Smile emoticon ??
Ef svo er, væriru nokkuð til í að segja mér frá henni, allvega fyrstu 10 kaflana :P hehe”

Svo svaraði ég:

“Ég hef reyndar lesið hana en hver í ósköpunum ert þú og af hverju ætti ég eiginlega að vera að segja þér frá henni?”

Þá kom:

“Fyrirgefðu! En eins og ég sagði fyrst, þá heitir ég Exxxx og vegna nokkurra smáatriða þá næ ég ekki innihaldinu úr bókinni
og var að leita að einhverjum glósum á netinu og þannig fann ég síðuna þína á leit.is! það eina sem mig vantar er að vita
hvort þú gætir sagt mér í stuttu máli innihaldið í köflum 1-10!!”

Og aftur svaraði ég:

En af hverju í ósköpunum ætti ég að hjálpa einhverri stelpu, sem ég þekki ekki rassgat, svo að hún sleppi við að læra heima?

og þá kom þetta:

“Vaá, róleg!! hver segir að ég sé ekki búin að læra heima!! ég er búin að lesa þessa fkn 10 kafla í bókinni en ég næ ekki innihaldinu af
því að ég er ekki fkn góð í dönsku…FYRIRGEFÐU að ég spurði!! ég vissi ekki að þú værir svona góð með þig
að geta ekki reddað mér stuttum texta af innihaldi af þessa helvítis sögu…en fyrst þú lætur svona sama hvað þú ert gömul, þá
bara SLEPPTU ÞVÍ!! ef ég hefði vitað að þú værir með svona rosa barnaleg þá hefði ég aldrei spurt!! gleymdu þessu bara!”
Og þá hló ég bara inn í mér og hætti að svara greyinu. Ég velti því fyrst fyrir mér hvort að það væri einhver að gera grín í mér en svo google-aði ég nafnið á henni (sem er pínu sérstakt) og það kom bara ein upp og hún verður 17 á þessu ári.
Finnst ykkur alveg eðlilegt að senda ókunnugum email til að byðja þá um að læra heima fyrir ykkur? Það er bara nánast að maður hafi upp á foreldrum þessa barns og bendi þeim á að kenna barninu smá netkurteisi (reyndar efast ég um að þessi einstaklingur sé alveg til fyrirmyndar í kjötheimum ef hún hagar sér svona í netheimum).
Ég bara verð samt að segja að “en fyrst þú lætur svona sama hvað þú ert gömul, þá

bara SLEPPTU ÞVÍ!! ef ég hefði vitað að þú værir með svona rosa barnaleg þá hefði ég aldrei spurt!!” er mitt uppáhalds :-)

MONT!

Hópurinn minn fékk svar, degi fyrr en búist var við og við fengum verkefni hjá….. (TROMMUSLÁTTUR)

GORM LARSEN & PARTNERS!

og bara fyrir þá sem ekki vita og nenna ekki að skoða heimasíðuna þeirra þá er þetta eitt stærsta og virstasta auglýsingafyrirtæki DK!

Hvar á ég að byrja?

Ætli ég byrji ekki á sögunni af veskinu hans Dodda. Þannig var það að einhverntíman seinni partinn á seinasta ári þá týndi Doddi veskinu sínu, þaes það týndist eða því var stolið. Það komu þó, sem betur fer, engar skrítnar færslur á kortin hans og því var trassað og trassað að gera eitthvað í þessu. Hann var reyndar búinn að hafa samband við lögguna en þar var ekkert að finna, hvorki veski né hjól. Svo núna um daginn var maðurinn búinn að ákveða að það væri kominn tími til að pannta sér ný kort, nýtt ökuskýrteini, nýtt gult kort osfr. Eitthvað sem hefði kostað örugglega 15-20 þús (ísl) en var víst óhjákvæmilegt. En viti menn alltíeinu fékk hann veskið bara sent í pósti, frá löggunni, og í því var allt nema peningurinn sem hafði verið í því. Bara nokkuð gott :-)

Hrafnkell er orðinn býsna duglegur, enda heyrist “ég kann sjálfur” býsna oft (og ég veit aldrei hvort að hann er að segja að hann kunni (ísl) eða að hann geti (dan)) á dag, hann getur núna klætt sig í öll föt frá nærbuxum til útigalla algerlega sjálfur, með hneppum, tölum, rennilásum (ef þeir eru lokaðir að neðan, hann þarf hjálp að setja saman rennilás þó að hann geti alveg rennt upp sjálfur) og öllu. Og hvað varðar tölur þá kann hann bæði að hneppa þeim og losa þær, sem ég tel bara býsna gott miðað við að hann á nánast engin föt sem eru með tölum.
Hann er líka með Íslandsáráttu, talar mikið um það hvað hann ætlar að gera á Íslandi, með hverjum osfr. Hann vill mest hitta Bobbu ömmu, Steina afa og Magna Stein, ef maður spyr hann um Hjöddu ömmu og Bjössa afa þá er hann alveg til í að hitta þau EN þau eru sko búin að fá að hitta hann, sem er alveg rétt þannig lagað.
Hann er líka orðinn aðeins duglegri að borða, janúar var hræðilegur – barnið vildi ekkert borða nánast, en maður þarf að halda honum við efnið. Í gær borðaði hann td heila skál af graut bara fyrir allt fólkið sem honum þykir vænt um svo að ef þér finnst að þú hafir kannski fengið 1-2 skeiðar af graut í gær þá kemur það frá Hrafnkeli Myrkva ;-)
Hrafnkell er líka með lítill börn á heilanum, hann vill endilega að við fáum okkur eitt stk litla barn. (Valdís fær marga plússa í hans huga fyrir það að vera svona dugleg að hafa litla barn í mallanum á sér, honum finnst þetta mjög gott framtak hjá henni). Hann kom meira að segja til mín um daginn, þar sem ég sat á klósettinu og gerði mitt, með báðar hendur útréttar einsog hann héldi á einhverju alveg ofurviðkvæmu (en það var ekkert) og sagði “sjáðu mamma” rétti fram hendurnar svo ég gæti séð betur “hérna er litla barn sem þú getur sett í bambann þinn”. Hvað segir maður við svona?
Annars er ég að spá í að flytja Hrafnkel hingað á síðuna mína, færa albúmið hans í gallerýið mitt. Viðmótið á barnalandi er bara svo leiðinlegt, ég nenni varla að setja inn myndir og skrifa þangað. Hérna væri líka hægt að skrifa athugasemdir við myndirnar, sem gæti alveg verið gaman.

Hvað varðar mig þá erum við, hópurinn minn, búin að fara á nokkra fundi með fyrirtækjum og núna höfum við eiginlega ekkert að gera nema að bíða. Eitt fyrirtækið ætlaði að svara í morgun en það er ekki ennþá komið svar, ég er farin að hallast að því að það sé ekki gott merki :-( Annað fyrirtæki ætlar að láta okkur vita á föstudaginn (sem er víst á morgun hehe) og enn eitt ætlar bara að láta vita næstu daga. Ég veit að þetta er ósköp eðlilegt ferli en mikið rosalega finnst mér þetta óþægilegt. Ég vil bara fá verkefni og geta byrjað að skipuleggja, græja og gera.

Well best að halda áfram að bíða…