Matvendni eða ekki?

Ég er tilbúin að tilkynna hverjum sem er að ég sé ekki matvönd, ég borði sko flest allt (bara ekki hreinan hvítlauk og ekki piparmyntu) en svo koma dagar einsog dagurinn í dag. Ég er búin að fá að vita hvað á að vera í áramótamatinn og ég er ósátt. Mér finnst að það eigi að vera góður matur á áramótunum, mér finnst að það eigi að nýta tækifærið til að prufa að elda einhvern stórhátíðarmat sem ekki hefur verið prufaður áður, gera skrítna forrétti (en enda á góðum klassískum eftirrétt því að hitt tvennt gæti bæði verið hræðilegt).

En hérna á að vera kalkúnn. Mér finnst kalkúnn vondur. Mér finnst kalkúnn vondur þegar mamma gerir hann (amk í þessi skipti sem ég hef smakkað það), mér fannst kalkúnninn vondur þegar við vorum hérna seinast, þegar Doddi fór í búð og keypti eitthvað mystery kjöt (ég mátti semsagt ekki vita hvað það var) og eldaði það og ég fékk ekkert að vita hvað var, þá tók ég einn bita og þá vissi ég hvaða kjöt þetta væri – það er bara svona skítabragð af einu kjöti. Þá var hann með einhverjar sérmaríneraðar kalkúnabringur – eitthvað ofsaflott.

Kalkúnn á samt að vera ofsalega flottur matur, virðist ætla að verða aðaláramótamatur Íslendinga (við erum ógurlegar kanasleikjur, eins hallærislegt og það hljómar). Vandamálið við hann er ekki að það sé eitthvað sterkt bragð sem mig hryllir við einsog með hvítlaukinn og (sérstaklega) piparmyntuna, heldur finnst mér hann bragðast einsog hann sé skemmdur og þar sem ég hef alveg bragðað þetta oftar en einu sinni og oftar en tvisvar þá er ég nokkuð viss um að þetta er bara hið fræga kalkúnabragð.

Núna kvíði ég fyrir kvöldinu, ég kvíði fyrir því að þurfa að smakka (vitandi vits að mér á eftir að finnast þetta vont),  ég kvíði fyrir því að berjast við það að láta son minn (ofurmatvanda prinsinn) smakka þennan mat (sem mér finnst vondur) og ég kvíði fyrir viðbrögðunum þegar ég segi “þetta er barasta ekkert betra en áður”. Ég vakti nefnilega upp almenna hneigslun hérna fyrir 2 árum, þegar ég smakkaði og sagði “þetta er, held ég, bara skársti kalkúnn sem ég hef smakkað – en samt eiginlega frekar vondur”. Einsog fólk megi ekki tjá sig um það hvernig því finnst maturinn, eða einsog maður megi ekki mislíka kalkúnn.

Hvort heldur sem er þá er ég ekki mikið fyrir að láta tjáningarhefta mig og ég á örugglega ekki eftir að geta haldið aftur að mér ef maturinn verður vondur í kvöld.

5 Comments

 • By Elva, December 31, 2008 @ 07:28

  Ég held að það verði grís hjá mér í kvöld, er ekki viss. En kalkúnn verður það ekki.
  Mér minnir að mér hafi þótt fyllingin ágæt þarna um árið þegar það var kalkúnn sem var ekki útrunninn. Hitt skipið var eiginlega ekki að marka en kannski hefur það haft óafturkræf áhrif á þig…
  En ég samhyggist því það er ömurlegt að setjast að hátíðarverði sem maður veit að er vondur (amk í eigin munni). Ég hef víðtæka reynslu af slíku því að lengi framan af fannst mér hangikjöt þvílíkt óæti. Ennþá verra er að ljúga matinn í krakkann.

 • By Edda Rós, December 31, 2008 @ 08:22

  Ég held að skemmdi kalkúnninn hafi ekki verið á borðum þegar ég hef verið að borða EÐA hann hefur verið áður en ég man sérstaklega eftir því. Amk hafa þeir kalkúnar sem ég hef borðað verið lofaðir í bak og fyrir.

  En ég bara verð að segja þér, mér finnst þetta ofsalega sæt mynd af þér..

 • By Ragna, December 31, 2008 @ 10:53

  Mér hefur alltaf fundist kjúklingur betri en kalkúnn, reyndar man ég að fyrst þegar ég smakkaði kalkúninn þá var eitthvað skrítið bragð af honum, en í kvöld var hann góður (hann eiginlega bragðaðist mjög mikið eins og kjúklingur með spes kryddi). Mamma vill samt ekki trúa því að kalkúnn hefur verið á borðum minnst tvisvar áður…

  Og Elva: MIG minnir…

 • By Elva, December 31, 2008 @ 14:31

  Já, ég kem sérstaklega vel út hérna :)
  Og gleðilegt nýtt ár!!

 • By mamma, January 2, 2009 @ 08:02

  Edda mín! Ég lofa þér að það verður ekki kalkúnn á borðum þegar þú verður í mat hjá okkur. Ég er sammála Rögnu um að þessi kalkúnn bragðaðist bara vel (lítið kalkúnabragð af honum)enda uppskriftin fengin frá Eyþóri. Vonandi kemst litli kallinn í sundlaugina hjá afa og ömmu í páskafríinu.

Other Links to this Post

RSS feed for comments on this post. TrackBack URI

Leave a comment

You can add images to your comment by clicking here.