Úr einu í annað

Ég er þreytt, alveg ótrúlega þreytt eitthvað. Það tekur á að gera ekki neitt að viti ;-)

Annars var ég að fá ábendingu um nám, hérna í Köben, sem ég gæti farið í sem framhald að margmiðlunarhönnuninni – og það endar í batchelor! Ég veit, þvílíkt menntasnobb í gangi en mig langar í batchelor gráðu. Mig langar reyndar til að fá einhverntíman meira en það en ætli það sé ekki best að taka þetta í þrepum bara.

Ég er búin að vera að vinna að heimasíðunni minni en einsog fólk segir, góðir hlutir gerast hægt. Sérstaklega þegar maður er jafn gleyminn og ég og man sjaldan eftir að gera save og svo hrinur forritið og nokkra klst vinna hverfur. Þá gerast góðir hlutir mjööööög hægt. Líka þegar forritin gera ekki það sem þau eiga að gera. En það er ekki einsog maður sé með eitthvað deadline, þetta er meira svona show off hvað maður kann að gera – ef manni myndi einhverntíman detta það í hug að sækja um vinnu einhversstaðar.

Það dó einn fiskur í fiskabúrinu, ég held að hann hafi bara verið gamall eða eitthvað – en amk þá dó hann og svo þegar ég ætlaði að fiska hann uppúr þá var búið að borða hann mest allan. Ég lét hann þá bara vera og núna er hann horfinn. Ég veit svosem ekki hversu hollt það er fyrir félaga hans að éta hann en amk þá hvarf hann mjög hratt. Það merkilega er að daginn eftir það þá fylltist búrið af sniglum, svo mig grunar að það hafi verið sniglaæturnar mínar sem gæddu sér á honum.

Hrafnkell er búinn að vera í vondu skapi undanfarið, hann vill ekki fara í leikskólann og í dag vildi hann ekki heldur koma heim. Hann er algerlega öfugsnúinn, ef ég segi að eitthvað sé rautt þá er það blátt. Hann er víst líka svona í leikskólanum, er reiður útaf því að einhver leikur sér að vitlausu dóti og með svoleiðis vesen. Í gær fórum við aðeins út að leika eftir leikskólann, svo þurfti hann að pissa. Ég vildi ekki leifa honum að pissa úti, það var kalt, svo að hann pissaði á sig frekar en að fara inn. Þegar hann var búinn að pissa á sig þá vildi hann fara inn en ég var svo ill að ég vildi ekki halda á honum (hlandblautum og fínum). Ég vona að hann skáni þegar Doddi kemur, mig grunar að þessi fýla sé tengd því að Doddi er ekki hérna en mig grunar samt líka að þegar Doddi kemur þá taki við önnur fýla – svona þú-varst-ekki-heima-þegar-þú-áttir-að-vera-heima-karldurgur-fýla. Hann fer nefnilega oft í fýlu við mann þegar maður kemur aftur.

Bwah!

p1120197Ég er búin að sauma og sauma og sauma og sauma, græja og gera og loksins er galdrakallakyrtillinn tilbúinn, með stjörnum og dúlleríi og alle sammen.

Svo fer barnið í þetta, sveiflar aðeins höndunum til og segir “en mamma ég vil bara vera tígrisdýr”

Fitubollubúð

Ég er illa haldin af buxnaskorti. Allar buxur sem ég átti voru annað hvort með major gat í klofinu (ekki mjög aðlaðandi) eða þá amk 1/2 nr of litlar (ekki heldur mjög aðlaðandi). Þar af leiðandi ákvað ég að fara á buxnaveiðar í dag, græjaði mig á hjólið mitt og skrapp í Fisketorvet.

Í Fisketorvet lá leið mín beinustu leið í H&M, einsog ávalt þegar ég að að veiða föt. Ég fór í venjulegu fatadeildina, fjárans bara til buxur á horrenglur (já eða amk konur sem eru ekki jafn læramiklar og ég), svo fór ég í stórkonudeildina, fjárans bara til buxur í stærð 52 eða stærra (svona nánast). Ég var orðin ansi pirruð, enda hef ég í þónokkurn tíma verið á þessu fatastærðarbili – það eru til buxur sem eru of litlar og það eru til buxur sem eru of stórar en ekki passlegar. Mín lausn á því vandamáli væri að taka mig á og grennast (hin áttin er ekki lausn í mínum huga) í staðinn fyrir að hugsa bara um það að taka mig á. En þar sem að ég þarf buxur sem passa núna þá er ekki nóg að ákveða að byrja í ströngum diet á morgun.

Hvað átti ég þá að gera? H&M hefur verið mín fatabúð síðan við fluttum hingað út, að fara inní margar aðrar fatabúðir hérna er súrrealískt þar sem að það eru flestar fatabúðirnar hérna bara með föt á konur í góðu formi eða horaðari.

Ég ákvað að brjót odd á oflæti mínu og hætti mér inní fitubollubúðina (ta ta ta dammm). Búðina sem auglýsir óhrædd bara föt í stærðum 42 eða stærra, búðina sem er í alvörunni með fitubollugínur (sem eru reyndar með venjulega  hausa og þar af leiðandi frekar kjánalegar). Ég laumaðist inn í búðina, með þá ósk í hjarta að enginn myndi sjá mig – amk enginn sem þekkir mig. Inn í búðinni missti ég andlitið, þarna inni var í alvörunni hægt að finna smekkleg föt (þrátt fyrir að gínurnar væru allar í fötum sem voru kellingalega smekkleg), það var heill veggur með mismunandi sniðum af gallabuxum OG mín stærð var til! Ég gat virkilega valið hvernig buxur ég vildi, ég þurfti ekki bara að kaupa einu buxurnar í búðinni sem voru til í minni stærð, ég hafði val. Ég tók nokkrar buxur og fór að máta og ég bara trúði ekki því sem ég var að upplifa. Buxurnar voru bæði smekklegar og þær voru hannaðar til að ná YFIR spikið og slétta það í staðinn fyrir að ná rétt upp á mjaðmir og þrengja þar að til að beri sem mest á öllum aukakílóunum – einsog flestar “venjulegar” buxur.

Ég bara verð að segja það að það er bara nokkuð ánægjulegt að vera í nýju fitubollubuxunum mínum. En það er samt takmarkið að fara í átak… Bráðum amk…

Mamma og Myrkvi

Við Hrafnkell ákváðum að fara í smá ævintýri í gær. Við græjuðum okkur, löbbuðum út á götuhorn og tókum strætó í Fisketorvet. Þar byrjuðum við á því að versla okkur bíómiða á Madagaskar 2 (vi taler dansk) og svo fórum við í H&M og keyptum ofsalega flotta fingravettlinga (ég vildi að ég gæti keypti magnpakkningu á vettlingum á barnið því að hann týnir þeim svo hratt að það er ekki eðlilegt). Svo fórum við í bíóið. Mamman komst að því að það er nánast 2 manna verk að fara með barnið í bíó – það þarf að leiða hann (amk finnst henni það) og svo þarf að halda á poppinu, drykkjum ofl.  EN þetta hafðist, við komumst inn í bíósalinn og horfðum á þessa stórskemmtilegu mynd.

Hvað varðar myndina þá var hún fyndin en mér finnst samt íslensku raddirnar betri (og reyndar ensku bestar). Hrafnkell gleymdi sér stundum og byrjaði að tala dönsku við mig ;-) sem er bara eðlilegt miðað við aðstæður.

Eftir myndina þá gerðist mamman svo ill að hún dró barnið með sér í búð og keypti helstu nauðsynjar. Hún hafði hugsað sér að skoða líka buxur á útsölunum (mikill skortur í gangi) en það féll í mjög svo grýttan jarðveg svo að hún ákvað að geyma það bara þangað til að hún kemst í friði.

Núna, þegar maður hefur í raun ekkert sem maður ÞARF að gera, þá ákvað ég að byrja að græja öskudagsbúning handa Hrafnkeli. Þar sem að hann vill vera prinsessa og ég vil það ekki þá var ákveðin málamiðlun tekin og hann verður galdrakall. Galdrakarlakyrtillinn er ósköp svipaður kjól en hann er samt blár með gulu/gull skrauti og stjörnum og hann er kyrtill – fyrir galdrakalla. (sem segja víst ekki “hókus pókus ég breyti þér í frosk” heldur “pókuspókus þú ert kolkrabbi”). Ég hugsa að það þyrfti ekki merkilegan sálfræðing til að átta sig á því að ég er svona dugleg við að gera búninginn vegna þess að það þarf virkilega að fara að taka til hérna.

Annars kemur Doddi heim eftir rúmlega viku – JIBBÝ!

Hugrenningar (hugsanlega ónetvænar samt)

Nú er Ísland farið til fjandans, það er löngu farið til fjandans en einhvernvegin þá eru ný og ný helvíti alltaf að koma í ljós. Ráðmennirnir eru ekki að standa sig, almúgurinn er að missa sig og fólk og fyrirtæki fara á hausinn til hægri og vinstri.

Undanfarna mánuði þá hefur verið mikil veikindahrina í gangi meðal ráðamanna, þeir fá krabbamein, hjartaáföll, ýmsar sýkingar ofl. Það fær mann (amk mig) til að velta því fyrir mér hvort að karma hafi einhver áhrif á? Er það bara tilviljun að þegar allt fer niður þá verða ráðamennirnir veikir í stríðum straumum?

Ekki það að ég sé að efast um að allt þetta fólk sé veikt, ég óska þeim fulls bata. Mér finnst súrt að það virðist vera eina leiðin til að losna við rotin epli sé bókstaflega að skera þau upp og sýna fram á að þau sé í alvörunni rotin. Það versta er eiginlega að Maðurinn sem hefði átt að segja upp fyrstur allra situr enn svo fast að maður efast um að hin versta plága gæti fengið honum hnikað. Ég hugsa að ef maðurinn dræpist þá væri samt erfitt að losna við hann úr stöðunni.

Anyway ég óska öllum veikum ráðamönnum þjóðarinnar fullum bata. Ég vona líka að það fari einhverntíman að koma einhverjar jákvæðar fréttir frá Íslandi – þetta er farið að verða svoldið leiðingjarnt.

Seinna prófið

Jæja þá eru prófin, loksins, búin. Þetta fór ekki svo illa, ég fékk 10 – sem telst frekar góð einkunn. Ég er reyndar ekki alveg sátt við ástæðurnar sem ég fékk fyrir að fá ekki 12 EN ég ætla ekki að gera neitt í því. Ég vissi alveg að kennarinn, annar prófdómarinn, er asni. Það er kannski frekar hart að kalla manninn asna en málið er að þessi maður er asni, hann er ömurlegur kennari sem tekur öllum spurningum sem árás. Maður má ekki spyrja hann hvað hann sé að meina án þess að hann hlaupi allur í vörn og maður kemst aldrei að því hvað hann var að meina. En einsog ég sagði þá er þetta búið, þetta er ágæt einkunn (í heimi þar sem að gott er í alvörunni betra en ágætt) og prófið er loksins búið.

Annars vildi ég bara segja að það eru komnar nýjar myndir inn á síðuna hans Hrafnkels :-D

Næsta próf

Jæja þá er maður að gíra sig upp í að taka annað próf. Seinasta próf var svokallað project exam, semsagt prufað uppúr ákveðnu verkefni sem við gerðum sérstaklega með það í huga að það ætti að prófa í því, en þetta próf er kallað subject exam. Þar sem að námið skiptist í 4 svið, interaction – communication – visulisation – organisation, þá er sér próf uppúr þessum sviðum. Hver nemandi fær bara eitt svið sem hann er prófaður uppúr og við fengum að vita sviðin okkar í morgun – en prófið er á fimmtudaginn.

Ég fékk interaction, sem af flestum er talið lang erfiðasta sviðið. Hin þrjú sviðin eru kjaftafög, þú getur alltaf kjaftað þig frá öllu með því að segja bara nógu oft user-testing og target-audience. Þau svið eru að mestu huglæg, þó að vissulega liggi einhver fræði á bak við. EN interaction er kóðunin og svoleiðis stöff. Þú getur ekki sannfært php skránna að hún eigi að gera svona og svona við gagnagrunninn ef að þú getur ekki skrifað skipanirnar rétt.

Ég er ekkert rosalega stressuð yfir þessu, hefði svosem ekki verið svo stressuð ef ég hefði fengið eitthvað af hinum sviðunum þrem. Það eina sem böggar mig er að kennarinn sem er prófdómarinn er ekki vinur minn, eiginlega bara allt annað en vinur minn. Ég er samt núna fegin að ég kvartaði ekki opinberlega yfir honum í vetur þegar hann sagðist ekki ekki ætla að hjálpa mér ef ég ætlaði að halda áfram að gagnrýna skólann.

Það sem að böggar mig miklu meira en prófið er að ég hef sofið illa seinustu nætur (átt erfitt með að sofna og vaknað snemma) og er svo í þokkabót að kafna í kvefi.

The Folklore of Discworld

Jæja þá er ég búin að hespa af bók nr 2 í jólabókaflóðinu. Þessi bók er æðisleg í alla staði (nema einn og ég minnist á það á eftir), hún fékk mig til að velta því verulega fyrir mér, af hverju í andskotanum ég fór ekki í þjóðsagnafræði – en svo mundi ég að það væri örugglega eitthvað náskilt sagnfræði og ég var búin að skoða þá skor í HÍ og mikið rosalega virkaði það sem leiðinleg braut.

En já ég elska Discworld og ég elska þjóðsögur, það kom mér á óvart hversu mikið af þessu ég vissi þegar – en ég hef svosem verið kölluð brunnur ónauðsynlegrar vitneskju ;-) Eftir lesturinn þá væri ég alveg til í að lesa meira eftir Jacqueline Simpson, hún virðist alveg vita sínu viti.

En já það sem böggaði mig voru tilvitnanir í Íslenska þjóðtrú. Í hvert skipti (og þau voru nokkur) sem að ég las orðið Iceland þá tók ég betur eftir, þjóðarstoltið alveg að drepa mig, en shit í nánast hvert einasta skipti þá var farið rangt með “staðreyndir”. Þetta er reyndar svo slæmt að ég hef verið að velta því fyrir mér hvort að ég ætti að senda kallinum email (hehe og vonast til að það kæmist í alvörunni til hans) og benda honum á hitt og þetta í sambandið við jólasveinana, grýlu ofl. Reyndar þegar maður skoðar bókallistann aftast þá sér maður að það er ekki vitnað í neinar íslenskar heimildir.

En samt æðisleg bók að flestu leyti.

ps. Ég lofaði Valdísi að setja myndir af Hrafnkel inná barnalandssíðuna hans en þar sem að barnaland virðist vera að klúðra færslu á gagnagrunninum (frá dk til ísl) þá bara veit ég ekki hvenær ég get sett inn myndir. Ef það verður ekki fyrir þriðjudag þá verður það ekki fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudag því að þriðjudag og miðvikudag verð ég að einbeita mér að læra fyrir hitt prófið mitt.

Prófið mitt

Klukkan er orðið mikið og ég ætti að fara að sofa og ef ég ætlaði ekki að fara að sofa þá ætti ég að vaska upp og ganga aðeins frá í eldhúsinu og ef ég ætlaði ekki að gera það þá ætti ég að skjótast í sturtu og ef ekki það þá amk fara á klósettið… En samt sit ég hérna ennþá, ég er búin að vera að horfa á Gray’s Anatomy og velta fyrir mér smá flash vandamálið (fyrir heimasíðuna mína – ekki skólann) í allt kvöld. Ég er líka búin að vera að rembast við að finna uppá einhverju sem mig langaði til að borða, eitthvað til að halda uppá tólfuna mína – en það hefur gengið illa. Mig langaði líka ekkert í rauðvín eða eitthvað annað, ekki í nammi eða ís (fékk mér þó smá af hvoru, svona útaf því að ég var að halda uppá góða einkunn).

Ég held að ég hafi aldrei upplifað jafn mikla gleði og jafn mikinn létti yfir einni einkunn – og ég hef alveg fengið nokkrar tíur á ferlinum. Einsog flestir vita þá var seinasta próf, sem ég fór í í KTS, alger hörmung, mér leið illa inni í prófinu, var óánægð með hvernig það fór fram og óánægð með einkunnina sem ég fékk. Ég var ekkert svo stressuð yfir því prófi og það endaði hræðilega. Í morgun, áður en við fórum í prófið, þá æfðum við okkur og ég gat ekki talað – ég bara gat ekki komið frá mér gáfulegu orði. Það hjálpaði ekki til, einsog ég hef áður sagt, að hæsta einkunn sem ég vissi um í bekknum mínum þá var 7 og það voru alveg mjög hæfir einstaklingar búnir að fara inn.  Einstaklingar sem höfðu áður fengið tíur og tólfur.

Svo fórum við inn, prófið var skipt þannig að fyrst var hópurinn með kynningu saman, svo komum við inn fyrir prófdómarana – eitt í einu – og vorum spurð í þaula um hin ýmsu atriði sem tengdust verkefninu og kynningunni. Ég var nr 4 í röðinni og þegar kom að mér þá vissi ég ekkert hvað ég ætlaði að segja, ég vissi svosem hvaða atriði ég ætti að minnast á, en hvernig ég ætlaði að segja frá því var ennþá ráðgáta. Svo að ég bara byrjaði að tala og á einhvern undarlegan hátt þá bara talaði ég og talaði þangað til að ég áttaði mig á því að það var einn sem átti líka eftir að fá að tala og ég vissi ekkert hvernig tímanum leið. En ég sagði mikið af gáfulegum hlutum, mikið af hlutum sem við höfðum ekki einu sinni pælt í fyrr en ég ældi þeim þarna út úr mér (sem er kannski ekki gáfulegasta leiðin að þróa verkefni) og ég var gáttuð á sjálfri mér. Eftir á, þegar við vorum að tala saman hópurinn, þá sagði Michelle að það hefði verið sérstakt að fylgjast með mér tala, því að ég hefði bara talað og talað og sagt einn gáfulegan hlut á eftir öðrum og það hefði bara allt meikað sens. Ég er ekki að grínast ég held að ég hafi verið andsetin, ekki að ég viti ekkert um málið heldur þá á ég ekki alltaf mjög auðvelt með að halda þessar kynningar og það var svo margt sem ég sagði sem ég hafði ekki pælt í áður.

En já svo í einstaklingshlutanum þá gékk mér ágætlega. Kirsten var sú eina í hópnum sem að var óánægð með hvernig hennar próf gékk, hún var líka alveg rosalega stressuð – svo stressuð að ég vissi ekkert hvernig ég átti að haga mér í kringum hana. Við hin gerðum ráð fyrir sjöum og vonuðum að ná upp í tíur, hún gerði ráð fyrir 2 – en það var samt eiginlega útilokað, amk að mínu mati.

En já við fengum tólfur og tíu og við vorum mjög mjög ánægð – enda ekki annað hægt. Þegar við fengum svo útskýringu á einkunnunum þá sagði kennarinn okkar (semsagt innherja prófdómarinn) að það hefði verið “inspiration” að lesa skýrsluna okkar og fylgjast með kynningunni. Hann sagði að það hefði verið eitt smávægilegt atriði sem hann hefði saknað í skýrsluna – en það atriði hefði ekki verið skilyrði í verkefninu en hann hefði engu að síður viljað sjá að við vissum um hvað það snérist – en þar sem að við komum með það atriði í kynningunni sjálfri þá hefðum við komið í veg fyrir að fá mínus fyrir það.

Svo á eftir okkur þá fékk gamli hópurinn minn líka tólfur (hópurinn sem ég var með á seinustu önn) og það var gott að vita það líka – þau eru öll dugleg að vinna og mjög klár.

En já núna þegar ég er búin að monnta mig í nánari smáatriðum þá get ég kannski hætt í tölvunni – farið að pissa – farið svo uppí rúm (það má ganga frá, sturtast osfr á morgun, næsta próf er ekki fyrr en eftir viku)

Ég fékk 12

Jebb jebb eg fekk 12!

Tags:

categories almennt